Leikstjórn: Majid Majidi
Handrit: Majid Majidi
Leikarar: Hosein Mahjoob, Salameh Fayzi, Mohsen Ramezani, Elham Sharifi og Farahnaz Safari
Upprunaland: Íran
Ár: 1999
Lengd: 90mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0191043
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Ungur blindur drengur að nafni Mohammad þráir að finna fyrir miskunn Guðs. Faðir hans hefur í hyggju að kvænast, en þar sem hann óttast að það muni setja strik í reikninginn að hann eigi blindan son, reynir hann allt til að losa sig við hann. Hann vonar meira að segja að Mohammad lendi í banaslysi. Í raun má segja að á meðan sonurinn leitar miskunnar Guðs, reynir faðirinn að koma sér undan henni.
Almennt um myndina:
Leikstjórinn Majid Majidi hóf kvikmyndaferil sinn sem leikari en þekktasta kvikmyndin sem hann lék í er líklega Boycott (1985) sem er leikstýrð af sjálfum Mohsen Makhmalbaf, einum frægasta leikstjóra Írana. Fyrsta kvikmyndin sem Majidi leikstýrði var hins vegar Baduk sem hann gerði árið 1992 en hún hlaut meðal annars verðlaun fyrir tónlist, klippingu, handrit, leik, leikstjórn og sem besta myndin. Síðan þá hefur hann gert hvert meistaraverkið á fætur öðru.
Þekktustu kvikmyndir Majidis eru Bacheha-Ye aseman (Börn himinsins) frá árinu 1997, sem sýnd var hérlendis og hægt er að fá í flestum myndbandaleigunum, og Rang-e khoda (Litur Guðs), sem er hér til umfjöllunar. Börn himinsins var tilnefnd til óskarsverðlauna á sínum tíma sem besta erlenda myndin, en engin önnur írönsk kvikmynd hefur náð eins miklum vinsældum í Bandaríkjunum. Myndin hlaut fjölda verðlauna um allan heim. Litur Guðs sló hins vegar aðsóknarmet asískra kvikmynda en hún sópaði einnig til sín fjölda verðlauna. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna þetta meistaraverk hefur ekki enn skilað sér til landsins, en vonandi verður bót þar á.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Einhverja hluta vegna heitir myndin á ensku The Color of Paradise, en á frummálinu er titillinn Rang-e khoda eða Litur Guðs. Heitið Litur Guðs er meira viðeigandi því myndin fjallar um birtingarform Guðs. Það hefur líklega ekki þótt nógu rómantískt í Bandaríkjunum að kalla myndina The Color of God.
Litur Guðs hefst á ávarpi til Drottins: ,,Þú ert bæði sýnilegur og ósýnilegur.“ Þessi orð lýsa vel viðfangsefni kvikmyndarinnar en hún fjallar um blindan dreng, Mohammad að nafni, sem leitar að Guði með því að snerta allt sem á vegi hans verður. Kennari stráksins hafði sagt honum að Guð hefði gert hann blindan vegna þess að hann elskaði hann svo mikið. Mohammad á hins vegar erfitt með að skilja hvers vegna Guð myndi skapa einhvern blindan og koma þannig í veg fyrir að hann gæti séð hann en kennarinn segir honum að Guð sé ósýnilegur og að blindir sjái oft betur en sjáandi.
Mohammad á ekki síður erfitt með að sætta sig við fullyrðingu kennarans vegna þess að hann finnur ekki mikið fyrir miskunn Guðs. Faðir hans kærir sig ekki um hann og lítur fyrst og fremst á hann sem byrði og bölvun. Hann neyðist til að sækja skóla í höfuðborg landsins langt frá heimahögum, systrum sínum og ömmu, sem hann elskar afar heitt. Heitasta þrá Mohammads er því að finna Guð, snerta hönd hans og létta af hjarta sínu.
Leit Mohammads að Guði birtist til dæmis í því að hann reynir að lesa náttúruna rétt eins og um blindraletur væri að ræða. Þannig les hann árbotn, sand, ax og blóm og meira að segja hljóð spætunnar. Þessar senur eru áhugaverð blanda af dulúð og ,,deisma“.
