Leikstjórn: Milos Forman
Handrit: Goldman og Lawrence Hauben, byggt á bók eftir Ken Kesey
Leikarar: Jack Nicholson, Louise Fletcher, William Redfield, Michael Berryman, Peter Brocco, Dean R. Brooks, Alonzo Brown, Scatman Crothers, Mwako Cumbuka, Danny DeVito, Sydney Lassick og Christopher Lloyd
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1975
Lengd: 128mín.
Hlutföll: 1,85:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Í myndinni er fjallað um vist Randalf Patrick McMurphy á geðsjúkrahúsi eftir að hann hefur verið dæmdur til fangelsisvistar. Á sjúkrahúsinu ríkir járnagi sem McMurphy reynir að vinna gegn og færa þannig líf vistmanna til betri vegar.
Almennt um myndina:
One flew Over the Cuckoo´s Nest eða Gaukshreiðrið er byggð á samnefndri bók Kesey Keller sem kom út 1962. Bókin lagðist almennt vel í bókmenntagagnrýnendur og seldist vel.
Myndin sem kom út árið 1975 sló rækilega í gegn og flokkast án vafa sem ein af perlum kvikmyndasögunnar. Það virðist skipta litlu til hvaða þátta myndarinnar er litið alls staðar hefur lukkast vel til. Verðlauna og viðurkenningalisti myndarinnar rökstyður þetta vel. Á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 1975 varð myndin sú fyrsta síðan 1934 (It happened one night) til að sópa til sín öllum stóru verðlaununum: Besta myndin, besti leikstjóri (Milos Forman), besti leikari í aðalhlutverki (Jack Nicholson), besta leikkona í aðalhlutverki (Lousie Fletcher) og besta handrit (Bo Goldman/ Lawrence Hauben), þá fékk hún einnig tilnefningar til fjögurra óskarsverðlauna til viðbótar. Myndin vann einnig til margra fleiri verðlauna á fjölmörgum verðlaunahátíðum og hefur komist inná og toppað lista yfir bestu myndir allra tíma. (Sbr. Bozzola: 2003.)
Tónlist myndarinnar og val á leikurum er einstakt, yfirhjúkrunarkonan og geðsjúklingahópurinn er afskaplega trúverðugur. Mörg þekkt andlit eru þar á meðal og má þar helsta nefna Christofer Lloyd, Danny DeVito. Myndatakan, tímasetningar og atriðalengd er einnig eins og best verður á kosið. Myndin er tekin upp á stóru geðsjúkrahúsi í Oregon og segir í sérefni myndarinnar á DVD að vistmenn heimilsins hafi tekið virkan þátt í gerð hennar beggja vegna við upptökuvélina. Jafnframt er vitnað í lækni á sjúkrahúsinu sem segir myndina og gerð hennar vera þá bestu meðferð sem sjúklingar hans hafi fengið. (sbr. Special Features af DVD útgáfu One Flew over the Cuckoo´s Nest 1998.)
Myndin hefst á því að Randalf McMurphy aðalsöguhetjan er færður til vistunar á geðsjúkrahúsinu eftir að ljóst þótti að hann ætti frekar heima þar en í fangelsi. Reyndar velta læknarnir því fyrir sér hvort McMurphy sé ekki bara að gera sér upp geðveilu til að sleppa við fangelsisvist og yfirbótarvinnu. McMurphy kemur fagnandi inná vistina og strax er gefið í skyn að hann sé öðruvísi en hinir, hafi eitthvað meira fram að færa. Enda kemur á daginn að hann er fljótur að innleiða vistmönnum nýja siði og möguleika. Vistmenn geðsjúkrahússins eru allir karlmenn sem dvelja þar sjálfviljugir, þar ríkir mikill agi undir forystu hjúkrunarkonunnar Mrs. Ratched sem heldur lífi vistmanna í mjög svo föstum skorðum. Stundaskrá Mrs. Ratched er óhagganleg með reglulegri lyfjagjöf, samtalsfundum, tónlist og útivist.
McMurphy fer fljótlega að brjóta upp lífsmunstrið, hann gerir allt sem hann getur til að auka víðsýni vistmanna og örva þá tilfinningalega og jafnvel kynferðislega. Hann kennir vistmönnum körfubolta, spilar við þá með klámspilum, reynir ítrekað að fá leyfi til að horfa á úrslitaleikinn í hafnabolta og þykist síðan horfa á hann þegar Mrs. Rathced meinar hópnum það. McMurphy innleiðir einnig spilið 21 og lætur vistmenn leggja undir peninga eða sígarettur.
