Kvikmyndir

Ski Troop Attack

Leikstjórn: Roger Corman
Handrit: Charles B. Griffith
Leikarar: Michael Forest, Frank Wolff, Richard Sinatra, Wally Campo, Sheila Carol, Skeeter Bayer og Roger Corman
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1960
Lengd: 62mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Í árslok 1944 eru nokkrir bandarískir hermenn sendir á skíðum inn á yfirráðasvæði Þjóðverja til að sprengja í loft upp mikilvæga brú.

Almennt um myndina:
Roger Corman, leikstjóri þessarar stríðsmyndar, er sennilega einn þekktasti kvikmyndagerðarmaðurinn úr B-mynda geiranum í Bandaríkjunum. Á árunum 1955-1971 leikstýrði hann a.m.k. 50 kvikmyndum í fullri lengd undir eigin nafni og nokkrum til viðbótar sem ýmsir aðrir voru skráðir fyrir. Allar myndirnar framleiddi hann sjálfur en eftir 1971 sneri hann sér nær eingöngu að framleiðslu fyrir aðra kvikmyndagerðarmenn.

Flestar kvikmyndir Cormans voru hræódýrar B-myndir sem bera þess augljós merki hversu lítið fjármagn var til ráðstöfunar við gerð þeirra. Vönduðustu myndir Cormans eru þó hrollvekjurnar, sem hann byggði á ýmsum smásögum eftir Edgar Allan Poe, en Vincent Price lék aðalhlutverkið í þeim flestum. Bestar þeirra eru The Fall of the House of Usher (1960), The Pit and the Pendulum (1961), The Premature Burial (1962) og The Masque of the Red Death (1964), en allar nutu þær mikilla vinsælda á sínum tíma og skiluðu inn töluverðum tekjum.

Stríðsmyndin Ski Troop Attack verður hins vegar að teljast ein af sístu myndum Cormans. Hún var tekin að vetri til í skógivöxnu fjalllendi Suður-Dakóta og er mestum sýningartímanum, sem er aðeins rúmur klukkutími, varið í að sýna söguhetjurnar þar á ferð á gönguskíðum, en fámenn þýzk skíðasveit veitir þeim eftirför mest allan tímann. Öðru hverju er svo gömlum fréttamyndum bætt inn í myndina þar sem skriðdrekar og önnur vígtól þýzka hersins eru sýnd í návígi. Í rauninni tekst furðu vel að láta þessar gömlu fréttamyndir líta út eins og þær séu hluti af sjálfri myndinni, en hún er öll tekin í svart-hvítu. Tæknibrellurnar eru þó að öðru leyti slæmar, ekki síst þegar brúin er sprengd í loft upp meðan hergagnalest fer yfir hana. Sömuleiðis eru samtölin frekar illa skrifuð og persónusköpunin klisjukennd.

Leikararnir eru misgóðir en Þjóðverjinn Frank Wolff er þeirra bestur í hlutverki bandarísks liðþjálfa, en hann átti eftir að leika í ótal ítölskum kvikmyndum það sem eftir var ævinnar. Þýzki liðsforinginn er hins vegar leikinn af sjálfum leikstjóranum Roger Corman sem því miður er aldrei sýndur í nærmynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin gerist að hluta til á jólunum 1944 og eru ýmis heimsþekkt jólalög leikin í slæmum jazz útsetningum allan þann tíma til að árétta það.

Siðfræðistef: stríð, manndráp
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól