Kvikmyndir

Roozi khe zan shodam

Leikstjórn: Marziyeh Meshkini
Handrit: Mohsen Makhmalbaf og Marziyeh Meshkini
Leikarar: Fatemeh Cherag Akhar, Hassan Nebhan, Shahr Banou Sisizadeh, Ameneh Passand, Shabnam Toloui, Sirous Kahvarinegad, Mahram Zeinal Zadeh, Norieh Mahigiran, Azizeh Sedighi og Badr Iravani
Upprunaland: Íran
Ár: 2000
Lengd: 74mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Dregin er upp mynd af þremur kynslóðum kvenna í Íran í þremur sjálfstæðum smásögum sem þó tengjast allar í bláendann.

Á níu ára afmælisdegi sínum þarf stúlkan Hava í fyrsta sinn að axla þá skyldu kvenna að hylja hár sitt með slæðu á almanna færi. Hún semur þó við móður sína og ömmu um að bíða með að setja upp slæðuna þar til á hádegi eftir að hún hafi heimsótt Hasan, ungan vin sinn og leikfélaga, í síðasta sinn.

Ahoo er ung kona sem tekur þátt í reiðhjólakeppni kvenna í óþökk eiginmanns síns sem reynir allt hvað hann getur til að telja henni hughvarfs ásamt föður hennar, afa, frændum og bræðrum, en allir ríða þeir á hestum á eftir henni í miðri keppninni.

Og Hoora, öldruð kona í hjólastól, lætur draum sinn rætast þegar hún heldur til borgarinnar til að kaupa sér ýmis lífsþægindi sem hún hafði aldrei getað notið fyrr en nú þegar henni hlotnaðist loks mikill arfur.

Almennt um myndina:
Hér er um að ræða sannkallaða íranska kvennamynd sem er ekkert annað en ljóðrænt listaverk. Myndin er kvennamynd að því leyti að hún er gerð af íranskri konu og fjallar um samlöndur hennar, félagslega stöðu þeirra og reynsluheim frá ýmsum sjónarhornum. Leikstjórinn er Marziyeh Meshkini (fædd 1969) en handritið skrifaði hún ásamt eiginmanni sínum Mohsen Makhmalbaf, sem er einn virtasti kvikmyndagerðarmaður Írana á síðari árum og setti fyrir allnokkrum árum á fót kvikmyndaskóla í heimalandi sínu til að þjálfa landa sína, jafnt karla sem konur, í kvikmyndagerð. Meshkini hefur starfað sem aðstoðarleikstjóri á allmörgum írönskum kvikmyndum en þetta var fyrsta myndin sem hún leikstýrir sjálf. Það er samt ekki bara eiginkona Makhmalbafs sem snúið hefur sér að kvikmyndagerð með góðum árangri heldur hefur dóttir hans af fyrri hjónabandi, Samira Makhmalbaf, einnig getið sér góðs orðs á alþjóðavettvangi fyrir myndir sínar, en þá fyrstu og þekktustu, Sib (1998), gerði hún aðeins 18 ára gömul. Reyndar var kvikmyndaskóli föðurins upphaflega stofnaður gagngert til að kenna henni fræðin þegar hún hafði lokið skyldunámi sínu á unglingsaldri en síðan bættist fjöldi annarra nemenda einnig við.

Kvikmyndin Roozi khe zan shodam hefur bæði komið út á DVD í Bretlandi og Bandaríkjunum undir heitinu The Day I Became a Woman, þ.e. Dagurinn þegar ég varð kona, en það er breski diskurinn frá Artificial Eye sem er hér til umfjöllunar. Útgáfan er í alla staði óaðfinnanleg þótt aukaefnið sé skorið við nögl, en þar er fyrst og fremst að finna lista yfir þær kvikmyndir sem leikstjórinn Marziyeh Meshkini hefur unnið við áður, stutt yfirlýsing frá henni um félagslega stöðu kvenna í Mið-Austurlöndum og endurbirt viðtal við hana frá Film International og er allt þetta aðeins í formi texta en ekki mynda. Kápumyndin á DVD diskinum er óvenju flott en þegar hún var prentuð var hún merkt með bókstafnum U í grænum þríhyrningi sem merkir hæf öllum aldurshópum og hafa því límmiðar með bókstöfunum PG innan guls þríhyrnings verið límdir þar yfir þar sem breska kvikmyndaeftirlitið úrskurðaði að börn mættu aðeins horfa á myndina undir eftirliti foreldra sinna. Hitt er svo annað mál að kvikmyndin er klárlega of listræn til að ung börn myndu nokkurn tímann endast yfir henni til lengdar en hún á svo sannarlega erindi til fullorðinna, einkum þeirra sem áhuga hafa á menningarheimi múslima og kvikmyndum frá fleiri heimshornum en Hollywood.

