Kvikmyndir

Once Upon a Time in the West

Leikstjórn: Sergio Leone
Handrit: Dario Argento, Bernardo Bertolucci, Sergio Leone og Sergio Donati
Leikarar: Claudia Cardinale, Henry Fonda, Jason Robards, Charles Bronson, Gabriele Ferzetti, Woody Strode, Jack Elam, Frank Wolff, Lionel Stander, Paolo Stoppa, Keenan Wynn, Antonio Molino Rojo, Frank Braña, Ivan Giovanni Scratuglia, Marilù Carteny, Al Mulock og Fabio Testi
Upprunaland: Ítalía og Bandaríkin
Ár: 1969
Lengd: 159mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Gullfalleg vændiskona frá New Orleans sér fram á betra líf þegar traustvekjandi írskættaður stórbóndi biður hana um að giftast sér og flytja vestur til sín á Sweetwater landareignina þar sem hann býr með þremur börnum sínum. Enginn er hins vegar á lestarstöðinni til að taka á móti henni þegar hún kemur til næsta bæjarsamfélags og þarf hún því að útvega sér far með hestvagni til landareignarinnar. Umhverfið reynist í engu samræmi við þær staðarlýsingar, sem hún hafði fengið, enda er landareignin staðsett úti í miðri eyðimörk. Í ofan á lag kemur svo í ljós að bóndinn og öll börn hans hafa verið skotin til bana af að því er virðist eftirlýstum bófaflokki sem heldur til úti í óbyggðum.

Vændiskonan fyrrverandi sér ekki fram á annað en að hún verði að selja landareignina fyrir lítilræði og flytja aftur til New Orleans en útsendarar járnbrautarfyrirtækis, sem er að leggja járnbrautateina þvert yfir Bandaríkin, þrýsta á hana að gera það sem fyrst. Skotfimur munnhörpuleikari í hefndarhug og bófarnir, sem sakaðir voru um morðin, átta sig hins vegar brátt á því hvar landið liggur og leggja sitt að mörkum til að halda konunni á sínum stað.

Almennt um myndina:
Tvímælalaust ekki aðeins besti spaghettí-vestri, sem gerður hefur verið, heldur hreinlega ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Kvikmyndatakan, klippingarnar og frásagnarstíllinn eru frábær, samtölin einstaklega hnyttin og nostrað við ótrúlegustu smáatriði. Jafnvel andlit leikaranna segja meira en nokkur orð en mikið er um nærmyndir af sveitum sólbrúnum körlum með skeggbrodda og mjallarhvítar tennur og augnaráð þeirra sýnt í nærmynd þegar við á, ekki síst í einvígum.

Byrjunaratriðið er sérstaklega eftirminnilegt, en þar bíða þrír leigumorðingjar í rúmar 11 mín. eftir fórnarlambi sínu á afskektri lestarstöð. Einn lætur braka í fingurliðum sínum, annar safnar vatnsdropum í hatt sinn og sá þriðji veiðir flugu, sem sest hafði á andlit hans og angrað hann í góða stund, í byssuhlaup sitt, en svo til einu hljóðin sem heyrast eru ískur frá vindmyllu, flugnasuð, vatnsdropar og tikk frá ritsíma. Og þegar lestin loks kemur, stígur enginn út á brautarpallinn þann stutta tíma sem hún staldrar þar við. Leigumorðingjarnir halda að biðin hafi verið til einskis og ákveða að ganga burt um leið og lestin heldur af stað en snarstoppa þegar þeir heyra angurvært munnhörpustef að baki sér. Munnhörpuleikarinn, sem stígið hafði út úr lestinni hinu megin, spyr þá um Frank, en leigumorðingjarnir glotta bara og segjast hafa verið sendir af honum. Hann spyr þá hvort þeir hafi tekið með auka hest fyrir sig, en því neita þeir og hlæja kvikindislega. Munnhörpuleikarinn hristir þá höfuðið lítið eitt grafalvarlegur á svip og segir að þeir hafi í raun komið með tvo hesta of marga og skýtur þá síðan alla, en særist um leið.

