Kvikmyndir

Przypadek

Leikstjórn: Krysztof Kieslowski
Handrit: Krysztof Kieslwoski
Leikarar: Boguslaw Linda, Boguslawa Pawelec, Jacek Borkowski, Tadeusz Lomnicki, Monika Gozdzik, Irene Burska, Adam Ferency, Zbigniew Hubner, Marzena Trybala og Zbigniew Zapasiewicz
Upprunaland: Pólland
Ár: 1981
Lengd: 122mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0084549
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Przypadek heitir á ensku Blind Chance, en það má þýða sem Blind tilviljun.

Aðalpersónan, Witek, sem leikin er af Boguslaw Linda, hefur lokið fjórum árum í læknadeild háskólans í bænum Lodz í Póllandi þegar faðir hans deyr. Móðir hans hafði látist af barnsförum þegar hún átti hann árið 1956, en það var ósk föður hans að hann legði stund á læknisfræði. Þeir feðgar virðast hins vegar aldrei hafa náð góðu sambandi og það er eins og Witek geti ekki tjáð sig við föður sinn. Hann gerir hlé á námi sínu og ætlar með lest til Varsjá. Myndin gerir í framhaldi af því út á þrjá möguleika, þ.e. þrenns konar atburðarás, og tekur líf Witeks mismunandi stefnu að því er virðist fyrir hreina tilviljun í öll skiptin.

Þrennan byrja allaf eins. Witek er að missa af lestinni og reynir að hlaupa hana uppi. Í fyrstu lotunni nær hann lestinni, en í þeim tveimur næstu missir hann af henni. Það er mjótt á mununum og hann er aðeins hársbreidd frá því að ná í handfang lestarhurðarinnar í seinni skiptin.

Í fyrstu lotunni verða tveir eldri menn á vegi hans. Þeir sátu saman í pólsku fangelsi á árunum eftir seinna stríð, grunaðir um njósnir. Þeir eru látnir lausir eftir nokkur ár og líf þeirra tekur ólíka stefnu, enda eru þeir ólíkir menn að upplagi. Annar þeirra, Werner, er grandvar og samkvæmur sjálfum sér, en lifir við erfið kjör og nýtur engra forréttinda af kerfinu. Adam, sem er sjálfhverfur tækifærissinni, hefur hins vegar komið sér vel fyrir. Hann stal konunni frá vini sínum og er hátt settur í kerfinu. Hann sér hins vegar að það muni ekki eiga framtíð fyrir sér og lætur því eins og hann vilji það feigt. Witek gengur í flokkinn og er þar á framabraut fyrir atbeina Adams. En hann er of heiðarlegur til að klifra þar upp metorðastigann og rekst brátt á óyfirstíganlegan vegg, sem gerir það m.a. að verkum að hann er rekinn úr flokknum og kemst ekki til Parísar.

Í næstu lotu lendir Witek í smá brösum og þarf að vinna af sér sekt í óborgaðri þegnskylduvinnu. Þar er hann leiddur á vit andspyrnuhreyfingarinnar og rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hann tekur þátt í starfsemi hreyfingarinnar af heilindum og lætur skírast til kaþólskrar trúar, en ofurviðkvæmni félaga hans leiðir til þess að hann er grunaður um að vera í vitorði með lögreglunni, og fyrir vikið kemst hann ekki með söfnuðinum til Parísar.

Þriðja lotan leiðir hann á vit skólasystur sinnar, góðrar stúlku, sem hann kvænist og eignast barn með. Hann snýr aftur að læknanáminu og öðlast frama innan háskólasjúkrahússins. Deildarforsetinn fellur í ónáð hjá yfirvöldum og Witek kemur í hans stað. Brautin virðist bein en þrátt fyrir hugboð konu hans um að hann eigi ekki að þiggja boð um fyrirlestraferð erlendis, ákveður hann að fara. Myndin endar á því að flugvélin á leið til Parísar springur í tætlur rétt eftir að hún hefur hafist á loft.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
PlottiðRáða tilviljanir því algerlega hvernig líf okkar verður? Veltur það á smáatriðum eins og sekúndum hvar við lifum lífinu og hvernig? Er framtíðin óskrifað blað eða erum við búin einhverjum þeim eiginleikum sem gera það að verkum að sjá megi fyrir um hvar við lendum í lífinu? Eða er það ákveðið einhversstaðar fyrirfram hvernig lífshlaup okkar verður?

Um þetta hafa heimspekingar hugsað frá upphafi, svo og skáld, listamenn og lífskústnerar. Þessar spurningar leita einnig á venjulegt fólk, alla vega endrum og eins. Maðurinn á erfiitt með að hugsa sér að blindar tilviljanir liggi á bak við atburði sem ráða úrslitum. Guð hlýtur að koma að þessu, annað hvort til að refsa okkur eða umbuna. Kanski er þetta allt fyrirfram skráð í stjörnurnar. Dags daglega finnst okkur lífið fari eftir kunnuglegum brautum og tengingum áætlana og atburða, væntinga og venja. Þess vegna ríkir þrátt fyrir allt regla í mannlegu samfélagi sem er forsenda breytinga og skipulagðrar hugsunar um einstök atriði.

