Kvikmyndir

Persona

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Bibi Andersson, Liv Ullmann, Margaretha Krook, Gunnar Björnstrand og Jörgen Lindström
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1966
Lengd: 83mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þekkt leikkona fær taugaáfall í miðri leiksýningu og neitar að tala. Hvorki eiginmaður hennar né ungur sonur þeirra geta haft nokkur áhrif á hana og er hún að lokum lögð inn á geðdeild þar sem hjúkrunarkonan Alma fær það hlutverk að hjúkra henni. Að ráði yfirlæknisins fer Alma með leikkonuna í einangrað sumarhús við ströndina í von um að það geti bætt heilsu hennar og verður samband þeirra þar afar náið, ekki síst vegna þess að hjúkrunarkonan notar tækifærið til að léttu öllu af sér við hinn þögla sjúkling sem hlustar á hvert orð sem hún segir. Alma er í fyrstu himinlifandi yfir því að fá að tala óhindrað um sjálfa sig við svo virta leikkonu, en þegar hún áttar sig á afstöðu hennar til sín, magnast spennan á milli þeirra og fer hún að hata hana.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Persóna markar mikilvæg þáttaskil í kvikmyndagerð Ingmars Bergman. Um tíu ára skeið hafði hann glímt við stóru spurningarnar um lífið og tilveruna með beinum skírskotunum í trúarleg og biblíuleg stef og persónur. Í myndinni Persóna er eins og hann sýni þessi greiningartæki hugsunarinnar sem brenndust inn í hann barn að aldri en leggi þau svo til hliðar án þess að gefa meginviðfangsefnið upp á bátin, en það er spurningin um merkingu með lífinu og tilgang þjánigarinnar.

Margir kvikmyndafræðingar telja Persónu ekki aðeins bestu kvikmynd Bergmans heldur meðal bestu kvikmynda sem gerðar hafa verið. Þannig tilgreinir bandaríski kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert myndina Persónu í bók sinni um hundrað bestu kvikmyndirnar og gefur henni þar töluverða umfjöllun. (The Great Movies. Broadway Books. New York. 2002.) Full ástæða til að huga að því hvað þeir eiga við með því. Þótt myndin segi frá nánum samskiptum tveggja kvenna þá er vart hægt að segja að lykillinn að skilning á henni búi í þeim söguþræði. Samsemdarkreppa aðalpersónanna getur eins verið innri glíma einnrar persónu við sjálfa sig í örvæntingarfullri leit að kjarna sínum. Boðskapur myndarinnar er m.a. sá að í þessari leit speglar einstaklingurinn sig alltaf í öðrum manneskjum og að hann getur ekki alltaf verið viss hvar mörkin eru.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fræg leikkona hefur fengið taugaáfall á sviði og neitar að tala. Hún hættir einnig að skipta sér af eiginmanni sínum og syni. Liv Ullmann fer með þetta hlutverk og var það fyrsta hlutverkið sem hún fékk í kvikmynd hjá Bergman. Í myndinni heitir hún Elisabeth Vogler og er það engin tilviljun að hún skuli bera sama eftirnafn og töframaðurinn þögli í myndinni Andlitið, enda notar Bergman oft sömu mannsnöfnin aftur og aftur í myndum sínum.

Leikkonan er lögð inn á geðdeild og er yfirlæknirinn leikinn af Margarethu Krook sem er þrautreynd skapgerðarleikkona. Nýkominn inn á sjúkrastofuna horfir leikkonan á fréttir í sjónvarpinu frá stríðinu í Víetnam. Þögull búddhamunkur, tákn bæði andlegs veruleika og innra jafnvægis og friðar, hefur borið eld að kufli sínum og brennur lifandi frammi fyrir augliti heimsins. Leikkonan verður ofsahrædd, enda eru bein tengsl milli þess sem hún sér í fréttunum og andlegs ástands hennar. Hún er að brenna upp innan frá. Sjálf hennar er í hættu, og þess vegna reisir hún utan um það múr þagnar og aðgerðaleysis. Hún hefur á vissan hátt einnig gengið í klaustur, lokað sig af frá umheiminum þótt múrarnir séu ósýnilegir.

Ung hjúkrunarkona, sem heitir Alma og er leikin af Bibi Anderson, fær það hlutverk að hjúkra henni. Samband þeirra verður afar náið, ekki síst þar sem önnur þeirra þegir allan tímann en hin talar og lætur allt flakka. Alma er fyrst himinlifandi yfir því að fá að tala óhindrað um sjálfa sig við svo virta leikkonu, en það á eftir að breytast þegar hún áttar sig á afstöðu leikkonunnar til sín. Spennan magnast milli kvennanna eftir því sem þær kynnast betur í einangruðu sumarhúsi við ströndina þar sem þær dvelja samkvæmt ráði yfirlæknisins. Sviðið er því að mestu sænski skerjagarðurinn eins og í svo mörgum myndum Bergmans.

Ýmsir hafa getið sér þess til að þögn leikkonunnar tákni þögn Guðs. Í sjálfu sér þarf það ekki að vera rangt, en myndefnið skírskotar ekki beint til trúarlegra tákna, biblíulegra persóna eða kristilegrar trúfræði. Hún er hins vegar ekki langt undan, því að Bergman sýnir þessi gömlu tól sín og tæki eins og skurðlæknir sem sem hefur þau til taks ef á þyrfti að halda. Við sjáum nagla rekinn í gegnum mannshönd og guðslambinu fórnað. Það er sýnt þannig að kind er skorin á háls og blóðið látið renna í fórnarskál. Kóngulónni bregður fyrir og djöflinum, frænda hennar, einnig, bæði í upphafi myndarinnar og í miðri myndinni þegar hann sést brot úr sekúndu nákvæmlega þar sem persónan klofnar og örvæntingin í sambúð kvennanna verður alger. Augun nema vart þetta myndskot nema að hægt sé á ræmunni.

Sjálf kvikmyndatækin eru hluti af táknmáli og efni myndarinnar. Ljóslampinn í sýningarvélinni, sem sýndur er eins og neisti strax í upphafi myndarinnar og í lok hennar, gæti allt eins verið tákn fyrir Guð, en það þýddi að filman táknaði röð þeirra hlutverka sem persónurnar og leikendurnir íklæðast, allt eftir þeim örlögum sem þeim er skapað. Þessi hlutverkaröð rofnar þegar filman fer út af sporinu eða snertir glóðheitan lampann sem brennir hana. Þá leysist persónan upp í óreiðu og óskapnað fyrir framan áhorfendur. Það táknar að manneskjan er ekki lengur í skapandi sambandi við hið raunverulega sjálf sitt, sinn innri mann, og persónan leysist upp í sjúklegu óraunsæi geðveikinnar eins og gerðist með Karin í myndinni Eins og í skuggsjá. Hin lýsandi sól, þ.e. lampinn, hefur ummyndast í kónguló sem ræðst á persónuna og lamar hana með eitraðri stungu sinni. Sambærileg ógn steðjar bæði að leikkonunni og hjúkrunarkonunni í Persónu.

Bergman nýtir sér kenningar félagssálfræðinga í myndinni með markvissum hætti í útfærslu sinni á megin þemanu, þ.e. leit mannsins að sjálfum sér. Viðfangsefnið er ekki nýtt af nálinni heldur sígilt trúarþema þar sem maðurinn glímir við merkingarleysi tilverunnar, þjáninguna, syndina og fyrirgefninguna.

Leikkonan hefur gefist upp á þeim hlutverkum sem hún hefur haft bæði í leikhúsinu og einkalífinu. Hún finnur ekki sjálfa sig í þessum hlutverkum og bregst við með þögninni einni í örvæntingu sinni. Augu hennar lýsa sálarangistinni, en smám saman verður samt ljóst að hún býr yfir vakandi sjálfi sem áhorfandi en ekki gerandi, og er hún þannig ekki síður heilbrigð en aðrir.