Náttúran kemur mikið við sögu í kvikmyndinni. Hún er meðvitað notuð til að tjá innri líðan persónanna. Í upphafi myndarinnar dettur ungi úr hreiðri sínu en Mohammad bjargar honum frá ketti í nágrenninu og kemur honum aftur fyrir í hreiðri sínu. Senan lýsir vel líðan Mohammads. Móðir hans er látin og faðir hans kærir sig ekkert um hann. Hann er því eins og ungi sem dottið hefur úr hreiðri sínu. Nafn hans er einnig áhugavert en ,,Mohammad“ er algengasta karlmannsnafnið í löndum múslima. Þar sem enginn annar ber það í myndinni, er freistandi að sjá nafnið sem vísun í Múhameð spámann, en hann missti foreldra sína ungur og varð því snemma munaðarlaus. Lengi framan af var Múhameð einnig mjög leitandi í trúmálum. Hvort sem þetta sé meðvituð vísun eða ekki þá er hliðstæðan engu að síður áhugaverð.
En áfram með umfjöllun um náttúruna. Síðar í kvikmyndinni finnur amma Mohammads fisk sem er að deyja á þurru landi. Hún bjargar fisknum en á sama tíma kemur faðir Mohammads ríðandi eftir að hafa skömmu áður komið Mohammad fyrir á öðru heimili. Síðar segir amman við son sinn að hún hafi meiri áhyggjur af honum en Mohammad og eyðir síðan síðustu dögum ævi sinnar í bænir. Senan með fiskinn virðist vísa til föður Mohammads og þrá ömmunnar eftir að bjarga honum. Í rauninni er faðir Mohammads fatlaðri en sonurinn en í stað líkamlegrar fötlunar er hann fatlaður. Hann hefur misst alla trú á Guð og lítur á gjafir hans sem ólán og kvaðir. Því meir sem hann flýr frá gjöfum og miskunn Guðs því meiri vandræði kemur hann sér í. Hann er því eins og fiskur á þurru landi. Síðar í myndinni er faðirinn sýndur ganga fram hjá skjaldböku sem er föst á bakinu, en betur er varla hægt að lýsa honum.
Loka senan er einnig áhrifamikil hvað náttúruna varðar en þar liggur faðir Mohammads í fjöruborði en allt í kring um hann eru trjárætur sem skolað hafði á land. Myndlíkingin er augljós. Faðirinn hafði verið rifinn upp með rótum af máttarvöldum sem voru honum sterkari, þ.e. Guði.
Ein áhugaverðasta notkun náttúrunnar í kvikmyndinni eru fuglar og þá sérstaklega þrír fuglar, sem virðast fylgja aðalpersónum myndarinnar. Mohammad er oftast á skjánum þegar það heyrist í spætu. Fugl sem hljómar eins og villtur kalkúnn virðist elta föður Mohammads. Fuglasöngurinn hljómar eins og hæðnishlátur og er föður Mohammads ávallt brugðið þegar hann heyrir til hans. Þessi fugl virðist því tengjast ógæfu. Þriðji fuglinn hljómar eins og næturgali en hann virðist tengjast tveim persónum, þ.e. Guði og helsta fulltrúa hans í myndinni, ömmunni. Ofanskot eru oft notuð í myndinni, rétt eins og Guð sé að horfa niður en á sama tíma heyrist þessi fugl iðurlega syngja. Söngur fuglsins tengist einnig ömmunni sem er mjög guðrækin.
Þriðji fuglinn kemur einmitt fyrir í stórkostlegu lokaatriði kvikmyndarinnar (og hér ættu þeir að hætta að lesa sem ekki vilja vita hvernig myndin endar). Í rauninni deila menn mjög um merkingu lokaatriðsins. Faðir Mohammads finnur son sinn í fjöruborðinu eftir að hafa skolað langar leiðir niður með straumþungri á. Spurningin er síðan hvort Mohammad sé dáinn fyrir fullt og allt eða sé lífgaður við. Í raun er ómögulegt að svara þessari spurningu því báðar túlkunarleiðirnar eru færar, þótt ég hallist reyndar að þeirri síðari sjálfur. Síðasta skot myndarinnar er ofanskot sem nálgast feðgana smám saman, eins og Guð sé að horfa niður til þeirra. Á sama tíma heyrist fuglinn syngja. Kvikmyndatökuvélin staðnæmist síðan við hönd Mohammads sem lýsist upp og teygir sig í átt til ljóssins/Guðs. Senan á líklega að tákna að Guð hafi svarað bænum Mohammads og snert hönd hans. Það er síðan túlkunaratriði hvað slík snerting tákni, þ.e. hvort Guð sé að lífga hann við eða að taka hann til sín !til himna.
Hliðstæður við texta trúarrits: Rm 1:20
Persónur úr trúarritum: Guð, Múhameð
Guðfræðistef: tilvist Guðs, birtingarform Guðs, kærleikur Guðs
Siðfræðistef: fötlun
Trúarbrögð: islam, hjátrú
Trúarleg tákn: talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: heimanmundur, brúðkaup, jarðaför, bæn, fórn