Kvikmyndir

Pelle erobreren

Leikstjórn: Bille August
Handrit: Bille August, Per Olov Enquist og Bjarne Reuter, byggt á skáldsögu eftir Martin Andersen Nexø
Leikarar: Pelle Hvenegaard, Max von Sydow, Erik Paaske, Björn Granath, Astrid Villaume, Axel Strøbye, Troels Asmussen, Kristina Törnqvist, Karen Wegener, Sofie Gråbøl, Lars Simonsen, Buster Larsen, John Wittig, Troels Munk og Nis Bank-Mikkelsen
Upprunaland: Danmörk og Svíþjóð
Ár: 1987
Lengd: 143mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Landbúnaðarverkamaðurinn Lasse Karlsson (Max von Sydow) er nýlega orðinn ekkjumaður og er hann á leið með sjö ára son sinn, Pelle (Pelle Hvenegaard), frá Tommelilla í Svíþjóð til Danmerkur þar sem hann telur að þeim feðgum muni vegna betur. En þegar til á að taka finnst væntanlegum atvinnuveitendum karlinn of gamall og strákurinn of ungur. Feðgarnir neyðast til að sætta sig við heldur báborin kjör lægst í virðingarstiganum sem fjósamenn á herragarði sem nánast er í hers höndum vegna ofbeldisfulls verkstjóra.

Almennt um myndina:
Myndin, sem er samvinnuverkefni Dana og Svía, snýst um líf fólksins á herragarðinum og í næsta nágrenni hans. Það reynist ekki eintóm sveitasæla. Margir koma við sögu og líf fólksins er sýnt í allri sinni breidd og vídd og áhorfandanum finnst þegar upp er staðið að hann hafi kynnst fólkinu og samfélagi þess þess harla náið ­ og þarna kannast maður við persónur sem eru skyldar sögupersónum úr íslenskum skáldsögum allt frá Pilti og stúlku til Sölku Völku. Myndin er byggð á skáldsögu eftir danska rithöfundinn Martin Andersen Nexö sem fjallar um þá tíma þegar hugmyndir um frelsi og jafnrétti fóru að hafa áhrif á fólk sem enn var bundið í viðjar vistarbands, fátæktar og fordóma.

Allir skila hlutverkum sínum með sóma í þessari margverðlaunuðu stórmynd og hér skal tekið undir þá fullyrðingu að sænski leikarinn góðkunni, Max von Sydow, sé í þessari mynd á hátindi leikferils síns. Túlkun hans á vinnulúnum landbúnaðarverkamanni, ekkjumanni og föður, er með þvílíkum ágætum að ógleymanlegt er. Óskarsverðlaunin sem hann fékk fyrir þann leik eru sannarlega verðskulduð.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Mannlífið á herragarðinum er skoðað með augum Pelle og hann verður vitni að flestu af því sem gerist. Harkan er mikil og þeir sem verða fyrir illri meðferð af hálfu hinna hærra settu hefna sín á þeim sem minna mega sín. Ótuktarskapurinn snýst stundum upp í kvalalosta sem smitar út frá sér. Góður drengur eins og Pelle sleppur meira að segja ekki alveg undan þessu. Krakkarnir í skólanum vita að hann er minni máttar og hann er lagður í einelti. Lasse er góður karl og gerir engum mein og er lítt í stakk búinn til að standa vörð um heiður þeirra feðga. Óttinn og virðingin fyrir þeim sem yfir hann eru settir stendur honum fyrir þrifum. Það er þá helst þegar hann skvettir í sig brennivíni að sjálfsálitið kemst í lag og þá man hann fífil sinn fegri. Draumaland hans felst í því að hitta konu sem gæti hugsað um þá feðga, búið þeim heimili og kannski fært þeim kaffi í rúmið á sunnudögum. Hann hressist allur og það kemur glimt í auga karls og hann réttir úr bognu bakinu þegar atuburðarásin bendir til þess að draumur hans sé að rætast. En dæmið gengur ekki upp og Lasse verður enn einu sinni að athlægi og skotspæni rætinna óþokka sem njóta þess að svívirða aðra.