Bandaríski heimspekingurinn og félagssálfræðingurinn G.H. Mead, sem lagði grunninn að táknrænu samskiptakenningunni, skiptir innri gerð persónuleikans í tvennt. Annars vegar er það I, þ.e. ég, sem er það sama og nefnt hefur verið Sjálfið, en það er óháð öllu félagslegu samhengi og býr yfir eiginleikum handanveruleikans. Hins vegar er það Me, þ.e. mig, sem er sú gríma eða hlutverk sem persónan fer í til að mæta ákveðnum aðstæðum og væntingum umhverfisins. Þessi hlutverk gera persónunni kleift að sjá sjálfa sig sem hluta af félagslegum veruleika. Með því að setja sig í hlutverk annarra, þ.e. spor annarra, tengist sjálf einstaklingsins öðru fólki og nefnist það ferli frumfélagsmótun. Þegar það ferli hefur náð ákveðnu stigi tekur síðfélagsmótunin við, og þá getur einstaklingurinn speglað sig í samfélaginu sem slíku, þ.e. sem sértækum (abstrakt) veruleika. Guðfræðin tengist inn í þessa orðræðu með því að setja Guð í staðinn fyrir samfélagið sem bæði hefur samvitund (collective consciousness) og samvisku (collective conscience). Ljóslampinn í sýningarvélinni getur þannig verið tákn fyrir I (ljós Guðs) og filman með öllum myndunum (hlutverkum) verið Me.

Sjálfið er sú vitund sem persónan upplifir ein með sjálfri sér. Hún finnur að hún er hún sjálf, en til að viðhalda þessari vitund verður hún að fá staðfestingu á því og jákvæð skilaboð frá umhverfinu. Sjálf staðfestir hún sinn innri mann með því að ganga inn í hlutverk sín ­ eða annarra ­ en þar getur hún samt aldrei verið hún öll. Hún sér aðeins hluta af sjálfri sér í þeim hlutverkum og grímum sem hún velur sér eða henni eru rétt.

Snilligáfa Bergmans felst ekki síst í því að hafa tekist að virkja þessi innri samskipti milli „Ég-sins“ og „Mig-sins“ í listsköpun sinni. En um leið hefur hæfileikinn rekið fleyg milli hans og þess sem aðrir, jafnvel hinir þýðingarmiklu (significant others), gengu út frá sem heim staðreynda. Þetta er ástæðan fyrir því að margar lýsingar Bergmans á æsku sinni og uppvexti eru ýkjur og stundum sjálfsblekkingar. Hann gerir sér samt grein fyrir þessu og hefur kallað það atvinnusjúkdóm. Sjálf hans er klofið, hann getur oft ekki greint á milli „Ég-sins“ sem er innri sjálfsupplifun hans og „Mig-sins“ þar sem aðrir koma við sögu og eiga hlut að máli án þess að Ingmar Bergman geti nokkru um það ráðið. Þegar hann lítur til baka, finnst honum sem hann hafi aldrei fengið að vera í raun hann sjálfur í æsku sinni. Kröfur annarra voru svo yfirþyrmandi, að hann gat ekki þroskast á eigin forsendum í návist þeirra og varð að flýja inn í eigin draumaheim og finna sjálfan sig þar þótt hann kæmist ekki upp með það eins og leikkonan að hætta að nota tungumálið. Hann lýsir þessu þannig: „Ég lifði í raun á minningunni um tilfinningar, vissi gjörla hvernig átti að framkalla þær, en ósjálfráð viðbrögð mín voru aldrei ósjálfráð. Sekúndubrot leið ávallt frá því að skilningarvit mín námu það sem gerðist og þar til ég lét tilfinningarnar í ljós.“

Ég er hér I, þ.e. kjarni sjálfsins, og minningin um tilfinningarnar eru Me. Á því sekúndubroti sem hann talar um hér voru foreldrarnir búnir að troða sér að með væntingar sínar, boð og bönn, sem þau litu á sem nauðsyn, umhyggju og elsku til barnsins sem þau urðu að vernda og ala upp. Ingmar Bergman sjálfum fannst þetta óþolandi afskipti og túlkaði þau seinna, eins og áður hefur komið fram, sem meðvitaðan ásetning af hálfu foreldranna að eyðileggja líf (þ.e. sjálf) barna sinna.

Leikkonan Elisabeth Vogler í myndinni Persóna þjáist af sama atvinnusjúkdómi og Bergman. Hún hættir að tala vegna þess að hún er hvorki í þeim hlutverkum sem hún leikur né bak við þær grímur sem hún hefur borið. Hún hefur viljandi dregið sjálf sitt til baka og er ekki lengur með, en hún getur samt eins og andar framliðinna lifað áfram í gegnum aðra persónu, gert grímur hennar að sinni ­ lifað í ímynd annarrar persónu. Hún er því á mörkum þessa heims og annars.

