Kvikmyndir

Star Trek: The Wrath of Khan

Leikstjórn: Nicholas Meyer
Handrit: Gene Roddenberry og Harve Bennett
Leikarar: William Shatner, Leonard Nemoy, DeForest Kelley, James Doohan, Walter Koenig, Georg Takei, Nichelle Nichols, Bibi Besch, Merrit Butrick, Paul Winfield, Kirstie Allen og Ricardo Montalban
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1982
Lengd: 112mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin gerist á 23. öldinni og segir frá ævintýrum og háska áhafnarinnar um borð á geimskipinu Enterprise. Þau eru send í hjálparleiðangur til geimvísindastofnunarinnar Regula 1.

Á leið sinni verður á vegi þeirra gamall óvinur, Khan, og hefjast miklir bardagar þeirra á milli. Meðal annars stendur baráttan um tæki sem vísindamennirnir um borð í Regula 1 höfðu verið að vinna að, en komist það í rangar hendur er voðinn vís.

Almennt um myndina:
Leikstjóri myndarinnar, Nicholas Meyer, er fæddur í New York 24. desember 1945. Áhugi hans á kvikmyndagerð vaknaði strax og hann sá sína fyrstu bíómynd, en það var myndin „A Beggar’s Opera“. Hann sló fyrst í gegn er kvikmyndahandrit hans upp úr bókinni „Seven Percent Solution,“ en hann er reyndar líka höfundur bókarinnar, var tilnefnt til óskarsverðlauna.

Þekktastur er hann þó fyrir hlutdeild sína í Star Trek-myndunum. Fyrir utan að leikstýra „The Wrath of Khan“ stýrði hann einnig „Star Trek VI: The Undiscovered Country“ (1991), en hann var líka meðhöfundur handrits þeirrar myndar. Einnig var hann einn handritshöfunda „Star Trek IV: The Voyage Home“ og „Sommersby“ (1993). Ekki verður hjá því komist að minnast á sjónvarpsmynd hans „The Day After,“ frá árinu 1983, sem á sínum tíma sló öll áhorfsmet í Bandaríkjunum.

Tónlist myndarinnar er í höndum James Horner. Hann hefur m.a. samið tónlist fyrir myndir á borð við Braveheart, Apollo 13, A Beatiful Mind, The Grinch og Titanic, en hann hlaut óskarsverðlaun árið 1998 fyrir lag sitt úr þeirri mynd. Horner lærði á píanó við The Royal College of London og flutti svo til Kaliforníu árið 1970. Hann er mjög virtur á sínu sviði og hefur hann starfað með ekki ómerkari mönnum en Georg Lucas, Steven Spielberg, Oliver Stone, Ron Howard og James Cameron.

Star Trek: The Wrath of Khan hlaut tvenn Saturnverðlaun árið 1983. William Shatner fékk verðlaun sem besti leikarinn og Nicholas Meyer var valinn besti leikstjórinn.

Vegna lítilla fjárveitinga var sífellt verið að reyna að endurnýta hluti. Geimstöðin Regula 1 er í raun geimstöðin úr myndinni Star Trek: The Motion Picture frá árinu 1979, bara búið að snúa henni á hvolf. Klingonskipin þrjú sem sjást í flugherminum er opnunaratriðið úr sömu mynd. Sama skipsbrúin var notuð fyrir The Enterprise og The Reliant, aðeins var skipt um lýsingu, sætisáklæði og sjónarhorn myndavélarinnar. Þá var 65% myndarinnar tekin upp í sama myndverinu.

Vinnuheiti myndarinnar var „The Undiscovered Country“ sem er það sama og Hamlet hans Sheakspears kallaði dauðann. Þetta gæti túlkast sem vísun í dauða Spocks og einnig sem skírskotun í dauða og elli sem er eitt af megin þema myndarinnar.

Margar ólíkar útgáfur eru til af þessari mynd. Ýmist vantar atriði í þær eða búið að bæta við stuttum atriðum. Þessar ólíku útgáfur voru framleiddar fyrir sjónvarp eða erlendan markað.

Handritshöfundur myndarinnar er Gene Roddenberry skapari Star Treks. Það eru nánast óteljandi þættirnir sem hann hefur skrifað og/eða framleitt. Roddenberry lést árið 1991. Framleiðandi myndarinnar Harve Bennett horfði á alla Star Trek sjónvarpsþættina í leit að þætti til endurgerðar í þessari mynd. Valdi hann þáttinn Space Seeds frá árinu 1967.

Lítið er hægt að setja út á leikinn í myndinni og þykir mér hann Ricardo Montalban hafa staðið sig sérstaklega vel í túlkun sinni á Kahn. Tónlist myndarinnar er klassísk Hollywood tónlist og gefur sönnum tónlistarunnanda lítið, en þjónar vel hlutverki sínu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér skal tekið fram að þriðja myndin, Star Trek: The Search for Spock, er höfð til hliðsjónar í umfjölluninni.

EdenstefDr. Carol Marcus fer fyrir hópi vísindamanna um borð í vísindastöðinni Regula 1. Hafa þau verið að vinna þar að verkefni sem þau kalla Genesis. Hefur þeim tekist að búa til tæki sem getur skapað líf úr lífleysu. Virkar það þannig að tækinu er skotið á líflausa plánetu og á örfáum mínútum er tækið búið að skapa lífvænleg skilyrði um allan hnöttinn.

Það fyrsta sem vekur athygli er auðvitað nafn verkefnisins, en það skírskotar augljóslega til sköpunarsögunnar. Nú er að finna tvær mismunandi útgáfur á sköpuninni í Genesis (Fyrstu Mósebók). Í annarri þeirra skapar Guð heiminn á sex dögum og í hinni segir frá erfðarsyndinni og útskúfun mannsins úr Paradís. Í myndinni tel ég að verið sé að vinna með báðar sögurnar og mismunandi áherslur þeirra fléttaðar saman í eina sögu.

Vísindamennirnir með dr. Carol í farabroddi eru í hlutverki skaparans, en ólíkt Guði í Biblíunni hafa þau ekkert vald yfir sköpuninni. Þeirra eina hlutverk er fólgið í þróun Genesis-tækisins.

Hliðstæðuna við erfðarsyndina er að finna í þriðju myndinni, The Search for Spock. Plánetan sem er sköpuð í The Wrath of Khan er líkust paradís eins og hún kemur manni fyrir sjónir í lok hennar, en í The Search for Spock kemur annað í ljós. Plánetan eldist of fljótt og er engu líkara en að hún sé haldin hrörnunarsjúkdómi á háu stigi. Ástæða þess er sú að David, sonur dr. Carol og Kirk hafði freistast til þess að nota ákveðið efni í þróun Genesis-tækisins sem hafði verið bannað af vísindasamfélaginu vegna þess hve óstöðugt og hættulegt það var. Hugsi maður sér dr. Carol Marcus sem skaparann liggur beinast við að líta á David sem hliðstæðu við Adam og Evu í sköpunarsögunni. David notar þetta ákveðna efni þrátt fyrir viðvaranir og bönn vísindasamfélagsins, lætur undan freistingunni. Þetta leiðir svo til þess að í stað paradísar breytist plánetan í sjálftortímandi víti. Þannig að líkt og Adam og Eva drýgir David syndina sem sviptir mennina paradís.

Lífsins tré og skilningstré góðs og ills holdgervast í myndinni í óþokkanum Kahn. Hann er afsprengi genabreytinga og er því afburðargáfaður og einstaklega langlífur. Hann er því einmitt gæddur þeim tveimur eiginleikum sem trén veita. Kahn er illur og fylgir honum slóð eyðileggingar, morða og eymdar. McCoy og Spock ræða einmitt í myndinni hvað geti gerst lendi Genesis tækið í röngum höndum, Kahn er einmitt þessar röngu hendur. Birtist hér and-húmaniski boðskapur myndarinnar skýrt. Sköpunargleði mannsins ógnar enn og aftur tilveru hans því nái Kahn í tækið er næsta víst að hann mun ekki nota það í góðum tilgangi. Undirliggjandi boðskapur myndarinnar er einmitt að manninum ferst illa að taka sér hlutverk Guðs.

Kristsgervingurinn SpockEftir mikinn lokabardaga í The Wrath of Khan bíður áhafnarinnar um borð í The Enterprise ekkert nema dauðinn, sökum þess hve nálægt þau eru yfirvofandi sprengingu sem Khan er valdur af. Vélarbilun veldur því að þau komast ekki undan og ekki er hægt að gera við bilunina vegna mikillar geislavirkni.

