Kvikmyndir

Regeneration

Leikstjórn: Gillies MacKinnon
Handrit: Allan Scott, byggt á skáldsögu eftir Pat Barker
Leikarar: Jonathan Pryce, James Wilby, Jonny Lee Miller, Stuart Bunce, Tanya Allen, David Hayman, Dougray Scott, John Neville, Paul Young, Alastair Galbraith og Eileen Nicholas
Upprunaland: Bretland (Skotland) og Kanada
Ár: 1997
Lengd: 92mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0120001
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Í fyrri heimsstyrjöldinni er liðsforinginn og rithöfundurinn Sigfried Sassoon sendur á geðsjúkrahús á vegum breska hersins eftir að hann lýsir því yfir í bréfi til þingsins að stríðið hafi umbreyst úr frelsisbaráttu í hrikalegt fjöldamorð. Markmið geðsjúkrahússins er að gera vistmennina sem fyrst hæfa fyrir herþjónustu á nýjan leik og leggur geðlæknirinn dr. William Rivers sig fram í þeim efnum, en efasemdirnar sækja samt á hann þegar hann kynnist Sassoon og öðrum vistmönnum þar betur.

Almennt um myndina:
Áhugaverð en eilítið langdregin stríðsmynd sem gerist að mestu á geðsjúkrahúsinu Craiglockart, en hörmungar stríðsins koma skýrt fram í samtölum vistmannanna. Stöku sinnum er þó sýnt frá vígvellinum þegar ýmis óhugnanleg atvik eru rifjuð upp.

Enda þótt kvikmyndin sé byggð á skáldsögu er hér um raunverulegar persónur að ræða, en rithöfundurinn Sigfried Sassoon er með þekktari ljóðaskáldum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin áréttar vel tilgangsleysi stríðsátakanna í fyrri heimsstyrjöldinni og afleiðingar þeirra á mannssálina, en sagan af því þegar Guð reyndi Abraham er þar meðal annars notuð með sláandi hætti.

Í upphafi myndarinnar er fröken Crowe kynnt til sögunnar sem ‚vegur, sannleikur og ljós‘ geðsjúkrahússins, en hún svarar að bragði eilítið vandræðaleg að samlíkingin jaðri við guðlast. Vísunin er í orð Jesú Krists þar sem hann segist vera ‚vegurinn, sannleikurinn og lífið‘. (Jóh. 14:6.) Enda þótt fröken Crowe komi að öðru leyti lítið við sögu í myndinni, er samlíkingin ekki alveg út í hött í ljósi þjónustu hjúkrunarkvennanna á geðsjúkrahúsinu.

Þegar Sigfried Sassoon mætir ekki fyrir herforingjaráðið, sem úrskurðar um heilsufar vistmannanna, vitnar geðlæknirinn Rivers reiðilega í Jes. 53:7 og segir að hann sé eins og lamb, sem leitt sé til slátrunar. Ráðið tekur mál hans þó að lokum fyrir og ræðir þá meðal annars um það hvort gyðinglegt ætterni hans kunni að hafa neikvæð áhrif á herþjónustu hans. Sassoon er að lokum úrskurðaður hæfur fyrir herþjónustu og er útskrifaður ásamt nokkrum öðrum vistmönnum af geðsjúkrahúsinu.

Undir lok myndarinnar er Sassoon sýndur þramma út á vígvöllinn ásamt félögum sínum, en í baksýn má sjá risastóran kross þar sem styttan af Jesú Kristi hefur verið sprengd í burtu þannig að handleggirnir einir standa eftir. Það verður að teljast mjög í anda þeirrar neikvæðu myndar, sem dregin er upp af öllu hernaðarbröltinu.

Myndin endar hins vegar á bréfi Sassoons til Rivers að stríðinu loknu. Þar greinir hann frá örlögum sumra fyrrverandi skjólstæðinga geðlæknisins og útleggur kaldhæðnislega í ljóði söguna af því þegar Guð reyndi Abraham með því að skipa honum að fórna Ísaki syni sínum en stöðvaði það síðan á síðustu stundu. (I. Mós. 22:1-18.) Í bréfinu segir: „Abraham reis upp, klauf viðinn, fór og tók eldinn með sér ásamt hnífnum. Er þeir ferðuðust saman, sagði Ísak: „Faðir minn! Sjáðu eldinn og járnið, en hvar er lambið?“ Þá batt Abraham unglinginn með beltum og ólum og reisti virki og skotgrafir til að bana syni sínum. Engill af himninum kallaði þá til hans og sagði: „Leggðu ekki hönd á son þinn. Gerðu honum ekki mein. Sjáðu hrútinn sem fest hefur hornin í hrísrunnanum. Fórnaðu hrúti stoltsins í staðinn.“ En gamli maðurinn hlýddi ekki og banaði syninum og helmingi afkomenda Evrópu, einum í einu.“

Þess má geta að lokum að þýðingin á ljóðinu í íslensku myndbandsútgáfunni verður að teljast heldur torskilinn á köflum. Á það sérstaklega við um setningarnar: „Sjáðu hrútinn sem fest hefur hornin í hrísrunnanum. Fórnaðu hrúti stoltsins í staðinn.” Í íslensku myndbandsútgáfunni er þýðingin á báðum setningunum hins vegar þessi: „Bjóddu heldur fram högg stoltsins.“ Þýðandinn hefur því klárlega ekki haft fyrir því að fletta ritningarstaðnum upp í Biblíunni til að kanna orðalagið, sem ljóðið byggir á.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 22:1-18, Jes 53:7, Jh 14:6
Persónur úr trúarritum: engill, Guð
Sögulegar persónur: Abraham, Ísak
Guðfræðistef: fórn, guðlast
Siðfræðistef: stríð, manndráp, aftaka, lygi
Trúarbrögð: gyðingar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: blessun