Kvikmyndir

Sib

Leikstjórn: Samira Makhmalbaf
Handrit: Mohsen Makhmalbaf og Samira Makhmalbaf
Leikarar: Massoumeh Naderi, Zahra Naderi, Ghorban Ali Naderi, Azizeh Mohamadi og Zahra Saghrisaz
Upprunaland: Íran og Frakkland
Ár: 1998
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Sib (Eplið) byggir á lífi raunverulegrar íranskrar fjölskyldu, Naderi-fjölskyldunnar. Myndin segir frá tveimur tólf ára systrum í Teheran sem hafa verið lokaðar inni á heimili sínu frá fæðingu. Fjölskyldan saman stendur af systrunum Zahra og Massoumeh, öldruðum föður þeirra og blindri móður. Foreldrarnir halda því fram að þeir hafi lokað þær inni til þess að vernda þær en nágrannar fjölskyldunnar láta félagsmálayfirvöld vita sem leitast við að koma til hjálpar. Fjölmiðlar segja jafnframt frá málinu og lýsa föður stúlknanna eins og fangaverði sem hafi hlekkjað þær fastar og geymt þær eins og dýr í búri. Myndin lýsir því síðan hvernig fulltrúi félagsþjónustunnar reynir að fá foreldrana til að hleypa stúlkunum út þannig að þær geti lifað venjulegu lífi, gengið í skóla og eignast leikfélaga. Áhorfendur fá svo að sjá hvernig fjölskyldan bregst við nýjum aðstæðum og frelsi stúlknanna.

Almennt um myndina:
Sib (Eplið) er fyrsta mynd Samiru Makhmalbaf, en hún gerði myndina þegar hún var aðeins 18 ára og notaði þá afgangsfilmur frá mynd sem faðir hennar, Mohsen Makhmalbaf tók sama ár (Sokout – Þögnin). Aðrar myndir Samiru eru Takhté siah (Krítartöflur) frá árinu 2000 og Panj é asr (Klukkan fimm síðdegis) frá árinu 2003. Myndir hennar hafa vakið athygli og hlotið tilnefningar, viðurkenningar og verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Hún hlaut t.d. dómnefndarverðlaunin í Cannes bæði fyrir Krítartöflur (2000) og Klukkan fimm síðdegis (2003).

Það er greinilegt að Samira hefur orðið fyrir sterkum áhrifum af frásögunni um Naderi-fjölskylduna sem hún rakst upphaflega á í blaði. Hún nálgast viðfangsefnið af nærfærni þegar hún reynir að segja sögu þessa fólks og lýsa veruleika þess og hvernig það þarf að aðlagast nýjum aðstæðum. Blind móðirin óttast um dætur sínar úti í hinum stóra og óörugga heimi utan veggja heimilisins og faðirinn óttast um velferð þeirra og leitast einungis við að fylgja því sem hann hafði lært um uppeldi ungra stúlkna.

Systurnar eru tæplega talandi og geta varla að tjáð sig við aðra eftir margra ára innilokun. Þær eru jafnframt illa hirtar og hafa farið á mis við alla skólagöngu. Þær læra þó smám saman að meta frelsið utan veggja heimilisins og taka að hlaupa um og leika sér. Það vekur athygli að Samira setur sig ekki í dómarasætið yfir því fólki sem í hlut á og enn athyglisverðara er að hún fékk fjölskylduna til að leika sjálfa sig í myndinni. Hún dregur upp mynd af fátækri fjölskyldu sem er í rauninni öll lokuð inni í aðstæðum sem hún kemst ekki út úr. Bæn sem faðir stúlknanna tónar þegar hann gefur þeim að borða lýsir þeirri tilfinningu hans að hann sé fangi aðstæðna sinna og óhamingju. Hann er atvinnulaus en þiggur mat og peninga frá ættingjum og vinum gegn því að biðja fyrir þeim. Hann er vissulega nauðbeygður til að láta undan kröfu félagsmálafulltrúans um að gefa stúlkunum frelsi og það er grátbroslegt að sjá hann lokaðan inni í stað þeirra af félagsmálafulltrúanum. En hann nýtur samt sannmælis í myndinni og er fyrst og fremst ráðviltur og skilur ekki ásakanirnar gegn sér í blöðunum. Hann þráði það eitt að vernda dætur sínar sem eru eins og viðkvæm blóm sem eiga á hættu að fölna í sólinni og hann telur sig hafa fylgt því sem hann hafði lært um uppeldi ungra stúlkna í gömlu kveri með ráðum handa feðrum. Hér endurspeglast því gagnrýni Samiru á gagnslausa menntun og lærdóma en einnig á misjafna stöðu drengja og stúlkna, því að í kverinu kemur fram að ef þær hefðu verið drengir hefðu þær fengið öðru vísi meðferð. Hún vinnur líka á snilldarlegan hátt með myndmálið blóm og sól. Í upphafi myndarinnar teygir önnur systranna sig í gegnum rimlana sem loka þær inni til þess að vökva blóm í potti sem stendur í sólinni fyrir utan. Svipmyndin sem dregin er upp tengir saman vatn, blóm og sól í nokkurs konar ákalli til lífsins í upphafi myndarinnar (Dabashi, 2001. Close Up. Iranian Cinema, Past, Present and Future, s. 271).

