Kvikmyndir

Såsom i en spegel

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Harriet Andersson, Gunnar Björnstrand, Max von Sydow og Lars Passgård
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1961
Lengd: 86mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Eins og í skuggsjá segir frá fjórum einstaklingum í sumardvöl á eyju í sænska skerjagarðinum og byrjar við hafið eins og Sjöunda innsiglið. Úthafið er hin óræða, mikla víðátta þar sem allar sögur hefjast – og enda eins og ár og lækir sem leita þangað að lokum. Fjórir einstaklingar koma vaðandi upp í fjörusandinn eftir hressandi sjóbað og það ríkir glaðværð og kátína meðal þeirra þegar hafist er handa við að undirbúa sameiginlega máltíð. Brátt kemur hins vegar í ljós að gáskinn og gleðin eru í raun tilraun til að dylja beiskju og sársauka fólksins.

Persónurnar eru bara fjórar og gerist myndin öll á einum sólarhring í lífi þeirra. Davíð, sem leikinn er af Gunnari Björnstrand, er frægur rithöfundur, sem nýkominn er heim úr ferðalagi utan úr heimi þar sem hann hafði unnið við ritstörf. Mínus er sonur hans á táningsaldri, óöruggur með sjálfan sig og þær hvatir sem eru að vakna með honum, en hann er leikinn af Lars Passgård. Dóttir rithöfundarins er þarna einnig. Hún heitir Karin og fer Harriet Anderson með hlutverk hennar. Fjórða persónan er Martin, sem er læknir og eiginmaður Karinar, en hann er leikinn af Max von Sydow. Hann er mun eldri en hún sem sennilega hefur séð í honum staðgengil föðurins sem brást.

Fjölskyldan býr yfir harmleik sem kraumar undir niðri og á eftir að taka á sig nýjar myndir. Daprar minningar fjölskyldunnar og erfiða reynslu hennar má rekja til þess hversu mjög Davíð hefur vanrækt fjölskyldu sína, en hann yfirgaf konu sína sem átti við vanheilsu að stríða áður en hún lést. Hann flýði af hólmi þegar dóttir hans þurfti á honum að halda, en hún er nýkomin af geðsjúkrahúsi vegna geðklofa. Sjálfur hefur hann fundið fyrir tómleika, en segir samt að þegar honum mistókst að fyrirfara sér hafi hann uppgötvað hvað lífið er mikils virði. Ekki fær fjölskyldan þó að njóta þessarar nýju uppgötvunar föðurins meira en svo að hann hefur þegar lagt á ráðin með aðra utanlandsferð. Gjafirnar sem hann kemur með árétta fjarlægð hans, því að ýmist eiga þau það fyrir sem hann kemur með eða það reynist með öllu óviðeigandi. Samt þakka börnin honum fyrir gjafirnar og reyna að sýna honum að hann sé elskaður. Sonur hans hefur skrifað leikrit fyrir hann sem við fáum að sjá sem „leikrit í leikritinu“ en það eykur á næmi áhorfendanna á innri baráttu persónanna. Leikritið segir frá prinsessu sem risið hefur upp frá dauðum. Elskhuginn, sem er listamaður, ætlar að fórna lífi sínu fyrir hana, en gugnar á því þegar til kastana kemur. Það má túlka leikritið sem napurt háð á föðurinn og framkomu hans enda tekur hann því þannig.

Verkið er öðrum þræði þroskasaga systkinanna Mínusar og Karinar. Dvölin á eyjunni reynist Karin ekki sú ganga út í lífið á ný sem allir vonuðust til. Hún vitjar föður síns um kvöldið og hjúfrar sig í fangi hans og hann ber hana upp í rúm og býður henni góða nótt eins og þegar hún var lítil. Hún vill hverfa til baka. Um nóttina skoðar hún svo handrit föður síns og les dagbók hans sem er eins konar spegill hans. Hún finnur þar athugasemdir hans um hana sjálfa og sér hvar hann hefur skrifað að hann geri ekki ráð fyrir því að hún verði frísk aftur. Það kemur fram að hann fylgist af forvitni með framvindu sjúkdóms hennar til að geta notað það í skáldsögu. Hún sér nú þá mynd sem faðir hennar hefur af henni og hrekur það hana aftur inn í sjúkdóminn.

