Kvikmyndir

Sophie’s Choice

Leikstjórn: Alan J. Pakula
Handrit: Alan J. Pakula, byggt á bókinni Sophie’s Choice eftir William Styron
Leikarar: Meryl Streep, Kevin Kline, Peter MacNicol, Rita Karin, Stephen D. Newman, Greta Turken, Josh Mostel, Marcell Rosenblatt, Moishe Rosenfeld, Robin Bartlett og Eugene Lipinski
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1982
Lengd: 150mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Pólverjinn Sophie lifði af fangabúðir nasista og býr nú í Bandaríkjunum með ástmanni sínum, hinum töfrandi og mislynda Nathan. Í íbúðina fyrir neðan þau flytur Stingo, lítt lífsreyndur ungur maður sem er að skrifa sína fyrstu bók, og verða þau þrjú bestu vinir. Saman eiga þau margar áhyggjulausar og töfrandi stundir en fljótt kemur í ljós að undir niðri kraumar sjúkleg afbrýðisemi og geðveila Nathans og lamandi sektarkennd Sophíar sem losnar ekki undan minningum stríðsins.

Almennt um myndina:
Umgjörð kvikmyndarinnar verður að teljast mjög vönduð. Myndin býr yfir mýkt og draumkenndri fegurð, jafnvel í þeim atriðum sem sýna hinn grimma veruleika útrýmingarbúðanna. Kvikmyndatakan tekur mið af þessari fagurfræðilegri mýkt þannig að sum skotin líkjast einna helst málverki. Það fer ekki á milli mála að Meryl Streep er trompið þegar kemur að því að skapa fallegan ramma í Sophie’s Choice. Myndavélin gælir við hana og ósjaldan koma atriði þar sem nærmynd af andliti hennar er allt sem áhorfandinn sér. Lítið er um víð sjónarhorn og íburðarmikla myndatöku heldur er áherslan oftast á hinum litla heimi þremenninganna eða sálarástandi þeirra.

Sophie’s Choice hefur að geyma mörg athyglisverð atriði hvað varðar kvikmyndatöku. Eitt dæmi er atriðið þegar Nathan þykist vera hljómsveitarstjórnandi. Hann snýr í átt að bogadregnum glugga sem varpar fimm spegilmyndum af honum og er það táknrænt fyrir klofinn persónuleika hans. Annað dæmi um kvikmyndatöku í Sophie’s Choice sem segir sögu án orða er þegar andlit Evu dóttur Sophíar dofnar smám saman og við tekur mynd af reyk frá brennsluofnunum en þangað lenti stúlkan. Og enn annað dæmi er þegar Sophie rifjar upp reynslu sína í Auschwitz. Fyrst minnist hún á hvernig henni mistókst að stela útvarpi og sýnir myndavélin þá frá lífinu í útrýmingarbúðunum. Svo talar Sophie um það hvernig hún hélt að hún hefði bjargað lífi sonar síns og í brjósti hennar vaknað von en þá stekkur myndin aftur til Bandaríkjanna. Í lokin þegar Sophie tilkynnir að þetta var fölsk von þá er myndavélinni aftur beint að Auschwitz.

Hið óvenjulegasta við kvikmyndatökuna í Sophie’s Choice er sú að í endurminningum sínum talar persóna Meryl Streep beint í myndvélina líkt og eigi sér stað milligöngulaust samtal milli hennar og áhorfandans. Aðrar persónur myndarinnar virðast ekki búa yfir þessum hæfileika.