Myndin einkennist af þessum vangaveltum enda voru þær mikilvægar fyrir Kieslowski. Hann glímdi einnig við þær í öðrum myndum sínum eins og t.d. Tvöföldu lífi Veróníku sem gerð var árið 1991. Glíman við þessar spurningar er ekki á eina bókina lærð hjá Kieslowski fremur en endra nær, en hún er trúverðug og sýnir okkur eins og svo margar aðrar myndir hans að hversdagslegt líf getur verið mjög óvenjulegt.

Í viðtali sem tekið var við hann nokkru áður en hann lést ræðir Kieslowski fram og aftur um þetta viðfangsefni og þar kemur fram að hann telur ekki að það sé til einfalt svar við spurningunni um þýðingu tilviljana í lífinu. Sum atriði í lífi okkar, sem ráða miklu um stefnu þess, eru tilviljunum háð en önnur ekki. Við búum yfir ákveðnum persónueiginleikum og gildismati sem gerir það líklegra að við tökum eina stefnu fram yfir aðra. En þar með vitum við samt ósköp lítið um líf okkar. Við erum nefnilega svo háð lífi annarra og atburðum sem við ráðum engan veginn yfir né getum séð fyrirfram hvernig æxlast muni. Ótrúlega léttvæg atvik eins og það að manni seinki um fimm sekúndur geta valdið úrslitum um það hvort leið liggur upp á við í kerfinu eða hvort maður kemst upp á kant við það.

Eins og svo oft í myndum Kieslwoskis eru það mannleg samskipti og líf venjulegs fólks sem hann er að lýsa, kanna og greina. Atburðarásin fléttast um aðalpersónuna sem lendir í aðstæðum sem kalla á ákvarðanatekt og sjálfskoðun. Viðbrögð fólksins sem hann kynnist leiða hann á nýjar brautir og þannig sjáum við að lífið þróast í ólíkar áttir, en persónan er sú sama. Með þeirri aðferð sem leikstjórinn velur og myndar í lokin eins konar þrívídd, fáum við óvenju góða innsýn í þessa frábæru persónusköpun. Samtöl og atburðarás eru trúverðug og þess vegna kynnumst við vel samfélaginu, sem fólkið býr í, pólska þjóðfélaginu í lok áttunda áratugarins.

Witek er vandaður ungur maður með ríka réttlætiskennd. Hann hefur metnað en vill ekki hagnast á kostnað annarra og ber virðingu fyrir samferðafólki sínu. Áhorfandi myndarinnar fær samúð með honum, heldur með honum og skilur hann og þann vanda sem hann ratar í í Póllandi í valdatíma kommúnista. Myndin er ekki pólitísk í hefðbundinni merkingu þess orðs, en hún er samt nærgöngul og vönduð lýsing á ástandinu eins og það var í Póllandi. Það finnst að minnsta kosti undirrituðum sem árið 1979 ferðaðist með lest niður allt Pólland til Ungverjalands og aftur til baka, á Pólverja að kunningjum og hafði eitt sinn leiðbeinanda í háskólarannsóknarvinnu sem er sérfræðingur í kommúnismanum eins og hann þróaðist í Póllandi eftir síðari heimsstyrjöldina.

Margir leiða hugann að því hvað þeir mundu gera ef þeir gætu byrjað lífið upp á nýtt. Witek er í þeim þremur tilhlaupum, sem hann fær í lífinu, á leið til Frakklands, nánar tiltekið til Parísar. Í tveim fyrstu tilvikunum kemst hann ekki nema á flugvöllinn. Enda þótt kerfið sé seint í vöfum, getur það auðveldlega stöðvað hvern þann sem æltar sér að komast vestur. Þegar hann svo loks kemst út fyrir hramm kerfisins, er sestur upp í flugvélina og kominn á loft, springur hún í tætlur. Evrópa er enn klofin og múrinn óyfirstíganlegur, líka fyrir Boeing breiðþotur.

TrúarstefMegin spurning kvikmyndarinnar er auðvitað háguðfræðileg. Sú tegund guðfræði, sem tekur mið af stað og stund og því að manneskjan er sífelt frammi fyrir viðfangsefnum þar sem hún þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir varðandi líf sitt og annarra, fæst í rauninni við sama viðfangsefni og kvikmyndin Blind tilviljun gerir.

