Kvikmyndir

Signs

Leikstjórn: M. Night Shyamalan
Handrit: M. Night Shyamalan
Leikarar: Mel Gibson, Rory Culkin, Abigail Beslin, Joaquin Phoenix, Cherry Jones og M. Night Shyamalan
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 106mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Mel Gibson leikur kaþólskan prest sem verður fyrir miklu áfalli og gengur af trúnni, þegar kona hans deyr í bílslysi. Þeim harmleik er blandað inn í komu geimvera sem virðast ætla að taka yfir heiminn. Myndin sýnir hvernig Graham Hess (Mel Gibson) fær aftur trú á Guð og hvernig fjölskyldan nær að lifa árás geimveranna af.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Signs hefur vakið upp mjög mismunandi viðbrögð meðal áhorfenda. Sumir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum því að þeir bjuggust við mynd sem væri fyrst og fremst um geimverur. En aðrir hafa horft á þessa mynd sem uppgjör manns við trú sína og þá togstreytu sem því fylgir. Áhugamenn um trú og trúartákn hafa heldur betur dottið í lukkupottin því myndin er einmitt um baráttu Graham Hess við sjálfan sig og trúna.

Leikstjórinn ShyamalanM. Night Shyamalan er leikstjóri og höfundur handritsins. Hann fékk ungur áhuga á kvikmyndagerð og aðeins átta ára gamall fékk hann 8 mm kvikmyndavél í afmælisgjöf. Eftir það var ekkert sem stoppaði hann að láta drauma sína rætast um að verða kvikmyndaleikstjóri og fylgja í fótspor goða sinna Steven Spilberg og Alfred Hichcock. 17 ára gamall var hann búinn að gera 45 heimagerðar myndir. Þegar bíómyndir hans fóru að koma út á DVD lét hann eina af þessum heimagerðu myndum fylgja með hverri mynd.

M. Night Shyamalan er fæddur í Pondicheery, Indlandi, 6 ágúst 1970. Foreldrar hans eru bæði læknar sem fluttu til Bandaríkjanna þegar Shyamalan var mjög ungur. Hann ólst upp í úthverfi Penn Valley í Fíladelfíu. Shyamalan heldur tryggð sinni við Fíladelfíu því að hann hefur kvikmyndað allar sínar myndir þar, nema þá fyrstu, sem tekin var á Indlandi. Það tók nokkurn tíma að finna tökustað fyrir myndina Signs. Það varð að vera nóg land bæði til að byggja stórt hús á og líka til að rækta mikið af korni til að koma fyrir hringjunum sem geimverurnar áttu að skilja eftir. Eftir mikla leit var myndinni valinn staður á lóð landbúnaðarháskóla í Fíladelfíu, Delaware Valley College.

Þó Shyamalan sé hindúi gekk hann í kaþólskan skóla. Foreldrar hans vildu að hann gengi í strangan skóla og völdu kaþólskan skóla í Fíladelfíu. Síðan fór hann í Tisch School of Art og útskrifaðist árið 1992 með gráðu í kvikmyndagerð. Það er athyglisvert að flestar myndir hans hafa verið trúarlegs eðlis.

Fyrsta myndin hans var myndin Praying with Anger árið 1992, hún fjallaði um ferð til heimalands hans, Indlands. Myndin Wide Awake gerði hann árið 1998, ekki er hægt að segja að hann hafi þénað mikið af þeirri mynd, en hún fékk lítið áhorf í bíó þótt hún væri með góðri grínleikonu í einum af aðalhlutverkunum, Rosie O´Donnell. Þegar myndin The Sixth Sense kom út árið 1999 varð hún næstsöluhæsta myndin það ár, næst á eftir Star Wars I. Þetta setti Shyamalan á lista með tekjuhæstu og virtustu kvikmyndaleikstjórum samtímans. Fyrir handritið af Signs fékk Shyamalan fimm milljónir dollara sem er ein hæðsta greiðsla sem handritshöfundur hefur fengið. (Sjá: http://www.imbd.com/name/nm0796117/bio.)