Tónlist Ennios Morricone er með því besta sem hann hefur samið en hún byrjar ekki fyrr en í kjölfar fyrsta munnhörpustefsins og spinnur hann út frá því glæsilegt dramatískt tónverk. Tónlistin var samin áður en tökur hófust og lét Sergio Leone spila hana á tökustað til að skapa viðeigandi stemmningu um leið og leikararnir færu með hlutverk sín. Helstu aðalpersónur myndarinnar hafa hver sín stef, en vændiskonunni fylgir hugljúf rómantísk tónlist, mexíkanska bófaforingjanum eilítið glaðværð banjótónlist og einfaranum munnhörputónlist.

Leikararnir eru allir vel valdir og koma þeir bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Claudia Cardinale, sem er fyrrum fegurðardrottning Ítalíu, er ekki aðeins gullfalleg heldur einnig frábær leikkona, enda hefur hún síðan 1958 leikið í á annað hundrað kvikmyndum beggja megin Norður-Atlantshafsins. Hún nær auðveldlega að skapa aðdáun og samúð áhorfandans með Jill McBain, vændiskonuninni fyrrverandi sem þráir betra líf.

Sergio Leone hefur oft verið gagnrýndur fyrir hversu lítið hlutverk konur hafa í myndum hans og jafnvel verið sakaður um karlrembu og kvenfyrirlitningu í því sambandi, enda séu konur þar sjaldnast annað en hórur, ekkjur eða kúgaðar mæður í litlum aukahlutverkum. Það er aðeins í kvikmyndinni Once Upon a Time in the West, sem kona er í aðalhlutverki hjá honum, en jafnvel þar er hún lengst af aðeins leiksoppur karlmanna, sem ráðskast með hana fram og aftur og nauðgar meira að segja einn þeirra henni. Sjálfur hélt Leone því fram að hann umgengist svo mikið konur, þ.e. eiginkonu sína og dætur, að óhjákvæmilegt væri að hann leitaði athvarfs í strákamyndum á borð við spaghettí-vestra, þar sem konur hefðu ekkert að segja. Leone var mikill aðdáandi bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Johns Ford en gagnrýndi samt vestra hans og starfsfélaga hans í Hollywood fyrir persónusköpun kvennanna, sem hann taldi versta gallann á myndum þeirra. Hann lét meira að segja hafa það eftir sér að margir bandarískir vestrar hefðu orðið mun betri ef kvenpersónunum og ástarfléttunum hefði hreinlega verið sleppt úr þeim.

Charles Bronson, sem oft hefur verið nefndur maðurinn með steinandlitið sökum þess hversu svipbrigðalaus hann getur verið, hafði verið aukaleikari í fjölda bandarískra kvikmynda um margra ára skeið, en með hlutverki munnhörpuleikarans fámála varð hann fyrst að stórstjörnu og lék hann í nokkrum tugum harðhausamynda eftir það, fyrst í nokkrum evrópskum sakamálamyndum og spaghettí-vestrum en síðan í enn fleiri bandarískum myndum.

Jason Robards er sömuleiðis góður í hlutverki mexíkanska bófaforingjans Cheyennes, sem grunaður er um óhæfuverk útsendara járnbrautarfyrirtækisins. Sagt er að hann hafi átt við alvarlega áfengissýki að stríða um þetta leyti og hafi oftast verið drukkinn í frítíma sínum. Hann var hins vegar ávallt allsgáður á tökustað enda hafði Leone hótað að reka hann ef hann mætti einhvern tímann drukkinn til vinnu. Sumir hafa fundið að því að Robards minni engan veginn á Mexíkana, en vandséð er hvaða máli það skiptir, enda kemur fram að móðir hans hafi verið vændiskona og hann hafi ekki hugmynd um hver faðir hans hafi verið.