Sjúklegar ofskynjanir Karinar taka að sækja á hana á nýjan leik og þegar hún finnur að sjúkdómurinn er að ná yfirhöndinni, flýr hún niður í flæðarmálið og felur sig í skrokki gamals skipsflaks sem liggur þar á hliðinni í fjörunni. Þessi dimma og blauta vistarvera er eins og undirheimur og magnar hljóðið úr þokulúðrinum tilfinningu áhorfandans fyrir þeirri villu, sem fjölskyldan hefur ratað í þegar hún sigldi í strand. Karin játar þar fyrir bróður sínum, sem hún hefur gert að trúnaðarvini, að hún eigi ekkert sameiginlegt með eiginmanni sínum og að hún verði að fylgja þeim röddum sem hún heyrir frá öndunum. Bróðir hennar reynir að hlúa að henni og hugga hana en hún bregst við með því að lokka hann til samræðis. Eftir það finnst honum eins og lífinu séu lokið því að hann hafi drýgt ófyrirgefanlegan glæp sem aldrei verði afmáður. Ráðstafanir eru hins vegar gerðar til að Karin komist aftur á sjúkrahúsið og virðist hún vera því fegin.

Áður en til þess kemur fer hún hins vegar upp í gamla herbergið sitt og stendur þar fyrir framan fóðraðan vegginn uppnumin yfir því að raddirnar hafa lofað henni að þar fái hún að sjá Guð. Hún heldur að Guð sé hinum megin við vegginn. Þegar sjúkraþyrlan lendir á hlaðinu, fjúka dyrnar á herbergi Karinar upp og guðinn opinberar sig. Karin sér þar Guð í mynd risakóngulóar sem ræðst á hana og nauðgar henni. Hún berst um á hæl og hnakka og mennirnir þrír reyna að halda henni en hún gerir ekki greinarmun á þeim og skrímslinu og róast ekki fyrr en þeir stinga hana með deyfandi sprautu. Kóngulóinn hefur komið inn í hana deyfilyfi sínu.

Þegar Karin hverfur inn í einangraðan og sjúkan hugarheim sinn, má að vissu leyti segja að hún hverfi úr þessum heimi og stigi niður til heljar. Þegar sjúkraþyrlan (deus ex machina) hefur sig svo á loft til að flytja hana aftur á sjúkrahúsið, verður áhorfandinn vitni að átakanlegri og nöturlegri upprisu. Hún er horfin upp í himininn og á hvorki afturkvæmt til þeirra feðga né eiginmannsins.

Almennt um myndina:
Myndin var frumsýnd árið 1961 og telst fyrsta myndin í svo nefndum þríleik Ingmars Bergmans þar sem hann glímir við spurninguna um tilvist og eðli Guðs og hvort og þá hvernig hann geti opinberað sig mönnunum. Hinar tvær myndirnar í þríleiknum eru Köldmáltíðargestirnir og Þögnin.

Sjálfur hefur Ingmar Bergman reyndar hafnað því að hægt sé að tala um þríleik í þessu sambandi, enda hafi hann aldrei hugsað dæmið þannig þegar hann vann við gerð myndanna á sínum tíma. Ýmsir hafa auk þess talið rangt að einskorða uppgjör hans við trúna við þessar þrjár myndir og tala því um trúarfjórleikinn þegar þeir bæta kvikmyndinni Persóna við. En þá mætti allt eins bæta við hinum trúarlegu myndunum sem hann gerði á undan kvikmyndinni Eins og í skuggsjá, þ.e. Sjöunda innsiglinu, Andlitinu og Meyjarlindinni. Málið er að þessar sjö kvikmyndir mynda í raun eina heild sem nauðsynlegt er að skoða í réttri röð þegar trúarleg áhrif í verkum Bergmans eru metin.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Heiti kvikmyndarinnar Eins og í skjuggsjá (Såsom i en spegel) er tilvitnun í kærleiksóð Páls postula í fyrra bréfi hans til Kórintumanna. Þetta er ekki eina kvikmyndin sem vísar í þetta bréf Páls postula, því að það gerir einnig myndin Augliti til auglitis (Ansikte mot ansikte), sem Ingmar Bergman gerði árið 1976 en þá hafði trúarglíma hans tekið á sig aðra mynd. Bæði heitin eru tekið úr 12. versi 13. kafla bréfsins, en í íslensku biblíuútgáfunni frá árinu 1981 er það orðað svona: „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.“

Í sænsku biblíuþýðingunni er orðið spegill notað þar sem íslenska þýðingin notar orðið skuggsjá. Af frumtextanum má ráða að Páll postuli hafi átt við skjá eða ljóra sem sást óljóst í gegnum en það vandamál var vel þekkt í Kórintu þeim tíma enda höfðu þar margir atvinnu af því að búa til bæði spegla og ljóra fyrir glugga.

