1. árgangur 2001, Ritdómur, Vefrit

Ritdómur: Seeing and Believing

Seeing and Believing: Religion and Values in the Movies
eftir Margaret R. Miles

Bókin Seeing and Believing: Religion and Values in the Movies eftir Margaret R. Miles kom út árið 1996. Í bókinni rannsakar hún þá mynd sem kvikmyndir draga upp af trúarbrögðum og trúarhópum annars vegar og kynþáttum, stéttum og kvenmönnum hins vegar. Markmið Miles er því ekki að rannsaka biblíustef í kvikmyndum eða guðfræðilegar áherslur. Spurningin sem hún leggur upp með er fyrst og fremst ,,hvaða skilaboð eru í kvikmyndum um siðferðileg álitamál og náunga okkar? Samkvæmt Miles felst hið trúarlega í kvikmyndum fyrst og fremst í því hvernig kvikmyndir svara spurningunni um ,,hvernig líf okkar á að vera?“

Nálgun Miles er mjög í anda kvennaguðfræðinnar og hún er á vissan hátt bæði íhaldssöm og frjálslynd. Hún er íhaldssöm að því leyti að Miles krefst þess að kvikmyndir séu góðar fyrirmyndir. Hún hamrar t.d. á mikilvægi þess að lauslæti sé ekki sýnt á skjánum og að þeir sem sænga saman stundi öruggt kynlíf. Hún segir að á tímum eyðni væri allt annað ábyrgðarleysi. Henni er einnig umhugað um ofbeldi í kvikmyndum og afleiðingar þess. Allt hefur þetta heyrst þúsund sinnum áður og þá oftast frá bókstafstrúarmönnum og öðrum íhaldssömum öflum.

Miles er hins vegar frjálslynd að því leyti að hún krefst þess að minnihluta- og valdalitlir hópar eins og svertingjar, konur, samkynhneigðir, gyðingar og múslimar njóti sannmælis í kvikmyndum. Hér er í raun að finna rauða þráðinn í bókarinni. Markmið Miles er fyrst og fremst að sýna fram á hversu herfilega kvikmyndir hafa brugðist minnihlutahópum. Í stað þess að framleiðendur berjist fyrir réttindum hinna kúguðu taka þeir upp málstað kúgarans og auka þannig á þjáninguna. Það sama er að segja um kvikmyndir sem minnihlutahóparnir standa sjálfir að. Í flestum tilfellum enda þeir með að taka undir viðhorf kúgarans, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því. Samkvæmt bókinni hefur aðeins ein kvikmynd staðist strangann mælikvarða Miles en það er hin nær óþekkta kvikmynd Daughters of the Dust. Út frá þessu mætti segja að undirtitill bókarinnar ætti frekar að vera ,,Þar sem kvikmyndirnar brugðust“ en ,,Trú og gildismat í kvikmyndum“.

Bókin telur níu kafla. Í sjö þeirra er fjallað nokkuð ítarlega um fimmtán kvikmyndir. Bygging hvers kafla er oftast á þá leið að fyrst er tekið dæmi um kvikmynd sem er vond fyrirmynd og þá dæmi um mynd sem er aðeins betri fyrirmynd, þótt yfirleitt skorti mikið upp á. Saman skiptast þessir níu kaflar í tvo hluta bókarinnar. Í fyrri hlutanum er viðfangsefnið trúarbrögð og guðfræðistefnur. Fyrsti kaflinn í þeim hluta fjallar um Jesúmyndir en að mati Miles er The Last Temptation of Christ dæmi um vonda Jesúmynd á meðan Jesus of Montreal er nokkuð betra dæmi. Að sama skapi er The Mission dæmi um misheppnaða kvikmynd um frelsunarguðfræðina á meðan Romero er skárra dæmi. Í kaflanum um önnur trúarbrögð en kristni segir Miles Not Without My Daughter vera kvikmyndaiðnaðinum til hábornar skammar á meðan The Chosen og Chariots of Fire séu aðeins betri dæmi, þótt enn vanti mikið upp á. Og að lokum segir Miles The Mandmaid’s Tale vera lélega mynd um kristna bókstafstrú en að The Rapture sé henni hins vegar fremri.

Í síðari hluta bókarinnar er fjallað um kynþætti, kynferði, kynlíf og stéttir í kvikmyndum. Þar tekur Miles The Long Walk Home sem dæmi um misheppnaða kvikmynd um blökkumenn í Bandaríkjunum á meðan Daughters of the Dust fær fullt hús hjá henni. Þá kemur það ekki á óvart að Miles hakkar Thelma and Louise í sig vegna kynjamyndanna í henni en telur boðskap The Piano betri, þótt hann sé langt frá því að vera ásættanlegur. Að lokum fjallar Miles um kvikmyndir minnihlutahópa um bandarískt þjóðfélag en hún telur bæði mynd Spike Lees Jungle Fever og Paris Is Burning sem er heimildarmynd um klæðskiptinga vera misheppnaðar tilraunir til að rétta hlut hinna kúguðu.

Bókin Seeing and Believing: Religion and Values in the Movies er á margan hátt áhugaverð lesning. Þrátt fyrir að Miles hætti til að vera full neikvæð og íhaldssöm á köflum þá er bókin engu að síður gott dæmi um þroskaða umræðu um siðaboðskap kvikmynda. Höfundi tekst fullkomlega það sem hann leggur upp með sem er að skerpa siðferðilega meðvitund lesandans um það gildismat sem kvikmyndir miðla.

Þorkell Ágúst Óttarsson, september 2001