Ákveður Spock þá að fórna sér til þess að bjarga áhöfninni. Hann er Vúlkani, kynstofn sem er þekktur fyrir að láta rökvísi alltaf ráða ferðinni, mannlegar tilfinningar líkt og gleði, sorg, húmor, stolt o.s.frv. er eitthvað sem þeir þekkja ekki. Lokaorð Spocks eru gott dæmi um þetta:

Kirk: Spock!
Spock: Skipið… úr hættu?
Kirk: Já.
Spock: Ekki syrgja, Aðmíráll. Þetta er rökrétt. Þarfir fjöldans vega þyngra en…
Kirk: …þarfir hinna fáu.
Spock: …Eða þess eina. Ég tók aldrei Kobayashi Maru prófið fyrr en nú. Hvað finnst þér um lausn mína?
Kirk: Spock…

Skömmu áður en hann gefur líf sitt fyrir áhöfnina flytur hann sál sína, eða kjarna þess sem hann er, yfir í skipslækninn dr. McCoy og segir við hann „mundu“. Með þessu varðveitist persónan Spock í lækninum. Í The Search for Spock rís hann svo upp frá dauðum og er sál hans flutt aftur yfir í líkama hans.

Hjá mér skapaði þessi sálnaflutningur hugrenningartengsl við orð Jesú um að á Pétri byggði hann kirkju sína. Hann biður Pétur í raun um að halda utan um kjarna þess sem hann er og stendur fyrir. Munurinn er að vísu fólginn í því að Spock ætlaði ekki McCoy að breiða út boðskap sinn um rökvísi, heldur geyma sálu sín til þess að hann yrði lífgaður við og gæti haldið starfi sínu sjálfur áfram.

Ólíkt Pétri er McCoy allt annað en ánægður með það að Spock hafi notað huga hans sem geymslu fyrir sálu sína, var hann reyndar meðvitundarlaus þegar flutningurinn átti sér stað. Viðbrögð hans við þessu eru gott dæmi um hversu ánægður hann var með það:

Kirk: þú þjáist af vúlkanskri hugbræðslu læknir.
Dr. McCoy: Þessi blóðgræni tíkarsonur. Þetta er hefnd hans vegna allra rifrildanna sem hann tapaði.

McCoy og Spock hafa eldað grátt silfur saman frá því að þeir kynntust og þegar þarna er komið við sögu er McCoy í haldi lögreglu. Stendur til að flytja hann á geðsjúkrahús vegna vægast sagt undarlegrar hegðunar sem stafar einmitt af því að persónuleiki Spocks tekur stundum völdin, ekki ósvipað því sem gerist hjá geðklofum.

Margt er líkt með Jesú og Spock fyrir utan augljósar hliðstæður líkt og fórnardauði og upprisa. Spock hefur mjög rólegt yfirbragð, er alltaf yfirvegaður og ber sig líkt og einhver sem hefur dýpri skilning á tilverunni. Þegar hann talar hljómar það oftar en ekki líkt og kennsla eða predikun, líkt og maður getur ímyndað sér að Kristur hafi gert. Það er líka augljóst að hann telur að mannfólkið eigi langt í land og sést það kannski best á samtali hans við undirforingja sinn, sem er einnig Vúlkani:

Saavik: Hann er ekki það sem ég á von á, herra.
Spock: Hvað kemur þér svona á óvart, undirforingi?
Saavik: Hann er svo – mannlegur.
Spock: Enginn er fullkominn, Saavik.

En þetta þýðir ekki að hann sjái enga von í mönnunum. Í stað þess að sýna þeim hroka og skilningsleysi líkt og svo margir Vúlkanar kýs hann að vinna og búa á meðal þeirra og reyna að miðla af visku sinni og reynslu, og um leið reyna að bæta samskipti þessa tveggja kynstofna.

Er þetta enn eitt dæmið um hliðstæðu Spock við Jesú, en hann predikaði einmitt að öll værum við börn Guðs og sýndi það í verki með því að umgangast fólk á jaðrinum. Þannig ögraði hann ríkjandi gildum samfélagsins og reyndi að brúa gjánna sem var á milli „dyggðugra“ og „syndugra“. Á sama hátt ögrar Spock svolítið þeim gildum sem ríkja á hans heimaslóðum, í þágu betri samskipta og samvinnu.

