Kvikmyndir

Sabata

Leikstjórn: Gianfranco Parolini [undir nafninu Frank Kramer]
Handrit: Renato Izzu og Gianfranco Parolini
Leikarar: Lee van Cleef, William Berger, Pedro Sanchez, Robert Hundar, Gianni Rizzo, Nick Jordan, Linda Veras, Franco Ressell, Giovanni Cianfriglia [undir nafninu Ken Wood] og Anthony Gradwell
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1969
Lengd: 102mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064916
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Nokkrir góðborgarar í bænum Daugherty ræna $100.000 frá hernum til að fjármagna jarðarkaup í von um að verðgildið eigi eftir að margfaldast þegar járnbraut verður lögð þar um. Áður en fyrirætlun þeirra gengur hins vegar eftir, ríður Sabata í hlaðið.

Almennt um myndina:
Leiðinlegur spaghettí-vestri sem af óskiljanlegum ástæðum hefur notið töluverðra vinsælda. Lee van Cleef er það eina, sem getur talist viðundandi við myndina, en hann nær samt engan veginn að bjarga henni.Eðalleikarinn William Berger er þó alveg sérstaklega aumkunarverður í hlutverki Banjós, sem tjáir sig nær eingöngu með banjóinu sínu og Winchester 1874 rifflinum, sem falinn er inni í því. Persóna hans er augljóslega stæling á munnhörpuleikaranum í meistaraverkinu Once Upon a Time in the West (Sergio Leone: 1968), en í þessu tilfelli tekst hörmulega til með persónusköpunina, ekki síst vegna afkáralegs klæðaburðar, lélegs handrits og hörmulegrar tónlistar. (Banjó er einfaldlega illþolanlegt hljóðfæri nema í algjörum undantekningartilfellum, en banjótónlist Ennios Morricones í gulmyndarmorðgátunni Hitch Hike (Pasquale Festa Campanile: 1977) var t.d. svaka flott.)

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Allir bæjarbúar Daugherty reynast falir fyrir fé og er presturinn þar ekki undanskilinn. Hann stefnir Sabata á sinn fund í kirkju bæjarins og minnir hann á að lífið sé heilög gjöf Guðs meðan hann dregur fram byssu sína í laumi. Sabata nær þó að fella hann áður en hann hleypir af skoti, en það verður til þess að Banjo segir vegi Guðs órannsakanlega, spakmæli sem Sabata tileinkar sér heldur betur.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Persónur úr trúarritum: María mey, dýrlingur
Siðfræðistef: svik, manndráp, helgi lífsins
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altari, kross
Trúarlegt atferli og siðir: signing, sálumessa, biblíulestur