Um klippinguna er það að segja að hún er ósköp hefðbundin. Lítið er um hraðar klippingar heldur er leikurunum gefið tækifæri til að koma leik sínum frá sér óhindrað og án allra brellna. Leikararnir standa sig upp til hópa vel en Meryl Streep ber samt höfuð og herðar yfir þá alla. Hún er hreint út sagt töfrandi í hinu erfiða hlutverki aðalpersónunnar. Það segir sig sjálft að ekki er á færi allra leikara að tala tvö erlend tungumál, móðurmál sitt með missterkum hreim og vera miðpunktur nær allra atriða myndarinnar. Mikil leit fór fram á sínum tíma að hinni fullkomnu leikkonu í hlutverki Sophíar. Fyrst var ætlunin að finna austur-evrópska leikkonu en þó fór svo að Meryl Streep fékk hlutverkið eftir að hafa beðið Pakula um það á hjánum. Hann hefur væntanlega ekki séð eftir að hafa ráðið Streep enda fékk hún Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni.

Tónlist myndarinnar er einstaklega falleg. Þemalagið er falleg melódía full af von og hlýju. Athyglisvert er að í byrjun myndarinnar heyrist einfalt og hugljúft lag sem heyrist ekki aftur fyrr en í atriðinu þegar Sophie er í lestinni á leið til Auschwitz með börnin sín tvö. Dóttir Sophíar, Eva, spilar þá lagið á blokkflautu á meðan hún horfir á landslagið þjóta framhjá. Líta mætti á þetta á táknrænan hátt: Upphafið er hjá Evu, bæði upphafið að myndinni og upphafið að raunum Sophíar. Það er kannski engin tilviljun að dóttirin heitir einmitt Eva. Lagið heyrist svo í þriðja og síðasta sinn í lok myndarinnar þegar Stingo kemur að húsinu þar sem hann bjó ásamt Sophie og Nathan og fær að heyra að þau hafa framið sjálfsmorð. Þannig er dauði þeirra tengdur dauða Evu. Segja má að þessi lagstúfur sé ramminn utan um myndina.

Í kvikmyndinni hafa litir táknræna merkingu. Myndin gerist að hluta til í Póllandi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og að hluta til í Bandaríkjunum tveimur árum síðar. Í þeim atriðum sem gerast í Póllandi liggur grábrún slykja yfir öllu. Ekki er notast við svarthvíta filmu heldur eru allir litir gerðir daufir þannig að áhorfandinn gerir sér grein fyrir hverjir eðlilegir litir hluta voru áður en stríðið gerði allt litlaust og ljótt. Í atriðunum sem gerast í Bandaríkjunum er notast við skæra liti, til dæmis er húsið sem Sophie, Nathan og Stingo búa í bleikt bæði að utan og innan og Sophie er oft með eldrautt naglalakk. Sjálf er Sophie þó föl sem draugur ekki aðeins í Póllandi heldur einnig í Bandaríkjunum sem gefur til kynna hversu varanleg áhrif stríðið í Póllandi hefur á hana.

Það er í raun aðeins eitt kvikmyndafræðilegt atriði í Sophie’s Choice sem virðist ekki vel heppnað og það er takturinn eða rythminn. Sophie’s Choice er afskaplega hæg mynd en samt gerast hlutirnir einstaklega hratt í henni. Ekki lítur út fyrir að Stingo þekki Sophie og Nathan lengi enda virðist alltaf sama árstíð frá fyrsta degi sem þau hittast til dauðadags Sophíar og Nathans og allan tímann þar á milli. Þau verða perluvinir, Sophie segir Stingo ævisögu sína, hann heillast að Nathan og lærir um líf hans, Stingo verður yfir sig ástfanginn af Sophie … allt þetta og meira gerist á þessum stutta tíma. Oftast verður áhorfandinn þó ekki var við tímaskekkjuna. Undantekningar eru til dæmis atriðið þegar Sophie og Nathan stinga af og Stingo fer að grennslast fyrir um þau. Hann hefur miklar áhyggjur af þeim, talar við ýmsa aðila sem gætu vitað eitthvað um þau og ákveður að lokum að flytja sjálfur í burtu. Í millitíðinni eru Sophie og Nathan búin að tæma íbúðina sína. Stuttu seinna kemst áhorfandinn að því að allt þetta átti sér stað á einum degi, Sophie og Nathan eru í raun búin að vera „týnd“ í um það bil sólarhring!

