Kvikmyndir

Sling Blade

Leikstjórn: Billy Bob Thornton
Handrit: Billy Bob Thornton
Leikarar: Aðalleikarar: Billy Bob Thornton, Lucas Black, Natalie Canerday, John Ritter, Dwight Yoakam, J. T. Walsh, James Hamton, Robert Duvall, Rick Dial, Brent Briscoe, Christy Ward
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1996
Lengd: 135mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0117666
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmynd Billy Bob Thorntons, Sling Blade, segir frá Karl Childress, sem Thornton leikur sjálfur á frábæran hátt. Hann er andlega fatlaður maður sem er í þann mund að losna úr langri vist á geðsjúkrahúsi í Arkansasfylki.

Í upphafi myndarinnar rekur Karl sögu sína og greinir m.a. frá því hvernig foreldrar hans fóru með hann í æsku og lokuðu hann inni í skúr á baklóðinni við heimili þeirra og litu nánast eingöngu til hans til að gefa honum að borða og uppfræða hann í Biblíunni. Reyndar kemur í ljós að sú uppfræðsla var meira og minna vafasöm og tilbúningur, a.m.k. uppgötvaði Karl það þegar hann fór að lesa sjálfur í Biblíunni á geðsjúkrahúsinu að margt af því sem foreldrar hans kenndu honum stóð alls ekki í henni.

Kvöld eitt yfirgaf Karl skúrinn og fór inn í hús foreldra sinna. Þar kom hann að ungum pilti í rúminu með móður hans. Viðbrögð Karls voru þau að hann drepur piltinn en þegar hann uppgötvaði að móðir hans var ekki bara fórnarlamb heldur sjálfviljugur þátttakandi drepur hann hana einnig þar sem hann áleit athæfið rangt.

Þegar myndin hefst, 25 árum síðar, er Karl útskrifaður af geðsjúkrahúsinu og snýr hann aftur í heimabyggð sína. Honum gengur illa að takast á við dagleg viðfangsefni en forstöðumaður sjúkrahússins útvegar honum vinnu hjá manni að nafni Bill Cox sen rekur lítið viðgerðarverkstæði. Þrátt fyrir fortíð Karls leitast Bill við að hjálpa honum að aðlagast daglegu lífi utan veggja sjúkrahússins og skapa með honum sjálfsvirðingu og sjálfstraust með því að hrósa hæfileikum hans til að gera við sláttuvélar.

Karl kynnist ungum dreng, Frank að nafni, sem leikinn er af Lucas Black. Hann býr með móður sinni því að faðir hans hafði stytt sér aldur. Móðir hans, Linda, sem Natalie Canerday leikur, vinnur í verslun. Frank laðast að Karli og fljótlega verða þeir góðir vinir. Móðir hans virðist sjá í Karli föðurímynd fyrir son sinn og býður honum að flytja inn í bílskúrinn hjá þeim án þess að þekkja fortíð hans til fulls. Það eru þó tveir aðrir sem gera tilkall til þess hlutverks að ganga Frank í föðurstað. Annars vegar er það Vaughan Cunningham (sem John Ritter leikur), yfirmaður Lindu. Hann er samkynhneigður og er ofsóttur og lagður í einelti. Hann býr samt yfir meðaumkun og umhyggju fyrir öðrum og lætur sér annt um Frank og Lindu og lífsviðurværi þeirra. Hins vegar er það Doyle Hargraves (sem Dwight Yoakum leikur). Hann rekur byggingafyrirtæki og er kærasti Lindu. Undir niðri er hann illmenni sem bæði misbýður og misþyrmir Frank og móður hans, einkum þegar hann er drukkinn. Mannfyrirlitning og ofbeldishneigð Doyles bitnar á Karli og vinum hans og hann hótar Lindu að drepa hana ef hún segi honum upp.

Mitt í þessum aðstæðum er Karli hins vegar fyrst og fremst annt um velferð vinar síns Franks. Frank hatar Doyle vegna framkomu hans við sig og móður hans. Karl reynir hins vegar að beina huga hans frá hatrinu með því að segja við hann að drengir eigi að hugsa fallegar hugsanir og að ekkert illt eigi að koma fyrir börn. Greinilegt er að Karl endurlifir á vissan hátt sína erfiðu æsku í aðstæðum Franks. Að lokum er Karli nóg boðið hvernig Doyle fer með Frank og móður hans og hann grípur til örþrifaráða.

Almennt um myndina:
Billy Bob Thornton hefur getið sér gott orð sem kvikmyndaleikari en hefur einnig komið við sögu sem handritshöfundur og leikstjóri. Kvikmyndin Sling Blade er fyrst og fremst verk hans. Hann skrifar handrit, leikstýrir og er sjálfur í aðalhlutverki. Myndi ber því snilli hans gott vitni. Handrit myndarinnar er mjög vel skrifað og leikur Thorntons í hlutverki hins þroskahefta Karls er frábær. Þá vekur myndi ótal spurningar sem fengur er að fyrir áhorfandann að takast á við, bæði trúarlegar og siðferðislegar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Sling Blade felur í sér ýmis trúar- og siðferðisstef. Biblían, lestur hennar og túlkun kemur töluvert við sögu, einkum nokkur boðorð hennar. Því tengjast ýmsar siðferðispurningar, s.s. framhjáhald, samkynhneigð, virðing fyrir ólíkum einstaklingum, barnaútburður, sjálfsvíg, morð o.fl. Í myndinni eru þær m.a. settar í samhengi við það trúar- og siðgæðisuppeldi sem Karl Childress fékk af hálfu foreldra sinna, en einnig tengdar því sem hann gerði og olli því að hann var vistaður á geðsjúkrahúsi og jafnframt því fólki sem hann kynnist eftir að hann er látinn laus af geðsjúkrahúsinu.