Þá rænir hann sjúkrahúsrútunni, með hjálp Chief Bumbden sem hafði áður en McMurphy mætir á svæðið verið mjög einangraður þar sem allir héldu að hann væri heyrnalaus og fer hann með alla félaga sína á deildinni út á fiskibát til að sýna þeim hafið og frelsið. Læknum sjúkrahússins fer uppfrá þessu að líka illa við McMurphy og er rætt um að senda hann annað en Mrs. Ratched leggst alfarið gegn þeirri hugmynd og segir að með því sé verið að ýta vandamálinu yfir á einhvern annan.
Að kveldi jóladags laumast McMurphy í símann og hringir í kærustu sína og segir henni að koma í heimsókn með vinkonu sína og nóg af áfengi. McMurphy mútar næturverðinum með peningum, áfengi og blíðu kvennanna. Úr verður mikil og löng veisla með drykkju, frelsi og ást. Billy Bibbit yngsti vistmaðurinn sefur hjá kærustu McMurphy (reyndar með hans leyfi).
Þegar Mrs. Rathced kemur til vinnu morgunin eftir er deildin í algerri rúst og Billy Bibbit sefur í fangi kærustu McMurphys. Mrs. Ratched sem þekkir vel móður Billy Bibbit fær hann til að segja til McMurphys og kemur inn mikilli sektarkennd hjá Billy sem leiðir til þess að hann tekur líf sitt. Þau endalok eru dropinn sem fyllir mælinn í samskiptum McMurphys og Mrs. Ratched og ræðst hann á hana og reynir að kirkja hana. Verðirnir koma til hjálpar og er McMurphy settur í slæma raflostmeðferð. Þegar hann kemur tilbaka úr henni er hann svo illa farinn að Chief Bumbden kæfir hann í svefni og brýst strax í kjölfarið út úr sjúkrahúsinu með því að brjóta glugga með risastóru marmaravatnsstykki en þá leið hafði McMurphy bent á og reynt fyrr í myndinni án árangurs. Myndin endar á frelsi Chief þar sem hann er að hlaupa burt inn í skóg undir magnaðri tónlist og miklum fögnuði vistmanna.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hugmyndafræðilega er Gaukshreiðrið dulin kristgervingamynd þ.e. margt er sameiginlegt með sögu Jesú Krists og sögu Randalf McMurphys án þess þó að McMurphy líti á sjálfan sig sem Jesú eða sé með með breytni Krists í huga. Leikstjórinn Milos hefur klárlega sögu Krists á bak við eyrað og fjölda margar vísanir í ævi og störf Krists má finna í myndinni.
McMurphy berst gegn hinum illu öflum og yfirráðum þeirra. Líf hans og dauði eru í þágu sjúklinganna sem með honum dvelja. McMurphy kemur einnig ákveðinni frelsun eða endurlausn til leiða. Þó svo að McMurphy líkist ekki Kristi alveg í öllum meginatriðum þá eru hin messíönsku einkenni hans það sterk að óhætt er að kalla hann Kristgerving. (Sbr. Arnfríður Guðmundsdóttir 2001:52.) McMurphy sker sig úr fjöldanum, leiðir líf fólks til betri vegar og deyr píslarvættisdauða. Því er ekki að undra að sumum hafi brugðið þegar Jack Nicholson var valinn til að fara með hlutverk McMurphys:
„Í sögu kvikmyndanna, er Jack Nicholsson, án efa ólíklegastur til að hljóta hlutverk Kristgervings. Djöfullegar augabrúnir hans og bros, glettnisleg augu og fjandsamlegur hlátur gera hann í sameiningu líkari syndara en dýrlingi. Í mynd Milos Forman One Flew over the Cuckoo´s Nest (1975) er Nicholson engu að síður frábær sem Kristgervingur er rís upp gegn öflum illsku og og drottnunar og með lífi sínu og dauða þjónar félögum sínum á geðdeildinni og leiðir þá til lausnar og frelsunar.“ (Stone 1999:95.)
Í upphafi myndarinnar þegar McMurphy er kominn á geðsjúkrahúsið og lítur yfir sjúklingahópinn er ekki laust við að Mark 6. 34 komi upp í hugann: ,,Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.” (Sbr. Mk 6.34.) Það líður heldur ekki á löngu í myndinni þar til lokahluti versins uppfyllist enda kennir McMurphy félögum margt.
