Kvikmyndir

Shoot the Living and Pray for the Dead

Leikstjórn: Giuseppe Vari [undir nafninu Joseph Warren]
Handrit: Adriano Bolzoni [undir nafninu Mark Salter]
Leikarar: Klaus Kinski [undir nafninu Klaus Kinsky], Victoria Zinny, Paul Sullivan, Dino Strano [undir nafninu Dean Stratford], John Ely, Patrizia Adiutori, Anthony Rock, Dan May, Ares Lucky, Anna Zinneman, Don May, Adriana Giuffre og Gianni Pulone
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Að borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum lokinni rænir bófaforinginn Dan Hogan gullstöngum að verðmæti $100.000 úr banka og stingur af ásamt félögum sínum til mexíkönsku landamæranna. Í ljós kemur að leiðsögumaðurinn, sem átti að fylgja þeim yfir landamærin, hefur verið myrtur, en fyrir vikið neyðast þeir til að ráða sér annan fylgdarmann í staðinn. Nýji leiðsögumaðurinn sundrar þó brátt flokknum með því að krefjast fyrst helmings góssins og snúa síðan bófunum markvisst gegn hverjum öðrum.

Almennt um myndina:
Að mörgu leyti fínn spaghettí-vestri sem sækir innblástur í gömlu bandarísku sakamálamyndina The Petrified Forest (Archie Mayo: 1936) með Humphrey Bogart. Leikstjórinn er Ítalinn Giuseppe Vari, sem gerði meðal annars víkingamyndina The Attack of the Normans (1962) og gulu myndina Who Killed the Prosecutor and Why? (1972), en algengt var á þessum árum að ítalskir B-kvikmyndagerðarmenn ynnu við myndir af öllum mögulegum tegundum. Þýzki eðalleikarinn Klaus Kinski með sitt svipmikla andlit og óviðjafnanlegan brjálæðisglampa í augunum verður að teljast einkar viðeigandi í hlutverki bófaforingjans Dans Hogan, sem treystir sjaldnast neinum og er vís til að skjóta hvern sem er út af minnsta tilefni.

Myndbandsútgáfan, sem hér er til umfjöllunar, er sorglegt dæmi um það virðingarleysi, sem flestar kvikmyndir sættu þegar þær voru teknar til sýningar í sjónvarpi eða gefnar út á myndbandi fyrstu áratugina. Hátt í helmingur myndflatar þeirra kvikmynda, sem teknar voru í hlutföllunum 2.35:1, var þá oftar en ekki skorinn í burtu til þess eins að hann gæti fyllt út í sjónvarpsskjáinn, en slíkur niðurskurður kom sjálfkrafa niður á gæðum þeirra. Spaghettí-vestrinn Shoot the Living and Pray for the Dead er óvenju slæmt dæmi um slík skemmdarverk þar sem ekki aðeins er skorið af hliðum myndflatarins heldur töluvert að ofan og neðan líka. Fyrir vikið sést aðeins lítill hluti miðjunnar allan sýningartímann, en titill myndarinnar er ot Living and Pr or th De og leikararnir Klaus Kinski, Victoria Zinny, Paul Sullivan og Dean Stratford eru skráðir Ki Kl, ria, Sull og Strat. Aðeins toppurinn af sumum nöfnunum sést og botninn af öðrum. Í raun er myndflöturinn á skjánum ekki einu sinni færður til í samræmi við hvað sé að gerast hverju sinni á breiðtjaldinu heldur staðsettur í miðjunni allan tímann. Þessi umskurður er ekki síst pínlegur í ljósi þess að svo virðist sem vandað hafi verið til myndatökunnar.

Sem betur fer eru flestar kvikmyndir gefnar út í réttum breiðtjaldshlutföllum nú á dögum á DVD, en það þýðir að þegar þessi kvikmynd verður gefin þannig út, verður myndbandsspólan sjálfkrafa með öllu ónothæf.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hefndin er aðalstef myndarinnar enda smeygir nýji leiðsögumaðurinn sér í raðir bófanna til þess eins að hefna dauða fjölskyldu sinnar, sem bófaforinginn hafði löngu áður myrt með köldu blóði.

Helmingur myndarinnar gerist á afskekktu gistihúsi þar sem bófarnir mæta einn af öðrum áður en þeir halda yfir landamærin. Á gistihúsinu er að finna stóra mynd af Maríu mey uppi á vegg, en þrátt fyrir að hún sé sýnd þar í nærmynd, hefur hún ekkert efnislegt vægi fyrir myndina.

Enda þótt talað sé um bænir fyrir látnum í enska titli kvikmyndarinnar og hún heiti jafnvel Biðjum fyrir hinum látnu í íslensku myndbandsútgáfunni frá Bergvík, er aldrei minnst á bænhald í henni. Fyrri hluti enska titilsins er þó viðeigandi, enda flestar sögupersónur myndarinnar skotnar til bana áður en hún er á enda.

Guðfræðistef: hatur, hjálp Guðs
Siðfræðistef: hefnd, hýðing, manndráp, þjófnaður, vændi, mannrán, svik, lygi
Trúarbrögð: Ku Klux Klan
Trúarleg tákn: Maríumynd
Trúarlegt atferli og siðir: bæn