Flestir hafa séð ótalmargar kvikmyndir um ævina. Jafnvel svo margar að minningarnar um þær skarast í huga fólks svo að erfitt er að átta sig á hver er hvað án þess að fá svar við spurningum eins og „hver lék aftur í henni?“ eða „hvaða ár var hún aftur gerð?“ Sophie’s Choice er ekki ein af þessum kvikmyndum. Það er reynsla mín að fólk velkist ekki í vafa um hvort það hafi séð hana eða ekki. Sophie’s Choice býr yfir einhverju afli sem gerir það að verkum að hún helst fersk í minningunni og fylgir manni út lífsleiðina. Ég hef orðið sérstaklega vör við að mæður muna vel eftir myndinni og á þær kemur sársaukasvipur þegar minnst er á hana. Hér hefur hápunktur myndarinnar, atriðið þegar Sophie þarf að velja milli barnanna sinna, áreiðanlega mikið að segja. „Nehmen Sie das Mädchen!“ er líklega ein sorglegasta og átakanlegasta setning kvikmyndasögunnar og þótt víðar væri leitað.

Árið 1998, 26 árum eftir að kvikmyndin var frumsýnd, lést leikstjóri hennar, hinn pólskættaði Alan J. Pakula, í bílslysi. Aðdragandi slysins var sá að ökumaður úr gagnstæðri átt ók á málmrör sem skaust í framrúðuna á bíl Pakulas með þeim afleiðingum að hann dó.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Nokkrar hliðstæður við trúartexta er að finna í Sophie’s Choice en aðeins eina beina tilvísun. Hún kemur frá herforingja í útrýmingarbúðunum: „So you believe in Christ … the Redeemer? Did He not say: Suffer the little children to come unto me“. Yfirmaðurinn notar þetta vers til að kvelja Sophie sem rétt áður hafði sagst trúa á Krist. Þannig er ekki nóg með að herforinginn snúi ritningarversinu yfir í íróníu heldur grefur hann undan trú Sophíar með því að gefa óbeint og á kómískan hátt í skyn að það sé vilji Guðs að börn Sophíar deyi.

Fyrstu hliðstæðuna við Biblíuna má finna strax á upphafsmínútum myndarinnar þegar Stingo segir að faðir sinn kallar New York „the Sodom of the North“. Í einu atriðinu segir Nathan við Stingo: „Rise and shine“ sem er hliðstæða við Jes 60.1. Einnig segir Sophie á einum stað við Stingo: „You will move mountains“ sem er hliðstæða við Jobsbók þar sem talar er um að Guð flytji fjöll (Jb 9.5) og auk þess óbein tilvísun í orðatiltækið trúin flytur fjöll. Stingo notar setninguna „my cup ran over“ til að lýsa greddu sinni en setning þessi er hliðstæða við Sl 23.5. Orð Himmlers „I select who shall live and who shall die“ skapa hugrenningartengsl við 5M 32.39 þar sem stendur: „Ég deyði og ég lífga“. Svo talar Sophie einu sinni um heilagt stríð gegn Gyðingum.

Athyglisvert er hvenær Sophie notar frasann „oh, God“ og má sérstaklega benda á fyrsta atriði myndarinnar þar sem Nathan hótar að yfirgefa hana. Hann kallar hana öllum illum nöfnum, segist þarfnast hennar líkt og sjúkdóms en það er ekki fyrr en hann segir: „I need you like death“ sem Sophie hrópar upp yfir sig „oh God“. Fleiri svipuð atriði má finna í myndinni.

