Kvikmyndir

Phone Booth

Leikstjórn: Joel Schumacher
Handrit: Larry Cohen
Leikarar: Colin Farrell, Kiefer Sutherland, Forest Whitaker, Radha Mitchell, Katie Holmes, Paula Jai Parker, Arian Waring Ash, Tia Texada, John Enos, Richard T. Jones, Keith Nobbs, Dell Yount, James MacDonald og Josh Pais
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 81mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Stu er hraðlyginn, hrokafullur, dónalegur og sjálfumhverfur. Hann sýnir engum kurteisi nema að hann hagnist á því. Þótt hann sé kvæntur, hefur hann reynt að sænga hjá annarri konu, hinni ungu Pamelu. Stu hringir aðeins – úr símaklefa í Pamelu svo að eiginkonan komist ekki að því þegar hún fer yfir símareikningana. Einn daginn þegar Stu hefur nýlokið símtali við Pamelu, hringir síminn óvænt í símaklefanum og honum sagt að ef hann skelli á verði hann skotinn til bana. Röddin í símanum krefst þess einnig að hann játi allar syndir sínar, ekki aðeins fyrir eiginkonu sinni heldur einnig fyrir alþjóð. Að öðrum kosti verði hann drepinn eða hans nánustu.

Almennt um myndina:
Upphaflega átti að frumsýna kvikmyndina Phone Booth 15. nóvember 2002 en eftir að leyniskytturnar létu til skarar skríða í Maryland í Virginíu og í Washington D.C., var ákveðið að fresta frumsýningunni. Allt varð það þó til þess að vekja heilmikla athygli á myndinni.

Handritshöfundur myndarinnar er enginn annar en ruslmyndaleikstjórinn Larry Cohen. Hann hóf feril sinn sem handritshöfundur en sneri sér brátt að leikstjórn líka. Fyrstu myndir hans einkenndust af samfélagsgagnrýni en þekktust þeirra er líklega Black Caesar (1973). Ári síðar færði Cohen sig yfir í hryllingsmyndageirann og gerði myndir eins og It’s Alive! (1974) og framhaldsmyndirnar It Lives Again (1978) og It’s Alive III: Island of the Alive (1987). Hryllingsmyndin The Stuff (1985) vakti einnig nokkra athygli. Coen hefur oft fengist við trúarleg viðfangsefni og er hrollvekjan Demon (einnig þekkt sem God Told Me To (1977)) þar gott dæmi, en hún fjallar um nokkurs konar Messías utan úr geimnum. Í einlægni sagt hræðileg mynd og alveg ótrúleg della. Það er hins vegar núna fyrst með handritinu Phone Booth sem Cohen nær loks að slá rækilega í gegn.

Hugmyndina fengu þeir Cohen og Alfred Hitchock í sameiningu þegar þeir snæddu eitt sinn saman á veitingarstað. Hitch var hrifinn af þeirri hugmynd að láta myndina gerast í einum símaklefa en fann ekki nógu góða ástæðu til að halda honum þar allan tímann. Cohen fékk hins vegar þá hugmynd tuttugu árum síðar að styðjast við leyniskyttu.

Leikstjórinn Joel Schumacher á misgóðar kvikmyndir að baki. Hann sló fyrst í gegn með myndinni St. Elmo’s Fire (1985) og svo tveim árum síðar með The Lost Boys (1987). Eftir það hefur hann sent frá sér hvern smellinn á fætur öðrum, þótt misgóðir séu. Þar má t.d. nefna Flatliners (1990), Falling Down (1993), The Client (1994), Batman Forever (1995), A Time to Kill (1996), Batman and Robin (1997), 8MM (1999), Flawless (1999), Tigerland (2000) og Bad Company (2002).

Kvikmyndin Phone Booth var frekar ódýr í framleiðslu. Hún kostaði aðeins 10 milljónir dollara og stóðu upptökur aðeins yfir í tólf daga. Einn helsti kostur myndarinnar er kvikmyndatakan en á bak við myndavélina er enginn annar en Matthew Libatique (Pi og Requiem for a Dream).