Líkt og Jesú ógnar McMurphy ríkjandi ástandi og vill breytingu til batnaðar, hugmyndir hans ógna valdhöfum. Mrs. Ratched sýnir vissar hliðstæður við Satan en hún nærir eigið egó stöðugt. Velferð vistmanna og hagur skipta hana litlu máli en ógnartök hennar öllu. Ratched hefur náð tökum á vistmönnum og heldur þeim sjálfviljugum undir sínu valdi. Hún reynir einnig að ná böndum á McMurphy og vill alls ekki missa hann af sjúkrahúsinu þegar stendur til færa hann á aðra stofnun. McMurphy og hún glíma í myndinni um völd og áhrif, McMurphy lætur þó ekki af stjórn frekar en Jesú gerði í glímunni við Satan. Vísunin er þó ekki ótvíræð og einföld, það er hvergi að finna vísun í 40 daga eyðimerkurdvöl eða boð um að allt þetta muni McMurphy þóknast láti hann af stjórn. Þó má segja að Ratched sé nokkurs konar heimsdrottnari myrkursins sem McMurphy á í höggi við. Hún stendur sem tákn fyrir þá sem misnota vald sitt.
Eins og Jesú blæs McMurphy í sjálfstrausti í brjóst vistmanna og leiðir þá til betra lífs, hópurinn tekur fljótlega stöðu lærisveinanna. Líkt og Jesú læknar McMurphy fólk í kringum sig. Málleysi Chief Brombden hverfur er McMurphy gefur honum ávaxtatyggjó og þá hættir Billy Bobbit að stama er hann leggst með kærustu McMurphys. Læknar sjúkrahússins funda nokkrum sinnum um hvað gera skuli við McMurphy og minnir það óneitanlega á fund æðstu prestanna í guðsspjöllunum. (Sbr Mt. 26:3 og Jh 11:47.) McMurphy boðar vistmönnum gleðiboðskapin um Kanada þangað sem hann stefni á að fara eftir dvölina á sjúkrahúsinu, ekki er ómögulegt að sjá hliðstæðu í þessu tali við Guðsríkið eða jafnvel himnaríki.
Hvað píslarsöguna varðar eru sterkar hliðstæður í Gaukshreiðrinu, partýið sem McMurphy heldur minnir óneitanlega á síðustu kvöldmáltíðina þó ekki sé nokkur fótaþvottur á ferðinni (nema mögulega að það sé hugmynd leikstjóra að svipuð auðmýkt felist í því að lána kærustuna sína) og enginn brauðsbrotning enda horfir McMurphy ekki fram á fórnardauða sinn líkt og Jesú gerði. Eins og lærisveinarnir sofnuðu í Getsemane sofna félagar McMurphys í partýinu en ólíkt Jesú sofnar McMurphy líka. Hann efast líkt og Jesú um það hvort hann sé á réttri leið í partýinu og vill helst láta taka þennan kaleik frá sér (sbr. Mk 14:36) og yfirgefa svæðið.
Ástæðan fyrir því að McMurphy fer hvergi er ást Billy Bibbit á kærustu hans og hann sér fram á tækifæri til að gleðja Billy. Billy svipar til Júdasar í þessum kafla myndarinnar, þó að McMurphy viti ekki að hann muni svíkja sig. En Billy Bobbit segir til McMurphys þegar Mrs. Ratched vill vita hver hafi skipulagt partýið, Billy gerir það þó ekki af öfundsýki eða fjárgræðgi heldur miklu frekar sökum hræðslu við Mrs. Ratched. Billy eins og Júdas bindur enda á líf sitt í kjölfarið.
Krossfestingarstefið kemur fyrir þar sem McMurphy er sendur í raflostmeðferð og er merkilegt að þeir sitja þrír saman (Cheswick, McMurphy og Chief Bromden) og bíða eftir meðferðinni, það er varla tilviljun að McMurphy er í miðjunni líkt og Kristur var á Golgata (sbr. Mk 15:27). Cheswick hrópar líka ítrekað á hjálp McMurphys þegar hann er leiddur inn, hann trúir á ögurstundu á hjálpræði McMurphys. Síðar í myndinni þegar McMurphy reynir að drepa Mrs. Ratched eftir að hún veldur dauða Billy Bob fær McMurpy verri meðferð, skurðaðgerð á heilablaði, sem notuð var gegn geðtruflunum á tímabili. Leikstjórinn hagar tökum og áherslum þannig að greinlegt er að sárin/ örin á höfði hans eiga ekki að fara framhjá neinum, en sárin minna óneitanlega á píslarsár Krists á krossinum þó staðsetningin sé önnur. Raunar hefur verið bent á skurðaðgerð á heilablaði til að ná tökum á sjúklingum sem voru hættulegir samfélaginu í kringum sig, sé í samhengi myndarinnar hið fullkomna tákn fyrir krossfestingu. Skurðaðgerðin sé helsta verkfæri aflanna sem McMurphy hefur sýnt uppreisn, alveg eins og krossinn var það á dögum Krists. (Sbr Stone 1999: 103.)
McMurphy deyr ekki líkamlega við þennan uppskurð en Chief Bomden veit sem er að andlega er McMurphy óbætanlega breyttur. Í kjölfarið ákveður hann að kæfa McMurphy og segir að saman séu þeir að fara í ferð, honum líði nú eins og stóru fjalli, Chief fer síðan inn í baðhergi og tekur upp gríðar stóran marmaravatnstank og hendir honum út um gluggann og flýr þannig yfir í nýtt og betra líf. (En McMurphy hafði bent á þessa frelsisleið fyrr í myndinni en ekki tekist að lyfta upp vatnstankinum) Hér má spyrja sig hvort sé verið að vísa í heilagan anda sem styður Chief í ráðagjörð sinni eða jafnvel hvort sé verið að gefa í skyn upprisu McMurphys í formi Chief Bombden. Enn einn möguleikinn gæti verið að Chief fái nokkurs konar stöðu Símon Péturs og að ,,kirkjan” sé hér að byrja að starfa, McMurphy hafði jú fyrr í myndinni líkt Chief við stórt fjall og í lokasenunni segir hann að, þökk sé McMurphy, honum líði eins og stóru fjalli. Hliðstæðan er því til staðar við Pétur, klettinn sem kir!kjan byggir á. Í þessu samhengi öllu er athyglisvert að skoða 1. Pétursbréf 3:18-19 eins og Stone bendir á. (Sbr Stone 1999: 107.)
„Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.“ (1. Pt 3:18-19.)
Það er ekki erfitt að túlka dauða McMurphy útfrá þessu versi, hann virðist lifa áfram í Chief Bumbden og einnig með vistmönnunum sem fyllast gleðianda þegar þeir horfa á eftir Chief flýja frá vistheimilinu og út í náttúruna í myndinni. Maður skynjar á einhvern hátt nærveru McMurphys í þessu atriði. Hver svo sem nákvæmleg pæling leikstjóra og handritshöfunda var dylst engum að myndin af brotnum og opnum glugganum í lok myndarinnar er klárlega vísun í hina tómu og opnu gröf Krists. (Sbr. www.textweek.com/movies/one_flew_over.htm.)
HeimildirArnfríður Guðmundsdóttir 2001. ,,Kristur á hvíta tjaldinu, um túlkun og boðskap Jesú Krists í kvikmyndum.” Guð á hvíta tjaldinu. Trúar og biblíustef í kvikmyndum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Biblían, heilög ritning, 1981. Reykjavík. Hið Íslenska biblíufélag.
Bozzola, Lucia. Review of One flew over the Cuckoo´s Nest. Sótt 15. október 2003 á slóðina: www.allmovie.com/cg/avg.dll?p=avgsql=1:36363.
Stone, Bryan P. 1999. Faith and Film. Theological Themes at the Cinema. Chalice Press. St. Louis, Missouri.
The text this week, One flew over the Cuckoo´s Nest, Themes. Sótt 20 október á slóðina: www.textweek.com/movies/one_flew_over.htm.
Special Features. 1998 DVD útgáfa One Flew over the Cuckoo´s Nest. Warner Bros, USA. 1998
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt. 9:32, Mk. 6:34, Mt. 16:18, Jh. 11:47, Mk 14:36, Mt 26:3. 1. Pt 3:18-19
Persónur úr trúarritum: Guð og djöfullinn (í ræðu í umræðuhóp)
Guðfræðistef: ást, barátta góðs og ills, dauði, fórn, frelsun, fyrirgefning, hjálpræði, hatur, krossfesting, kærleikur, mennska, miskunn, réttlæti, skammsýni, sannleikur, syndajátning, trú, upprisa, von, veikleiki, kærleikssamband
Siðfræðistef: afbrýðisemi, agi, ást, eigingirni, fjandskapur, fjárhættuspil, freisting, frelsi, góðmennska, harðsvírað fólk, heiðarleiki, hæðni, kynlíf, kúgun, meðaumkun, misnotkun, lygi, ofbeldi, réttlæti, samvikubit, skammsýni, skömm, samviskubit, sjálfsmorð, örlæti
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki og helvíti (í ræðu í umræðuhóp)
Trúarleg tákn: Jólasveinninn (á vegg á sjúkrahúsinu)
Trúarlegt atferli og siðir: lyfjagjöfin í byrjun svipar aðeins til altarisgöngu
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Jólin