Kvikmyndir

Shalako

Leikstjórn: Edward Dmytryk
Handrit: Scott Finch, J.J. Griffith, Hal Hopper og Clarke Reynolds, byggt á skáldsögu eftir Louis L’Amour
Leikarar: Sean Connery, Brigitte Bardot, Peter van Eyck, Stephen Boyd, Jack Hawkins, Honor Blackman, Woody Strode, Alexander Knox, Eric Sykes, Valerie French, Julián Mateos, Donald Barry og Rodd Redwing
Upprunaland: Spánn, Þýzkaland og Bretland
Ár: 1968
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Nokkrir evrópskir aðalsmenn á veiðum í villta vestrinu hætta sér inn á friðarsvæði herskárra Apache indíána án þess að gera sér grein fyrir hættunni sem því fylgir. Brátt ræðst hópur indíána á unga greifynju, sem viðskila hafði orðið við hópinn, en hinum ráðsnjalla Shalako, sem á leið þar um, tekst naumlega að bjarga henni. Þau hafa þó vart náð til bækistöðvanna þegar indíánarnir hefja þar ítrekaðar árásir í þeim tilgangi að fella alla sem þar eru að finna. Í ofan á lag ákveða nokkrir af fylgdarmönnunum að ræna aðalsfólkið öllu fémætu og stinga af á hestvagni en eftir sitja fórnarlömbin óvarin og matarlaus. Shalako tekur því að sér að bjarga aðalsfólkinu burt af friðarsvæðinu og leiðir það yfir torsótta eyðimörk með hina herskáu indíána á hælunum.

Almennt um myndina:
Nokkuð vel gerður en örlítið gamaldags spaghettí-vestri, a.m.k. hvað varðar þá neikvæðu mynd sem dregin er upp af indíánunum, enda margir þeirra blóðþyrstir sadistar sem njóta þess að kvelja fórnarlömb sín sem mest og lengst. Sem betur fer kemur þó fram undir lokin að ekki sætta allir indíánarnir sig við grimmd félaga sinna.

Eðalleikararnir eru ófáir í kvikmyndinni en þar ber fremstan að telja Sean Connery, sem á þessum tíma var hvað þekktastur í hlutverki breska ofurnjósnarans James Bond. Þar sem Connery var mjög í mun að festast ekki í því hlutverki, lék hann í fjölmörgum alls ólíkum kvikmyndum samhliða Bond myndunum. Þótt hans verði ávallt minnst fyrir Bond myndirnar, sannaði hann sig fljótlega sem hæfileikaríkur leikari, enda hefur nokkurra áratuga langur ferill hans reynst einstaklega farsæll. (Sean Connery hefur t.d. verið uppáhaldsleikari undirritaðs í áraraðir.) Shalako mun hins vegar vera eini vestrinn sem hann lék í.

Franska kynbomban Brigitte Bardot er vel valin í hlutverk greifynjunnar, sem verður smám saman ástfangin af einfaranum Shalako. Henni samdi þó illa við leikstjórann Edward Dmytryk og kvartaði hún sérstaklega undan honum og sumum samleikurunum í ævisögu sinni mörgum árum síðar. Eini leikarinn í myndinni, sem henni líkaði í raun vel við, var Stephen Boyd, en með honum hafði hún áður unnið. Bardot getur þess einnig, að hún hafi verið dauðfeginn að hafa fengið að dvelja við gerð myndarinnar á sama móteli og starfslið spaghettí-vestrans Cemetery Without Crosses (Robert Hossein: 1968), sem tekinn var þar í nágreninu, en þar var að mestu um að ræða landa hennar.

Af öðrum leikurum myndarinnar mætti nefna Peter van Eyck í hlutverki prússnesks herforingja, sem verður það á að vanmeta baráttuþrek indíánanna með hörmulegum afleiðingum. Honor Blackman er sömuleiðis fín sem bæld yfirstéttarkona, en hún hafði áður leikið á móti Connery í James Bond myndinni Goldfinger (Guy Hamilton: 1964). Jack Hawkins og Alexander Knox eru auk þess báðir traustir skapgerðarleikarar, sem finna má í ótal aukahlutverkum í kvikmyndum frá þessum tíma, en harðhausaleikarinn Woody Strode er þó eilítið utangátta í hlutverki eins af grimmustu indíánunum, ekki síst vegna þess að hann er blökkumaður.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Um miðja mynd spyr greifynjan Shalako að fullu nafni og segist hann þá heita Móse, enda hafi móðir hans verið einkar biblíuelsk. Nafngiftin getur vart verið tilviljun, enda var það Móse, sem leiddi lýð Guðs úr þrældóminum í Egyptalandi yfir eyðimörkina til fyrirheitna landsins. Á sama hátt leiðir nafni hans Shalako evrópska aðalsfólkið frá yfirráðasvæði indíánanna herskáu yfir torsótta eyðimörk í átt til frelsis hvíta mannsins. Hvernig á því stendur að evrópskir aðalsmenn séu látnir koma þar í stað lýðs Guðs skal hins vegar ósagt látið.

Þess má jafnframt geta að einn af skúrkunum, sem rænir aðalsfólkið og stingur svo af, heitir Lúther. Ekkert í myndinni gefur hins vegar tilefni til að tengja hann sérstaklega við guðfræðinginn Martein Lúther.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 2:10
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M
Persónur úr trúarritum: Móse
Guðfræðistef: ást, exodus
Siðfræðistef: manndráp, hjónaband, hroki, stéttaskipting, stríð, kynþáttafordómar, pyntingar
Trúarlegt atferli og siðir: signun