Þótt langsótt sé er freistandi að líta á Sophie, Nathan og Stingo sem nokkurs konar þrenningu þar sem Sophie er María mey, Nathan Guð og Stingo Jesús Kristur. Sophie væri þá kona full af visku, næmni og yfirvegun, Nathan er dýrkaður af Sophie og Stingo er ungur og flekklaus maður að átta sig á lífinu. Nær væri þó að líta á Nathan sem hliðstæðu við Jesúm Krist og Sophie og Stingo sem fylgjendur eða lærisveina hans. Líkt og Jesús er Nathan maður með sterka nærveru og mikla persónutöfra. Hann er á skjön við samfélag sitt og er fyrirmynd fyrir nýja sýn á lífið þar sem peningar, áhyggjur og framapot skiptir litlu sem engu máli heldur er áherslan á gleði, áhyggjuleysi og frelsi. Stingo segir um Nathan: „How could I have failed to have the most helpless crush on such a generous mind and life-enlarging mentor? Nathan was utterly fatally glamorous“. Í augum Sophíar er Nathan frelsari sinn, „their meeting was for her a miracle“. En Nathan er margbrotinn persónuleiki og það er aðeins ein hlið af persónuleika hans sem minnir á Jesú Krist. Stundum er Nathan líkastur djöfullegri veru, til dæmis þegar hann kvelur Sophie með minningum úr fortíðinni.

Sophie á kannski ekki hliðstæðu úr Biblíunni en samt virkar hún einnig á áhorfandann sem vera af öðrum heimi. Í augum Stingos er hún „the goddess of my unending fantasies“ og vissulega minnir Sophie á gyðju eða engil með sína fölu húð og dreymandi augu, klædd léttum og slæðukenndum sumarfatnaði. En það er ekki aðeins fegurð hennar sem virðast annars heims heldur allt fas hennar. Hún er eins mystísk og persónur í kvikmyndum geta orðið og andstæða við allar aðrar kvenpersónur í myndinni.

Og hvað þá um Stingo? Er hann líka guðleg vera? Þessu verður að svara neitandi. Stingo er vissulega falleg sál með hreint hjarta en hann er fyrst og fremst aðdáandi hinna tveggja „guðlegu veranna“. Hann er sú persóna sem áhorfandinn á auðveldast með að samsama sig við. Ástæðan er ekki aðeins sú að hann er sögumaður myndarinnar og því sér áhorfandinn hlutina með hans augum heldur einnig sú að hann heillast að Sophie og Nathan alveg eins og áhorfandinn; hann er sjálfur áhorfandi að lífi þeirra.

Í myndinni virðist Himmler líka líta á sig sem nokkurs konar guð án þess þó að hann sé sérstaklega sáttur við hlutskipti sitt. Hann segir: „I perform God’s work. [Heyrist í lest í fjarska eins og til að leggja áherslu á orð hans] I select who shall live and who shall die. Is that not God’s work?“. Aftur á móti kippir Reichsführer Rudolf Höss yfirmaður Auschwitz sér ekkert upp við það þótt Sophie skjalli hann með því að segja að hann hafi vald til að veita miskunn og frelsi líkt og Guð.

FyrirgefningSophie þráir fyrirgefningu. Hún er greinilega enn í sárum eftir Auschwitz og minningarnar um þá tíma eru henni enn ofarlega á huga. Sem dæmi má taka að Stingo þarf ekki nema að nefna vélritun til að Sophie fari að tala um föður sinn og þegar Nathan kvelur hana með tali um Auschwitz og ávarpar hana með fanganúmerinu hættir Sophie að segja „no, no“ og fer að segja „nje, nje“ líkt og hún sé ennþá í Póllandi.

Sophie virðist alltaf vera að afsaka sig eða Nathan. Samt telur hún syndir sínar vera ófyrirgefanlegar, ekki einu sinn sannleikurinn mun frelsa hana: „The truth, it does not make it easier to understand, you know, I mean, you think that you find out the truth about me and then you will understand me and then you would forgive me for all those … for all my lies“. Til gamans má geta að ein fyrstu orð Stingos til Sophíar eru einmitt: „Look, don’t apologise, all right“.