Árið 1999 skrifaði Shyamalan handritið að barnamyndinni Stuart Little, en hann leikstýrði henni ekki. Hann fékk mikið lof gagnrýnanda fyrir fyndið og skemmtilegt handrit. Kannski hefur það haft áhrif við gerð handritsins að Shyamalan er mikill teiknimyndaaðdáandi, en hann fjallar um þá ástríðu sína í myndinni Unbreakable árið 2000. Hann hefur líka mikinn áhuga á sögum af yfirnáttúrulegum atburðum. Í myndinni The Village notast hann við gamla þjóðsögu frá 19. öldinni sem uppistöðu í handritið. Shyamalan er mjög öflugur rithöfundur sem á örugglega eftir að senda frá sér mörg handrit, án þess að leikstýra þeim. Eitt handrit sem hann hefur skrifað heitir Labor of Love en það fjallar um mann sem gengur þvert yfir Bandaríkin til að sýna ást sína á nýlátinni eiginkonu sinni. Það er ekki enn búið að kvikmynda það.

Eins og fyrr segir er Shyamalan mikill aðdáandi leikstjórans Alfred Hitchcock en hann hefur komið fram í sínum eigin myndum eins og Hitchcock gerði. Í myndinni Signs leikur hann mann sem sofnar undir stýri og drepur eiginkonu prestsins sem leikinn er af Mel Gibson. Sá atburður er ástæðan fyrir því að Graham Hess gengur af trúnni. (Sjá: http://www.imbd.com/name/nm0796117/bio.)

TónlistinTónlistin í myndinni á mjög vel við og fær hárin oft til að rísa af geðshræringu. En það er líka enginn byrjandi sem samdi tónlistina en James Newton Howard hefur unnið mikið með Shyamalan, sem treystir honum til að skapa rétta stemningu í myndum sínum. Howard samdi tónlistina áður en myndin var tekin. Hann gat stuðst við mjög svo ítarlega skissubók en Shyamalan vinnur alltaf myndirnar sínar fyrst á blað, senu fyrir senu. Howard hefur líka samið tónlistina í The Sixth Sence, Unbrekable og The Village. Disney fyrirtækið lætur hann semja mikið fyrir sig og má þá nefna myndirnar Dinosaur, Atlantis, The Lost Empire og Treasure Planet. Hann hefur líka samið tónlist í nokkrum öðrum myndum en er kannski þekktastur hér á Íslandi fyrir að hafa samið aðallagið í þáttaröðinni Bráðavaktinni eða ER sem sýndir eru í Ríkissjónvarpinu.

Myndatakan og sviðsmyndinMyndin er mikið tekin upp í myrkri, margar senur gerast um kvöld eða nótt og svo er lokasenan tekin upp í kjallara. Þarna má sjá mörg kunnuleg handbrögð. Shyamalan notar senur í kjöllurum í mörgum myndum sínum og notar hann einnig oft bílslys sem aðdragand að mikilvægum senum sem og endurkast af hlutum eins og af sjónvarpinu í Signs. Hann notar bara birtu frá vasaljósi til að lýsa upp kjallarasenuna í Signs, það virkar svo sannarlega til að magna upp spennuna. Börn leika oft lykilhlutverk í myndum hans. Hann notar oft endurlit, þar sem mikilvægir hlutir hafa gerst sem aðalpersónan hugsar um og hefur þýðingu fyrir framhaldið í myndinni. Shyamalan notar gardínur í Signs bæði í lokasenunni til að skapa ákveðna óvissu með hreyfingu en einnig eru hringir á gardínunum sem tákna að allt sé orðið öruggt.

