Leikstjórn: Hugh Hudson
Handrit: Robert Dillon
Leikarar: Al Pacino, Donald Sutherland, Nastassja Kinski, Joan Plowright, Dave King, Steven Berkoff, John Wells, Annie Lennox, Dexter Fletcher og Sid Owen
Upprunaland: Bandaríkin, Bretland og Noregur
Ár: 1985
Lengd: 125mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Myndin gerist á árunum 1776-1881 og segir frá sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjamanna undan yfirráðum breska heimsveldisins. Skinnasölukaupmaðurinn Tom Dobb dregst nauðugur viljugur inn í átökin þegar ungum einkasyni hans verður það á að gerast sjálfboðaliði í herliði bandarísku uppreisnarmannanna gegn smávægilegri þóknun. Þegar Dobb mistekst að fá hann leystan undan herþjónustunni, gengur hann sjálfur í herinn til þess að missa ekki sjónir af syni sínum og vernda hann.
Almennt um myndina:
Stórleikararnir eru margir í þessari sögulegu stórmynd auk þess sem leikstjórinn var fyrir löngu orðinn heimsþekktur fyrir óskarsverðlaunamyndina sína Chariots of Fire (1981). Engu að síður olli kvikmyndin miklum vonbrigðum þegar hún var frumsýnd á sínum tíma og kolféll hún í kvikmyndahúsunum. Kemur það tæpast á óvart enda myndin bæði langdregin og að mörgu leyti illa unnin. Búningarnir virka reyndar allir trúverðugir og sviðsmyndin er nokkuð góð auk þess sem myndatakan skánar verulega við að sjá hana í réttum 2.35:1 hlutföllum, en það var ekki horfandi á myndbandsspóluna, sem var gefin út hér á landi á sínum tíma í hryllilegri ‚pan and scan‘ útgáfu. Að vísu kemur fram á bakkápu DVD myndarinnar frá On Air í Danmörku að breiðtjaldshlutföllin á diskinum séu aðeins 1.85:1 en þau reyndust sem betur fer 2.35:1 þegar að var gáð.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Revolution er enn eitt dæmið um stríðsmynd þar sem Sálmur 23 kemur fyrir og skiptir hann miklu máli fyrir efni myndarinnar í þessu tilfelli, en sú sístæða spurning er einnig sett fram með hvaða stríðsaðila Guð standi á átakatímum.
Dobb-feðgarnir lenda brátt í orrustu skammt frá borginni New York þar sem hersveit þeirra er lögð að velli og komast þeir rétt naumlega undan á flótta. Báðir herirnir eru hvattir áfram út á vígvöllinn með orðunum „Guð er með okkur!“ og er þannig gengið út frá því sem vísu að stríð og trú á Guð fari saman. Fyrir Bandaríkjamönnunum snýst baráttan um frelsi þjóðarinnar undan oki erlendrar harðstjórnar og því hljóti Guð að vera á bandi þeirra. Enski liðþjálfinn, sem fer fyrir liði bresku hermannanna í fyrstu orrustunni, leggur hins vegar áherslu á að óhætt sé að drepa alla bandarísku uppreisnarmennina þar sem þeir séu aðeins skynlausar skepnur. Hann hrópar meira að segja um leið, að Guð sé með hverjum þeim, sem slíkt gjöri.
Síðar er þessi sami liðþjálfi sýndur lesa mest allan 23. sálminn upp úr Biblíunni við greftrun eins af hermönnunum. Atriðið byrjar þar sem hann les að því er virðist áhugalaust og í flýti frá orðunum „um dimman dal” (the Valley of the shadow of death) í versi 4 og út sálminn, sem hann endar með orðinu „amen“ áður en hann hraðar sér á brott.
Eftir þetta eiga feðgarnir eins og flestir landar þeirra erfiðan tíma undir yfirráðum valdhafanna á svæðinu og er sonurinn tekinn í þjónustu breska hersins gegn vilja sínum og án vitundar föðurins. Þar lendir strákurinn brátt upp á kannt við enska liðþjálfann og er hann fyrir vikið bundinn við fallbyssu svo að hægt verði að refsa honum með því að berja iljar hans með barefli. Tom Dobb tekst þó brátt að hafa uppi á syni sínum og bjarga honum helsárum frá herbúðum Bretanna.
Nokkrum mánuðum síðar þegar sonurinn er orðinn göngufær á ný ganga þeir aftur til liðs við bandaríska uppreisnarherinn og halda út á vígvöllinn. Ekki líður á löngu þar til enski liðþjálfinn verður á vegi þeirra aftur, en þeir sjá hann í gegnum sjónauka þar sem þeir liggja í launsátri til að skjóta á óvinahermennina á vígvellinum. Um leið og þeir sjá liðþjálfann halda á brott til strandarinnar, hlaupa þeir af stað til að ná þangað á undan honum. Þar tekst þeim síðan að skjóta liðþjálfann og ungan hermann, sem með honum er, þannig að þeir liggja báðir eftir illa sárir.
Skelfingu lostinn þylur liðþjálfinn nú 23. sálminn frá orðunum „á grænum grundum lætur hann mig hvílast“ í versi 2 og skýtur inn á milli versanna hughreystingar- og hvattningarorðum til unga hermannsins um að hann skuli hafa þetta af, en sá er nánast í andarslitrunum. Þegar feðgarnir nálgast þá heyra þeir hvað liðþjálfinn er að segja, en hann þagnar eins og hann búist við dauða sínum um leið og sonurinn mundar riffil sinn að honum. Strákurinn fær sig samt ekki til þess að taka manninn af lífi og játar það fyrir föður sínum. Þegar þeir snúa baki við Bretunum tveimur og ganga burt er eins og þungu fargi sé létt af liðþjálfanum og fer hann með lokavers sálmsins eins og þakkarbæn: „Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“
Báðum megin víglínunnar sækja hermennirnir til trúarinnar og ýmist réttlæta gjörðir sínar með henni eða sækja til hennar styrk. Vinkona Dobbs, eldheit stuðningskona uppreisnarmannanna, segist biðja reglulega fyrir honum og breski liðþjálfinn leitar umsvifalaust til 23. sálmsins þegar á reynir. Lengst af er liðþjálfinn sýndur sem kaldrifjaður þrjótur, sem refsar grimmilega fyrir léttvægar misgjörðir og vílar það ekki fyrir sér að drepa andstæðinga sína. Það verður honum hins vegar til lífs að hann skuli þrátt fyrir hræðslu sína reyna að hughreysta særðan undirmann sinn þegar þeir standa frammi fyrir hatursmönnum sínum, því að þeir hætta við að drepa þá þegar þeir sjá hvernig komið er fyrir þeim og heyra liðþjálfann fara með sálminn. Liðþjálfinn virðist taka lífgjöfinni sem bænheyrslu því að um leið og hættunni er bægt frá verður lokaversið þakkarbæn fyrir honum.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 23
Guðfræðistef: Guð með okkur, réttlæting
Siðfræðistef: stríð, sjálfstæði, bylting, manndráp, refsing, liðhlaup, kúgun, hefnd
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, bæn
Trúarleg reynsla: bænheyrsla