Kvikmyndir

Rosemary’s Baby

Leikstjórn: Roman Polanski
Handrit: Roman Polanski, byggt á sögu Ira Levin
Leikarar: Mia Farrow, John Cassavetes, Ruth Gordon, Sidney Blackmer, Maurice Evans, Ralph Bellamy
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1968
Lengd: 136mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0063522
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Ungt par flytur inn í gamla en undurfagra íbúð. Í fyrstu virðist allt í himnalagi en brátt fer eiginkonan (Rosemary), sem nú er þunguð, að gruna að eiginmaður hennar og nágrannarnir stundi galdramessur og hafi selt djöflinum barnið sem hún ber undir belti.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Rosemary’s Baby er gott dæmi um að það þarf ekki blóðslettur og ógeðsleg morð til að búa til góða hryllingsmynd. Í myndinni sést enginn drepinn og ofbeldi er nánast ekkert. Samt hafa margir átt erfitt með svefn eftir fyrsta áhorf.

Rosemary’s Baby er frekar óvenjuleg heimsslitamynd vegna þess að Satan kemur lítið við sögu og áherslan er ekki á verk hans heldur líðan Rosemary. Samkvæmt kristnum kenningum mun Satan reyna að eignast son en nafn hans er Andkristur (Antichrist á ensku). Þannig hyggst Satan feta í fótspor Guðs, en sonur Satans mun síðan færa hið sataniska hjálpræði. Í ljósi þessa er vel við hæfi að í myndinni skuli móðir Andkrists heita Rose-Mary. Rétt eins og María mey ber Rosemary barn annars en eiginmanns síns undir belti, en ólíkt því sem var hjá Maríu eru þetta ekki gleðitíðindi heldur bölvun. Þótt Andkristur sé hvergi nefndur á nafn í myndinni eru tilvísanirnar augljósar. Djöfladýrkendurnir tala t.d. um fæðingarár barnsins sem fyrsta árið. Rétt eins og tímatalið okkar er miðað við fæðingu Krists þá mun hið nýja tímatal vera miðað við fæðingu Andkrists. Í lok myndarinnar koma átrúendur Satans í heimsókn til að votta barninu virðingu sína og færa því gjafir (en yfir körfu þess er kross á hvolfi). Þessi sena minnir að sjálfsögðu á komu vitringanna í Matteusarguðspjalli (2:1-12) og hirðanna í Lúkasarguðspjalli (2:1-20).

Í myndinni er að finna nokkur hefðbundin stef tengd djöfladýrkun. Í djöflamessunni eru allir naktir en holdleg fýsn hefur lengi verið kennd við djöfullinn. Takið einnig eftir því að Rosemary er öll klóruð eftir nauðgun Kölska en Satan er einmitt konungur úrkynjaðs kynlífs, sbr.The Devil’s Advocate. Þeim sem selja djöflinum sál sína gengur einnig efnahagslega vel í lífinu en velmegun þeirra er hins vegar á kostnað annarra saklausra aðila. Að lokum má nefna að eins og í flestum myndum um Satan drepast nær allir sem reyna að koma í veg fyrir áætlanir hans.

Það er áhugavert að í Rosemary’s Baby er djöfladýrkun tengd göldrum en átrúendurnir eru sagðir vera nornir og galdramenn (Witches). Þessi tengsl, sem minna að vissu leyti á miðaldir, eru frekar óvenjuleg í heimsslitamyndum. Yfirleitt eru átrúendur Satans afvegaleitt og illa innrætt hversdagslegt fólk enda hafa galdrar upp á síðkastið fengið á sig rómantískan ævintýrablæ, sbr. bækurnar um Harry Potter.

Það er nokkrum sinnum vísað í söguna af Adam og Evu í myndinni. Rétt áður en Satan nauðgar Rosemary sér hún málverk Michelangelo af sköpun Adams og Evu, falli þeirra og að lokum af dómsdeginum. Önnur tilvísun í Edensöguna er þegar Rosemary reynir að ráða stafaruglið, en ein af lausnunum sem hún fær er „Comes with the fall“. Að lokum má geta þess að tengsl kynlífsins við Satan eiga líklega rætur sínar að rekja til sögunnar af Adam og Evu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3, Mt 2:1-12, Lk 2:1-20.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3, Mt 2:1-12, Lk 2:1-20
Persónur úr trúarritum: Abraham, Andkristur, dýrlingur, María mey, Satan
Sögulegar persónur: Jóhannes páll páfi sjötti, Lúther
Guðfræðistef: heimsslit, syndaraflausn, tilvist Guðs,
Siðfræðistef: lygi, morð, nauðgun, sjálfsvíg
Trúarbrögð: djöfladýrkun, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, sínaí fjall
Trúarleg tákn: djöflarót, heillagripur, korss á hvolfi
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, djöflamessa, syndarjátning
Trúarleg reynsla: sýn