ViðbrögðEins og ég hef áður nefnt vakti myndin upp mismunandi viðbrögð fólks. Áhugavert er að skoða þau sem finna má á netinu. (Sjá t.d.: www.kuro5hin.org/story/2004/8/26/131133/514.) Mér finnst allt í lagi að blanda geimverum inn í myndina og við fyrsta áhorf virðist myndin ganga töluvert út á yfirtöku geimvera á heiminum. Mér finnst samt endirinn vera hálf misheppnaður. Kannski er þetta vandamál hjá Shyamalan því að í nýjustu mynd hans The Village finnst mér sama vandamál koma upp. Það gengur hreinlega ekki upp að utanaðkomandi maður hjálpi Ivy (Bryce Dallas Howard) og allt verði gott á eftir og engir eftirmálar. Í Signs bjargast heimurinn undan geimverunum þegar það uppgötvast að þær þola ekki vatn. Þetta er svolítið pirrandi því að 60% mannsins er vatn, andrúmsloftið er hlaðið vatni og á jörðunni er mikið vatn, það er bókstaflega vatn allstaðar. Undirbúningurinn fyrir mikilvægi vatnsins kemur fram hjá Bo (Abigail Breslin), en hún er stöðugt að fá sér vatn og finnur eitthvað að hverju glasi, það sé mengað eða óhreinindi séu í því. En Shyamalan notar oft vatn eða nálægð við það í myndum sínum til að sýna veikleika. Í myndinni The Village er mikil rigning sem stoppar Flintons (Michael Pitt II) í að halda áfram með Ivy (Bryce Dallas Howard) til að bjarga þorpinu. Í myndinni The Sixth Sense felur morðingi Malcolm Crowes (Bruce Willis) sig inni á baði.

LeikararLeikararnir standa sig vel. Mel Gibson fer vel með hlutverk prestsins Graham Hess. Mér finnst leikhæfileikar hans koma sérstaklega vel fram í kvöldmáltíðaratriðinu þegar hann þarf bæði að borða og tjá þá sorg sem býr innra með honum. Í raunveruleikanum er Gibson mjög trúaður maður og sýndi hann strax áhuga á að leika í myndinni þegar fréttist af henni. Gibson hefur leikið í mörgum myndum og einnig fengist við leikstjórn og er frægasta mynd hans The Passion of the Christ (2004). Joaquin Phoenix leikur bróður Gibsons, Merill Hess. Phoenix hefur leikið í mörgum myndum og leikur t.d. Lucius Hunt í mynd Shyamalans The Village. Phoenix fæddist í Puerto Rico, sonur trúboðanna John Bottom Amram og Arlyn Dunitz Jochebed. Þau voru meðlimir í Börnum Guðs, en voru rekin úr söfnuðinum ásamt mjög mörgum meðlimum árið1978 þegar leiðtogi þeirra Moses David stokkaði upp söfnuðinn. Þau eignuðust fimm börn og tóku upp eftirnafnið Phoenix. Hafa systkynin öll fengist við leiklist. Bræður hans River og Rain Phoenix eru þekktastir en River Phoenix átti glæsta framtíð fyrir sér þegar hann dó úr ofneyslu eiturlyfja aðeins 23 ára gamall. Merill stendur sig vel og nær að halda utan um fjölskylduna á sannfærandi hátt á meðan Graham er að ganga í gegnum efasemdatímabil. Rory Culkin leikur Morgan Hess. Hann kemur einnig frá þekktri leikarafjölskyldu. Hann er yngstur af sjö systkynum, fæddur árið 1989. Hann hefur leikið í um 12 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og einnig komið fram sem gestaleikari. Sennilega er bróðir hans Macaulay Culkin frægastur fyrir leik sinn í myndunum Home Alone I og II. Hann hefur greinilega erft leiklistarhæfileikana því að hann fer vel með hlutverkið sérstaklega þegar hann segir við pabba sinn að hann hafi látið mömmu þeirra deyja, ég fann mjög til með honum reyndar allri fjölskyldunni á þeim tímapunkti í myndinni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin Signs fjallar fyrst og fremst um trú og hvernig atburðir í lífi manns geta breytt afstöðu hans til trúar. Í upphafi myndarinnar er Graham að ganga út úr herbergi á heimili sínu. Myndavélin staðnæmist á vegg sem hann gengur framhjá, þar sést far á veggnum sem sýnir að einhvern tíman hafi verið kross á honum sem búið er að taka niður. Krossinn er eldra trúartákn en kristni og er helgasta tákn kristninnar „sigurmark Guðs, lausnarmark manna “. (Táknmál Trúarinnar, Karl Sigurbjörnsson, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993, bls. 41.) Það á vel við að sýna farið eftir krossinn, það segir svo margt um ástand Graham. Hann trúir ekki lengur en það virðist enginn taka mark á honum því að allir kalla hann séra (father). Upphaflega gátu kristnir ekki hugsað sér að nota krossinn sem tákn sitt vegna þess að hann var aftökutæki líkt og gálgi eða byssa nú á dögum. (Vísindavefurinn sp. Hvers vegna er kross tákn kristninnar, http://visindavefur.hi.is/?id=4561) Var það það sem Graham hugsaði þegar hann tók krossinn niður?