Hér er ekki um að ræða það gler sem við höfum á heimilum okkur nú á dögum heldur slípaða málma, með horn eða húðir, sem sýndu aðeins útlínur hlutanna eins og um skugga væri að ræða. Þeir sáust í móðu, voru bjagaðir og öðru vísi en þeir voru í raun og veru. Þegar líkingin er notuð um samband Guðs og manns er átt við að við getum ekki þekkt alla leyndardóma Guðs, jafnvel þótt hann þekki okkur hvert og eitt, bæði okkar innri og ytri mann. Við sjáum því Guð aðeins óljóst, en hann gjörþekkir okkur. Það var þessi skýra sjón sem riddarinn og krossfarinn í myndinni Sjöunda innsiglið þráði að fá.

Í þessu táknmáli er fólgin ákveðin tvíræðni sem er mikilvæg við greiningu á myndum Bergmans. Í skuggsjánni sáum við í gegnum gluggann það sem fyrir handan er, en spegillinn endurvarpar ljósinu og sá sem horfir sér sjálfan sig. Spegillinn er því tæki til sjálfsskoðunar. En þegar lengst er skyggnst og dýpst er skoðað sjáum við ekkert nema ljósið sem Guð einn kveikir og lýsir okkur í myrkviðum mannlífsins.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að sálkönnuðurinn og læknirinn frægi Carl Gustav Jung segir að Sjálfið, sem er í raun sálræn frumgerð úr grárri forneskju mannlegrar samvitundar, sé guðlegs eðlis. Það [þ.e. sjálfið] er það vegna þess að það er vaxið út úr handanveruleikanum og fasttengt honum. Glíman við að skilja Guð og leitin að návist hans er því hluti af því að skynja sjálfan sig sem sjálfstæðan og heilan persónuleika í gefandi samskiptum við umhverfið ­ persónu sem getur gefið og þegið, unnið og elskað og notið hvoru tveggja. Þetta er glíman við Guð ­ Guð eins og við skiljum hann.

Fyrir kristinn mann er þetta spurning um trú á þann Guð sem kirkjan boðar, Drottin vorn Jesúm Krist sem samkvæmt Aþanasíusarjátningunni er: „fullkominn Guð, fullkominn maður, með skynsemisgæddri sál og mannlegu holdi. Föðurnum jafn samkvæmt guðdóminum, föðurnum síðri samkvæmt manndóminum. Og þótt hann sé bæði Guð og maður, er hann samt ekki tveir, heldur einn Kristur.“

Þetta er sá Guð sem persónurnar í kvikmyndum Bergmans frá seinni hluta sjötta áratugarins og fram á þann sjöunda eru að leita að. Hann birtist eða gefur sig til kynna með ýmsu móti, en þögnin er samt alltaf það sem einkennir hann hjá Bergman og það endar með því að hann þagnar alveg ­ eða svo mætti ætla.

Kóngulóarguðinn hefur af mörgum verið túlkaður sem skuggi föðurins í myndinni. Afskiptaleysi hans gagnvart fjölskyldunni skapaði það rými í hugskoti dótturinnar sem nægði skrímslinu til að vaxa og dafna. Hann brást hvað eftir annað. Hún varð því sífellt fyrir vonbrigðum eins og Ingmar Bergman sjálfur í barnæsku og vissi ekki frekar en hann hverju hún átti von á þegar faðir hennar var annars vegar. Sárindin og niðurlægingin umbreytast í ótta sem skapar hryllinginn í sinni verstu mynd.

Drengurinn Mínus er allur í uppnámi eftir þessa atburði og virðist vera á sömu leið og systir hans, þ.e. að hörfa inn í tómið þar sem hætturnar leynast. En nú hefur faðirinn áttað sig á stöðu mála og sýnir ráðviltum syni sínum skilning. Drengurinn segir föður sínum frá synd sinni og fær það svar að hann eigi að lifa áfram og verða betri maður. Sár reynsla hans verður upphaf að göngu hans út í lífið.