Colin Farrell er stórkostlegur í aðalhlutverkinu og sannar hér enn og aftur leikhæfileika sína, en hann lék t.d. í myndunum Tigerland (2000), Hart’s War (2002), Minority Report (2002) og Daredevil (2003) og mun svo leika Alexander mikla í samnefndri mynd Oliver Stones á næstunni. Honum tekst furðuvel að tjá vitundarvakningu Stus og angist hans, lokaður inn í símaklefa nær allan tímann. Það kæmi ekki á óvart þótt Colin Farrell yrði næsta stórstjarna Hollywood.

Aðrir leikarar standa sig einnig ágætlega. Þar er helst að nefna þá Forest Whitaker og Kiefer Sutherland, en sá síðar nefndi fer með hlutverk „raddarinnar“. Whitaker hefur m.a. leikið í kvikmyndunum The Crying Game (1992), Blown Away (1994), Smoke (1995), Species (1995), Ghost Dog: The Way of the Samurai (1999) og Panic Room (2002). Þetta er hins vegar fjórða kvikmyndin sem Kiefer Sutherland gerir með Joel Schumacher en hann hefur áður leikið í myndunum The Lost Boy (1987), Flatliners (1990) og A Time to Kill (1996).

Phone Booth er ekki gallalaus mynd. Sögumaðurinn í upphafi myndarinnar er bæði gamaldags og með öllu óþarfur. Hann minnir einna helst á Twilight Zone þættina og skapar þá tilfinningu hjá áhorfandanum að hann sé að horfa á ódýra sjónvarpsmynd.

Rödd Kiefer Sutherland hljómar heldur ekki eins og hún sé úr síma heldur eins og hún hafi verið tekin upp í góðu upptökuveri. Það má vera að það hefði verið þreytandi að hlusta á símarödd í meira en klukkustund eða að kvikmyndagerðamennirnir hafi viljað gefa henni ójarðneskan eða jafnvel guðlegan blæ. Hver svo sem ástæðan er þá er röddin einfaldlega ekki nógu trúverðug. Smá „símablær“ hefði gert gæfumuninn.

Að lokum þótti mér það ótrúverðugt að eiginkonu Stus sé leyft að ganga fyrir framan klefann eftir að ljóst er orðið að leyniskytta sé í nágrenninu, sem geti skotið hana hvenær sem er.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Phone Booth er dæmigerð endurlausnarmynd. Stu er hreinræktaður skíthæll. Eins og hann játar sjálfur í myndinni þá hefur hann aldrei gert neitt fyrir aðra án þess að græða á því sjálfur. Síðar segir hann einnig: „2000 dollara úrið mitt er gervi og það sama á við um mig.“ Eins og áður sagði leikur Colin Farrell Stu, en í viðtali sem er að finna á heimasíðu myndarinnar segir hann: „Stu hefur einstæða hæfileika til að blekkja fólk. En undir glæsilegri ásýndinni er hann yfirborðkenndur. Hann lýgur stöðugt án þess að hugsa um afleiðingar þess. Hann er orðinn svo vanur því að ljúga að hann gerir ekki lengur greinarmun á sannleika og lygi. Stu leggur of mikla áherslu á hluti sem skipta engu máli. Hann heldur að heimurinn snúist um hann sjálfan.“

Þessi gervimanneskja neyðist síðan til þess að líta í eigin barm. Colin Farrell segir einmitt í sama viðtali: „Þessi mynd er meira en spenna. Hún rannsakar kræklótta og lífshættulega leið persónunnar í átt til endurlausnar.“ Forest Whitaker, sem leikur lögregluforingjann Ramey segir einnig: „Það sem Stu áttar sig á í myndinni, er nokkuð sem ég held að allir þurfi einhvern tímann í lífinu að horfast í augu við: Að þau þurfa öðru hvoru að líta í spegil og endurskoða líf sitt.“

Í þessu sambandi er sérstaklega áhugavert að skoða umhverfið í kringum símaklefann. Á bak við hann stendur stórum stöfum í glugganum: „Hver heldur þú að þú sért?“ Þetta er einmitt það sem Stu þarf að spyrja sjálfan sig að. Hann lifir í sjálfsblekkingu og þarf að horfast í augu við sína eigin yfirborðsmennsku og andlega fátækt.