Það eru mikil innri átök hjá Graham í myndinni. Þegar við kynnumst honum er hann sannfærður um að hann sé trúlaus. Hann hefur misst konu sína sem var honum ákaflega kær. Þegar við sjáum senu frá síðasta fundi þeirra kemur kærleikur þeirra greinilega fram. Samband þeirra hefur verið mjög sterkt og innilegt. Graham telur að Guð hafi tekið ást hans og yndi í burtu frá sér, hann hefur börnin sín en allir sem hafa elskað vita að ást sem þú berð til maka þíns er önnur en sú ást sem þú berð til barna þinna. Eða eins og Martein Lúther segir um ástina: „Ef ástin er einlæg, þá er hjarta manns svo fullt af hugsunum um ást að hann sér, heyrir og finnur ekkert annað.“ (Guðfræði Marteins Lúters, Hið Íslenska Bókmenntafélag, Reykjavík 2000, Sigurjón Árni Eyjólfsson bls. 249.) Graham finnst hann hafa verið svikinn ­ hann sem hefur unnið fyrir Guð alla sína ævi og svo er honum launað með því að ástin hans er tekin frá honum. Er þetta svona hjá Graham? Er hann samkvæmur sjálfum sér eða er hann særður og munu sárin gróa? Sárin gróa vissulega en ekki áttakalaust; hann þarf að berjast fyrir lífi fjölskyldu sinnar og berjast fyrir trú sinni.

Snemma í myndinn er sýnt inn í herbergi Merill Hess (Joaquin Phoenix). Fyrir ofan rúmið hans er hálfétið epli ­ það er búið að bíta þrisvar sinnum í það. Talan þrír er heilög tala (Táknmál Trúarinnar, Karl Sigurbjörnsson, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993, bls. 95.) og getur verið tákn um trú, von og kærleika en það er inntakið í myndinni. Þegar eplið birtist þá er ekkert sem bendir til annars en að dagurinn verði ekkert frábrugðinn öðrum dögum. En annað kemur svo sannarlega á daginn. Epli eru einnig á borðstofuborðinu en þar eru þau mörg í skál og öll græn á litinn. Það er hægt að segja að eplin tákni geimverurnar, tákn um það illa sem á eftir að koma fyrir Graham fjölskylduna. Grænn litur getur verið tákn um öryggi enda líta fjölskyldumeðlimirnir á heimili sitt sem öryggasta staðinn til að vera á þegar þau standa frammi fyrir ógninni af geimverurnum. Grænn litur er litur lífsins, upprisunnar og eilífs lífs. (Leskaflar II, Heimur litanna bls. 9. Kennarar Bjarni Randver Sigurvinsson og Oddný Sen, Guðfræði og Kvikmyndir vor 2005 HÍ, Háskólafjölritun, Reykjavík 2005.) Litur vonarinnar. (Táknmál Trúarinnar, Karl Sigurbjörnsson, Skálholtsútgáfan, Reykjavík 1993, bls. 93.)

Ný ógn í kvikmyndumGeimverurmyndir voru mjög vinsælar í kringum 1950 og 1960. Kom þar fram alveg ný ógn ­ ógn við lífið. Ekki dugði lengur að leggjast á bæn og biðja um að geimverurnar færu. Geimverurnar lutu öðrum lögmálum. Við vitum ekkert um þessa nýju ógn og höfum ekkert vald yfir henni en eins og Bryan Stone guðfræðingur segir í grein sinni: „Hegðun óttans ­ ímynd hins guðlega í hrollvekjum“.(Leskaflar II, Helgun óttans ­ ímynd hins guðlega í hrollvekjum, Bryan Stone, Boston University School of Theology, bls 26. Kennarar Bjarni Randver Sigurvinsson og Oddný Sen Guðfræði og Kvikmyndir vor 2005 HÍ, Háskólafjölritun, Reykjavík 2005.) Þjónar kirkjunnar geta í besta falli huggað og hughreyst þá sem verða fyrir aðkasti geimvera, kirkjan getur veitt fórnarlömbum skjól og bæn en að öðru leyti veitir trúin enga lausn. Geimverurnar fara ekki eftir þeim leikreglum sem við eigum að venjast og flokkast ekki undir „hið illa“ í trúarlegum skilningi. „Kross, vígt vatn, reykelsi og andasæringar koma ekki að neinu haldi“. (Leskaflar II, helgun óttans ­ ímynd hins guðlega í hrollvekjum, Bryan Stone, Boston University School of Theology, Kennarar Bjarni Randver Sigurvinsson og Oddný Sen, Guðfræði og Kvikmyndir vor 2005 HÍ, Háskólafjölritun, Reykjavík 2005.)

Mér finnst mjög gott hjá Shyamalan að nota geimverur sem ógn í þessari mynd. Ef hann hefði notað eitthvað annað eins og t.d. geðsjúkan mann sem ógn þá hefði ógnin ekki verið eins sterk. Það þarf mjög sterka og mikla ógn á móti trúleysi Grahams. Missir og biturleiki hans er svo mikill að ógn upp á líf og dauða þarf til að hann byrji að trúa aftur. Hann gerir sér ekki grein fyrir en í lok myndarinnar þegar geimverurar hafa yfirgefið jörðina og þeim tekst að yfirbuga geimveruna á heimili þeirra að hann hefur öðlast trú á ný. Mér finnst þessi ógn vera mjög sannfærandi í myndinni.

Shyamalan notar oft í myndum sínum togstreitu manns við eitthvað æðra eða yfirskilvitlegt. Í myndinni The Village glímir aðalpersónan Ivy Walker (Bryce Dallas Howard) við ógnina sem hefur herjað á heimabæ hennar í langan tíma. Bærinn er umkringdur grindverki og skógi og trúir fólkið því að þar fyrir utan búi skrímsli sem ráðist á þau ef þau fari inn í skógin og út fyrir grindverkið. Í The Sixth Sense sigrast Cole Sear (Harley Joel Osment) á hræðslu sinni við skyggnigáfu sína. Shyamalan glímir oft við erfiðar spurningar í lífi fólks og finnur leiðir til að leysa þær.

NafniðNafnið Signs hefur tvær merkingar. Í fyrsta lagi er verið að vísa til akurhringina á maísakrinum við heimili þeirra (og reyndar út um allan heim). Í öðru lagi er verið að vísa til trúarinnar og himneskra tákna að ofan, þ.e. hvort það sé einhver sem gæti okkar. Graham hefur misst trúna og er að leita að táknum um að einhver vaki yfir mannkyninu.

