Kvikmyndir

One Night at McCool’s

Leikstjórn: Harald Zwart
Handrit: Stan Seidel
Leikarar: Liv Tyler, Matt Dillon, Paul Reiser, John Goodman, Micheal Douglas
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 93mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0203755
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Atburðarásin byrjar á McCool’s barnum þar sem þrír karlmenn verða helteknir af sömu konunni, Jewel. Þeir lýsa Jewel mjög ólíkt en lýsing þeirra segir meira um þá sjálfa en Jewel. Einn sér hana sem engil, annar sem villta drós og sá þriðji sem sjálfselskt og gráðugt klækjakvendi. Og svo bætist fjórði karlmaðurinn við, leigumorðinginn Burmeister, sem telur Jewel vera sálufélaga sinn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er ótrúlega mikið um trúarstef í þessari mynd, án þess þó að hægt sé að segja að hún sé formlega guðfræðileg. Rannsóknarlögreglumaðurinn Dehling verður fyrir trúarreynslu þegar hann sér Jewel og sannfærist um að Guð sé hér að verki. Hann hafi sent sér engil til að vernda og gæta. Dehling fer til prests til að skrifta en á meðan hann segir frá opinberun sinni kastar presturinn oblátunum úr bikarnum og fyllir síðan bikarinn af viskí. Þegar kemur að kynlífinu biður hann Dehling að segja sér allt í smáatriðum! Carl er önnur persóna í myndinni en hann er velstæður lögfræðingur með kynlíf á heilanum. Hann elskar að klæðast leðri og láta flengja sig með svipu. Hann á sér eina ósk sem er að Guð bænheyri hann. Á mjög skondinn hátt verður honum að ósk sinni, en þar sem bænasvarið er lokaatriði myndarinnar segi ég ekki meir. Flest trúarstefin eru af þessum toga, þ.e. þau eru fyrst og fremst til skemmtunar og rista ekki djúpt. Hins vegar er enginn hörgull á siðfræðistefjum í myndinni.Græðgin er t.d. stór þáttur. Jewel dreymir um að eignast fullkomið heimili og hún er tilbúin að gera nánast hvað sem er til að eignast það, jafnvel að ræna og drepa. Vandinn er bara sá að um leið og hún hefur fengið það sem hún vildi, þarf hún meira. Í öðru lagi veltir myndin upp þeirri spurningu hvort við þekkjum þá sem við umgöngumst í raun og veru. Segir viðhorf okkar til fólks ekki meira um okkur sjálf en fólkið sem við umgöngumst. Ef svo er þá ættum við að varast að fella dóm yfir öðrum, því í raun gætum við verið að fella dóm yfir okkur sjálfum.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 26:41, Mk 14:38, Rm 8:3
Persónur úr trúarritum: Guð, María mey
Guðfræðistef: endurkoma Krists, fyrirgefning Guðs, hönd Guðs, kraftaverk, kynlíf, örlög
Siðfræðistef: framhjáhald, heimilisofbeldi, morð, sadomasokismi, þjófnaður
Trúarbrögð: mormónar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, Utah
Trúarleg tákn: bikar, kross, obláta
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: bænasvar, opinberun, trúarefi