Einn af eftirminnilegustu skúrkum spaghettí-vestranna er þó Bandríkjamaðurinn Henry Fonda í hlutverki Franks, aðalútsendara járnbrautarfyrirtækisins. Fonda hafði um langt skeið verið einn af virtustu leikurunum í Hollywood og oftast verið þar í hlutverki hetjunnar, hins góða, trausta og heiðvirða Bandaríkjamanns, m.a. í vestrum Johns Fords. Það hafði lengi verið draumur Sergios Leone að fá Henry Fonda til að leika í mynd hjá sér og þegar honum tókst loks að fá hann yfir Atlantshafið til Evrópu, var það ekki síst fyrir tilstilli Elis Wallach, sem hvatti starfsbróður sinn til að láta á það reyna. Eli Wallach hafði nokkru áður leikið þann ljóta í The Good, the Bad and the Ugly, sem er sömuleiðis meðal bestu mynda Leones, og hafði hann notið þeirrar reynslu. Þar sem Fonda átti að leika aðalskúrk myndarinnar, mætti hann á svæðið í gervi, sem hann taldi viðeigandi fyrir hlutverkið, með yfirvaraskegg, brúnar augnlinsur og í skrautlegum búningi. Leone brást hins vegar ókvæða við og skipaði Fonda að raka sig hið snarasta og henda linsunum og búningnum, enda vildi hann hafa leikarann eins og hann var best þekktur úr bandarísku vestrunum, vel til fara, bláeygur og góðlegur á svip. Það eru líka þessir persónutöfrar Fondas, sem gera hann hvað mest ógnvekjandi í myndinni, ekki síst þegar hann skýtur barn til bana með góðlátlegt bros á vör.

Nokkur önnur vel þekkt andlit úr bandarískum vestrum má finna í myndinni, einkum aukaleikarana Woody Strode, Jack Elam og Lionel Stander, sem allir standa fyrir sínu. Evrópsku leikararnir Gabriele Ferzetti og Frank Wolff eru þó sérstaklega eftirminnilegar, sá fyrri í hlutverki járnbrautarauðkýfingsins Mortons og sá síðar nefndi í hlutverki írskættaða bóndans sem keypti Sweetwater landareignina í þeirri trú að hún ætti eftir að gera hann auðugan og fjölskyldu hans.

Við vinnslu handritsins fékk Leone tvo unga og efnilega handritshöfunda sér til aðstoðar, þá Bernardo Bertolucci og Dario Argento, sem báðir áttu eftir að slá í gegn sem kvikmyndagerðarmenn. Bertolucci hafði þegar leikstýrt nokkrum kvikmyndum en frægustu myndir hans gerði hann nokkrum árum síðar, t.d. Il conformista (1970), Last Tango in Paris (1972) og 1900 (1976). Argento varð hins vegar einn vinsælasti hrollvekju- og gulmyndagerðarmaður Ítala með kvikmyndum á borð við The Bird with the Crystal Plumage (1970), Deep Red (1975) og Suspiria (1977).

Við handritaskriftirnar ræddu þeir félagar ítarlega um helstu bandarísku vestrana og urðu brátt ásáttir um að nýta ýmislegt af því besta úr þeim sem þemu og hliðstæður, svo sem fjöldamorð á afskekktum búgarði, einfarann í hefndarleit, byssubófann sem innleiðir siðmenninguna í villta vestrið, lagningu járnbrautarteina þvert yfir Bandaríkin og konuna sem heldur í landareign sína í von um að tilkoma lestarinnar muni bæta hag hennar. Má þar einkum nefna vestrana Iron Horse (John Ford: 1924), Western Union (Fritz Lang: 1941), Fort Apache (John Ford: 1948), Winchester ’73 (Anthony Mann: 1950), High Noon (Fred Zinnemann: 1952), Shane (George Stevens: 1952), Johnny Guitar (Nicholas Ray: 1954), The Searchers (John Ford: 1956), Run of the Arrow (Samuel Fuller: 1957), Rio Bravo (Howard Hawks: 1959), The Magnificent Seven (John Sturges: 1960), The Last Sunset (Robert Aldrich: 1961), The Man Who Shot Liberty Valance (John Ford: 1962) og Ride the High Country (Sam Peckinpah: 1962).

