Leikstjórn: Franco Prosperi [undir nafninu Frank Shannon]
Handrit: Franco Prosperi [undir nafninu Frank Shannon]
Leikarar: Robert Webber, Franco Nero, Jeanne Valérie, José Luis de Villalonga, Gianni De Benedetto (undir nafninu John Hawkwood), Michel Bardinet, Cec Linder, Theodora Bergery, Earl Hammond og Giovanni Cianfriglia
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1966
Lengd: 93mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Clint Harris er búinn að fá nóg af starfi sínu sem launmorðingi á vegum bandarísku mafíunnar og tilkynnir yfirboðara sínum að hann ætli að draga sig í hlé. Þar sem mafían er farin að gruna einn af valdamestu liðsmönnum sínum um samstarf við yfirvöld, er þrýst á Harris að ljúka starfi sínu með því að myrða manninn. Hann samþykkir það hins vegar aðeins gegn margfaldri launagreiðslu og er sendur ásamt væntanlegum arftaka sínum til Frakklands til að hafa uppi á uppljóstraranum. Áður en langt um líður rennur þó upp fyrir Harris að innan mafíunnar fær enginn að setjast í helgan stein og reynast honum allar bjargir bannaðar.
Almennt um myndina:
Mjög góð ítölsk sakamálamynd með stílhreinni kvikmyndatöku Ericos Menczers, en ásýnd hennar minnir að mörgu leyti á bandarísku sakamálamyndina Point Blank (John Boorman: 1967), sem gerð var aðeins ári síðar og þykir með bestu sinnar tegundar. Í báðum myndunum er ávallt talað um mafíunu sem „samtökin“ og eru starfshættir hennar mikið til þeir sömu. Helsti munurinn á þessum tveim myndum er hins vegar atburðarrásin og klippingarnar sem eru mun frumlegri í Point Blank, en þar er farið fram og aftur í tíma og fortíð og nútíð jafnvel fléttuð saman með mynd og hljóðrás.
Robert Webber lék ekki aðalhlutverk í mörgum myndum en hann var afkastamikill aukaleikari og eftirminnilegur eins og sakamálamyndin Bring Me the Head of Alfredo Garcia (Sam Peckinpah: 1976) er ágætt dæmi um en þar lék hann samkynhneigðan leigumorðingja. Webber fer sömuleiðis vel með hlutverk launmorðingjans Clints Harris og veitir honum viðeigandi alvöruþunga í anda lánlausra sögupersóna film noir myndanna. Í hlutverki ungs arftaka hans hjá mafíunni er hins vegar ítalski harðhausaleikarinn Franco Nero, sem er hér í einni af fyrstu myndum sínum og stendur hann sig vel.
Enda þótt myndin sé að mörgu leyti mjög góð, a.m.k. fyrir áhugamenn um bölsýnar ítalskar sakamálamyndir, er hún alls ekki gallalaus. Helsti gallinn er illa útfærður bílahasar í frönsku fjalllendi, sem líkur með því að Harris nær að keyra aftan á bíl þess sem hafði elt hann og kemur honum þannig út af veginum niður snarbratta hlíð. Ákeyrslan er í alla staði mjög ósannfærandi, auk þess sem bíllinn springur einhverja hluta vegna í loft upp svo til um leið og hann fer út af veginum.
Myndin er fáanleg á DVD frá King Records í Japan og er þar bæði með ítölsku og ensku talsetningunni en japanska textann er hægt að taka burt. Bæklingur upp á fjórar blaðsíður fylgir með en textinn er allur á japönsku. Blessunarlega er myndin í réttum 2.35:1 breiðtjaldshlutföllum, enda myndramminn notaður til fullnustu. Litirnir eru þó frekar daufir og línur ekkert voðalega skarpar en í auglýsingarsýnishorni myndarinnar (trailer), sem fylgir með á diskinum, eru myndgæðin hins vegar stórgóð og litirnir fínir. Þrátt fyrir þessa annmarka er alveg horfandi á myndina og hefur margt verulega verra verið gefið út á DVD.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í undirheimunum stórborganna er sjaldnast neinum að treysta enda láta glæpamennirnir sér jafnan fátt um hag náungans finnast. Og þegar menn þóknast þar ekki lengur ráðandi öflum leggja þeir aðeins líf sitt að veði. Persónur myndarinnar hafa flestar brennt allar brýr að baki sér og eiga sér því engrar undankomu auðið en það á jafnt við um launmorðingjann Clint Harris og fórnarlömb hans.
Athygli vekur að ferill launmorðingjans byrjaði í bandaríska hernum í síðari heimsstyrjöldinni þar sem hann náði skjótum frama sem leyniskytta vegna skotfimi sinnar úr launsátri. Að stríðinu loknu bauðst honum svo vellaunað starf innan mafíunnar þar sem hann tók bráðlega að sjá um að koma ýmsum þeim fyrir kattarnef sem fallið höfðu í ónáð hjá henni. Clint Harris er því í raun ekkert annað en morðingi með ótal mannslíf á samviskunni og kemur það honum aðeins í koll.
Eins og í svo mörgum ítölskum myndum af þessum toga er bölsýnin alls ráðandi. Í rauninni á myndin margt skylt með gömlu film noir myndunum og er megin boðskapurinn sá að menn uppskera eins og þeir sá og glæpir borga sig ekki.
Guðfræðistef: mennskan, illskan
Siðfræðistef: manndráp, svik, uppljóstrun, vímuefnaneysla, lygi, ofbeldi, skipulagðir glæpir