Kvikmyndir

Romeo, Julia a tma

Leikstjórn: Jirí Weiss
Handrit: Ján Otcenásek, Jirí Weiss
Leikarar: Ivan Mistrík, Daniels Smutná
Kvikmyndataka: Václav Hanus
Tónlist: Emil Poledník
Framleiðsluland: Tékkland
Framleiðsluár: 1960
Lengd: 92
Tegund: Drama
Stjörnur: 3
Umfjöllun
Ágrip af söguþræði:
Pavel er ungur nemendi í Prag á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann felur gyðingastúlkuna Hanka á háaloftinu í blokkinni þar sem hann býr. Ástin blómstrar milli þeirra.

Umfjöllun um trúar- og siðferðisstef:
Bakgrunnur myndarinnar er helförin. Ungur maður (Pavel) felur gyðingastúlku (Hanka) á háalofti í fjölbýlishúsi í Prag. Samband þeirra þróast smám saman í ástarsamband og er Pavel eini tengiliður Hönku við umheiminn.

Í upphafi myndarinnar sjáum við hvar Gyðingafjölskylda er flutt á brott úr fjölbýlishúsinu. Barn í fjölskyldunni virðist allt því að því spennt fyrir vænanlegri ferð, spyr hvort fleiri krakkar verði ekki með í ferðinni o.s.frv. Annað barn spyr hvenær þau komi aftur úr sumarfríinu. Annars sjáum við lítið af slíku í myndinni, útrýmingarbúðir sjást t.d. aldrei. Að því leyti er myndin fjarri því eins óhugnanleg og flestar helfararkvikmyndir.

Myndin snýst að verulegu leyti um samskipti ósköp venjulegs fólks í fjölbýlishúsinu þar sem Hanka er falin í litlu risherbergi.

Vissar hliðstæður eru í myndinni við söguna af Rómeó og Júlíu og gefur sá skyldleiki til kynna að myndin endi ekki vel frekar en helfararmyndir yfirleitt. En hún sýnir vel togsteituna sem svo fjölmargir stóðu frammi fyrir á tímum helfararinnar, þ.e. valkostinum að koma náunga sínum til hjálpar og hætta um leið eigin lífi.

Reynslan sýnir að það voru ekki sérlega margir sem tóku þá áhættu. Í myndinni er áhættan látin koma sterkt fram.

Kvikmyndin einkennist af fallegum myndatökum, það sem áhorfandinn fær sterka tilfinningu fyrir því hve tíminn er lengi að líða inni í herberginu þar sem Hanka hefst við og hve einöngrun hennar er mikil.

Dýrahljóð (fuglar, hundur, kettir) gegna talsverðu hlutverki í myndinni og eykur það á tilfinninguna fyrir einöngrun Hönku frá mannheimum. Hún heyrir meira í dýrum en fólki og veit harla lítið um það sem gerist úti í þjóðfélaginu enda gerir Pavel sér far um að leyna henni því hve ástandið er alvarlegt. En hún lætur sig dreyma um græn engi, tré, víðáttu, ár og vötn og tjáir þessar þrár sína og drauma í samtölum við Pavel.

Ýmsir kunnir sögulegir atburðir eru í baksviði myndarinnar svo sem morðið á “böðlinum frá Prag” Reinhard Heydrich (1904-1942) og harður bardagi tékkneskra uppreisnarmanna í kirkju við ofurefli þýskra hermanna.

Hinn illræmdi Reinhard Heydrich var einn af “arkitektum” helfararinnar, þeirra sem lögðu á ráðin um útrýmingu Gyðinga á ráðstefnunni í Wannsee vorið 1942. Hann særðist í tilræði í Prag 27. maí 1942 og lést af sárum sínum 4. júní sama ár. Þessir atburðir eru í baksviði myndarinnar og tímasetja þannig atburðarásina.

Trúarlegt efni er ekki mjög fyrirferðarmikið í myndinni, fyrir utan hinar siðferðilegu spurningar sem eru að sjálfsögðu áberandi í öllum helfararmyndum. Engin trúarleg tákn koma t.d. fyrir í myndinni önnur en Davíðsstjarnan sem aðgreinir Gyðinga frá öðru fólki.

En seint í myndinni eiga aðalpersónurnar athyglisvert samtal um tilvist Guðs þar sem þau horfa út um þakgluggann úr fylgsni Hönku og upp í stjörnubjartan himininn.

Sú sena skapaði a.m.k. hjá mér hugrenningatengsl við 8. Davíðssálm og spurningu hans: “Þegar þú horfir á himininn, verk handa þinna… hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans?” Spurningin um tilvist Guðs er tengd þjáningum Gyðinga. Hanka segir við Pavel að stundum óska hún þess að Guð væri til og myndi kalla hana upp til sín því hér niðri vilji fólk ekki Gyðinga.

Slíkar spurningar eru algengar í helfararkvikmyndum og -bókmenntum og minnistæðust er spurningin úr hinni frægu bók Nóbelsverðlaunahafans Elie Wiesel Nóttin þar sem í útrýmingarbúðunum er verið að hengja ungan dreng sem reynist svo léttur að dauðastríð hans verður mjög langt. Þá heyrist maður spyrja: “Hvar er Guð núna?”

En enga slíka óhugnanlega atburði fáum við að sjá í þessari mynd en spilað er þeim mun meira á tilfinningar áhorfenda og ímyndunarafl. Þeir þekki baksvið þessara atburða. Tékkar hafa gert mjög margar góðar helfarakvikmyndir, m.a. eina þá allra elstu Daleka Cesta (Distant Journey), strax árið 1949. Kom hún nýverið út í nýrri og vandaðri dvd-útgáfu og hef ég skrifað stutta umsögn um hana á vefsíðu minni.

Rómeó, Júlía og myrkur er áhugaverð kvikmynd sem lætur ekki mikið yfir sér en skilur þeim mun meira eftir í huga áhorfenda að sýningu lokinni. Kannski umfram allt þá tilfinningu að það var ósköp venjulegt fólk sem oft hafði örlög Gyðinga í hendi sér, fólk sem var hvorki verra né betra en gengur og gerist. Fólk sem hafði meiri áhyggjur af eigin örlögum en annarra. Og ætli það sé ekki svo með flest fólk á öllum tímum? Við elskum ekki náungann með sama hætti og við elskum okkur sjálf.

Lykilorð
Guðfræðistef: tilvist Guðs
Túarlegar hátíðir og sögulegir atburðir: helförin