Enda þótt finna megi ótal vísanir í þessa vestra í spaghettí-vestranum Once Upon a Time in the West, er úrvinnslan og framsetningin engu að síður sjálfstæð og fersk. Og þeir eru margir, sem telja þessa kvikmynd Sergios Leone ekki bara besta spaghettí-vestrann heldur besta vestra, sem gerður hefur verið. Reyndar naut myndin lítilla vinsælda í Bandaríkjunum í upphafi og töldu margir kvikmyndagagnrýnendur þar í landi Leone ekki skilja vestraformið, en myndin hafði verið sett þar í kvikmyndahús verulega stytt, þ.e. meira en 20 mín. Í Evrópu var myndin hins vegar strax feikivinsæl í sinni réttu lengd og þegar talin með þeim allra bestu, enda er hún afar evrópsk hvað varðar stílbragð, persónusköpun og framsetningu.

Vestrar Johns Ford voru eins og svo margar bandarískar kvikmyndir bjartsýnir og rómantískir, jafnvel þótt persónusköpunin yrði gagnrýnni sem á líði, en það hefur verið skýrt með því að vísa til þeirra tækifæra, sem honum gáfust þegar hann flutti ungur frá fátæktinni á Írlandi til fyrirheitna landsins í vestri. Leone sagði að í þessu væri megin munurinn á honum og Ford fólginn. Sem Ítali væri hann hreinræktaður bölsýnismaður, enda væri McBain fjölskyldan öll strádrepinn um leið og hún næði til fyrirheitna landsins frá Írlandi í mynd hans.

Á síðari árum hafa Bandaríkjamenn hins vegar tekið myndina í sátt og hefur hún um langt skeið verið ein af efstu myndunum á topplista kvikmyndagagnabankans Internet Movie Data Base. Og þeir eru ófáir kvikmyndagagnrýnendurnir í Bandaríkjunum, sem segja nú á dögum Once Upon a Time in the West vera frábæra.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Margir sérfræðingar í spaghettí-vestrum hafa bent á trúarleg stef í þessari jafnt sem öðrum kvikmyndum Sergios Leone. Christopher Frayling getur þeirra t.d. í bókunum Spaghetti Westerns: Cowboys and Europeans from Karl May to Sergio Leone (I.B. Tauris Publishers, London, 2000) og Sergio Leone: Something To Do With Death (Faber and Faber, London, 2000), en hann er rektor Konunglega listaháskólans í London og prófessor þar í menningarsögu. Sama áhersla á trúarstef kemur einnig fram í bókinni Sergio Leone eftir Michael Carlson (The Pocket Essentials, Harpenden, 2001).

Af trúarstefum ber fyrst að nefna beinar biblíutilvitnanir sem eru nokkrar. Kráareigandinn segir að vatn hafi verið eitur þar um slóðir allt frá dögum flóðsins mikla, þ.e. syndaflóðsins (sbr. 1M 7:10-24, 1M 8), þegar Jill McBain spyrst fyrir um baðaðstöðu hjá honum. Við greftrun bóndans og barna hans les presturinn úr Biblíunni upprisufyrirheit Jesú Krists, sem oft er vitnað til við slík tækifæri: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyji.“ (Jh 11:25.) Þegar Jill McBain er svo síðar neydd til að selja landareignina á uppboði, varar uppboðshaldarinn hana við, að hún gæti þurft að láta hana fyrir baunaskál, en sú viðvörun minnir óneitanlega á söguna af því þegar Esaú seldi Jakobi bróður sínum frumburðarréttinn fyrir baunarétt. (1M 25:29-34.) Í raun hefur landareignin svipað vægi og frumburðarrétturinn, því að auðlegð framtíðarinnar er fólgin í henni. Og þegar munnhörpuleikarinn bjargar landareigninni handa Jill McBain með því að framselja Cheyenne á uppboðinu fyrir $5000, segir mexíkanski bófinn við hann: „Júdas lét sér nægja 4970 færri dollara.“ Munnhörpuleikarinn svarar honum þá: „Það voru ekki neinir dollarar á þeim dögum.“ Hér er að sjálfsögðu vísað í silfurpeningana þrjátíu, sem Júdas fékk fyrir að svíkja Jesú Krist. (Mt 26:14-16.)

