Leikstjórn: Mimi Leder
Handrit: Catherine Ryan Hyde og Leslie Dixon
Leikarar: Helen Hunt, Haley Joel Osment, Kevin Spacey
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 122mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0223897
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði
Myndin er byggð á vinsælli skáldsögu eftir rithöfundinn Catherine Ryan Hyde og segir frá Trevor McKinney, sem fær það verkefni í félagsfræði í skólanum að gera heiminn að betri stað. Trevor, sem er einbeittur ungur strákur, fær þá snjöllu hugmynd að láta gott af sér leiða með því að koma af stað e.k. keðjuverkandi góðverkastarfsemi.
Almennt um myndina
Hér er á ferðinni mjög áhugaverð kristsgervingamynd en leikstjóri hennar er Mimi Leder, sú sama og gerði The Peacemaker og Deep Impact. Það er margt gott við þessa mynd. Hún er nokkuð vel tekin og kvikmyndatakan er oft skemmtileg. Hins vegar fer hún aðeins of oft yfir strikið í væmni. Væmnin er þó þolanleg ef maður tekur myndina ekki of hátíðlega og lítur á hana sem dæmisögu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum
Í myndinni eru raktar tvær sögur. Annars vegar saga Trevor McKinney (Haley Joel Osment, þeim sama og lék í The Sixth Sence og A.I.) sem fær það verkefni í skólanum að gera eitthvað sem gerir heiminn betri. Hann byrjar n.k. kærleikskeðju, en reglurnar eru eftirfarandi: 1) Þetta verður að vera eitthvað sem raunverulega hjálpar. 2) Það verður að vera eitthvað sem fólk getur ekki gert upp á eigin spýtur. 3) Sá sem fær hjálp verður að hjálpa þrem öðrum. Þannig eru góðverkin að einhverju leyti hugsuð eins og keðjubréf.
Hin sagan fjallar um fréttamanninn Chris Chandler rekur kærleikskeðju Trevor aftur á bak. Hér er mjög meðvitað verið að vinna með fórn og starf Krists, en ólíkt mörgum öðrum kristsgervingamyndum er áherslan ekki á fórnina heldur hjálpræðið; þ.e. kærleikskeðju Trevors. Fréttamaðurinn Chris Chandler fær síðan það hlutverk að skrásetja guðspjallið og boða heimsbyggðinni fagnaðarerindið.
Drenginn unga, Trevor, má hæglega skilja sem kristsgerving. Hann er boðberi frelsunar, farvegur náðar Guðs auk þess sem ýmislegt í lífi hans minnir á ævi Jesú Krists. Þetta sést best í lokaatriði myndarinnar þar sem hann er stunginn í síðuna og lætur lífið fyrir vikið. Síðusárið er einmitt eitt af fimm sárum Krists.
Þá má skilja blaðamanninn Chris Chandler sem hliðstæðu við guðspjallamenn Nýja testamentisins. Hann er sá sem vekur athygli á Pay it Forward hreyfingunni. Hann rekur sig aftur á bak frá Los Angeles til Las Vegas allt þar til hann kemst að rótum hreyfingarinnar hjá Trevor. Hlutskipti hans er síðan að segja söguna af þessu, sem vekur auðvitað enn frekari athygli á því – rétt eins og frásagnir guðspjallamannanna fjögurra gerðu með sögu Jesú Krists.
Þetta er heillandi og falleg kristsgervingamynd sem sýnir það og sannar að bestu kvikmyndirnar um Krist eru ekki endilega Jesúmyndirnar heldur kristsgervingamyndir (eins og Gestaboð Babettu). Ekki aðeins vegna þess að þær útskýra oftast starf og hjálpræði Krists betur heldur einnig vegna þess að þær veita okkur nýtt sjónarhorn á ævistarf og fagnaðarerindi frelsarans.
Boðskap Pay it Forward má skilja sem tilbrigði við praktíska útleggingu á því hvernig kærleikur Guðs á að streyma í gegnum mennina út í samfélagið. Hvert og eitt okkar hefur getu til að breyta heiminum og gera hann að betri stað. Og ekki aðeins höfum við getu til þess heldur ber okkur skylda til að þakka fyrir þá fórn sem Kristur færði með því að fórna okkur fyrir aðra. Það er áhugavert að þau sem fá hjálp í myndinni ítreka að þau séu þess ekki verð. Þess vegna ber okkur einmitt enn meiri skylda til að láta kærleikann ganga áfram.
Myndin tekur einnig mjög vel á eiturlyfja- og áfengissýki, heimilisofbeldi og kynferðislegri misnotkun. Flestir í myndinni eru fórnarlömb einhvers af þessu. Móðir Trevors gefur t.d. í skyn þegar hún ræðir við móður sína að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í bernsku. Þessi reynsla hennar hefur leitt til þess að hún hefur litla sem enga sjálfsvirðingu. Hugmyndir hennar um kynlíf eru einnig mjög brenglaðar en hún hefur ávallt sofið hjá karlmönnum áður en hún kynntist þeim.
Þá sýnir myndin vel hversu skaðleg áfengissýki getur verið aðstandendum. Trevor, móðir hans og kennari þjást öll vegna áfengissýki aðstandenda. Við þetta bætist hrottafengið heimilisofbeldi en í myndinni er einmitt velt upp þeirri spurningu hvers vegna einstaklingar slíta ekki samböndum þegar maki þeirra beitir ofbeldi.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 14:22-33, Mk 6:45-52, Jh 6:15-21, Jh 19:34
Hliðstæður við texta trúarrits: Guðspjöllin
Persónur úr trúarritum: guðspjallamaður
Sögulegar persónur: Móðir Teresa
Guðfræðistef: kristsgervingur, kærleikur, fyrirgefning, fórn
Siðfræðistef: áfengisneysla, eiturlyfjaneysla, heimilisofbeldi, heiðarleiki, skilnaður, ofbeldi, einelti, heit, ást, fátækt, lygi, gjafmildi, skírlífi, kynferðisleg misnotkun, hjálpsemi, samkynhneigð, stundvísi, fordómar, ótti, traust, trú
Trúarbrögð: moonismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Útópía, pýramídi, kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: fjöldagifting, ósk
Trúarleg reynsla: frelsun