Kvikmyndir

Predator

Leikstjórn: John McTiernan
Handrit: Jim Thomas og John Thomas
Leikarar: Arnold Schwarzenegger, Carl Weathers, Elpidia Carrillo, Bill Duke, Jesse Ventura, Sonny Landham, Richard Chaves, R.G. Armstrong, Shane Black og Kevin Peter Hall
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1987
Lengd: 106mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Sérþjálfuð sveit bandarískra hermanna, sem send er inn í frumskóga Mið-Ameríku til að bjarga nokkrum gíslum, er hundelt af geimveru í vígahug.

Almennt um myndina:
Hrollvekjan Predator er önnur kvikmynd harðhausaleikstjórans Johns McTiernans, en aðrar myndir á leikstjóraskrá hans eru t.d. Die Hard (1988), The Hunt for Red October (1990), Medicine Man (1992), Last Action Hero (1993), Die Hard: With a Vengeance (1995), The 13th Warrior (1999), The Thomas Crown Affair (1999) og Rollerball (2002).

Höfundar handrits eru bræðurnir Jim og John Thomas, en þeir hafa skrifað öll sín handrit saman. Predator var þeirra fyrsta handrit, en þeir hafa einnig skrifað handrit kvikmyndanna Predator 2 (1990), Executive Decision (1996), Mission to Mars (2000) og Behind Enemy Lines (2001). Þá eru þeir höfundar sögunnar að baki hinnar misheppnuðu myndar Wild Wild West (1999).

Upphaflega átti Jean-Claude Van Damme að leika geimveruna, en hann hætti eftir aðeins tvo daga, enda átti hann aldrei að sjást í eigin persónu. Geimveran var þá endurhönnuð og Kevin Peter Hall ráðinn í stað hans. Endurhönnun geimverunnar leiddi til þess að nafni myndarinnar var að lokum breytt, en hún átti fyrst að heita „Hunter“. James Cameron kom einnig að þessari mynd en hann á víst hugmyndina að kjálka geimverunnar.

Það kemur ekki á óvart að myndin skuli hafa verið tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir tæknibrellur, enda eru þær nokkuð vel unnar. Það fer hins vegar í taugarnar á mér að þótt geimveran eigi aðeins að geta séð hita, þá kemur hún samt auga á kalda og örsmáa hluti eins og gildrur og víra. Þá vekur það einnig furðu að geimveran skuli geta smíðað svona fullkomin tæki með ekki betri sjón en raun ber vitni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hrollvekjan Predator er hefðbundin harðhausamynd. Karlmennirnir eru að springa af karlhormónum og á það jafnt við um vöxt þeirra, stæla, húmor og vopn. Gott dæmi er t.d. þegar Poncho segir við Blain: „You’re bleeding, man!“ Og Blain svarar: „I ain’t got time to bleed!“ Slíkar staðalmyndir er að sjálfsögðu afskaplega þreyttar og alls ekki æskilegar fyrir óharðnaða unglinga, sem er einmitt sá hópur sem sækist hvað mest í svona myndir.

Það er einkennandi við þessar myndir að aðalpersónan fyrirlítur yfirboðara sína, sbr. orð Dutch (Arnold Schwarzenegger) þegar hann leggur gamlan félaga sinn í sjómann, en sá hafði yfirgefið vígvöllinn og tekið að sér stjórnunar- og skrifstofustörf fyrir CIA: „What’s the matter? The CIA got you pushing too many pencils?“ Óbeit þeirra á yfirvöldum er yfirleitt réttmætt, enda kemur það á daginn að á meðan Dutch er heilindin uppmáluð verða ráðamennirnir uppvísir að lygum og svikum.

Geimveran er nokkrum sinnum sögð vera djöfull, sem er áhugavert í ljósi þess að hún dregst einkum að ofbeldi og ranglæti rétt eins og hún sé afkvæmi blóðugra átaka svæðisins. Þá er það viðeigandi að kalla geimveruna djöful, enda er hún illskan holdi klædd.

Nokkuð er um trúarleg áköll og siði í myndinni, svo sem ákall til Guðs og Maríu meyjar og signun. Indíáninn treystir reyndar á verndargrip sinn framan af (ekki kemur fram hvaða átrúnað hann aðhyllist), en gefst að lokum upp þegar hann áttar sig á því að hvorki verndargripir né vopn virðast bíta á þessa ókind.

Það er áhugavert að skoða afstöðu myndarinnar til tækninnar. Þótt hersveitin sé búin öllum tæknilegustu vopnum, sem hægt er að hugsa sér, tekst henni ekki að ráða niðurlögum geimverunnar. Það er ekki fyrr en Dutch hverfur aftur til náttúrunnar, smíðar sér boga og setur upp gildrur af náttúrulegum toga sem eitthvað fer að ganga. Það er því ljóst að þótt vísindin séu góð, koma þau aldrei í staðin fyrir frumstæða verkkunnáttu mannsins.

Persónur úr trúarritum: María mey, Guð, djöfull, geimvera
Guðfræðistef: illska
Siðfræðistef: karlmennska, stríð, ofbeldi, lygi, traust, heilindi, morð, aftaka
Trúarbrögð: átrúnaður indíána
Trúarleg tákn: verndargripur
Trúarlegt atferli og siðir: signun, ákall