Umfram allt þráir Sophie fyrirgefningu Guðs og hana virðist hún fá í lok myndarinnar. Um daginn sem Sophie og Nathan fremja sjálfsmorð segir Stingo: „This was not judgement day, only morning. Morning excellent and fair“. Í sömu mund birtist á skjánum fagurt andlit Sophíar með vonarglampa í augum og smám saman dofnar myndin út í hvítan flöt. Sophie hefur verið fyrirgefið af Guði og er orðinn engill.

GeðveikiÁhorfandinn kemst frekar seint að því í sögunni að Nathan er með klofinn persónuleika. Þetta er ein ástæðan fyrir geðsveiflum hans, sjúklegri afbrýðisemi og erfiðri lund. Nathan er einnig með áráttuhegðun sem sést best á því að hann er heltekinn af nasisma. Hann á fjöldann allan af bókum um efnið og í íbúð hans og Sophíar eru myndir af Hitler og herförinni. Þessi staðreynd er til marks um hversu mikil árátta Nathans er því væntanlega myndu flest áhugafólk um herförina taka niður myndir af henni ef það byggi með konu eins og Sophie.

FíknÁhorfandinn kemst líka frekar seint að því að Nathan er háður heróíni. Þetta er önnur ástæðan fyrir ýktri hegðun hans og tortryggni. Hugsanlega er Sophie haldin áfengisfíkn en hún sést ósjaldan með glas í hönd og þegar henni líður illa eða er án Nathans staupar hún sig. Svo virðist sem hún hafi orðið áfengissjúklingur eftir áföllin í Póllandi því að hún leitar aðeins huggunar í flöskunni í atriðunum sem gerast í Bandaríkjunum.

FjölskyldaFjölskylda er þema sem kemur aftur og aftur fyrir í Sophie’s Choice. Þremenningarnir eru allir að einhverju leyti einstæðingar, alla vega umgangast þau ekki mikið fjölskyldu sína í myndinni. Nathan á þó einn bróður og Stingo föður heima í Kansas en móðir hans dó þegar hann var 12 ára.

Sophie er vafalaust sú persóna sem er hvað mest umkomulaus. Báðir foreldrar hennar eru dánir og hún virðist sakna þeirra mikið. Hún er þeim þakklát fyrir góð bernskuár og talar lengst af mjög fallega um þau. Þó viðurkennir hún þegar langt er liðið á myndina að hafa fundið til haturs til föður síns sökum skilyrðislausrar ástar hans á nasismanum og hinum miklu kröfum sem hann lagði á Sophie. Samt fær áhorfandinn á tilfinninguna að Sophie sé innst inni ennþá pabbastelpa sem hafi einfaldlega orðið fyrir vonbrigðum með föður sinn. Þau sterku tengsl sem voru þeirra á milli eru sýnd á táknrænan hátt í atriðinu þegar augu föðurins taka við af augum Sophíar. Hún varð einnig fyrir vonbrigðum með fjölskylduna sem hún eignaðist sjálf. Hjónabandið var ekki hamingjusamt og Sophie hélt framhjá. Auk þess var eiginmaður hennar undir hæl tengdaföður síns og stóð með honum í stað konu sinnar. Og síðast en ekki síst tóku grimm örlög börnin hennar í burtu.

DauðiSophie þekkir dauðann betur en margir aðrir, ekki aðeins vegna þess að hún hefur misst marga ástvini sína heldur dvaldist hún í Auschwitz sem hlýtur að hafa verið nokkurs konar minnisvarði um dauðann. Þetta sést vel í atriðinu þar sem Sophie gengur framhjá fanga sem hefur verið hengdur og hangir enn í snörunni öðrum til áminningar.

Sophie ber blendnar tilfinningar til dauðans. Ekki leikur vafi á að hún vildi frekar hafa dáið en lifað þær hörmungar sem hún gekk í gegnum. Á einum stað í myndinni segir hún við Stingo: „I don’t care that I would die. I am afraid that he [Nathan] would die without me“. Samt segir Stingo stuttu seinna um ástæðu þess að Sophie svaf hjá honum: „Sophie’s lust was both a plunge into carnal oblivian, and a flight from memory and grief. More than that, I now see, it was a frantic attempt to beat back death“.

