Leikstjórn: Silvio Soldini
Handrit: Doriana Leondeff og Silvio Soldini
Leikarar: Licia Maglietta, Bruno Ganz, Marina Massironi, Giuseppe Battiston, Felice Andreasi, Antonio Catania og Tiziano Cucchiarelli
Upprunaland: Ítalía, og Sviss
Ár: 2000
Lengd: 105mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0237539
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Þegar Licia Maglietta er skilin eftir án þess að eftir því sé tekið, áttar hún sig á því hversu litlu máli hún skiptir fyrir fjölskyldu sinni. Hún húkkar sér far heim á leið en ákveður á síðustu stundu að halda til Feneyja, enda hafði hana lengi langað að fara þangað. Í Feneyjum kynnist hún skáldmælta Íslendingnum Fernando Girasoli (leikinn af Bruno Ganz), sem er í stöðugum sjálfsvígshugleiðingum. Þegar eiginmaður Liciu áttar sig á því að hún ætlar ekki að koma aftur heim, ræður hann pípulagningarmann til að njósna um hana. Ástæðan fyrir því að hann treystir honum fyrir verkinu er sú að hann er of mikil nánös til að ráða til þess fagmann, auk þess sem pípulagningarmaðurinn hljóti að kunna til verka þar sem hann hefur hafði lesið 285 og hálfa glæpasögu (svonefndar giallo-sögur).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sagan er skemmtileg og sumar uppákomur bráðsnjallar en á heildina litið er myndin ósköp hefðbundin rómantísk gamanmynd í anda Shirley Valentine (1989). Megið þema slíkra mynda er að kúgaða eiginkonan gerir uppreisn með því að yfirgefa karlmanninn (oftast eru börnin komin á legg eða hjónin barnlaus) og ferðast til draumastaðar síns. Þar öðlast hún hugrekki og sjálfstraust, nokkuð sem hafði verið ,,barið úr“ henni fram að því.
En er uppreisn Liciu sannfærandi? Í stað þess að berjast fyrir rétti sínum, láta karlfauskinn heyra það og berja duglega í borðið flýr hún fjölskylduna og hverfur sporlaust. Í raun beitir hún sömu ráðum og karlmenn eru þekktir fyrir, þ.e. að flýja af vettvangi í stað þess að takast á við vandann.
Ég er ekki að segja að konur eða karlar eigi að hanga í hjónabandi, sama hvað gengur á heima fyrir, en það er lágmarks krafa að fyrst sé leitað leiða til að bæta ástandið áður en hlaupið er frá skyldum og ábyrgð.
Nú hugsa líklega sumir með sér að þessi þáttur myndarinnar hafi aðeins farið í taugarnar á mér vegna þess að það var móðir sem flúði heimilið, en svo er ekki. Ég efast reyndar um að slíkt hátterni hjá karlmanni myndi teljast lofsvert í dag. Ímyndum okkur t.d. sömu kvikmynd þar sem karlmaðurinn flýr eiginkonu og börn vegna þess að þau kunna ekki að meta hann. Hefði slíkri mynd verið tekið opnum örmum eða hefði hún verið gagnrýnd fyrir óábyrgan boðskap? Ég held að hið síðara eigi við.
Myndin er sem sagt aðallega áhugaverð í ljósi kvenréttindamála og fyrir þær sakir að íslensk persóna skuli koma fyrir í henni. Það er skemmtileg tilviljun að Bruno Ganz skuli leika Íslendinginn en hann lék einmitt engil í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börnum náttúrunnar.
Persónur úr trúarritum: Afrodíta, Fönix
Guðfræðistef: frelsi
Siðfræðistef: eiturlyfjaneysla, fjárhættuspil, framhjáhald, kvenréttindi, sjálfsvíg
Trúarbrögð: grísk-rómverksur átrúnaður
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Aþena, kirkjugarður
Trúarleg tákn: kirkjuklukkur, kross
Trúarleg reynsla: draumur