Þetta er frábærlega vel leikin kvikmynd, fagmannlega gerð og með þjóðlegri tónlist sem hæfir henni fyllilega. Athygli vekur að fæstir leikaranna voru atvinnuleikarar og höfðu í raun aldrei komið nálægt leik áður.

Í viðtalinu sem er að finna á DVD diskinum segir Marziyeh Meshkini að gerð myndarinnar hafi ekki reynst auðveld, einkum vegna þess að karlmenn og jafnvel konur líka hafi tilhneigingu til að vantreysta konum sem kvikmyndagerðarmönnum og því hafi hún þurft að sanna sig enn meir en meðal karlmaður áður en mark var á henni tekið. Það sé því allt annað en auðvelt fyrir konur að gera kvikmyndir í Íran enda séu aðeins um 10 konur þar virkir leikstjórar af alls um 500 kvikmyndagerðarmönnum. Engu að síður verður það að teljast eftirtektarvert hversu góðum árangri þessir kvenmenn hafa náð á alþjóðavettvangi en þær eru þar flestar ekki síður þekktar en karlmennirnir meðal kvikmyndagerðarmanna í Íran.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þær írönsku kvikmyndir sem mesta athygli hafa vakið um allan heim eru margar ljóðrænar raunsæismyndir þar sem fæst gagnrýnt er sagt berum orðum heldur þarf áhorfandinn sjálfur að glíma við táknmálið og draga eigin ályktanir af því sem fyrir augu ber. Þjóðfélagsleg gagnrýni hefur lengi verið litin hornauga af valdhöfum Írans ekki síður fyrir byltingu islömsku heittrúarmannanna árið 1979 en eftir hana og er kvikmyndagerðarmönnum þar því sniðinn þröngur stakkur í ýmsum efnum í jafnt efnistökum sem framsetningu. Þannig má t.d. ekki sýna konur án slæðu í kvikmyndum sem gerðar hefa verið eftir byltinguna, jafnvel þótt þær beri ekki slæðurnar innandyra á heimilum sínum í raunveruleikanum. Ritskoðun ráðamanna hefur samt ekki hindrað íranska kvikmyndagerðarmenn að gera kvikmyndir með hárbeittri þjóðfélagsgagnrýni en slíkt hefur einkum skilað sér í myndum þar sem dregin er upp raunsæ mynd af trúverðugum persónum í hversdagslegum aðstæðum þeirra án hvers kyns yfirlýsinga eða áréttinga frá þeim sjálfum. Þannig virkar kvikmyndin eins og spegill á raunveruleikann sem hver og einn getur túlkað fyrir sig. En þrátt fyrir áhersluna á raunsæið er framsetningin oftar en ekki um leið ljóðræn og jafnvel með ríku táknmáli sem sótt er í menningarhefð Írana, ekki síst bókmenntahefðina þar sem ljóðlistin hefur öldum saman vegið hvað þyngst.

Þetta á sannarlega við um myndina Roozi khe zan shodam eftir Marziyeh Meshkini og þá sérstaklega miðhluta hennar þar sem ljóðrænt yfirbragðið verður nær súrealískt. Sjálf hefur hún sagt í viðtalinu á Artificial Eye DVD diskinum að ástæðan fyrir gerð myndarinnar hafi m.a. verð sú að árétta mikilvægi þess að koma á jafnrétti kynjanna í menningarlegum efnum.

Kvikmyndin segir frá þremur kynslóðum kvenna í Íran þar sem ljósi er varpað á hlutskipti þeirra og aðstæður í þremur sjálfstæðum smásögum sem þó tengjast í bláendann.

Fyrst er sagt frá stúlkubarninu Hava sem á níu ára afmæli sínu þarf að hylja hár sitt í fyrsta sinn með slæðu en myndin fylgir henni eftir þá um morguninn og sýnir hvernig hún kveður æsku sína þegar hún fer út að leika með Hasan vini sínum og leikfélaga í síðasta sinn áður en skóladagurinn hefst en eftir það má hún ekki framar leika sér með strákum. Ljúfsár mynd er degin upp af börnunum og vináttu þeirra, en leikur þeirra beggja er bæði einlægur og trúverðugur. Hvorugt þeirra skilur almennilega hvers vegna þau mega nú allt í einu ekki leika sér saman framar og spyr strákurinn Hasan móður Hövu t.d.: „Hvernig stendur á því að hún mátti fara út að leika í gær?“ Hava fær þó að lokum að leika við hann fram að hádegi þegar hún bendir á að hún hafi í raun ekki fæðst fyrr en á hádegi og sé því ekki orðin níu ára fyrr en þá. Þegar móðirin síðan sækir hana um hádegi situr Hasan eftir bak við rimla á glugga heimilis síns og horfir á þær hverfa á brott. Ef rimlarnir tákna fangelsi þá er það ekki síður karlmennirnir sem eru fangar þjóðfélagshaftana en konurnar.

