Kvikmyndir

Nirgendwo in Afrika

Leikstjórn: Caroline Link
Handrit: Caroline Link, byggt á sögu eftir Stefanie Zweig
Leikarar: Juliane Köhler, Matthias Habich, Regine Zimmermann, Andrew Sachs, Diane Keen, Merab Ninidze, Sidede Onyulo, Lea Kurka, Karoline Eckertz, Gerd Heinz, Hildegard Schmahl, Maritta Horwarth, Gabrielle Odinis, Bettina Redlich og Julia Leidl
Upprunaland: Þýzkaland
Ár: 2001
Lengd: 135mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Árið 1938 er farið að þrengja mjög að gyðingum í Þýskalandi. Þýskur lögfræðingur að nafni Walter Redlich ákveður að flýja land ásamt gyðingafjölskyldu sinni og setjast þau að á einangruðum búgarði í fjarlægu og framandi landi, Kenýu. Nánustu ættingjar þeirra aðrir verða hins vegar eftir í Þýskalandi og hlutskipti þeirra verður dvöl í gettói og síðar útrýmingarbúðum. Hæpið væri þó að tala um þessa mynd sem helfararmynd því að hún fjallar fyrst og fremst um gyðinga sem sluppu úr landi og björguðu þannig lífi sínu. Myndin fjallar um þau margvíslegu vandamál sem mæta Redlich-hjónunum í hinum nýju heimkynnum og þau áhrif sem þessi vandamál hafa á fjölskyldulíf þeirra.

Almennt um myndina:
Myndin, sem fékk Óskarsverðlaun sem besta útlenda myndin árið 2002, er byggð endurminningum Stefanie Zweig í skáldsöguformi. Hér er í raun og veru um að ræða ástarsögu sem gerist í tveimur heimsálfum, tveimur gjörólíkum menningarheimum en einkum þó í Kenýa.

Kastljósinu er beint að tilfinningu fjölskyldunnar fyrir því hvað þau hafa misst, tilraunum þeirra til að aðlagast hinu mjög svo framandi lífi í Afríku, hvernig það veldur sundrungu innan fjölskyldunnar og hvernig þau smám saman læra að meta og jafnvel elska hið nýja og framandi umhverfi sitt.

Þó svo að sagan sé sögð af sjónarhóli Reginu, hinnar fimm ára gömlu dóttur hjónanna, þá fer því fjarri að þetta sé saga hennar fyrst og fremst. (Hún er síðar í myndinni sýnd sem unglingsstúlka.) Þetta er kannski fremur saga foreldra hennar, sambands þeirra og erfiðleika sem mæta þeim í hinu framandi umhverfi. Lögfræðingurinn Walter Redlich fær það starf að reka búgarð í eigu Englendings og menntun hans reynist ekki góður undirbúningur undir þann starfa. Jettel kona hans reynist ekki sérlega fús til að aðlagast nýjum lífsháttum og sýnir myndin berlega hvílíkt hyldýpi er á milli stöðu evrópskrar konu á þessum tíma og kenýskra kvenna. Dóttirin unga, sem er í senn feimin og forvitin, er hins vegar fljót að aðlagast, lærir fljótt tungumálið og siðvenjur hins nýja lands þeirra. Hún eignast góðan vin í Owuor, sem er kokkur fjölskyldunnar og reynist henni mjög tryggur og dvelur með fjölskyldunni þrátt fyrir að sjálfur eigi hann konur og börn. En þeim sendir hann launin sín sem vissulega eru ekki mikil. Á meðan stríðið geisar í Evrópu verður samband þessarar litlu fjölskyldu við umhverfi sitt síðan sífellt flóknara.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Við fyrstu sýn virðist myndin ekki mjög á trúarlegum nótum. Gyðingafjölskyldan sem myndin snýst um iðkar ekki gyðinglega trú að neinu marki og gyðinglegir trúargripir sjást ekki á heimilinu. Eitt sinn er þýskur gyðingur, vinur þeirra, kemur í heimsókn, er þó farið með kiddush-bæn (þ.e. helgunarbæn) við borðhald þeirra.

En hér lýstur svo sannarlega saman ólíkum menningarheimum og trúin er vissulega hluti af því sem aðskilur þá. Regina dóttir Redlich hjónanna fær að heyra um Ngai, guð innfæddra sem sagður var búa á Kenýa-fjalli, hinu heilaga fjalli, og gefa rigningu. Einnig verður Regina vitni að því er innfæddir færa dýrafórn og hún kynnist einnig heilögu tré. Þegar hún er svo komin í enskan heimavistarskóla í Nairobi fær hún að kynnast því að Gyðingar eru litnir hornauga og beðnir að ganga út úr skólastofunni þegar hin börnin fara með faðir-vorið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13 (faðir-vor)
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 10:1-20
Persónur úr trúarritum: Guð, Ngai (regnguð á Kenýa-fjalli), engill, illur andi
Sögulegar persónur: Hitler
Siðfræðistef: gyðingahatur, kynþáttaaðskilnaður, ofsóknir, stríð, framhjáhald, fjölkvæni, tryggð
Trúarbrögð: kristni, gyðingdómur, andatrú (þ.e. trú frumbyggja í Kenýa)
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: sýnagóga (samkunduhús Gyðinga)
Trúarleg tákn: hakakross, nasistafáni, heilagt tré, jólatré, heilagt fjall (Kenýa-fjall)
Trúarlegt atferli og siðir: kiddush-blessun (flutt við borðhald Gyðinga), dýrafórn, bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Jól