Kvikmyndir

Omen III: The Final Conflict

Leikstjórn: Graham Baker
Handrit: Andrew Birkin
Leikarar: Sam Neill, Rossano Brazzi, Don Gordon, Lisa Harrow, Barnaby Holm
Upprunaland: Bretland
Ár: 1981
Lengd: 108mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0082377
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Damien Thorn er fullorðinn og er orðinn einn valdamesti maður heimsins. Í augum margra er þessi sonur Satans ein skærasta von mannkynsins en hann stundar öflugt hjálparstarf um allan heim. En nú fyrst þarf Damien að óttast um líf sitt því Kristur er að koma aftur til að klára verk sitt og gera upp sakir við Satan. En andkristur kemur með krók á móti bragði og ákveður að drepa öll sveinbörn sem fæðast á þeim degi sem Kristur átti að koma aftur á. Þetta átti að vera síðasta myndin í Omen seríunni og endar myndin í samræmi við það. Gráðugir kvikmyndagerðarmenn ákváðu hins vegar að reyna að græða aðeins meira á fyrirbærinu og bættu við einni mynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þessi mynd er á margan hátt betri hryllingsmynd en Omen II og það er margt fallegt í kvikmyndatökunni. Helsti galli myndarinnar er óvönduð guðfræði, sem dregur hana niður.

Í Omen III eru hinir svörtu hundar Satans komnir aftur og krákurnar (úr Omen II) blessunarlega horfnar. Og aftur fáum við sama atriðið og í fyrstu myndinni þar sem augnatillit hunds leiðir til sjálfsvígs. Hnífarnir sjö sem einir geta drepið andkrist hafa einnig fundist aftur, en nú þarf ekki lengur að stinga þeim öllum í Damien. Það nægir að stinga einum þeirra í hann. Verk hinna trúuðu hefur því verið auðveldað talsvert. Það er hins vegar áhugavert að ekki er reynt að útskýra uppruna hnífanna eða hvers vegna þeir einir geti drepið andkristinn. Ekki er heldur að finna skýringu á því hvers vegna Guð þarf yfir höfuð hjálp mannkynsins til að drepa son Satans. Skortir hann mátt til að gera það sjálfur? Það er einmitt einkenni margra heimsslitamynda að Guð er fjarlægur og hljóðlátur og mannkynið þarf eitt að kljást við Satan og son hans. Bless the Child er reyndar skemmtilegt frávik frá þessu.

Omen III er hefðbundnasta heimsslitamyndin úr Omen seríunni. Eins og í flestum þessum myndum er andkristur valdamikill hræsnari sem gengur í augu umheimsins með öflugu hjálparstarfi. Flestar tengjast þessar myndir átökunum í Ísrael og þar er Omen III engin undantekning. Gildismat andkrists er einnig hefðbundið. Hann fyrirlítur hjónabönd, stundar úrkynjað kynlíf (en ástmeyjar Satans og andkrists eru alltaf klóraðar eftir mökin) og hann nýtur þess að hæðast að Guði. Damien kallar Krist t.d. alltaf Nasarea, en það heiti var einmitt notað sem háð um Krist (sbr. t.d. Jh 1:46).

Myndin sækir mikið í frásögnina um Betlehemstjörnuna og barnamorð Heródesar í Matteusarguðspjalli (2:1-12). Í myndinni er Betlehem stjarnan í raun þrjár stjörnur (þrenningin) sem raða sér upp í beina línu (þetta er enn eitt algengt stef í heimsslitamyndum, sjá t.d. The Dark Crystal 1982, Hercules 1997 ogTomb Raider 2001). Damien ákveður að endurtaka verk Heródesar og drepa öll sveinbörn sem fædd eru í Englandi á þeim degi sem stjörnurnar raða sér upp í beina línu. Í þessu sambandi er það áhugavert að í myndinni er ekki gert ráð fyrir því að Kristur gæti komið aftur sem stúlkubarn!

