Kvikmyndir

Smultronstället

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Viktor Sjöström, Bibi Anderson, Ingrid Thulin, Gunnar Björnstrand, Max von Sydow, Jullan Kindahl, Folke Sundquist, Björn Bjelfvenstam og Naima Wifstrand
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1957
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 1:37:1)
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Ísak Borg horfist í augu við líf sitt, gerir upp fortíðina og verður að betri manni á ferðalagi sínu frá Stokkhólmi til Lundar þar sem hann á að taka við heiðursdoktorsnafnbót.

Almennt um myndina:
Smultronstället var frumsýnd árið 1957, sama ár og Det sjunde inseglet. Hún þykir vera ein af betri myndum Bergmans og vakti mikla athygli erlendis. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna og Bafta verðlauna og hún vann gullbjörnin í Berlín árið 1958 og vann auk þess verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og Golden Globe verðlaun í Bandaríkjunum sem besta erlenda myndin.

Kvikmyndatakan er í höndumGunnars Fischer og þykir hún almennt góð. Það sama má segja um tónlist Eriks Nordgrens. Fischer og Bergman nota myndatöku og klippingar skemmtilega til að tjá umskiptin frá raunveruleika til minningar og draums, en það er gert með myndum af trjám, skýjum og vatni.

Aðalhlutverkið í myndinni lék Viktor Sjöström, en hann var á þessum tíma þekktur sænskur leikstjóri. Hann hafði leikstýrt fjölda þögulla kvikmynda á árunum frá 1912 til 1937 og vísar Bergman ekki síst til þeirra í draumsenum myndarinnar, einkum myndarinnar Körkarlen frá 1921.

Honum þótti takast afskaplega vel upp í hlutverki Ísaks Borg, þótt þeir Bergman tækjust nokkuð á um myndina og túlkun hans á persónu Ísaks. Aðrir leikarar standa sig prýðilega og þarna má sjá mörg kunnugleg andlit, s.s. Bibi Anderson, Ingrid Thulin, Gunnar Björnstrand og Max von Sydow.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Smultronstället er kvikmynd sem fjallar um endurlausn og von.

Hjálpræðissagan í myndinni – fjórir draumar Smultronstället geymir afar áhugaverða sögu af hjálpræði og endurlausn. Ísak Borg verður fyrir sterkri upplifun á ferðalagi sínu um Svíþjóð. Vegna drauma sinna og ásakanna þeirra, sem standa honum næst, áttar hann sig á því hvar hann stendur og hvers konar manneskja hann er. Hann gengur í sjálfan sig og verður að betri manni fyrir vikið. Breytingin sem hann verður fyrir er ekki síst í því fólgin að hann verður að opnari manni sem tengist betur fólkinu í kringum hann. Þetta er saga af endurlausn sem fellur ágætlega inn í mynstur lútherskra kenninga um hjálpræði og endurlausn. Það birtist til að mynda í fjórum draumum sem Ísak dreymir í myndinni. Sjá má vissa samsvörun milli drauma Ísaks og ferlisins frá lögmáli til fagnaðarerindis eins og Lúther lýsir því.

Fyrsta drauminn má tengja við fyrstu notkun lögmálsins, lögmál náttúrunnar. Þessi draumur hefur ekki síst þann tilgang að minna Ísak á dauðann og þá staðreynd að hann er dauðlegur maður.

Annan drauminn má tengja við aðra notkun lögmálsins, ásökun og dóm. Þessi draumur minnir Ísak á bernskuna og sambandið við Söru. Hann er áminning um hvar og hvenær eitthvað fór úrskeiðis í lífi hans. Orsökina er (a.m.k. að hluta) að finna í því að hann missti æskuástina í hendur bróður sínum. Þessi draumur geymir einnig lýsingu Söru á Ísaki:

„He´s so enormously refined and moral and sensitive and he wants us to read poetry together and he talks about the afterlife, and wants to play duets on the piano and he likes to kiss in the dark, and he talks about sinfulness.“

Svona lýsing gefur tilefni til að ætla að Ísak hafi þegar í upphafi verið svolítið dofinn tilfinningalega.

Þriðja drauminn má einnig tengja við aðra notkun lögmálsins. Í honum er stóridómur felldur yfir Ísak. Hér sýnir Sara honum spegil sem birtir hina raunverulegu mynd af honum (en gammal ful man) og minnir á dauðleikann, áður en læknisfræðipróf er lagt fyrir hann. Ísak fellur hins vegar á prófinu, sem er í raun próf í því að vera manneskja: Að sýna samhygð og biðjast fyrirgefningar. Refsingin er einmanaleiki en hann verður þá vitni að framhjáhaldi eiginkonu hans og hvernig hún baktalar hann.

Fjórða drauminn má tengja við fagnaðarerindið. Þetta er hlýjasti og notalegasti draumurinn. Hér leitar Ísak foreldra sinna og finnur þau þar sem þau sitja í vík og renna fyrir fisk. Þau veifa honum og allt er gott.

Andlit Ísaks undir lok þessa draums (og reyndar andlit hans í rúminu þegar hann dreymir drauminn) segir meira en orð fá lýst. Hann er kominn til sjálfs sín – kominn heim. Og þannig endar myndin á afar jákvæðum nótum enda er hún í raun mynd um von.