Í myndinni er langt samtal bræðranna um trú og trúleysi og forákvörðun, þ.e. hvort allt sé fyrirfram ákveðið eða hvort aðeins tilviljunum háð. Merill segir að sumir haldi sjálfsagt að þetta séu endalok heimsins og Graham tekur undir það og segist halda að svo gæti verið. Merill spyr hvernig hann geti sagt annað eins og kvartar yfir því að bróðir hans sé ekki eins og hann var. Hvers vegna hann getur ekki sagt eitthvað uppbyggilegt og huggandi á þessum voða tímum. Graham segir að það megi skipta fólki niður í tvo hópa þegar lánið leikur við það: Hópur eitt lítur á lánið sem heppni frekar en tilviljun. Þau líta á það sem tákn. Merki þess að einhver þarna uppi gæti þeirra. Seinni hópurinn lítur á þetta sem hundaheppni, ánægjuleg atburðarás. Fólkið í seinni hópnum tortryggir ábyggilega ljósin á himninum. Í þeirra huga getur brugðist til beggja vona. Gæti verið gott og gæti verið slæmt. En innst inni finnst þeim, hvernig svo sem fer, að þau séu ein. Sú trú vekur hjá þeim ótta. Þetta fólk er til. En það eru fjölmargir í fyrri hópnum sem sjá þessi ljós sem kraftaverk. Og innst inni finnst þeim að hvernig svo sem fari þá verði einhver til að hjálpa þeim. Það kveikir vonaneysta í huga þeirra.

Graham vill að bróður hans átti sig á því hvor maðurinn hann sé. Er hann þannig maður að hann sjái þessi tákn? Sjái kraftaverk? Eða heldur hann að þetta fólk sé bara heppið? Eða er mögulegt að það séu engar tilviljanir? Graham fer að tala um síðustu andlátsorð konu sinnar, Colleen (Patricia Kalember), en hún sagði „sjáðu“ og „sveiflaðu kylfunni af alefli“. Graham telur að hún hafi sagt þetta vegna þess að taugaboð bárust frá heila hennar þegar hún var að deyja og handahófskenndar minningar um okkur birtust í huga hennar. Það er enginn að gæta okkar. Við erum öll ein á báti. Það er allavega skoðun Grahams á þessum tímapunkti í myndinni. En þegar líður að lokum myndarinnar breytist viðhorf hans til alls; hann fer að trúa aftur og fer um leið í hóp með þeim sem trú að það sé einhver þarna uppi sem gæti þeirra. Hann fer að trú því að það séu engar tilviljanir, allt sé fyrirfram ákveðið.

Síðasta kvöldmáltíðinÁður en innrás geimverana hefst ákveður Graham að allir eigi að fá að borða það sem þeir vilja. Kannski síðustu kvöldmáltíðina. Þessi máltíð markar upphafið afturhvarfs Grahams. Sonur hans Morgan biður hann að fara með bæn en Graham þvertekur fyrir það. Það verður nokkurs konar uppgjör við matarborðið sem mér finnst vekja Graham til umhugsunar um hver tilgangurinn sé með þessu öllu. Graham er ekki tilbúinn að fara með bæn sem aðrir í fjölskyldunni þrá að hann geri. Hér finnst mér eins og fjölskyldan sé Jesús og Graham sé Símon Pétur, hann telur sig ekki verðugan að fara með bæn og eins Símon Pétri fannst hann ekki verðugur að fætur hans væru þvegnir af Jesú. (Biblían Jóh.13: 1-8.) Hér kemur greinilega fram að þessi fjölskylda er sundur tætt tilfinningalega. Í afneitun sinni á Guði hefur Graham haft mikil áhrif á alla í fjölskyldunni. Hann sem var kletturinn í fjölskyldunni sem alltaf var hægt að leita til, sbr. samtal bræðrana, en nú er hann eins og sofandi manneskja sem tekur ekki á lífinu eins og hann var vanur að gera heldur lætur það líða hjá án þess að aðhafast nokkuð. Það er Graham nokkuð áfall þegar hann sér hvernig hann hefur misst það hlutverk sem hann hafði innan fjölskyldunnar þegar sonur hans Morgan segist hata hann. Eftir að stóru orðin hafa fallið er tími uppbyggingarinnar að hefjast og sárin byrja að gróa. Það þurfti nokkurns konar áfall fyrir Graham til að hann sæi hvað hann hafi verið að gera sér og þó sérstaklega fjölskyldu sinni. Þessi atburður markar upphafið að því að hann taki trú á ný og það er eins og hann hafi vaknað af værum svefni, breytingin er svo mikil.