KynþáttafordómarFaðir Sophíar er Gyðingahatari. Í Póllandi fyrir stríðið vann Sophie sem ritari föður síns og vélritaði ræður hans af segulbandi. Sophie segist aldrei hafa velt því fyrir sér hvað hún væri að vélrita fyrr en einn daginn að orðið die Vernichtung grípur athygli hennar. Þá gerir hún sér grein fyrir því að ræðan sem hún er að vélrita fjallar um gereyðingu Gyðinga. Henni bregður svo við að hún fer í Gyðingahverfið og horfir döprum augum á allt fólkið þar sem faðir hennar vill að verði drepið.

Sophie hefur greinilega ekki sama viðhorf til Gyðinga og faðir sinn sem sést hvað best á því að hún á í ástarsambandi við Gyðinginn Nathan. Auk þess lýgur hún því að Stingo að faðir sinn hafi gengt mikilvægu hlutverki í réttindabaráttu Gyðinga. Sophie skammast sín fyrir Gyðingahatur föður síns ekki síst vegna þess að hún upplifir afleiðingar þess háttar haturs af eigin raun. Faðir hennar beitti sér fyrir fangabúðunum sem hún sjálf lendir í og þar gengur hún í gegnum sömu hörmungar og hver annar Gyðingur. Reyndar ríkir stéttaskipting í Auschwitz sem lýsir sér m.a þannig að þar sem Sophie er ekki Gyðingur hlotnast henni þau „forréttindi“ að mega velja hvort barna hennar fær að lifa og þar með hvort þeirra verður að deyja. Skyldi Sophie hafa óskað sér á þessari stundu að hún væri Gyðingur og þyrfti því ekki að standa frammi fyrir slíku vali?

Annars konar kynþáttafordómar koma fram í Sophie’s Choice. Þegar Nathan er reiður út í Sophie minnir hann hana á að hún er útlendingur og kallar hana því niðrandi nafni „a Polack“. Hann segir m.a. á einum stað: „I’d burn in hell before I’d marry a two-timing Polack!“

ValTitill myndarinnar gefur til kynna að það séu einmitt ákvarðanir og val Sophíar sem eru rauði þráðurinn í sögunni. Um leið og áhorfandinn gerir sér grein fyrir að Sophie hefur ástir bæði Nathans og Stingos og að hún geti valið á milli þeirra fær hann ósjálfrátt á tilfinninguna að tilgangur sögunnar sé sá að Sophie finni sinn raunverulega frelsara, Stingo. En við nánari athugun kemur í ljós að Nathan er eini maðurinn fyrir Sophie. Þau eiga það sameiginlegt að vera „the butchered and betrayed and martyred children of the earth“. Nathan gaf Sophie nokkuð sem skiptir hana öllu máli, viljann til að lifa þegar myrkrið var sem svartast. Hann er líka eini maðurinn sem getur fengið Sophie til að gleyma fortíð sinni um stundarsakir á meðan Stingo er góður hlustandi sem fær hana til að ræða um minningar sínar. Hver dagur með Nathan er hins vegar ævintýri fullt af tónlist, víni, dansi, gjöfum og leik.

Munurinn á því sem Nathan og Stingo hafa að bjóða fyrir Sophie sést hvað best í bónorðum þeirra til hennar. Bónorð Nathans hljómar svona: „I have the honour to request your hand in marriage. To have and to hold from this day forth till death us do part“. Athyglisvert er að Nathan ákveður að nota frasann „to have and to hold…till death us do part“ úr brúðkaupseiðnum en ekki til dæmis „in sickness and in health“ eða „in richness and in poor“. Hann veit að þetta er einmitt það sem Sophie vill heyra. Versti ótti hennar er að vera ein, að verða yfirgefin. Hún þarf á Nathan að halda til að gleyma og til að líf hennar hafi eitthvern tilgang: „… I didn’t want to live no more till Nathan came and he maked me live for him“.

