Leikstjórn: Darren Aronofsky
Handrit: Darren Aronofsky
Leikarar: Sean Gullette, Mark Margolis, Ben Shenkman, Pamela Hart, Stephen Pearlman, Samia Shoaib
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1998
Lengd: 80mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0138704
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Maximillian Cohen er stærðfræðisnillingur sem leitar að alheimskerfi sköpunarinnar. Hann trúir því að allt fylgi ákveðnu skipulagi og að það sama eigi við um verðbréfamarkaðinn. Þar sem rannsóknir Cohens hafa spurst út sitja verðbréfakaupmenn og kabbalistar um Cohen til að komast yfir niðurstöður hans.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Leikstjóri Pi er íslandsvinur en hann kom til landsins þegar mynd hans var sýnd á kvikmyndahátíð hér á landi. Þessi frumraun Aronofsky skaut honum upp á stjörnuhimininn. Myndin er súríalisk í anda Eraserhead eftir meistara David Lynch.
Aðalhetja myndarinnar heitir Maximillian Cohen en á íslensku myndi það útleggjast sem æðsti prestur (Cohen er hebreska og þýðir prestur). Það er engin tilviljun að hann heiti æðsti prestur enda er markmið hans það sama og starf æðsta prestsins var hjá hebreum til forna, þ.e. að komast inn í innsta helgidóminn og standa frammi fyrir Guði, auglit til auglitis.
Eins og fram kemur í myndinni fólst mikil hætta í starfi æðsta prests. Hlutverk hans var að ganga inn í innsta helgidóm musterisins á Síon þar sem sáttmálsörkin var geymd. En aðeins syndlausir menn máttu nálgast helgidóminn því að öðrum kosti duttu þeir niður dauðir. Þetta er nákvæmlega það sem Cohen er að ganga í gegnum. Því nær sem hann kemst markmiði sínu því veikari verður hann.
Sol Robeson, lærifaðir Cohens, hafði einnig rannsakað sama fyrirbæri en hann hætti þegar hann fékk hjartaáfall. Sol Robeson reynir síðar aftur að leysa gátuna en sú tilraun leiðir til dauða hans. Cohen er því eins og æðsti prestur sem nálgast helgidóminn en spurningin er bara hvort hann sé nógu flekklaus til að lifa það af.
Fyrsta tilraun Cohens til að nálgast Guð var að stara í sólina. Um miðbik myndarinnar segir hann að rétt áður enn sólarljósið blindaði hann hafi allt orðið skýrt og augljóst. Eftir þennan atburð fékk Cohen fyrst mígreniskast en þau hafa færst í aukana eftir því sem hann nálgast takmark sitt.
Cohen kynnist Kabbalistum, en Kabbala er gyðinglegur dulspekiátrúnaður. Einn kabbalistinn útskýrir fyrir Cohen að hebreskir stafir hafa tölgildi og að baki hebreskra orða er stærðfræðilegt skipulag. Þegar hann útskýrir fyrir Cohen tölugildið að baki aldingarðsins í Eden og lífsins trés finnur Cohen lausn á vandamáli sínu.
Þessi tengsl við Eden eru áréttuð þegar Rabbíi krefst þess að fá tölurnar sem Cohen hefur komist að því þær séu nafn Guðs og lykillinn að Eden. Sá sem hefur þessa tölu getur opnað leiðina að Eden að nýju og flýtt komu messíasar. Myndin snýst því um baráttu um Eden.
Jafnt trúarleiðtogar sem verðbréfamangarar berjast um að fá lykilinn að Eden (og nú ljóstra ég upp um endi myndarinnar). Cohen neitar að segja frá niðurstöðum sínum en vitneskjan er hins vegar að ganga að honum dauðum. Það er ekki fyrr en Cohen lætur af skynsemi sinni (það er sýnt táknrænt þegar Cohen borar í hausinn á sér) að honum tekst að lifa með þekkingu sinni. Þá fyrst upplifir hann guðdóminn, hið guðlega flæði, og í fyrsta skiptið í myndinni sjáum við Cohen brosa.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1, 1M 2-3, 2M 20:1-17 og 5M 5:1-22, Þegar Rómverjar brendu musterið gekk æðsti presturinn inn í eldhafið og for með lykilinn upp á þak logandi byggingarinnar. Þá opnuðust himnarnir og tóku lykilinn úr útréttum höndum æðsta prestsins (Talmúd).
Persónur úr trúarritum: Guð, Ikarus, Messías, Móse, æðsti prestur
Sögulegar persónur: Pythagoras
Guðfræðistef: flekkleysa, fullkomnun Guðs, nafn Guðs, sköpun Guð
Trúarbrögð: gyðingdómur, Hasid, Kabbala
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: musterið, sáttmálsörkin
Trúarleg tákn: tefillin
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, tefillin
Trúarleg reynsla: opinberun, uppljómun