Samkvæmt lögum í Íran eru stúlkubörn talin fullorðin níu ára gömul og er komið fram við þær sem slíkar fyrir dómstólum. Marziyeh Meshkini bendir á að þessi lagabókstafur sé umdeildur í landi hennar og ýmsir islamskir guðfræðingar séu honum andsnúnir en honum hafi samt ekki verið breytt ennþá. Hún bendir þó á að konur gangi sjálfar í ýmsum tilfellum mun lengra en karlmennirnir í að viðhalda ýmsum siðum og reglum sem skerða félagslegan hlut þeirra, en fyrir vikið hafi hún sýnt í fyrsta hluta myndarinnar hvernig bæði móðirin og amman koma því til leiðar að dóttirin hylji hár sitt með slæðu þegar á níu ára afmælisdegi sínum. Enginn karlmaður á þar hins vegar hlut að máli.

Miðhlutinn sem sumum kvikmyndagagnrýnendum hefur þótt sá sísti af annars mjög góðri og áhugaverðri mynd er að mínu mati sá langmikilvægasti og besti. Unga konan Ahoo gerir uppreisn gegn eiginmanni sínum og þeim þjóðfélagshefðum, sem setja konum þröngar skorður, með því að taka þátt í reiðhjólakeppni kvenna í óþökk hans og fjölskyldu hennar sem vill hana frekar inn á heimilið til að sinna skyldum sínum þar. Það er eitthvað heillandi við það annars alllanga súrrealíska atriði þar sem sjá má svartklæddar konur frá toppi til táar hjóla hver í kapp við aðra á malbikuðum beinum hjólreiðastíg meðfram sjávarströnd meðan nokkrir karlar koma hver á fætur öðrum ríðandi á hestbaki út úr eyðimörkinni til að reyna að telja einni þeirra hughvarf án þess að hún yrði á þá til baka. Fyrst kemur eiginmaðurinn þar ríðandi og þegar hann sér að eiginkonunni verður ekki haggað hverfur hann um stundarsakir á brott. Þá birtist mullah á hesti sínum í fylgd með eiginmanninum sem veitir henni skilnað þegar hann sér að hún fer áfram sínu fram hvað sem á gengur. Faðir hennar, afi og frændur koma svo (allir berfættir og berir að ofan) á hestum sínum í tvígang enda harla ósáttir við hjónaskilnaðinn en það hefur heldur engin áhrif á hana og hjólar hún þess í stað bara ótrauð áfram. Faðirinn minnir hana á heiður fjölskyldunnar, afinn gefur henni síðasta tækifærið, einn frændinn segir hana haldna af djöflinum og sá fjórði bölvar henni. Það er aðeins þegar bræður hennar tveir koma og byrgja hjólreiðastíginn sem hún neyðist til að stoppa og taka þeir þá af henni reiðhjólið og halda á brott en skilja hana eftir.

Freistandi er að túlka atriðið sem hvassa gagnrýni á hlutskipti kvenna í Íran í dag þar sem bjartsýnin á hvað þær geta áorkað þegar til lengri tíma er litið er þrátt fyrir allt í fyrirrúmi. Svarklæddu konurnar í hjólreiðakeppninni stefna allar ótrauðar áfram eftir beinum malbikuðum vegi á nútímalegum fararskjótum, reiðhjólunum sínum, inn í bjarta framtíðina meðan karlmennirnir reyna allt hvað þeir geta til að hindra eina þeirra á fararskjótum fortíðarinnar, hestum, sem þeir ríða á út úr eyðimörkinni. Mullahnn sem eiginmaðurinn sækir segir reiðhjólið meira að segja ekki raunverulegt reiðhjól heldur sköpunarverk djöfulsins og hvetur Ahoo til að stíga af því. Þetta sé hvorki Guði þóknanlegt né honum og sé hún á barmi glötunnar. Hlutverk hennar sé á heimilinu og þarfnist eiginmaðurinn hennar svo sannarlega. Enda þótt bræðurnir nái að lokum að stöðva Ahoo og taka af henni reiðhjólið kemur það ekki í veg fyrir að allar hinar írönsku konurnar nái að halda ferð sinni áfram þar sem sigurlaunin bíða þeirra. Það er sem leikstjórinn Marziyeh Meshkini sé að segja að íranskar konur muni þrátt fyrir allt sigra og skilja karlmennina eftir í því íhaldssama fortíðarsamfélagi sem þeir hafa valið sér.

