Smultronställe er á sænsku fyrirbæri sem er ekki svo gott að útskýra en ég ætla nú samt að reyna það. Smultronställe er ekki bara frjósamur og fallegur staður þar sem hægt er að týna jarðarber heldur líka staður eða stund í fortíð einhvers, notalegur og eftirminnilegur staður sem viðkomandi heimsækir þess vegna aftur og aftur í huganum, svona uppáhalds minning, sælureitur hugans.
Myndin sem við ætlum að horfa á hér á eftir „Smultronstället“, eða Sælureitur, frá árinu 1957 festi Ingmar Bergman í sessi sem listamann. Hún er af mörgum talin hans besta mynd frá sjötta áratugnum. Ég ætla ekkert að fullyrða um það, á erfitt með að gera upp á milli mynda sjálf, en Sælureitur er sannarlega ein af uppáhalds Bergman myndunum mínum. Ekki síst vegna þess að hún sameinar djúpar heimspekilegar vangaveltur um mannlega tilveru annars vegar og húmor, skemmtilegheit og rómantík hins vegar. Rétt eins og lífið sjálft.
Myndatakan er með því besta sem ég hef séð. Snillingurinn Gunnar Fischer tekur myndina en samvinna Bermans og Fischer var löng og farsæl. Takið eftir draumnum í byrjun myndarinnar. Hann er afar áhrifamikill og expressionískur. Andlitslaus maður, auðar götur, klukkan. Þarna er um mikla symbólík að ræða en Bergman hefur aldrei verið hræddur við að nota tákn. Draumurinn er fyrsta ferð okkar inn í sálarafkima aðalsöguhetjunnar, Ísaks. En myndatakan almennt er falleg og sýnir ekki síður fegurð Svíþjóðar, sveitina, sænskar hefðir og í hvert sinn sem ég sé þessa mynd fæ ég heimþrá til Svíþjóðar.
Sælureitur segir frá eldri herramanni, Isak Borg, virtum prófessor á eftirlaunum. Hann er á leið frá Stokkhólmi til háskólaborgarinnar Lundar til að taka við heiðursnafnbót. Í för með honum er tengdadóttir hans. Á leiðinni gerir gamli maðurinn upp líf sitt, rifjar upp samband við foreldra, systkini, og börn.
Á einstakan hátt tekst Bergman að blanda saman draumum og veruleika og fara á milli ólíkra tímabila í lífi Isaks. Ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur leikstjóra tekist að gera slíkt jafn áreynslulaust fyrir áhorfandann, maður hefur á tilfinningunni að upplifa fleiri en eitt tímabil samtímis án þess að það verði nokkurn tíma ruglingslegt. Allir þessir sérkennlegu litlu bitar í púsluspilinu, draumar, endurlit og nútíð raðast saman í fullkomna mynd í lokin. Mynd af lífshlaupi manns og mynd af því hvernig og hvers vegna hann verður sá sem hann er.
Annað sem gerir þessa mynd sérstaka meðal verka Bergmans er einstök túlkun guðföður sænskrar kvikmyndagerðar og stjörnu frá tímum þöglu kvikmyndanna Victor Sjöström, á Isak. Tjáningaríkt andlit hans og frábær túlkun á manni sem er rólegur á yfirborðinu en allt ólgar undir niðri er eitt og sér næg ástæða til að sjá myndina. Tengdadótturina leikur Ingrid Thulin. Hún er ein af þeim leikkonum sem Bergman notaði hvað mest, en þetta er fyrsta mynd hans sem hún lék í. Önnur leikkona sem einnig er oft kölluð Bergman leikkona, Bibi Andersson, leikur líka í myndinni.
Sælureitur er uppáhalds vegamyndin mín. Frábært ferðalag í tvennum skilningi, ferðalag samferðamanna um Svíþjóð annars vegar og ferðalag um sálarafkima Ísaks hins vegar. Ég gæti staðið hér og talað um Smultronstället í allt kvöld en það er miklu skemmtilegra að horfa á myndina, svo ég þakka fyrir mig og segi Góða skemmtun!
Innlýsing á undan sýningu myndarinnar í Bæjarbíói á Kirkjulistahátíð 3. júní 2003. Hún birtist einnig á vef Sigríðar Pétursdóttur, kvika.net.