Lokasenan þar sem faðirinn ræðir við son sinn um Guð og kærleikann er hápunktur myndarinnar en fyrir vikið verður kóngulóarguðinn ekki alsráðandi þegar allt kemur til alls. Faðir og sonur ræða saman. Faðirinn nálgast son sinn og ræðir ekki bara um kærleikann við hann heldur tjáir umhyggju sína fyrir börnum sínum af mikilli einlægni. Það sem faðirinn segir við son sinn má kalla kærleiksóð Ingmars Bergman, en hann svarar þeim spurningum um mannlífið sem myndin varpar fram. Í bakgrunni þessa kærleiksóðs Bergmans má hins vegar merkja kærleiksóð Páls postula úr fyrra Korintubréfinu, en jafnframt má heyra vatnið renna úr meyjarlindinni, sem hreinsaði Inger af þeim syndum sem hún hafði drýgt gegn systur sinni sem einnig hét Karin.

Kærleiksóður Bergmans í myndinni Eins og í skuggsjá er svona:

Sonurinn: Pabbi, ég er hræddur. Ég sat þarna inni í skipsflakinu og hélt fast um Karin og þá var eins og veruleikinn leystist upp. Skilurðu hvað ég á við pabbi?
Faðirinn: Já!
Sonurinn: Raunveruleikinn leystist upp og það var eins og ég væri að hverfa ­ týnast. Þetta er eins og í draumi. Allt getur gerst, pabbi. Allt!
Faðirinn: Ég veit.
Sonurinn: Ég gek ekki lifað í þessu nýja pabbi.
Faðirinn: Jú, þú getur það. En þú verður að hafa eitthvað til að halda þér í.
Sonurinn: Hvað gæti það svo sem verið? Guð? Gefðu mér þá sönnun fyrir því að hann sé til. Þú getur það ekki.
Faðirinn: Jú ég get það. En þú verður að hlusta vel á það sem ég segi.
Sonurinn: Já, ég verð að hlusta.
Faðirinn: Ég get bara gefið þér hugboð um það sem ég trúi sjálfur á og það er vitneskjan um það að til er kærleikur sem er raunveruleiki í mannlífinu.
Sonurinn: Það er náttúrulega einhver alveg sérstök tegund af kærleika.
Faðirinn: Nei, það er öll ást, allar tegundir kærleika. Sá æðsti og sá lægsti. Sá hlægilegi og sá háleiti. Allar tegundir.
Sonurinn: Og þráin eftir kærleikanum líka?
Faðirinn: Já, þráin, afneitunin, efinn og trúin.
Sonurinn: Er þá kærleikurinn sönnunin fyrir því að Guð er til?
Faðirinn: Ég veit ekki hvort kærleikurinn er sönnunin fyrir tilvist Guðs eða hvort hann er Guð sjálfur.
Sonurinn: Er þá Guð og kærleikurinn það sama?
Faðirinn: Já, það er reynsla mín. Fyrir þessa trú fæ ég frið fyrir illum hugsunum og ég verð sáttur í einsemd minni.
Sonurinn: Pabbi, haltu áfram að tala.
Faðirinn: Allt í einu umbreytist einmanakenndin í ríkidæmi og vonleysið breytist í líf. Þetta er eins og að fá náðun frá dauðadómi.
Sonurinn: Pabbi, ef það er eins og þú segir þá er Guð hjá Karin af því að við elskum hana.
Faðirinn: Já.
Sonurinn: Getur það hjálpað henni?
Faðirinn: Já, ég trúi því.

Myndin endar svo á því að ljósið fellur yfir andlit drengsins þar sem hann situr í vinnuherbergi föður síns og horfir út á hafið. Guð hefur opinberast honum og hann segir eins og sá sem hefur séð mikil undur: „Pabbi talaði við mig.“

Kærleiksóðinn má finna víðar í myndum Bergmans, t.d. í orðum gömlu spákonunnar í myndinni Andlitið þegar hún huggar unga stúlku sem ekki getur sofið. Víða má einnig finna kristsgervinga í myndunum sem holdgera einhvern eiginleika Jesú Krists við vissar aðstæður., en þar má t.d. benda á meðhjálparann Algot og kennslukonuna Mörtu í kvikmyndinni Kvöldmáltíðargestirnir og þjónustustúlkuna í myndinni Hvísl og hróp.