Sonurinn er augasteinn Lassa og hið ástríka samband þeirra feðga myndar ljúfsára stemmningu í myndinni frá upphafi til enda. Þeir eiga hvorn annan og það dugar þeim langt. Lasse reynir af veikum mætti að gleðja son sinn þegar hann á afmæli og tekst það þótt efnin séu engin, en niðurlæging og vanmáttur föðurins rennur syninum til rifja og gerir það að verkum að faðirinn getur ekki orðið sú fyrirmynd sem vísar syninum leiðina út úr ömurlegum aðstæðum – út í heim til að sigra.

Erik er vinnumaður á bænum sem ætlar sér annað og meira en verða starfkarl og sveitalubbi undir hælnum á illgjörnum verkstjóra. Hann hefur hrifist af hugsjónum um frelsi einstaklingsins og félagslegt réttlæti og fyrirlítur smaður og undirlægjuhátt. Hann leggur fyrir af launum sínum og ætlar út í heim, fyrst til Ameríku og Pelle má gjarnan koma með. En þau áform verða ekki að veruleika því að Erik verður fyrir slysi og viljalaus og rænulítill er hann áfram bundinn þeim stað þar sem hann síst vildi búa.

Myndatakan er í háum listrænum gæðaflokki og það er eins og umhverfið og náttúran endurómi drunga og ömurleika mannlífsins og hann er ekki bundinn við þá lægst settu. Frúin í húsinu er óhamingjusöm því gósseigandinn heldur fram hjá henni og telur greinilega að það sé ekkert sjálfsagðara að hann fífli hverja þá konu sem honum sýnist. Á næturnar gólar frúin ámátlega í einsemd sinni sem hún reynir að lina með dýrindis koníaki sem hún sendir Pelle til að kaupa fyrir sig. Vinnufólkið skemmtir sér við að segja sögur af því að hún breytist í blóðsugu á næturnar sem læðist um hlað og hús. Henni þykir vænt um Pelle sem finnur til með henni eins og öðrum sem þjást og honum stendur til boða að hækka í tign og verða aðstoðarsveinn verkstjórans.

En Pelle þiggur ekki stöðuna enda vill hann út í heim, til Ameríku og svo lengra til landanna sem vinur hans Erik talaði um að væru hinumegin á hnettinum. Lasse vill líka burt og hann vill fylgja syni sínum og vernda hann, en hann er bugaður og að þrotum kominn.

Yfirvöldin samanstanda af herragarðseigandanum, prestinum og lækninum ogþau eru þannig kynnt til sögunnar að áhorfendur fá vægast sagt litla samúðmeð þeim og er þetta alveg í anda þeirra raunsæisbókmennta sem urðu til áNorðulöndunum eftir að danski heimsborgarinn Georg Brandes kom fram ásjónarsviðið á seinni hluta 19.aldar og réðst eins og hvirfilvindur ámakráða menntaelítu sem hreiðrað hafði um sig í skóli valdastéttana. Í nafnivísidnahyggju og byltingahugsjóna um frelsi einstaklingsins skar hann uppherör gegn trú og kirkju og útmálaði presta sem uppskafninga og hræsnara.Presturinn í myndinni er eigingjarn hrokkagikkur og strákur hans níðist áPelle í skjóli helgiathafnar sem faðir hans stýrir. Lasse er einlægur íbænum sínum en það hjálpar honum lítið gegn óréttlætinu í heiminum, en hverveit nema trúin hjálpi gamla manninum til að sætta sig við lífið ogtilveruna. Slíka sátt við ömurlegt líf var ekki eftirsóknarverð að matiþeirra sem í anda sósíalisma börðust fyrir bættum kjörum hinna lægst settu.

Það er komið að kveðjustundinni. Gamall maður, lotinn í herðum, hverfur aftur inn í fjósið en ungur drengur með léttan poka heldur einn af stað. Áhorfendur sjá þennan endi með þá trú og von í brjósti að Pelle verði þrátt fyrir allt sigurvegari og það er næsta víst að sigur hans byggist á ríkulegri föðurást sem var eina nestið sem hann hafði með sér út í hinn stóra heim. Hver veit nema það séu einmitt þessar bænir föðurinns sem gera það að verkum að þær er einhver von til þess að umkomulaus sonur hans spjari sig í hinum stóra heimi.

Guðfræðistef: frelsi, von
Siðfræðistef: félagslegt misrétti, einelti, framhjáhald, drykkja, fátækt, fordómar, lítilsvirðing, vinátta, niðurlæging, fyrirlitning, ofbeldi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: friður, auðmýkt