Ýmsir hafa bent á að þáttur aðalkvensöguhetjunnar Jill McBain geti einnig haft trúarlegt vægi. Því hefur oft verið haldið fram að kvenpersónur í ítölskum kvikmyndum endurspegli rótgróna siðferðisarfleifð rómversk-kaþólsku kirkjunnar þar í landi, sem upphefji flekkleysið og móðurhlutverkið eins og það birtist í Maríu mey en líti á öll frávik frá því sem hórdóm og synd sem ógni fjölskyldunni sem grundvallarstofnun samfélagsins. Fyrir vikið séu konur sjaldnast annað en mæður eða hórur í ítölskum kvikmyndum og stundum jafnvel hvort tveggja í senn. Að minnsta kosti má heimfæra þetta upp á persónusköpun þeirra kvenna, sem birtast í kvikmyndum Sergios Leone, en þar eru konur sjaldnast annað en vændiskonur eða mæður.

Sjálf er Jill McBain vændiskona frá New Orleans, sem þráir betra hlutskipti og tekur því bónorði írskættaða stórbóndans fegins hendi, enda virkar hann bæði iðjusamur og traustur. Hún kemur síðan til fyrirheitna landsins sem frumbýlingur en finnur þar fjölskylduna alla myrta. Henni er ógnað, rænt og nauðgað en mexíkönsku bófarnir (úrhrök samfélagsins) og fámáli munnhörpuleikarinn (einfarinn) sjá samt hag sínum best borgið með því að vernda hana og veita henni nýtt hlutskipti. Enginn þeirra lítur reyndar við henni sem mögulegu kvonfangi (enda ekki á höttunum eftir slíku) heldur gefa þeir henni nokkurs konar móðurhlutverk sem verður smám saman að móður alls samfélagsins.

Cheyenne líkir henni t.d. snemma við móður sína, sem hafi bæði verið besta konan í lífi hans og vinsælasta vændiskonan í Alameda. Munnhörpuleikarinn rífur hins vegar ermarnar og hvíta boðangana af dökkum kjóli hennar til þess að hún geti gefið honum vatn að drekka úr brunninum fyrir utan bóndabæinn, en dökkur klæðnaðurinn gerir hana jafnframt að síðra skotmarki. Í fyrstu virðist sem hann ætli að nauðga henni í bókstaflegri merkingu, en fámælgi hans gerir það að verkum að hann framkvæmir hlutina frekar en að eyða orðum í þá. (Reyndar má spyrja hvort það sé nokkuð annað en nauðgun að neyða konu til heimilisstarfa, en í því ljósi er atriðið sérstaklega viðeigandi.)

Þetta reynist allt fyrirboði þess sem koma skal en Jill McBain verður sem landeigandinn ættmóðir eða jafnvel frelsisgyðja þess nýja borgarsamfélag sem þar myndast með lagningu járnbrautarteinanna, en einu vatnsbrunnana í allri eyðimörkinni er einmitt þar að finna. Í lok myndarinnar heldur Jill McBain bláklædd eins og María mey í listasögunni út með vatnsfötur og mat handa verkamönnunum, sem þá eru komnir að heimili hennar.

Ekki er laust við að rómversk-kaþólska kirkjan njóti ákveðinnar virðingar í myndinni. Þannig er áréttað að McBain fjölskyldan hafi verið rómversk-kaþólsk, en það kemur t.d. fram þegar Jill finnur talnaband fyrri eiginkonunnar, sem látist hafði nokkrum árum áður. Og þegar bófinn Cheyenne, sem hefur ótal mannslíf á samviskunni, reynir síðar að sannfæra hana um sakleysi sitt af morðinu á fjölskyldunni, segist hann hvorki geta skotið barn né prest, þ.e.a.s. rómversk-kaþólskan prest.