Unnt er að færa rök fyrir því að nokkur atriði í sögu Karls Childress feli í sér vísun til Jesú Krists og guðspjallanna. Þegar Karl yfirgefur geðsjúkrahúsið á hann hvergi höfði sínu að að halla. Eigur hans eru nokkrar bækur, m.a. Biblían, bók um jólin og bók um það að læra að verða smiður. Bent hefur verið á að hér megi sjá skýrskotun til Krists. Biblían er bókin um hann, hann fæddist á jólum og lærði líklega að vera smiður hjá Jósef. Hann átti hvergi höfði sínu að að halla (sbr. Mt 8.20). Þá vekur máltíðarsamfélagið í myndinni einnig athygli. Doyle neitar að hafa Karl í húsinu þegar hann matast. Á hinn bóginn þiggur Karl boð um að borða með Vaughan, vini hans og þroskaheftri konu úr versluninni. Hér minnir ýmislegt óneitanlega á mynd samstofnaguðspjallanna af samneyti Jesú við þá sem eru útskúfaðir og utangarðs, tollheimtumenn og syndara (sbr. Mt 9.10-13).

Þegar líður á myndina eiga Karl og Frank löng samtöl saman. Þau eru undirbúningur fyrir það sem koma skal. Karl segir Frank meðal annars frá því að hann hafi verið látinn grafa lík nýfædds bróður síns í garðinum við bernskuheimili hans. Frank fyllist skelfingu við að heyra sögu Karls og þeir ræða saman um sjálfsvíg og morð og eru sammála um að þeir sem fremji morð fari til helvítis.

Undir lok myndarinnar óskar Karl eftir því að vera skírður. Þegar heim kemur frá athöfninni bíður Doyle þeirra. Hann sendir Lindu út eftir mat til að losna við hana úr húsinu. Hann hefur í hótunum við Frank og skipar síðan Karli að taka allt sitt hafurtask og koma sér í burtu. Karl hlýðir og tekur dótið sitt. Hann fer til Vaughans og biður hann að líta eftir Frank og móður hans og fer svo og hittir Frank og á með honum kveðjusamtal. Ekki frá því að sumt í því minni á kveðjuræður Jesú með lærisveinunum (Jh 14-16). Karl lofar Frank því að þótt hann fari burt muni þeir alltaf vera vinir og honum muni alltaf þykja vænt um hann. Það skipti ekki máli fyrir vináttu þeirra hvar hann sé niður kominn. Hann gefur Frank síðan bækurnar sínar og inn í bókina um jólin hafði hann sett bókamerki með áletruninni: „Þú munt verða hamingjusamur.“ Að því búnu fer Karl og útvegar sér blað úr sláttuvél, snýr aftur með það og drepur Doyle og kemur þannig fram eigin „guðlegri“ refsingu.

Við fyrstu sýn mætti halda því fram að Karl hafi framið verknaðinn vegna þess að hann gat ekki spjarað sig í hinum flókna heimi utan geðsjúkrahússins og að honum hafi liðið betur þar. Hann hafi einfaldlega gert sér grein fyrir að fyrir þennan verknað yrði hann settur á ný á stofnunina sem hafði hýst hann í 25 ár og skapað örugga umgjörð um líf hans. En ef myndin er skoðuð út frá guðfræðilegum sjónarhóli má færa fyrir því rök að verknaður Karls hafi ekki bara verið hefnd eða refsing af hans hálfu heldur einnig fórn fyrir þá sem eru honum kærir. Hann veit að þeir sem fremja morð fara til helvítis, eða „hades“ eins og hann kýs að kalla það. Hann fórnar því bæði eigin frelsi og sálarheill fyrir hamingju og velferð drengs sem er honum kærari en allt annað. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15:13). Það má því segja að fórn Karls vísi á vissan hátt til fórnar Krists, þ.e. í því að vera öðrum til frelsunar. Hitt er svo jafnljóst að ve!rknaður Karls sem slíkur er vart í samræmi við boðskap Krists eða Bibíunnar yfirleitt.

Sjálfsagt má deila um þetta sjónarhorn á myndina Sling Blade. Það er þó svo að ýmislegt í henni vísar á vissan hátt til Krists og því unnt að færa nokkur rök fyrir því að morðið á Doyle sé jafnframt fórn Karls fyrir þá sem honum eru kærir.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 20.13, 3M 18.22
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 8.20, Mt 9.10-13, Jh 14-16
Persónur úr trúarritum: Drottinn, heilög þrenning, Jesús Kristur
Guðfræðistef: biblíuskilningur, biblíutúlkun
Siðfræðistef: barnaútburður, einelti, framhjáhald, mannfyrirlitning, morð, ofbeldi, samkynhneigð, sjálfsvíg, vinátta
Trúarbrögð: kristni, baptistar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: hades, helvíti
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, bæn, skírn