Bónorð Stingos hefur allt annan tón en bónorð Nathans: „Well, I love you very much, Sophie … and, uh … I want to marry you. I want you to live down there on that farm with me, and I want to write my books there. I want you to help me. And I want you to help me raise a family and … Cos I … I love you very, very much. Is it … too much to hope that you might … That you might love me, too?“ Stingo býður Sophie einmitt andstöðuna við það sem hún vill: Einfalt líf á afskekktu sveitabýli þar sem lítið er hægt að gera til dægrastyttingar og því nægur tími til að velta sér upp úr sárum minningum og niðurbrjótandi hugsunum. Stingo talar um að þau geti ekki búið saman án þess að ganga í hjónaband því að nágrannarnir séu strangtrúaðir og gefur þar með til kynna að þeir séu ekkert sérlega umburðarlyndir gagnvart frávikum og mistökum. Sophie gæti aldrei lifað ánægð og áhyggjulaus meðal þeirra og þetta veit hún. Auk þess minnist Stingo á barneignir en það er það síðasta sem Sophie vill. Hún vill ekki eiga í hættu að missa annað barn og endurlifa þann sársauka. Svo telur hún sig ekki eiga skilið að vera móðir lengur. Reyndar hafði Stingo lofað áður að hann myndi aldrei yfirgefa Sophie en hún virtist ekki trúa því ­ kannski af því að hann er ungur og hæfileikaríkur með allt lífið framundan, kannski minnir orðalag hans á brotið loforð í fortíðinni ­ og sendir honum biturt andsvar: „You must never promise that. No-one … No-one should ever promise that“. Í augum Sophíar er því valið milli Nathans og Stingos augljóst og það sem meira er að áhorfandinn skilur það líka núna.

Reyndar er áberandi í myndinni hversu oft Sophie virðist velja þann kost sem er við fyrstu sýn rangur en svo við nánari athugun kemur í ljós að ákvörðun hennar er í raun afar skynsamleg. Skildi vera tilviljun að nafn Sophíar þýðir viska? Í gegnum myndina þarf Sophie að taka margar erfiðar ákvarðanir undir erfiðum kringumstæðum en samt fipast hún aldrei heldur lætur skynsemina ráða í hvert einast sinn. Tökum sem dæmi þegar hálfsystir pólsks ástmanns hennar biður hana að þýða stolin Gestapó-skjöl yfir á þýsku. Sophie neitar með orðunum: „I cannot endanger my children“. Stuttu seinna kemst upp um ráðabrugg systkinanna og þau eru drepin. Auðvelt er að finna fleiri dæmi: Í fangabúðunum er Sophie beðin um að stela útvarpi af heimili höfuðsmannsins. Hún samþykkir en aðeins gegn því að hún fái greiða í staðinn í formi upplýsinga um son sinn. Sophie er greinileg klár kona.

Jafnvel erfiðustu ákvörðun lífs síns tekur Sophie með skynsemina og visku að vopni. Þegar hún neyðist til að velja milli barna sinna og þar með senda annað þeirra til dauða velur hún að halda syni sínum sem er bæði eldri og óháðari móður sinni en dóttirin. Hún veit að hann hefur meiri lífsmöguleika. Sú ákvörðun að taka ákvörðun var einnig gáfuleg því brennsluofninn hefði beðið beggja barnanna hefði hún ekki valið á milli þeirra. Hún varð að reyna að bjarga alla vega öðru barninu sínu jafnvel þótt að hún vissi að það myndi setja ör á sál hennar að eilífu.