Það er líka táknrænt að á veggnum fyrir aftan borðstofuborðið eru tvær styttur af hundum. Hundar tákna trúfestu og tryggð en geta líka táknað hið illa. (Táknmál Trúarinnar, Karl Sigurbjörnsson, Skálholtsútgáfa, Reykjavík 1993, bls. 74.) Graham segir þegar geimveruárásin hefst: „ Ég er ekki tilbúinn.“ Mér finnst hann vera að tala við Guð og segja honum að hann sé að verða trúaður aftur. Hann segir líka „ Ég hata þig,“ en þar er hann að viðurkenna að það er eitthvað æðra til. Endurlausnarstefið í myndinni er mjög áberandi, Graham kastar öllu sem hann hefur trúað á frá sér en eftir sjálfsskoðun fer hann að púsla öllum brotunum úr lífi sínu saman og hann finnur sinn tilgang í lokinn. Það er náttúrulega það allra besta sem gerist í lífi einstaklings að hann finni sinn tilgang í lífinu og fái að fylgja honum. Þegar geimveruárásin er yfirstaðin og fjölskyldan heldur að þau séu hólpin fara þau úr kjallaranum sem þau földu sig í. En það er ein geimvera sem beið þeirra og lokaátökin eru þegar gert er út af við hana. Graham man allt í einu síðustu orð konu sinnar og það er eins og skilningarvit hans opnist; hann sér hvað hann á að gera. Hann segir bróður sínum að slá eins fast og hann geti. Merrill grípur hafnaboltakylfu af veggnum og byrjar að slá geimveruna eins fast og hann getur. Þegar þau koma saman fyrir utan húsið eftir að hafa yfirbugað síðustu geimveruna er greinilegt að Graham hefur aftur tekið við hlutverki sínu sem kletturinn í fjölskyldunni.

BoðskapurinnMér finnst boðskapur myndarinnar vera að með trú, von og kærleika og trú á Guð að vopni getum við nánast sigrast á öllu.

Heimildirhttp://www.imbd.com/name/nm0796117/bio 25.02.2005.

http://www.imbd.com/name/nm0796117/bio 25.02.2005.

http://www.kuro5hin.org/story/2004/8/26/131133/514 25.02.2005.

Vísindavefurinn sp. Hvers vegna er kross tákn kristninnar, http://visindavefur.hi.is/?id=4561) 13.03.2005

Karl Sigurbjörnsson, 1993: Táknmál Trúarinnar. Reykjavík, Skálholtsútgáfan.

Sigurjón Árni Eyjólfsson, 2000: Guðfræði Marteins Lúters. Reykjavík, Hið Íslenska Bókmenntafélag.

Bjarni Randver Sigurvinsson og Oddný Sen, 2005: Guðfræði og kvikmyndir, Leskaflar I og II. Reykjavík, Háskólafjölritun.

Biblían, 1981. Reykjavík.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Jh 13:2-8
Persónur úr trúarritum: Jesús, Símon Pétur, geimverur
Guðfræðistef: vegir Guðs, Guðs blessun, Guðs vilji, kraftaverk, veikleiki, fyrirgefning, forákvörðun, trú, afturhvarf, endurlausn
Siðfræðistef: heiðarleiki, sektarkennd, fordómar, hefnd, tjáskipti, reiði, ást, kærleikur, syndajátning, að gæta náungans
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, bænahús
Trúarleg tákn: kross, Biblían, heilög kvöldmáltíð, kirkja, bænahús
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: himininn
Trúarleg reynsla: sýn, bænasvar, gleði