Blind móðirin nýtur líka sannmælis á þann hátt að dregin er upp mynd af konu sem vegna fötlunar sinnar getur ekki litið eftir dætrum sínum og óttast því um þær utan veggja heimilisins. Tvíburasysturnar eru samt sem áður í þungamiðju myndarinnar. Samúðin er fyrst og fremst með þeim og því hvernig þær hafa verið lokaðar inni og sviptar möguleikum sínum til eðlilegs þroska og samskipta við jafnaldra sína. Þegar systurnar sleppa út fylgist áhorfandinn með því hvernig þær taka að blómstra. Það eru síðan þær sem leysa föður sinn úr prísundinni og leiða hann út til að takast á við nýjan veruleika.

Í rauninni verður Eplið nokkurs konar allegoría eða líking um aðstæður og örlög írönsku þjóðarinnar. Með þessari litlu sögu af tvíburasystrunum tekst Samiru að segja sögu samfélagsins í heild, sem hefur verið lokað inni fyrir tilstuðlan hugmyndafræðilegs alræðis klerkastjórnarinnar. En á þeim tíma sem myndin er gerð hefur vonin um nýtt frelsi vaknað eftir að Mohammad Khatami var valinn forseti landsins í kosningum í maí árið 1997. Samira og um 20 milljónir Írana sem kusu Khatami höfðu fengið sig fullsödd af hugmyndafræðilegum slagorðum og pólitísku lýðskrumi og þráðu breytingar og frelsi undan kúguninni. Eplið endurspeglar þetta á skýran hátt í greiningu sinni á því sem hefur misfarist í írönsku samfélagi og gangrýni á þá harðstjórn sem þjóðin hafði mátt búa við, einkum konurnar. En Samira gerir þetta á sinn nærfærna, fyrirgefandi og uppbyggjandi hátt (Dabashi, 2001, s. 268-269).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Félagsleg staða kvenna í Íran er áréttuð af föður systranna þegar hann er að kenna annarri þeirra að elda. Hann vísar til Guðs sem skapara sem skapaði konuna til að giftast, ekki til að vera eina. Hér er því dæmi um hvernig sköpunartrúin getur verið misnotuð til að stuðla að félagslegu misrétti. Sami hugsunarháttur birtist í þeim leiðbeiningum sem faðirinn vísar til í heftinu með ráðleggingum til feðra. Þar er greinilega gert ráð fyrir því að stúlkur og drengir fái ólíka meðferð.

Bæn og fyrirbæn kemur fyrir í myndinni þar sem faðir stúlknanna tekur að sér að biðja fyrir vinum, vandamönnum og nágrönnum, þótt hann hafni því reyndar einnig ef honum býður svo við að horfa. Bænin sem hann biður er hann gefur dætrum sínum að borða í einu atriði myndarinnar er athyglisverð. Í henni endurspeglast kvöl hans yfir því hvernig aðstæður hans og örlög hafa kallað óhamingju yfir hann og fjölskylduna. Hann virðist ekki sjá aðra leið út en að Guð leyfi honum að deyja.