Á öðrum stað er verið að auglýsa ilmvatn sem heitir Penance. Nafnorðið „penance“ þýðir „yfirbót“ eða „betrun“ á íslensku en sögnin merkir „refsing“. Báðar merkingarnar birtast í myndinni. Stu er refsað fyrir syndir sínar, en hann hefur möguleika á að bjarga lífi sínu með því að játa misgjörðirnar og sýna einlæga iðrun.

Ljóst er að sá sem hringir í Stu (köllum hann bara röddina) er alvarlega veikur á geði. Hann tekur á sig hlutverk sem gæti vísað til Guðs eða refsandi engils. Fyrir það fyrsta segist hann sjálfur vera að þessu til að refsa hinum syndugu og gefa þeim tækifæri til að iðrast og bæta líf sitt. Margt af því sem hann segir hefur einnig trúarlegan blæ. Hann sakar t.d. Stu um að hafa drýgt hór og þegar Stu segist aðeins hafa hugsað það en aldrei gert neitt bendir röddin honum á að það gildi einu hvort hann hugsi um glæpinn eða framkvæmi hann. Þetta minnir óneitanlega á fjallræðu Krists þar sem hann segir: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.` En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Mt 5:27-28.)

Trúarlegt orðfæri raddarinnar er víðar. Hún biður t.d. Stu um að spyrja lögregluforingjann Ramey hvort hann „svívirði sjálfan sig (abuses himself)“ en þar er verið að vísa til skoðunar ýmisra kirkjudeilda um að sjálfsfróun sé synd og sjálfsniðurlæging. Við þetta bætist að röddin er allt um liggjandi. Það er eins og hún sé ekki aðeins bundin við símann heldur að hún komi að ofan. Kvikmyndatakan leggur áherslu á þetta en sjónarmið raddarinnar er yfirleitt sýnt ofan frá, rétt eins og um guðlegan dóm sé að ræða. Símaklefinn er því nokkurs konar skriftarstóll en á sama tíma dómssalur. Röddin segir meira að segja á einum stað: „Játaðu syndir þínar og biddu um syndaaflausn.“

Stu reynir fyrst að bjarga eigin skinni með lygum, mútum og gylliboðum. Þegar það gengur ekki grípur hann til hálfsannleks og hvítrar lygi. Ekkert af þessu virkar þó. Það er ekki fyrr en hann áttar sig á því að hann verður drepinn hvort sem er að hann lítur í eigin barm og játar syndir sínar í einlægni. Þetta er í fyrsta skipti sem Stu gerir eitthvað sem er ekki sprottið af eiginhagsmunasemi, heldur af einlægri iðrun og kærleika.

Þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar ættu ekki að lesa lengra. Þrátt fyrir játningar Stus hótar röddin að skjóta eiginkonu hans og Pamelu en á þeirri stundu tekur hann síðasta skrefið í átt til sjálfsleysis. Hann stígur út úr símklefanum í krossfestingarstellingu og biður leyniskyttuna um að skjóta sig í staðinn. Hann er þó ekki skotinn af röddinni heldur af lögreglumanni, en lögreglan hafði umkringt staðinn og grunað Stu um morð. Stu fellur niður „dauður“ en í ljós kemur að hann var skotinn með gúmmíkúlu. Stu „rís“ því á táknrænan hátt upp frá dauðum eftir að hafa fórnað lífi sínu fyrir eiginkonu sína og Pamelu. Stu fær því á táknrænan hátt hlutdeild í fórn Krists, þ.e. hann upplifir afturhvarf sem er hlaðið kristnum tilvísunum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 32:5; Ok 28:13; Mt 5:27-28; Jk 5:16; 1Jh 1:9
Guðfræðistef: refsing, endurlausn, afturhvarf, játningar, iðrun
Siðfræðistef: dónaskapur, kurteisi, trúverðugleiki, blekking, lygar, svik, hatur, klám, dónaskapur, móðgun, framhjáhald, kynferðisleg misnotkun á börnum, sjálfsfróun, morð, auðmýkt, heiðarleiki, játningar, yfirborðsmennska, efnishyggja, iðrun
Trúarleg embætti: gospelkór
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur, játningar, iðrun
Trúarleg reynsla: endurlausn