Samúð og skilning Ingmars Bergman er helst að finna í garð þeirra sem eru óhamingjusamir og þjást. Hann upphefur aldrei hetjur eða sigurvegara á kostnað þeirra sem eru fátækir í anda. Von mannsins er ekki fólgin í valdi þessa heims, heldur hjá þeim hjartahreinu og mátt kærleikans lokar Ingmar Bergman aldrei af innan kjarnafjölskyldunnar eins og bandarískar kvikmyndir gera yfirleitt. Vald hins illa er raunveruleiki í myndum Bergmans og hann vill greina mátt þess í sálarlífi mannsins og mannlegum samskiptum. Í kristnum fræðum er þetta kallað að vera á varðbergi gagnvart erfðasyndinni.

Það hefur orðið sérstök íþrótt hjá Bergmanfræðingum að finna samsvörun milli atburða í myndum Bergmans og atburða í lífi hans og sérstaklega samskiptum hans við foreldrana. Ég hef samt ekki orðið var við að nokkur þeirra hafi getið sér þess til að í þessari lokasenu tali séra Erik Bergman við son sinn Ingmar.

Ég held að svo sé. Í sjálfsævisögunni segir Ingmar Bergman frá skelfingunni sem greip hann þegar hann fékk fyrst sáðlát. Hann bað Jesúm innilega fyrirgefningar. Og hann gerði meira. Hann bað föður sinn að fá að byrja ári fyrr í fermingarfræðslunni og fékk hann það. Það má ganga að því vísu að sonurinn hafi leitað til föður síns í öngum sínum út af ýmsu sem þjakaði ofur viðkvæma sál hans og samvisku. Ekki þarf heldur mikið ímyndunarafl til að geta sér þess til að séra Erik hafi haft yfir setningar úr kærleiksóði Páls postula þar sem segir að kærleikurinn umberi allt, fyrirgefi allt, samgleðjist sannleikanum og falli aldrei úr gildi.

Þetta er háleitur boðskapur sem felur í sér kröfu um fullkomnun sem engin venjuleg manneskja getur staðið undir. Þegar þessi boðskapur verður að lögmáli, þá kikna allir undan því. Ef það er sjónarmið Ingmars Bergman þá er ekki erfitt að skilja hvers vegna hann er sífellt svo ósáttur við sjálfan sig og á erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér.

Bergman var gagnrýndur af ýmsum læknum og vísindahyggjumönnum fyrir eitt mikilvægasta atriðið í myndinni Eins og í skuggsjá. Þeir héldu því fram að það væri óviðkunnalegt og úr takt við hlutverk listarinnar að velta sér upp úr sjúkdómslýsingum og ofskynjunum geðsjúklinga, sem engir ættu að greina og tjá sig um nema læknar. Myndin er þess eðlis að hún hefði hæglega getað vakið umræður meðal guðfræðinga og kristinna safnaðarleiðtoga um kærleikshugtakið og birtingarmyndir Guðs í syndugum og spiltum heimi, en það virðist ekki hafa gerst. Ingmar Bergman var fyrir löngu búinn að ganga svo fram af kirkjunnar mönnum, einkum með kynlífsatriðunum í myndum sínum, að þeir voru búnir að loka á alla umræðu við hann og virðist hann sjálfur ekki heldur hafa haft áhuga á því að ræða við þá um myndir sínar.

Eftir á að hyggja var Bergman hins vegar ósáttur við lok myndarinnar. Hann taldi að þessi jákvæði tónn myndarinnar í lokin hefði verið falskur út frá listrænu sjónarmiði. Lausnin var of einföld og slíkt átti listin að forðast að bjóða áhorfendum. Listin átti að benda á viðfangsefnin og greina þau en ekki endilega koma með lokaniðurstöðu sem allir gætu orðið ásáttir um. Milli línanna í skrifum Bergmans má einnig sjá að ýmsum starfsfélögum hans meðal listamanna og rithöfunda þótti nóg um trúaráhuga hans og töldu hann vera honum til trafala sem áhugaverðum listamanni. Á þessum árum þótti það alls ekki við hæfi meðal listamanna eða róttækra menntamanna að játa kristna trú.

Gagnrýni heimspekiprófessorsins Igemars Hedenius á kristna trú tröllreið andlegu lífi í Svíþjóð á þessum árum og þrengdi mjög að allri guðfræði og opinskárri umræðu um gildi trúar fyrir andlegt líf og fyrir samfélagið. Hedenius tefldi vísindunum fram gegn trúnni og beitti fyrir sig analýtiskri heimspeki til að sýna fram á fáránleikan í kenningum kristninnar um tilvist Guðs og gildi trúar.

