Kvikmyndir

Salon Kitty

Leikstjórn: Tinto Brass
Handrit: Tinto Brass, Ennio De Concini og Maria Pia Fusco, byggt á skáldsögu eftir Peter Norden
Leikarar: Helmut Berger, Ingrid Thulin, Teresa Ann Savoy, John Steiner, John Ireland, Bekim Fehmiu, Tina Aumont, Sara Sperati, Maria Michi, Rosemarie Lindt, Paola Senatore, Stefano Satta Flores, Dan van Husen, Geoffrey Copleston og Salvatore Baccaro
Upprunaland: Ítalía, Þýzkaland og Frakkland
Ár: 1976
Lengd: 112mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0075163
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Í byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar er vinsælasta vændishúsinu í Berlín lokað þar til eigandinn, Madame Kitty Kellermann, samþykkir að færa reksturinn í hendurnar á SS til að geta njósnað um viðskiptavinina, en aðeins sérþjálfaðar vændiskonur, sem eru sannfærðir nazistar, fá að starfa þar. Þegar unnusti einnar vændiskonunnar er hins vegar tekinn af lífi fyrir að hafa gagnrýnt stríðsrekstur ríkisins á vændishúsinu, ákveður hún að ná sér niður á stjórnanda þess, SS foringjanum Helmut Wallenberg, og fær Madame Kitty í lið með sér.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Salon Kitty er jafnan flokkuð til svokallaðra evrópskra ruslmynda, stundum nefndar evrurusl, vegna vafasamra efnistaka og ódýrar framleiðslu. Engu að síður hefur töluverðu verið kostað til gerðar þessarar myndar, sem sést meðal annars í kvikmyndatökunni, tónlistinni, búningunum og sviðsmynd Kens Adams, en hann er hvað þekktastur fyrir hönnun sviðsmyndanna í flestum James Bond myndunum.

Leikararnir eru margir þekktir ruslmyndaleikarar og eru SS foringjarnir sérstaklega ofleiknir þó svo að Helmut Berger, John Steiner og Dan van Husen fari þar allir á kostum á sinn sérstæða hátt. Ingrid Thulin er þó mjög virt skapgerðarleikkona, sem lék meðal annars í myndum hjá mikilvægum kvikmyndagerðarmönnum á borð við Ingmar Bergman, Luchino Visconti og Aldo Lado, en hér er hún í hlutverki Madame Kittýar.

Enda þótt kvikmyndin sé auðvitað skáldskapur er Madame Kitty söguleg persónu, sem starfrækti vinsælt vændishús í Berlín í samvinnu við Gestapo á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Ítalir framleiddu allmargar kvikmyndir á áttunda áratugnum um siðspillta nazista í kjölfar velgengni myndanna The Damned eftir Luchino Visconti frá árinu 1969 og The Night Porter eftir Liliana Cavani frá árinu 1974. Af þeim kvikmyndum, sem komu í kjölfarið, þykir Salon Kitty einna best, en flestar hinna reyndust hreinn ruslatunnumatur. Þegar vafasamar nazistamyndir, sem einkum snerust um kúgun kvenna, hættu að skila hagnaði undir lok áratugarins, misstu ítölsku kvikmyndaframleiðendurnir sjálfkrafa áhugann á þeim og eru þær nú flestum gleymdar.

Sú útgáfa kvikmyndarinnar Salon Kitty, sem er hér til umfjöllunar, er mikið stytt, en hún hefur lengi verið fáanleg óstytt með enskri talsetningu í Danmörku og Hollandi. Bandaríska DVD útgáfufyrirtækið Blue Underground hefur þó í hyggju að gefa myndina út óstytta einhvern tímann þegar líður á árið 2003.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt mörgum þyki eflaust efnistökin viðkvæm, ætti engum að dyljast af framsetningunni, að markmið leikstjórans er fyrst og fremst það að hæðast að hugmyndafræði nazísku harðstjórnarinnar í Þýzkalandi, sem gerðist sek um marga af verstu glæpum mannkynssögunnar.

Snemma í kvikmyndinni flytur mannfræðiprófessor vafasaman fyrirlestur í máli og myndum um yfirburði aríska kynstofnsins og ógnina af gyðingum. Þegar hann er síðan spurður af einum nemandanum hvort Jesús Kristur hafi verið Gyðingur, neitar hann því og segir það vísindalega sannað að hann hafi verið barn rómverskrar vændiskonu og þýzks málaliða úr setuher Rómverja, enda hafi hann bæði verið bláeygur og ljóshærður. Eina heimild prófessorsins reynist hins vegar vera foringinn Adolf Hitler, enda er útliti Jesú Krists hvergi lýst í Nýja testamentinu.

Um miðbik myndarinnar syngur Madame Kitty svo fyrir gesti sína um markmið Guðs með sköpun Adams og Evu samkvæmt Biblíunni, en viðhorf hennar eru að sjálfsögðu í frjálslyndari kantinum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 1:27-28, 1M 2:22-23
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2:25
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Adam, Eva
Guðfræðistef: sköpunin, mannseðlið, kynhvötin, ætterni Jesú, syndafallið
Siðfræðistef: kynþáttahatur, vændi, njósnir, aftaka, hefnd
Trúarbrögð: gyðingar, nazismi