Kvikmyndir

Omar Mukhtar: Lion of the Desert

Leikstjórn: Moustapha Akkad
Handrit: H.A.L. Craig
Leikarar: Anthony Quinn, Oliver Reed, Rod Steiger, Irene Papas, John Gielgud, Mario Adorf, Gastone Moschin, Robert Brown, Raf Vallone, Franco Fantasia, Claudio Cassinelli og Tom Felleghy
Upprunaland: Bandaríkin, Líbýa
Ár: 1980
Lengd: 162mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0081059
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Eyðimerkurljónið Omar Mukhtar (Omar Mukhtar: Lion of the Desert) fjallar um eina þekktustu frelsishetju múslima, Omar Mukhtar (leikinn af Anthony Quinn) og hetjulega baráttu hans gegn Benito Mussolini (leikinn af Rod Steiger) á millistríðsárunum í Líbýu. Sérstök áhersla er lögð á baráttu hans við Rodolfo Graziani hershöfðingja (leikinn af Oliver Reed), en sá síðar nefndi bar ábyrgð á hryllilegum fjöldamorðum í Líbýu og kom upp illræmdum fangabúðum þar.

Almennt um myndina:
Þar er ljóst að Omar Mukhtar: Lion of the Desert (einnig þekkt sem Lion of the Desert og Omar Mukhtar) átti að vera stórmynd, enda var engu til sparað. Slagorð myndarinnar eru gott dæmi um þetta: ,,A giant of a man against a general seeking glory … a spectacular adventure of arch enemies in battle.“ Hér átti greinilega að endurtaka stórmyndir á borð við The Desert Fox (1951) og Lawrence of Arabia (1962) en því miður höfðu kvikmyndagerðarmennirnir ekki árangur sem erfiði. Ástæðurnar eru aðallega handritið, leikstjórnin og óvenju slakur leikur.

Leikstjóri myndarinnar Moustapha Akkad byrjaði feril sinn sem leikstjóri og leikstýrði hann alls þremur kvikmyndum um sögu og menningu islams en þessi var þeirra síðust. Fyrstu tvær kvikmyndirnar (báðar frá 1976) eru í raun sama myndin, nema hvað önnur er á arabísku og hin á ensku. Stuðst var við sama handrit og sömu sviðsmynd en skipt algjörlega um leikara í sitt hvorri útgáfunni. Arabíska myndin heitir al-Risâlah en sú enska The Message (einnig þekkt sem Mohammed, Messenger of God). Þetta er eina kvikmyndin sem gerð hefur verið um ævi Múhameðs, en þar sem ekki má sýna spámanninn í islam, er myndavélin notuð sem augu hans.

Eyðimerkurljónið Omar Mukhtar var síðasta leikstjórnarverk þessa arabíska leikstjóra en hún kolféll á markaðinum þegar hún kom út. Muammar al-Gaddafi, einræðisherra Líbýu, sem hafði einnig fjármagnað The Message, setti hvorki meira né minna en 35 milljónir dollara í myndina en hún halaði aðeins inn einni milljón. Áður en Moustapha Akkad snéri sér að gerð Eyðimerkurljónsins Omars Mukhtar, kom hann að framleiðslu hinar frægu hryllingsmyndar Halloween. Eftir slæmt gengi Eyðimerkurljónsins Omars Mukhtar gaf hann leikstjóraferilinn hins vegar upp á bátinn og hefur síðan helgað lífi sínu framhaldsmyndum Halloween. Hann er í raun eini framleiðandi fyrstu Halloween myndarinnar sem hefur komið að öllum framhaldsmyndunum, en þær eru nú orðnar átta alls og miðað við síðasta titilinn, Halloween: Resurrection, má búast við að þeim eigi eftir að fjölga enn meira.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Rétt eins og fyrri mynd leikstjórans, The Message, er Eyðimerkurljónið Omar Mukhtar trúboðsmynd, þar sem vesturlönd fá að sjá mannlega hlið islams. Þótt ásetningurinn sé fallegur er trúboðið svo yfirdrifið að myndin verður aldrei fyllilega trúverðug. Í anda trúboðsins eru fyrstu sex vers 55. kafla Kóransins lesin upp, en sá kafli ber heitið ,,Hinn miskunnsami“ sem vísar til miskunnar Guðs:

Í nafni Guðs, hins milda og miskunnsama.Það er Guð kærleikans sem hefur kennt Kóraninn,sem hefur skapað manninn og gætt hann máli.Sólin og tunglið fylgja sínum mörkuðu brautum. Jurtir og tré lúta honum í lotningu.Hann hóf upp himininn og kom á jafnvægi allra hluta.

Omar Mukhtar leggur síðan út af þessum orðum með því að benda á að allir kaflar Kóransins byrji á orðunum ,,hinn mildi og miskunnsami.“ Hann segir síðan að Guð sýni miskunn sína með því að koma á jafnvægi í öllu sköpunarverkinu og að ef hann hefði ekki gert það væri út um okkur öll. Svo virðist sem eini tilgangurinn með þessari tilvitnun og útleggingunni á henni sé að leggja áherslu á að miskunn sé mikilvægur þáttur í islam. Þótt þetta sé rétt staðhæfing og mikilvægt sé að vinna gegn rótgrónum fordómum í garð islam þá er prédikun sem þessi ekki besta leiðin til að koma boðskapnum á framfæri.

Lögð er mikil áhersla á trúrækni múslima og á þetta sérstaklega við um bænir þeirra. Þetta sést vel í atriðinu þar sem múslimarnir hneykslast stórum yfir því að Ítalirnir skuli taka mann af lífi án þess að leyfa honum að fara með bænir sínar fyrst og síðan aftur þegar Omar Mukhtar biður um að fá að vera leystur úr hlekkjum sínum til að fara með bænir eftir að hafa verið tekinn til fanga.

Eins og vanalega í stríðsmyndum þar sem múslimar koma við sögu er lögð áhersla á forlagatrú. Einnig koma eftirfarandi gullfallegu orð Kóransins við sögu: ,,Við tilheyrum öll Guði og til hans munum við aftur hverfa.“ (2:156).

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn 55:1-6, Kóraninn 2:156
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: dómsdagur, erfiðleikar, forlagatrú, miskunn Guðs, sköpunin
Siðfræðistef: aftaka, einræði, fasismi, fjöldamorð, hroki, kúgun, morð, nauðgun, stríð
Trúarbrögð: islam, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: moska
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn