Kvikmyndir

One Hour Photo

Leikstjórn: Mark Romanek
Handrit: Mark Romanek
Leikarar: Robin Williams, Connie Nielsen, Michael Vartan, Dylan Smith, Eriq La Salle, Erin Daniels, Paul H. Kim og Gary Cole
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 95mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0265459
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ljósmyndaframkallari (Seymour Parrish að nafni) sem er á mörkum þess að vera geðveikur verður heltekinn af fjölskyldu sem hefur látið framkalla myndir hjá honum í áraraðir. Veggurinn í stofu mannsins er þakinn myndum af fjölskyldunni og það er fátt sem hann veit ekki um hana. En þegar eiginmaðurinn heldur framhjá eiginkonu sinni er honum misboðið og ákveður að taka til sinna ráða.

Almennt um myndina:
Það endurvekur trú manns á Hollywood að sjá vandaða frásagnartækni eins og í kvikmyndinni One Hour Photo. Það er orðið allt of algengt að spennumyndir gangi út á hverja tæknibrelluna og glæfraverkið á fætur öðru á kostnað dýptar og persónusköpunar. Hér fetar framleiðandinn og handritshöfundurinn Mark Romanek í fótspor meistara Hitchcocks og byggir upp spennu með því að rannsakar sálarkima geðsjúklings, rétt eins og meistarinn gerði í Psycho (1960).

Robin Williams er hreint stórkostlegur í hlutverki Seymour Parrish og tekst að sanna á ný hversu góður leikari hann er í raun og veru, þrátt fyrir mörg ömurleg væmnishlutverk á síðustu árum. Honum tekst að tjá tilfinningar þessa geðsjúka manns án þess að fara nokkurn tímann yfir strikið í ofleik, eða jafnvel að grípa til orða.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Okkur finnst það yfirleitt rómantískt og sætt þegar einhver verður yfir sig ástfanginn af annarri manneskju. En hvenær breytist rómantík í sjúklega áráttu? Hvar liggja mörkin? Hvað gerir ást Seymours Parrish frábrugðna rómantísku ástinni sem við heillumst svo af?

En að hvaða leyti erum við frábrugðin Seymour Parrish? Við búum í samfélagi sem gerir út á aðdáun á fallega og fræga fólkinu og rétt eins og Seymour Parrish hengjum við meira að segja upp myndir af þeim og leggjum okkur fram um að vita allt um það. Þegar átrúnaðargoðunum verður síðan á í messunni tætum við þau niður af jafn mikilli ástríðu og við hófum þau upp til skýjana áður. Listamenn eins og Charlie Chaplin, Roman Polanski og Woody Allen hafa allir orðið fórnarlömb þessarar hneigðar. Bill Clinton, Monica Lewinsky og Winona Ryder eru síðan nýleg dæmi.

Blöð eins og Séð og heyrt þrífast vegna þessarar hneigðar. En hver er munurinn á aðdáun og áráttu? Hvar liggja mörkin? Rétt eins og í meistaraverki Hitchcocks Rear Window (1954) er þetta á meðal þeirra spurninga sem kvikmyndin One Hour Photo fær mann til að spyrja.

Í myndinni er einnig sterk ádeila á framhjáhald, en Seymour Parrish segir á eftirminnilegan hátt að heimilisfaðirinn hafi brugðist trausti fjölskyldu sinnar með því að halda fram hjá konu sinni. Framhjáhald er alltof oft upphafið í kvikmyndum nú til dags, enda líta margir á ástina sem n.k. sjúkdóm. Maður ,,verður“ ástfanginn og það er heilög skylda að svara því kalli. Gamla kristna gildið að hafa stjórn á löngunum sínum og að sigrast á girndinni er orðið gamaldags og úrelt (sbr. 1M 4:7: ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni.) Hetjur margra nútíma kvikmynda sigrast ekki á löngunum sínum heldur svara ávallt ,,guðdómlegu” kalli ástarinnar.

Áður en Seymour Parrish ákveður að refsa heimilisföðurnum er hann sýndur horfa á kvikmyndina The Day the Earth Stood Still (1951) í sjónvarpinu. Myndin fjallar um geimveru sem kemur til jarðar til að bjarga mannkyninu en í henni er að finna margar kristsvísanir. Líklega má líta svo á að Seymour Parrish líti á sig sem bjargvætt, rétt eins og geimveran í fyrrnefndri mynd, n.k. messías sem er kominn til að laga það sem farið hefur úrskeiðis og refsa hinum syndugu.

Að lokum kemur fyrir í myndinni það algenga trúarlega atferli nú á dögum að senda einhverjum góðar hugsanir. Það er áhugavert að þegar þessar ,,fögru“ hugsanir eru sendar bera þátttakendurnir sig að eins og um bæn væri að ræða. Getur það verið að það að senda ,,fallegar hugsanir“ séu nútíma bænir fyrir sumu fólki?

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 4:7
Guðfræðistef: kristsvísun, messíasarduld
Siðfræðistef: framhjáhald, gluggagægjur, heltekning, sifjaspell
Trúarlegt atferli og siðir: að senda góðar hugsanir