Margt annað í myndinni hefur táknræna merkingu og jafnvel trúarlegar skýrskotanir. Auðkýfingurinn Morton, sem er eigandi járnbrautarfyrirtækisins og búsettur í lestinni, er rotinn að innan bæði í táknrænni og bókstaflegri merkingu. Nafnið Morton vísar bæði til græðgis (more-ton) og dauða (morte), en hann er langt leiddur af krabbameini sem gerir það að verkum að hann verður að styðjast við hækjur hvert sem hann fer. Draumur hans er að ná að leggja járnbrautarteina þvert yfir öll Bandaríkin og vill hann ekki deyja fyrr en hann hafi náð til Kyrrahafsins. Draumar hans eru hins vegar óraunsæir og rætast ekki. Hann er í raun fulltrúi ræningjakapítalisma, sem kúgar landsmenn og stelur frá þeim til þess eins að efla eigin hag en hann hikar ekki við að láta myrða þá sem standa í vegi fyrir honum. Dollarinn er helsta vopn hans enda flestir falir fyrir nægilega háar fjárhæðir, en það er nokkuð sem hann segir að Frank, helsti aðstoðarmaður hans, fái aldrei skilið þar sem hann leysi vandamálin jafnan sjálfur með byssukúlum. Þegar Frank reynir síðan að sölsa undir sig völd Mortons, kaupir auðkýfingurinn menn hans og snýr þeim gegn honum. En arðránið gengur ekki upp til lengdar frekar en óraunsæir draumar Mortons um að ná til Kyrrahafsins.

Eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum er lögmálsákvæðið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn (3M 24:20) eitt af megin stefjum myndarinnar. Munnhörpuleikarinn fámáli á harma að hefna og vill hann umfram allt Frank feigan en það tekur hann sér nægan tíma til að undirbúa. Í gegnum myndina er öðru hverju sýnt frá ástæðu hefndarþorsta hans, en þar sést með viðeigandi tónlist Morricones hvar maður kemur gangandi úr fjarska. Lengst af eru þessi fortíðaratriði úr fókus en sem á líður skýrist myndin og kemur ástæðan að lokum í ljós í einvígi þeirra Franks og munnhörpuleikarans.

Snemma á unglingsárum munnhörpuleikarans hafði Frank ásamt nokkrum öðrum bófum neytt eldri bróður hans til að standa á öxlum hans undir stóru kirkjuhliði með snöru um hálsinn. Við það tækifæri stingur Frank munnhörpunni upp í piltinn með þeim orðum að hann skuli spila eitthvað til að gleðja bróður sinn meðan hann sé enn á lífi. Síðan fylgjast Frank og félagar hans (en einn þeirra borðar epli á meðan) brosandi með þeim bræðrunum þar til sá yngri gefst upp undan þunganum og fellur til jarðar með þeim afleiðingum að sá eldri hengist.

Umfram allt er þó spaghettí-vestrinn Once Upon a Time in the West í senn óður til gömlu vestranna og kveðja þeirra, enda voru vinsældir vestrans sem kvikmyndar farnar að dvína töluvert um þessar mundir. Þannig vitnar myndin til fyrirrennara sinna og sýnir hvernig villta vestrið líður undir lok með tilkomu járnbrautarinnar og siðmenningarinnar. Í þessu nýja samfélagi eiga byssumenn sér enga framtíð, enda ríður munnhörpuleikarinn á brott með fallinn félaga sinn, en við tekur borgarasamfélagið með grundvallar stofnunum sínum og ítölsku mæðraveldi.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 7:10-24, 1M 8, 1M 25:29-34, Mt 26:14-16, Jh 11:25
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Persónur úr trúarritum: Júdas
Guðfræðistef: fyrirheitna landið, móðirin, syndaflóð, trú, von, synd, ást, græðgi
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, nauðgun, sjálfsvíg, vændi, svik, kapítalismi, arðrán
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: talnaband, kirkjuhlið, kirkjuklukka, epli
Trúarleg embætti: prestur, rómversk-kaþólskur prestur
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, moldun