Oft hvarlaði hugur þess, sem þetta ritar, á vit danska heimspekingsins og guðfræðingsins K. E. Lögstrup, sérstaklega bókarinnar Den etiske Udfordring. Lögstrup gerir ekki greinarmun á kristinni siðfræði og almennri siðfræði. Hann bendir á að við verðum til sem hugsandi og ábyrgar verur frammi fyrir augliti Guðs og náungans í aðstæðum sem krefjast ákvarðanna sem varða líf og velferð samferðafólks okkar. Þar er engin sjálfsögð og fyrirfram gefin auðveld leið að gera út á. Við gefum af okkur þegar við tökum ákvarðanir. Í angistinni sem það getur kostað okkur að velja sköpum við öðrum möguleika til að vaxa og þroskast. En við getum aldrei tekið af þeim sjálfum ómakið að velja. Þetta kostar það að trúa. Þeir sem fastir eru í viðjum niðurrifs og mannfyrirlitningar eiga enga von og engan guð, ekki einu sinni einkaguð.

Þegar Witek lendir í andspyrnuhreyfingunni kynnist hann að sjálfstögðu rómversk-kaþólsku kirkjunni, sem var eins og kunnugt er mikilvægur þátttakandi í andófinu gegn kommúnismanum. Góð kynni takast með Witek og prestinum sem skipuleggur dreifingu ólöglegra blaða og bæklinga til verkalýðsfélaga og safnaðarfólks. Witek segir við hann að það sé merkilegt til þess að vita að ef hann hefði náð lestinni til Varsjá hefðu þeir ekki hist. „Það er nú bara tilviljun“, segir presturinn íbygginn. Witek svarar: „Mér finnst það stundum líka.“

Witek er síðan sendur með peninga til trúaðrar konu sem aðstoðar við dreifingu ólöglegs lesefnis. Þá hafa útsendarar lögreglunnar verið þar og sett allt á annan endann til að finna meint sönnunargögn um ólöglega starfsemi. Konan leiðir Witek í sannleikan um það að hún sé ekki ein þótt hún eigi enga að og bendir honum t.d. á að guð hafi sent hann sjálfan til að hún yrði ekki ein eftir þessa óskemmtilegu uppákomu. Witek hefur aldrei beðið til guðs, en hann vill taka skírn. Vinur hans, presturinn, lætur þetta eftir honum með semingi. Í kirkju fyrir framan róðukross biður hann fyrstu bæn sína, hikandi en einlægur. Inntak hennar er þetta: „Góði guð. Ég er skírður og tilbúinn og ég bið þig aðeins um eitt. Vertu til. Vertu.“

Í fyrstu útgáfunni af lífi Witeks þar sem hann er á framabraut inn í innsta hring kommúnistaflokksins má greina óbein biblíustef. „Legg þú á djúpið“, segir Adam, tækifærissininn og flokksmaðurinn þegar hann vill að Witek njósni um vini sína og komi upp um ólöglega útgáfustarfsemi þeirra. Þegar Werner flytur fyrirlestur fyrir nemendur um hugsjónir og veruleika kommúnismans talar hann um það ljós sem var svo nálægt ungum hugsjónamönnum sem trúðu á Marx og Lenin. Síðan komu aðrir tímar og annar veruleiki sem einnig hafði sín mörk og sinn tíma, en ljósið hafði fjarlægst með árunum og reynslunni. Hér hvarflar hugurinn til Predikarans í Gamla testamentinu.

Ýmis önnur atvik og skírskotanir vekja tengsl við trúarleg stef, en of langt mál væri að fara í þann sparðatíning hér, enda óþarfi þar sem sjálft plott myndarinnar er trúarlegs eðlis og gæti það leitt okkur frá meginþema þessa snildarverks Kieslowskis ef hvert einasta atvik væri útskýrt og útlagt.

Einu verð ég þó að bæta við. Þegar Witek tegir sig á hlaupunum þrisvar í handfang lestarhurðarinnar og nær að snerta það einu sinni þá hvarlar hugurinn ósjálfrátt að veggmálverkinu fræga eftir Michaelangelo í Sixtensku kapellunni þar sem fingur guðs snertir næstum fingur Adams, sem réttir hendina í átt að skapara sínum. Maðurinn er því e.t.v. ekki aðeins leiksoppur í þeim örlögum sem honum eru sköpuð eða þeim atvikum sem hann lendir í. Hann hefur hönd með í spilinu og snertir þannig veruleikann sem er bak við allt sem er. Sá veruleiki fjallar um það hvernig líf manns hefur áhrif á líf annarra sem er uppistaðan í siðfræðinni hvort sem hún er sérkristin eður ei.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: Predikarinn
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Karl Marx, F. Engels
Guðfræðistef: tilviljun, ráðsályktun, sköpun, ábyrgð, kærleikur
Siðfræðistef: siðfræði staðar og stundar, tækifærismennska
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, trúleysi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross í hálsbandi, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: signing, bæn, skírn, borgaraleg hjónavígsla