Ástæðan fyrir því að Damien veit að kristur muni fæðast í Englandi er spádómur í The Book of Hebron. Samkvæmt myndinni er þessi bók hluti af Septuagintu (grískri þýðingu á Gamla testamentinu frá þriðju öld fyrir Krist), þ.e. Apokrýfubókunum. En þessi bók er ekki til, hún sprettur fullsköpuð fram úr hugskoti handritshöfundanna. En það versta er svo sem ekki að þeir ljúgi svona að áhorfendum heldur það hversu léleg lygin er. Í myndinni les Damien eftirfarandi texta úr „Hebronbókinni“:
„And it shall come to pass that in the end of days, the beast shall reign one hundred score and thirty days and nights. And the faithful shall cry unto the Lord, wherefore art thou in the day of evil? And the Lord shall hear their prayers and out of the Angel isle He shall bring forth deliverer, the Holy lamb of God, who shall do battle with the beast and shall destroy him.“Vandinn við þennan spádóm eru hugtök eins og „the beast“ og „The Holy lamb of God“. Þessi hugtök voru ekki til fyrir tíma Krists og því gæti þessi texti ekki verið hluti af Septuagintunni. Damien lýkur síðan lestrinum með því að útskýra fyrir áheyranda sínum að „The angel isle“ sé á frummálinu latínu (sic!) „Ex insula Anglorum“, sem vísi til Englands. Sérhver sem hefur eitthvað smávit á guðfræði veit hins vegar að Septuaginta var þýðing yfir á grísku, en ekki latínu.

En þetta er ekki eina vitleysan í myndinni. Einn presturinn vitnar t.d. í Opinberunarbókina með þessum orðum „…and the prince of Darkness shall be mighty and he shall flourish and destroy the mighty and he shall cause corruption to prosper in his hand and by peace shall he destroy many.“ Hér er sami vandinn á ferð. Þennan texta er hvergi að finna í Opinberunarbókinni. Hér er líka alvarlegra mál á ferð vegna þess að hér er beinlínis um fölsun að ræða. Jafnvel mætti ganga svo langt að segja að þetta jaðri við guðlast.

Snúum okkur þá að endi myndarinnar (og hér ættu þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar að hætta að lesa). Mistök Damiens voru þau að hann gekk út frá því sem vísu að endurkomu Krists bæri að á sama átt og þegar hann fæddist í fyrsta skiptið, þ.e. með fæðingu. Þar skjátlast Damien hrapalega því Kristur kemur í raun svífandi til jarðar, álíka stór og King Kong. Hann sleppir þó við að berjast við Dýrið vegna þess að mannkynið hafði séð um það sjálft. Og til þess að réttlæta þennan snubbótta endi kemur enn einn skáld-spádómurinn í myndinni: „Behold the Lion of Judah! The Messiah who came first as a child, but returns not as a child, but now as a king of kings, to rule in power and glory forever.“ Það kemur hins vegar hvergi fram hvar þennan spádóm er að finna.

The Omen III er þriggja stjörnu hryllingsmynd, en varla er hægt að gefa guðfræðinni í myndinni meira en eina. Myndin í heild fær því ekki nema tvær stjörnur.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:26-27, 1M 22:1-19, 2M 20:1-17, 5M 5:1-22,Mt 2:1-12, Mt 5:5, Mt 19:14, Mk 10:14, Lk 18:16, 2Þ 2:2-3, Opb 12:12, Opb 13:18, Opb 21:4
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 2:1-12,
Persónur úr trúarritum: andkristur, Fönix, Guð, Jesús Kristur, Jóhannes guðspjallamaður, María mey, Páll postuli, Tómas
Sögulegar persónur: Alexander mikli, Bugenhagen
Guðfræðistef: burthrifningin, endurkoma Krists, endurlausn, erfðarsyndin, fall Satans, friður, heimsslit, kynlíf, sálin, synd, þjáning, þrenningin
Siðfræðistef: hjálparstarf, hroki, hræsni, hungursneyð, lygi, morð, refaveiðar, samkynhneiðgð, sjálfsvíg,
Trúarbrögð: djöfladýrkun, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, kirkja
Trúarleg tákn: kirkjuklukka, kross, róðukross, sjö, svartur hundur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, signing, skírn
Trúarleg reynsla: álög, sýn