TrúarbrögðMinnst er á nokkur trúarbrögð í myndinni og ætti ekki að koma á óvart að gyðingdómur er títtnefndur. Nathan er Gyðingur en kallar Sophie „a lady of the Gentile persuasion“. Sophie var lengi vel strangtrúaður kaþólikki en það breyttist eftir veru hennar í Auschwitz. Trúmál virðast vera henni hjartans mál og væri of mikil einföldun að kalla hana guðleysingja. Hún trúir á tilvist Guðs og Jesú en lítur svo á að hún sé ekki lengur í náð þeirra: „I knew that Christ had turned his face away from me and that only a Jesus who no longer cared for me could kill those people that I loved and leave me alive with my shame“. Sophie býður Guði sínum birginn þegar hún gerir tilraun til sjálfsvígs í kirkju en í gamalli kaþólsku er sjálfsmorð ófyrirgefanleg synd. Hún segir einnig frá því þegar hún fór skyndilega úr messu og varð þar af leiðandi vitni að því þegar nasistar handtóku föður hennar og eiginmann. Það skal þó tekið fram að í Sophie’s Choice sést aldrei kirkja heldur er aðeins minnst á þær. Hvað sem trúarhegðun Sophíar líður þá halda þau Nathan bæði upp á sunnudaga með því að klæða sig upp og gera sér glaðan dag.

Trúarleg táknTrúarleg tákn í Sophie’s Choice eru ekki mjög áberandi en leynast þó í bakgrunninum. Stuttu eftir að Nathan og Sophie kynnast eldar hann fyrir hana máltíð og býður henni rauðvín þannig að Sophie líður eins og dýrlingi í paradís. Í þessu atriði má líka sjá logandi kerti og hvítar rósir og lesið er úr bókinni Look Forward Angel eftir Thomas Wolfe.

Annað atriði er að Sophie er með kross um hálsinn í atriðunum þegar hún er frjáls kona í Póllandi en ekki í Auschwitz (sem skiljanlegt er) og ekki sem frjáls kona í Bandaríkjunum. Þetta er táknrænt fyrir þau skaðlegu áhrif sem stríðið hafði á trú hennar. Aðeins ein persóna önnur en Sophie gengur með einhvers konar kross en það er Reichsführer Rudolf Höss sem er með hakakrossinn á jakkanum.

Eitt myndskot í Sophie’s Choice er einstaklega áhugavert hvað varðar trúarleg friðartákn. Þetta er eitt stakt og einangrað skot sem sýnir líklega portið fyrir utan hús pólsks ástmanns Sophíar og hálfsystur hans. Barn sést að leik undir hvítum lökum sem hanga til þerris og feykjast til í golunni. Móðir barnsins (líklega) er hjá því og yfir höfuð þeirra flýgur hópur af dúfum.

HeimildirHirsch, Joshua. 2004. Afterimage. Temple University Press, Philadelphia.

Insdorf, Annette. 2003. Indelible Shadows. Cambridge University Press, Cambridge.

International Movie Database. 2005, 20. feb. „Sophie’s Choice.“ Vefslóð: http://www.imdb.com/title/tt0084707/

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mk 10.14
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 18-19 (Sódóma), Jes 60.1 (skín þú), Jb 9.5 (flytja fjöll), Sl 23.5 (bikar), Jesús Kristur, Guð, Eva
Persónur úr trúarritum: engill
Guðfræðistef: fyrirgefning, sál, heilagt stríð, undirheimaguðir (tilvísun í D.H. Lawrence), ódauðleiki, dómsdagur
Siðfræðistef: geðveiki, fíkn, fjölskylda, dauði, val, vinátta, bónorð, sjálfsmorðstilraun, framhjáhald, iðrun, söknuður, ótti, von, sorg, missir, kynþáttafordómar, fjöldamorð
Trúarbrögð: gyðingdómur, rómversk-kaþólska kirkjan, nasismi, öldungakirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: paradís, algyðishof guðanna
Trúarleg tákn: kerti, rauðvín, dúfur
Trúarlegt atferli og siðir: rómversk-kaþólsk messa (sagt frá, ekki sýnt), bænir (sagt frá, ekki sýnt)
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: sunnudagar, helförin
Trúarleg reynsla: kraftaverk