Lokahluti myndarinnar segir frá aldraðri konu í hjólastól sem lætur draum sinn rætast um að kaupa öll þau lífsþægindi sem hún hafði áður farið á mis við í lífinu en getur nú loksins eignast eftir að hafa hlotnast mikill arfur og því heldur hún flugleiðis af landsbyggðinni til borgarinnar þar sem hún hafði reyndar alist upp. Þessi kona lætur heldur ekki neitt aftra sér og gerir það sem henni sýnist sem sjálfráðri manneskju óháð því hvort það allt gagnist henni þegar til lengri tíma er litið. Það er sömuleiðis eitthvað heillandi við það súrealíska atriði þar sem hún hefur safnað alls kyns nútímalegum lífsþægindum eins og ískáp, frystikistu, ryksugu, rúmi, sjónvarpi, hljómflutningstækjum, sófasetti, skápum, stórum spegli, baðkari og þvottavél á sjávarströnd með aðstoð hjálpsamra barna meðan hún leitar leiða til að koma því öllu heim, en samt finnst henni endilega eins og hún sé að gleyma einhverju mikilvægu. Ekkert þráir hún þó heitar en að fá að ættleiða barn en öll eiga börnin á ströndinni fyrir foreldra og afþakka því gott boð. Þegar aldraða konan hverfur svo frá smá stund láta börnin öllum illum látum innan um eigur hennar, háma í sig matinn, klæðast kjólunum hennar, varalita sig, setja þvottavélina í gang, sulla í baðkarinu og ryksuga sandinn, en þau laga samt allt um leið og hún birtist aftur.

Það er ekki laust við að það hvarfli að áhorfandanum að lífsþægindin standi fyrir ýmislegt sem konur fari enn á mis við í írönsku samfélagi nútímans en bjartsýnin er samt sem fyrr allsráðandi og er sem þeim hlotnist allt sem þær þrá þótt seint verði. Marziyeh Meshkini segir að eldri kynslóðin sem alin hafi verið upp í borgunum hafni mikið til nútímanum enda þótt hún samþykki ýmsar afurðir hennar meðan eldri kynslóðin úr dreifbýlinu haldi sig að mestu innandyra, rétt eins og amman í fyrsta hluta myndarinnar. Báðar gömlu konurnar reyni þó að heimfæra heimsmynd sína á yngri kynslóðirnar en aðeins með því að leyfa þeim að lifa í þeim heimi og deyja út geti yngri kynslóðirnar tekið við og umbreytt samfélaginu.

Myndinni lýkur á samtali öldruðu konunnar við tvær hjólreiðastúlkur á ströndinni sem kasta þar mæðinni, en þær segja henni frá því hvernig bræður Ahooar tóku af henni reiðhjólið eftir að hún hafði daufheyrst við fyrirmælum eiginmannsins, mullahns og ættingjanna. Önnur kvennanna segir að Ahoo hafi fengið annað reiðhjól lánað í staðinn og lokið keppninni en hin er ekki eins viss. Meðan þær ræða saman setja börnin allar eigur öldruðu konunnar á nokkra fleka á olíutunnum (sem tákna ríkidæmi landsins að sögn leikstjórans) til að flytja þær á brott sjóleiðina en litla stúlkan Hava og móðir hennar, sem eiga þar leið framhjá, horfa á eftir henni þar sem hún situr á einum flekanum.

Þetta er kvikmynd sem ástæða er til að mæla með enda gullfallegt ljóðrænt listaverk með áhugaverðum sjálfstæðum konum sem gera það sem þær vilja þrátt fyrir þær þröngu skorður sem þjóðfélagið reynir að setja þeim. Í aukaefninu á DVD útgáfu myndarinnar frá Artificial Eye segir leikstjórinn Marziyeh Meshkini í lok yfirlýsingar sinnar um stöðu kvenna víða í Mið-Austurlöndum: „„Dagurinn þegar ég varð kona” lýsir stöðu þeirra kvenna sem finna hvernig kyn þeirra skapar félagslegan vanda. Kvikmyndin einblínir á líf kvenna sem eru fangelsaðar innandyra, ekki vegna þess að þær séu hataðar heldur vegna þess að þær eru elskaðar – konur sem þurfa að gefa eftir tilfinningartengsl sín til þess að öðlast hver um sig sjálfstæði og virka félagslega stöðu.” Óhætt er að taka undir með leikstjóranum að þetta er það sem myndin snýst um og hún gerir það vel.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn
Guðfræðistef: tilgangur lífsins, sköpunarverk djöfulsins, vilji Guðs, glötun, hjónabandið, andsetning, frelsi
Siðfræðistef: félagsleg staða kvenna, skilnaður, fortölur, vinátta, lífsþægindi, uppreisn, sjálfstæði, aðskilnaður kynjana, fjölskylduheiður, barnavinna
Trúarbrögð: islam
Trúarleg tákn: slæða
Trúarleg embætti: mullah
Trúarlegt atferli og siðir: bölvun