Í fagnaðarerindi Hedeniusar og fylgismanna hans var það forsenda velgengni og andlegs heilbrigðis að sjá í gegnum blekkingu trúarinnar og losa sig við hindurvitni og þær mótsagnir og þverstæður sem trúarleg viðhorf gera sér að góðu. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að Bergman aðhylltist sjálfur aldrei vísindahyggjuna, hvorki sem einstaklingur né listamaður, enda er hún afskaplega ófrjó sem nálgun á þau mannlegu vandamál sem sannir listamenn glíma við í listsköpun sinni. Hann skynjaði það ósjálfrátt að vísindahyggjan var steingeld sem lausn á mannlegum vandamálum og gat lítið sem ekkert gefið þeim sem leita að sannleikanum um manninn, kærleikann, þjáninguna og dauðann.

Myndin Eins og í skuggsjá vakti mikla athygli og mikið var skrifað um hana í sérfræðiritum um kvikmyndir og fjallað um það hvort Guð væri það sama og kærleikur eða hvort manni nægði að fullyrða að kærleikurinn væri Guð. Þar var einnig bent á að umfjöllun myndarinnar um Guð gengi ekki upp. Ýmsum fannst guðsvörnin ósannfærandi og í raun óþarfi í myndinni. Hver voru til dæmis rökin fyrir sinnaskiptum föðurins sem allt í einu virðist skilja gildi kærleikans og geta talað um hann af viti við son sinn?

Á það var bent að tvenns konar guðshugtak kæmi við sögu í myndinni. Annars vegar var það hugmynd geðsjúklingsins um Guð sem risakónguló ­ það er köngulóarguðinn ­ og hins vegar Guð kærleikans eða hinn kærleiksríki Guð kristninnar. Er eitthvað samband þarna á milli spyr einn gagnrýnandinn, sem annars var hrifinn af myndinni, og bætir við í nokkuð kaldhæðnislegum tón: „Lokaatriði myndarinnar er veikt, ekki af því að það sé guðfræðilegt heldur vegna þess að Bergman hefur ekki tekist að tengja saman þau tvö meginþemu sem myndin fjallar um ­ Guð sem kónguló og Guð sem kærleika. Nema við eigum að líta svo á að boðskapur myndarinnar sé að Guð sé kærleiksrík kónguló.“

Sjálfur hefur Ingmar Bergman hagað sér eins og kónguló þegar hann sviðsetur verk sín. Hann skipuleggur allt í þaula og velur leikarana af kostgæfni og fær þá til að gefa af sér sitt besta á sviðinu og fyrir framan myndavélina. Annað hvort laðast fólk að persónutöfrum hans eða það forðast hann og nánast hatar. Hann speglar sig í og nærist á hlutverkum þeirra sem elska hann og hann kann hlutverk þeirra utan að. Hann hefur sjálfur spunnið þau og sett þau upp og efniviðurinn í þráðunum eru tilfinningar, hæfileikar og reynsla leikaranna. Þegar þetta gengur allt upp og vefurinn er fullkominn er Ingmar Bergman sæll og glaður og elskar alla í kringum sig án nokkurrar taugaveiklunar. Djöflarnir eru horfnir og kannski dauðir. Ef þeir rísa upp þá er bara að gera aðra mynd.

Ingmar Bergman sígur til sín orku þeirra sem vinna fyrir hann og umbreytir henni í senur ­ oft ógleymanlegar senur sem stundum miðla jafnvel yfirnáttúrulegri orku. Þá er leikstjórinn í essinu sínu. Hann hefur veitt áhorfendur í vef sinn og þeir eru þar eins og í leiðslu, dofnir og fastir. Sjálfur lýsir hann þessu sem kraftaverki. Við megum þakka Guði fyrir að Ingmar varð leikstjóri en ekki trúarleiðtogi. Hann hefði án efa náð miklum árangri sem vakningapredikari, orðið einvaldur í söfnuði sínum, líklega harðstjóri.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1Kor 13:12-13
Persónur úr trúarritum: Guð, andar
Guðfræðistef: tilvist Guðs, kærleiki Guðs, fyrirgefning, deus ex machina, upprisa, helja, maðurinn gagnvart Guði, Guð gagnvart manninum, opinberun Guðs
Siðfræðistef: sifjaspell, höfnun, ótti, föðurelska, skilnaður, hræsni, geðveiki
Trúarleg tákn: kónguló
Trúarlegt atferli og siðir: játning, ákall, bæn
Trúarleg reynsla: kærleikur, ofskynjanir, Guð sem skrímsli, Guð sem kærleikur