Kvikmyndir

Pushing Daisies 1:1 Pie-Lette

Pushing Daisies

Leikstjórn: Barry Sonnenfeld
Handrit: Bryan Fuller
Leikarar: Lee Pace, Anna Friel, Chi McBride, Kristin Chenoweth, Jim Dale
Kvikmyndataka: Michael Weaver
Tónlist: James Dooley
Framleiðsluland: Bandaríkin
Framleiðsluár: 2007
Lengd: 42
Útgáfa: Dvd, svæði 1
Hlutföll: 1.85:1
Tegund: Gamanþættir, drama
Stjörnur: 3

Ágrip af söguþræði:

Ned hefur þann sérstaka hæfileika að þegar hann snertir látið fólk lifnar það við. Þegar hann snertir það aftur deyr það. Snerti hann viðkomandi ekki innan einnar mínútu deyr einhver annar. Í þessum þætti lífgar hann æskuást sína, Chuck, í þeim tilgangi að komst að því hver myrti hana.

Umfjöllun um trúar- og siðferðisstef

Pushing Daisies eru áhugaverðir þættir sem varpa ljósi á spurningar um dauða og upprisu, morð og manndráp, lygi og sannleika. Í þessum þætti kemur fyrir óbein tilvísun í 1. Mósebók. Þegar Ned segir Emerson að hann þekki Chuck frá barnæsku spyr sá síðarnefndi hvort hann þekki hana í „Biblíulegum skilningi.“ Það orðalag getur t.d. vísað til 1M 19.4-8 þar sem segir:

Þeir höfðu ekki enn gengið til hvíldar þegar borgarmenn, menn Sódómu, slógu hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn til síðasta manns, og kölluðu til Lots:

„Hvar eru mennirnir sem komu til þín í kvöld? Leiddu þá út til okkar að við megum kenna þeirra.“

Lot gekk út um dyrnar til þeirra, lokaði á eftir sér og sagði: „Bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. Sjáið til, ég á tvær dætur sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til ykkar og þið getið gert við þær sem ykkur lystir. Aðeins að þið gerið ekkert mönnum þessum því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.“

Orðið „kenna“ sem kemur fyrir tvisvar í þessum texta er í ýmsum enskum útgáfum þýtt sem „know“. Að baki býr hebreska sögnin „jada“ sem skírskotar ekki bara til þess að þekkja einhvern heldur einnig til kynlífs. Orðasambandið „know in the biblical sense“ vísar þannig til þess að hafa stundað kynlíf saman.

Þetta er því dæmi um það hvernig orðatiltæki geta vísað til Biblíunnar í sjónvarpsþáttum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta í trúarritum: 1M 19.4-8
Guðfræðistef: upprisa
Siðfræðistef: morð, manndráp, lygi
Trúarlegt atferli: útför