Nöfn í myndinni Nöfn persóna úr Biblíunni eru áberandi í myndinni. Þannig heitir aðalpersóna myndarinnar Ísak og æskuástin hans heitir Sara og það nafn ber líka hin unga Sara sem er á leið til Ítalíu og fær far með Ísak og Marianne til Lundar. Abraham og Sara eru ein kunnustu hjón Biblíunnar, en það sama gildir einnig um Ísak (son þeirra) og Rakel. Frá þeim er sagt í 1. Mósebók. Í myndinni ræða Ísak og Sara sérstaklega um þessi nöfn. Eftir að þau hafa kynnt sig spyr hún: „Voru þau ekki hjón?“ Ísak svarar eitthvað á þessa leið: „Nei, Abraham og Sara voru hjón …“ Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um það hvers vegna aðalsögupersónur myndarinnar heita einmitt Ísak og Sara. Ein gengur út á að nöfnin undirstriki að þessir tveir einstaklingar passi ekki saman. Upphafsstafirnir í nafni Ísaks Borg eru þeir sömu og í nafni Ingmars Bergman, en að sögn leikstjórans var það þó ómeðvitað. Nafnið átti hins vegar að skírskota til þess hvers konar mann Ísak hefði að geyma: Hann er kaldur sem ís (Ís-ak) og lokaður eins og kastali (á sænsku merkir orðið „borg“ kastali). Einn þátttakandi í málþingi um trúarstef í myndum Bergmans í Hallgrímskirkju þann 4. júní 2003 komst ágætlega að orði þegar hann kallaði hann Borgarísjakann.

Önnur nöfn sem tengjast Biblíunni eða kirkjunni eru Marianne (samsett úr tveimur nöfnum: María og Anna – móðir Maríu (móður Jesú) var einmitt Anna), Aron, Eva, Angelica, Kristina, Birgitta, Elísabet og Benjamín. Mörg þessara nafna þurfa ekki að koma á óvart því mikill fjöldi nafna í Svíþjóð er kominn úr Biblíunni.

Hliðstæður við frásögur Biblíunnar Í þriðja draumi Ísaks má sjá vissa hliðstæðu við einn texta úr spádómsbók Jesaja. Sara tekur barn Sigbritts í faðm sér og huggar það og segir eitthvað á þessa leið: „Óttastu ekki, ég er hjá þér.“ Þetta minnir á texta í Jes. 43 þar sem segir meðal annars: „Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér. […] Óttast þú eigi, því að ég er með þér.“ (Jes 43.1, 5).

Sara huggar barnið með því að fullvissa það um að hún bregðist ekki, að hún verði til staðar. Keimlíka hughreystingu er að finna hjá Jesaja þótt þar sé gengið nokkuð lengra í yfirlýsingunni.

Þá mætti velta fyrir sér hvort hægt sé að sjá vissa hliðstæðu milli myndarinnar sem heildar og tveggja frásagna úr Lúkasarguðspjalli:

Sú fyrri er sagan af týnda syninum í 15. kafla guðspjallsins. Lykilatriði í þeirri frásögn er að sonurinn gengur í sjálfan sig, kemur til sjálfs sín og snýr aftur heim. Það er spurning hvort endurlausnin sem Ísak Borg upplifir sé ekki lík því.

Síðari frásagan er sú af Emmaus-förunum í 24. kafla Lúkasarguðspjalls. Þar segir frá því hvernig lærisveinarnir átta sig á tilgangi lífsins eftir stutt ferðalag þar sem Kristur sjálfur er með í för. Hliðstæðan væri þá í því fólgin hvernig þeir koma til sjálfs sín að loknu ferðalagi þar sem sannleikurinn er útskýrður fyrir þeim (rétt eins og með Ísak Borg).

Boðskapur myndarinnar Það er spurning hvort boðskapur myndarinnar sé ekki sá að lifa lífinu lifandi, en gleyma sér ekki um of í smáatriðunum eða fullkomnunaráráttunni. Myndin miðlar heilmikilli von. Það sést ekki síst á því hvernig hvert sambandið á fætur öðru lagast: Ísak sættist við fólkið í kringum sig, Marianne og Evald ákveða að halda hjónabandi sínu gangandi. Þá gæti hin unga Sara verið fulltrúi lífsins og fagnaðarerindisins í myndinni. Það birtist skýrt í ástarjátningu hennar til Ísaks undir lok myndarinnar, en þá kveður hún hann með þessum orðum:

„Bless faðir Ísak. Skilurðu að það ert þú sem ég elska! Í dag, á morgun og um alla framtíð!“

–>Þetta kemur líka fram í því að það er hún sem sem kallar eftir athygli og lífsgleði. Hún skammar til dæmis þá Anders og Viktor fyrir að eyða tíma sínum í rifrildi (og reyndar handalögmál) um tilvist Guðs frekar en að einbeita sér að henni og lifa lífinu lifandi.

Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 43.1-7, Lk 15.11-32 (týndi sonurinn), Lk 24.13-35 (förin til Emmaus)
Guðfræðistef: lík, dauði, líf, upprisa, endurlausn, ást, kærleikur, Guð, von, iðrun, fyrirgefning, sekt, sektarkennd
Siðfræðistef: framhjáhald, lygi, stríðni, andlegt ofbeldi, fóstureyðing, tillitsleysi, afbrýðisemi, sjálfselska, ófyrirleitni, einmanaleiki, dygðir, lestir, móðursýki
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkja
Trúarleg tákn: líkkista, kristssár, lík
Trúarleg embætti: prestur
Trúarleg reynsla: draumur, sýn