Þetta gefur hjúkrunarkonunni tækifæri til að fletta ofan af sjálfri sér og taka af sér eina grímuna eftir aðra þangað til hún stendur eftir eins og hún er í raun og veru, í andlegri nekt sinni, þ.e. með „Sjálf“ sitt óvarið frammi fyrir manneskju sem þegir staðfastlega. Með því að taka af sér allar grímurnar hefur hjúkrunarkonan ekki lengur umráð yfir sjálfri sér og skynjar að sjálfið hennar hefur brunnið upp í þögn leikkonunnar, eins og þegar búddhamunkurinn í Víetnam brann upp fyrir augum heimsins (sjónvarpsáhorfenda).

Alma sér nekt sína fyrst blasa við í bréfi sem leikkonan hafði skrifað yfirlækninum og hún stelst til að lesa. Þar segir leikkonan háðslega frá öllu því sem hjúkrunarkonan hafði sagt henni í trúnaði og það rennur upp fyrir henni að hún hefur verið svikin. Hún er brennd og reynir eftir það með öllum ráðum að ná sjálfri sér aftur.

Leikkonan og hjúkrunarkonan hafa runnið saman í eina persónu og það verður óljóst hvor er hvað, hvor þeirra gerir hvað og hvor þeirra segir hvað. Mörkin milli þessara einstaklinga hverfa. Það er sem leikkonan taki að tala í gegnum hjúkrunarkonuna og þegar eiginmaður leikkonunnar reynir að nálgast hana talar hann við hjúkrunarkonuna, af því að þögnin hefur gert hana ósýnilega. Hún hefur enga grímu lengur nema andlit hjúkrunarkonunnar. Ástarsenan milli hjúkrunarkonunnar og herra Voglers áréttar þetta ástand.

Um leið og þetta sameiningarferli er á enda sér hjúkrunarkonan að hún er að missa tökin á sjálfri sér. Hún er ekki lengur í beinum tengslum við sjálf sitt. Nú hefst einsömunarferli þar sem hún á í örvæntingarfullri baráttu við að finna mörkin milli sín og sjúklingsins til að geta orðið aftur hún sjálf. Hún ræðst á leikkonuna og reynir fyrst að rífa hana í sig, fá hana til að tala eða hverfa af sjónarsviðinu. Hún kvelur hana og særir til að finna aftur mörkin milli hennar og sjálfrar sín. Í þögn sinni er leikkonan orðin háð hjúkrunarkonunni og opinskátt mas hennar um sjálfa sig verður eins og öryggishjúpur um særða sjálfsímynd hennar. Elísabet lifir þannig sníkjulífi á Ölmu, og það birtist m.a. á þann hátt að hún sýgur blóð úr sári á handlegg hennar. Í örvæntingarfullri tilraun sinni til að endurheimta sjálf sitt biður Alma leikkonuna fyrirgefningar, en það skilar engum árangri, enda getur Elisabeth ekki staðfest hvort Ölmu sé fyrirgefið eða ekki. Fyrirgefningin krefst þess nefnilega að báðir aðilar opni sig og trúverðugt samband sé á milli þeirra.

Sambandsleysið er því algjört. Þær geta ekki báðar verið sjálfstæðir einstaklingar í því hlutverkamynstri sem upp er komið, og þá er ekkert annað að gera fyrir þær en að halda hvor í sína áttina án þess að nokkur niðurstaða fáist í raun og veru. Leikkonunni tekst að standa vörð um veiklað sjálf sitt, en hjúkrunarkonan finnur sitt aðeins með því að leita aftur á náðir fólks sem svarar henni og þar sem hún kemst ekki upp með það að blaðra út í eitt um sjálfa sig eins og sagt er.

Líklega má einnig tengja dramað í þessari margræðu mynd við persónulegar aðstæður Bergmans á nærtækari hátt en hér hefur verið gert. Bergman var um þessar mundir að slíta ástarsambandi sínu við Bibi Anderson og Liv Ullman að koma í stað hennar. Samband Bibiar og hans virðist um margt hafa verið gefandi og skapandi en samt ekki laust við átök og spennu. Þessir tveir listamenn hafa að sjálfsögðu reynt að finna sig í sambandinu og báðir gengið þar of nálægt hvor öðrum. Þessa reynslu nýtir Bergman í myndinni á mjög trúverðugan hátt, en þar teflir hann Liv Ullman fram sem staðgengli sínum. Hann er því sjálfur að vissu leyti í hlutverki leikkonunnar – listamaður sem hefur gefið of mikið af sér fyrir starf sitt listina, er tómur, hefur vanrækt fjölskyldu sína, orðinn hlutlaus áhorfandi að sjálfum sér. Í þessu ljósi má segja að myndin sé ástarævintýri þar sem Ingmar Bergman endurfæðist sem heil manneskja í persónu Liv Ullman. Líf og list eru eitt hjá Bergman eins og hjá Strindberg.

Að standa augliti til auglitis við Guð er í raun það sama og horfa á sjálfan sig að mati Bergmans. Ef til vill er boðskapur myndarinnar sá að maður sjái aldrei sjálfan sig nema í öðrum persónum sem tala við mann af einlægni um það sem skiptir mestu máli. Maður sem svarar engum og enginn hlustar á hættir að vera til, hversu mikið sem hann talar. Til þess að geta verið maður sjálfur, verður einstaklingurinn að hafa hlutverk sem tengir hann tilveru annarra. „Ég“ og „mig“ verður að vera til staðar -­ aðgreint en þó í nánum samræðum (dialog). Að þessu leyti er allt tal um sjálfstæða einstaklinga út í hött.

Boðskapur Bergmans í myndinni er sá, að til þess að finna sjálfan sig verður maður að elska aðra. Það er augljóst að um leið og leikkonan þagnar hættir hún að elska. Hún forðast eiginmann sinn og horfir tilfinningalaus á ástarleik hans og hjúkrunarkonunar. Hún afneitar syni sínum, og það er engin von til þess að hún geti orðið vinkona hjúkrunarkonunnar. Sjúkdómsgreining yfirlæknisins, sem er eins og áður segir kona, sýnir að hann hefur gott innsæi. Hún telur það alveg skiljanlega afstöðu leikkonunar að hætta að leika hlutverk fyrir aðra þegar henni finnst hún ekki lengur vera hún sjálf í þeim. En það er kanske ofrausn að vilja lifa fyrir þá tilfinningu að vera alltaf samkvæmur sjálfum sér og sannur. Hver hefur áhuga á slíku? Og er það ekki bara eitt af mörgum hlutverkum sem manni standa til boða og sem maður getur valið sér eða hafnað?

Nánari umfjöllun um Ingmar Bergman og trúarstef í kvikmyndum hans má finna í ritinu Kónguló eða kærleiksguð: Um áhrif kristindómsins á Ingmar Bergman og listsköpun hans eftir Pétur Pétursson.

Persónur úr trúarritum: djöfullinn, búddamúnkur
Guðfræðistef: þögn Guðs, dauðinn, fyrirgefning, sjálfið, ógæfa, illska heimsins, þjáningin, von, frelsun, handanveruleikinn, trú, efi, vantrú, samviskan, tilgangur lífsins, sannleikurinn, tilvistarkreppa, tómið
Siðfræðistef: ótti, þunglyndi, meðaumkun, sjálfsvíg, hjónaband, lauslæti, fóstureyðing, játning, traust, trúnaðarbrestur, hæðni, reiði, vonbrigði, hefnd, höfnun, framhjáhald, lygi, einlægni, heiðarleiki, helförin, blekking, móðurást, ábyrgð, sjálfsfyrirlitning, fegurð, ljótleiki, hatur, örvænting, grimmd, ofbeldi, ást
Trúarbrögð: hjátrú, vísindatrú, einkatrú
Trúarleg tákn: krossfesting, fórn, kónguló, persóna, gríma
Trúarleg embætti: búddhamunkur
Trúarlegt atferli og siðir: krossfesting, fórn, sjálfsvíg með því að brenna sig lifandi, lófalestur, kirkjuklukknahringing
Trúarleg reynsla: trú, vantrú, slæm samviska, samviskubit