Kvikmyndir

Red Sun

Leikstjórn: Terence Young
Handrit: Denne Bart Petitclerc, William Roberts og Lawrence Roman, byggt á sögu eftir Laird Koenig
Leikarar: Charles Bronson, Ursula Andress, Toshirô Mifune, Alain Delon, Capucine, Anthony Dawson, Luc Merenda (undir nafninu Luke Merenda), Mónica Randall, Guido Lollobrigida (undir nafninu Lee Burton), Bernabe Barta Barri (undir nafninu Bart Barry), Gianni Medici (undir nafninu John Hamilton) og Satoshi Nakamoura
Upprunaland: Ítalía, Spánn og Frakkland
Ár: 1971
Lengd: 109mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0067770
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Árið 1871 sendir Japanskeisari forseta Bandaríkjanna verðmætt samúræjasverð að gjöf og er það flutt með lest þvert yfir villta vestrið í strangri gæslu tveggja samúræjahermanna. Annar þeirra fellur hins vegar þegar bófaflokkur gerir árás á lestina og stingur af með sverðið en hinn veitir honum þegar í stað eftirför ásamt einum bófanum sem svikinn hafði verið af félögum sínum.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Red Sun telst spaghettí-vestri þar sem hún var framleidd í samvinnu Ítala og Spánverja og kvikmynduð á Spáni. Leikstjórnin var þó að þessu sinni í höndum Englendingsins Terence Young, sem gert hafði nokkrar af bestu kvikmyndunum um ofurnjósnarann James Bond, Dr. No árið 1962, From Russia with Love árið 1963 og Thunderball árið 1965. Spaghettí-vestrinn Red Sun stendur þeim þó langt að baki enda í besta falli aðeins miðlungs að gæðum.

Leikararnir eru samt margir fínir, sérstaklega þó Japaninn Toshirô Mifune sem samúræjahermaðurinn Kuroda Jubie og Frakkinn Alain Delon sem bófaforinginn Gauce að ógleymdum Englendingnum Anthony Dawson í hlutverki útsendara hans en sá ágæti leikari sérhæfði sig í hlutverkum ótal skúrka í kvikmyndum á borð við Bond-myndina Dr. No og spaghettí-vestrann Death Rides a Horse. Ursula Andress stendur líka fyrir sínu sem ástkona Gauches en Charles Bronson verður þó að teljast full málglaður í hlutverki bófans Links, sem slæst í för með samúræjahermanninum eftir að hafa sloppið lifandi frá morðtilraun fyrrum samherja sinna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Alloft er vitnað í Bushido, sem líf samúræjanna var grundvallað á, en hugmyndafræðin á rætur að rekja í japönskum búddhisma og shinto. Í því sambandi segir Kuroda Jubie t.d. að samkvæmt Bushido beri honum að vera sterkur og hugrakkur og fórna sér fyrir húsbónda sinn. Flestum í villta vestrinu bregður hins vegar mjög þegar þeir líta samúræjahermanninn fyrst augum og signir t.d. hórumamman sig í skelfingu þegar hann mætir í vændishúsið hennar.

Skömmu áður en til lestarránsins kemur segir einn af samferðarmönnum Links við hann að þeir muni sennilega ná á áfangastaðinn innan tíðar. Link svarar honum hins vegar með því að vitna í IV Mós. 16:32-33 og segir að það verði því aðeins að jörðin opnist ekki fyrst og gleypi þá alla. Tilvitnunin vísar til sögunnar um Kóra og menn hans, sem gerðu uppreisn gegn Móse með þeim afleiðingum að jörðin opnaðist og gleypti þá, en skömmu síðar gera bófar Links einmitt uppreisn gegn honum og ganga í lið með skúrkinum Gauches í staðinn.

Stór hluti myndarinnar fer síðan í persónulegar erjur milli Kurodas Jubie og Links, en þeir halda að lokum saman til yfirgefinnar trúboðsstöðvar með ástkonu bófaforingjans Gauches, sem heitir þeim helvítisvist fyrir að hafa rænt sér. Þeir neyðast þó til að snúa bökum saman með Gauches og bófum hans þegar flokkur herskárra Indíána ræðst á þá, enda hinir verstu villimenn sem gera ekki greinarmun á bleiknefjum og Japönum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 4M 16:32-33
Guðfræðistef: helvíti, vanvirðing við forfeður, húsbóndahollusta
Siðfræðistef: manndráp, svik, vændi, kynþáttafordómar, trúfesti, dyggð
Trúarbrögð: shinto
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, trúboðsstöð
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: samskot, signing, bæn