Athyglisvert er hvernig epli eru notuð í myndinni. Samira lýsir eplinu í viðtali sem tákni fyrir lífið, að eplið geti verið tákn lífsins vegna þess að í upphafi lét Satan Evu hafa epli svo að við gætum öll orðið til, lifað hér á jörð. Eplið í mynd Samiru verður jafnframt tákn fyrir það frelsi, þroska og menntun sem systurnar og raunar öll fjölskyldan hefur farið á mis við. Epli birtist fyrst ofan á bænaskjalinu frá nágrönnunum til félagsmálayfirvalda í upphafi myndarinnar. Þegar félagsmálafulltrúinn hefur farið með systurnar til að láta þrífa þær og gefa þeim að borða og móðir þeirra kemur til að ná í þær heldur önnur þeirra fast um epli. Í annarri heimsókn félagsmálafulltrúans spyr hún hvað þær langi í og þá nefna þær strax epli. Þegar þær síðan sleppa út og eru farnar að leika sér í götunni situr drengur uppi í glugga á efri hæð húss með epli í bandi í priki. Við fáum að sjá hvernig systurnar reyna að ná eplinu en hann heldur því frá þeim. Á endanum kemur hann niður og fer með þær á markaðinn til að sýna þeim hvar þær geti fengið epli. Þær eiga hins vegar enga peninga til að kaupa þau og það verður því hlutskipti innilokaðs föður þeirra að láta þær hafa peninga fyrir eplum. Þær gefa síðan nýjum leikfélögum með sér af eplunum og færa föður sínum eitt epli áður en þær leysa hann úr prísundinni. Myndinni lýkur síðan með því að blind móðir þeirra fer út á götuna og þar er drengurinn aftur farinn að leika sér að eplinu í bandinu. Áhorfandinn fær að fylgjast með því hvernig hann stríðir móðurinni með því að láta það sveiflast kringum hana og hvernig hún nær loks taki á því.

Hér fær eplið því öðru vísi merkingu en það hefur fengið á grundvelli syndafallssögunnar í 1. Mósebók þar sem það er tákn freistingarinnar. Hér verður eplið tákn frelsis, menntunar og þroska, sem vissulega voru forboðnir ávextir í lífi systranna þar til félagsmálayfirvöld gripu inn í, og það verður tákn þess nýja lífs sem þeim hlotnaðist við að losna úr prísundinni. Það er jafnframt merkileg staðreynd að kvikmyndin Eplið fékk svo góðar viðtökur að hagnaður af henni fór meðal annars í að mennta tvíburasysturnar og stuðlaði þannig að betri framtíð þeirra.

Samira ræðir nánar um táknræna merkingu eplisins í fyrrnefndu viðtali og ítrekar að epið sé ekki illt, það sé tákn fyrir lífið. Hún leggur á það áherslu að það sé mikilvægt að öll fjölskyldan hafi komið út úr prísundinni, ekki bara tvíburasysturnar. Þær eru tákn framtíðarinnar að skilningi Samiru, faðirinn nútímans og móðirin fortíðarinnar. „Ef þessar tvær stúlkur eiga að þroskast, að breytast, verður móðir þeirra að koma út á eftir þeim. Ef hún kemur ekki út merkir það að hún leyfi stúlkunum ekki að halda áfram að þroskast, að breytast. Hún varð því að koma út“ (Lehrer, J. [án ártals]. Samira Makhmalbaf: God and Satan in “The Apple”. http://www.indiewire.com/people/int_Makhmalbaf_Sam_990224.html.)

Hér sést hvernig Samira horfir á frelsunina í myndinni sem frelsun allrar fjölskyldunnar, sem síðan má heimfæra upp á samfélagið í heild sinni og endurlausn allra kynslóða þess. Athyglisvert er að í viðtalinu talar Samira um að drengurinn, sem situr í glugganum undir lok myndarinnar og stríðir móðurinni með því að láta eplið sveiflast kringum hana, sé í senn táknmynd Satans og Guðs. Hann ögrar móðurinni eins og Satan, svo hún reynir að ná eplinu. En í lokin er hann, rétt eins og Guð, sá sem setur eplið, þ.e. setur lífið, í hönd móðurinnar.

Persónur úr trúarritum: Guð
Sögulegar persónur: Múhammeð spámaður
Guðfræðistef: bæn, endurlausn, fyrirbæn, fyrirgefning, kærleikur, sköpun Guðs, örlög
Siðfræðistef: auðmýking, ábyrgð, félagsleg einangrun, félagsleg staða kvenna, félagsleg staða barna, fyrirgefning, hjónaband, langrækni, lygi, ótti, slæðunotkun, þunglyndi, þjófnaður
Trúarbrögð: islam
Trúarleg tákn: epli, slæða, talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, fyrirbæn