Við útförina Spock heldur Kirk ræðu og hefði hún nánast getað verið skrifuð þegar Jesús var krossfestur:

Kirk: Við erum hér saman komin til þess að votta okkar virðulega félaga okkar hinstu virðingu. En þess skal minnast að dauði hans stendur í skugga nýs lífs, sólarrás nýs heims; heimur sem okkar ástkæri félagi fórnaði lífi sínu fyrir, til þess að vernda hann og næra. Honum þótti fórn sín hvorki tilgangslaus né tóm, og við munum ekki efast um hans innsæi tengt þessum gjörðum.Um vin minn get ég aðeins sagt: af öllum þeim sálum sem ég hef kynnst á ferðalögum mínum, var hans sú…. mennskasta.

Svo er líki hans skotið niður á hina nýmynduðu plánetu, sem minnir helst á paradís. Oftar en einu sinni er svo talað um hann sem „the one“. Sjálfur gerir hann þetta rétt fyrir andlát sitt og fyrr í myndinni kallar Kirk hann „the one“ í samtali sem þeir eiga. Að lokum kallar Kirk hann svo aftur þessu nafni rétt eftir upprisu hans.

Spock: …þú snérir aftur fyrir mig.
Kirk: Þú hefðir gert slíkt hið sama fyrir mig.
Spock: Hví mundir þú gera slíkt?
Kirk: Vegna þess að þarfir hins eina vógu þyngra en þarfir fjöldans.

Annað sem ýtir undir túlkun Spocks sem kristsgervingur er að hann er hálfur maður og hálfur Vúlkani. Vísar þetta til tvöfalda eðli Krists sem samkvæmt hefðinni var bæði maður og Guð í senn. Þetta er vel við hæfi þar sem það eru Vúlkanar sem reyna að kenna mönnunum hvernig hægt er að leysa vandamál þeirra með því að beita rökhugsun og láta ekki alltaf tilfinningar ráða málunum. Með þessu eru þeir að reyna að benda mönnunum á leið til betri vegar, en innan kristninnar þjóna boðorðin einmitt þessum tilgangi.

Áhersla Spocks sem kristsgervingur liggur í boðskap hans um rétta breytni. Hann er ekki þessi tilfinningaheiti frelsari sem hreinsaði til í musterinu í Jerúsalem sem birtist í Markúsarguðspjalli. Spock er rólegur og yfirvegaður og breiðir út boðskap sinn í samræmi við það. Sú mynd sem birtist þarna af Kristi er því rólegur, skynsamur, þolinmóður og kærleiksríkur frelsari. Sá Kristur sem við könnumst við úr sunnudagsskólanum og laginu „Jesús er besti vinur barnanna“.

SiðferðisstefÍ myndinni birtast nokkuð sterk and-húmanísk viðhorf og sterk gagnrýni á þekkingarþorsta mannsins sem eru svo undirstrikuð með eyðingu hinnar nýsköpuðu plánetu í þriðju myndinni.

Fulltrúi þessara sjónarmiða í myndinni er Dr. McCoy. Sést þetta skýrast á samtali hans og Spocks um Genesis-verkefnið.

McCoy: Guð minn góður! Heldurðu að við séum nógu skynsöm… hvað… hvað ef þetta væri nú notað þar sem líf er nú þegar til staðar.
Spock: Það myndi ryðja því úr vegi fyrir sitt nýja mót.
McCoy: Sitt nýja mót?! Hefurðu einhverja hugmynd um hvað þú ert að segja?!
Spock: Ég var ekki að reyna að meta siðferðislegar flækjur þess, læknir. Samkvæmt alheimssögunni hefur alltaf auðveldara að eyða en skapa.
McCoy: Ekki lengur; nú getum við gert bæði í einu! Samkvæmt goðsögninni, var jörðin sköpuð a sex dögum. Passið ykkur nú! Hér kemur Genesis! Við skulum gera það fyrir ykkur á sex mínútum!
Spock: Í alvöru talað, Dr. McCoy. Þú verður að reyna að temja tilfinningar þínar; þær eiga eftir að koma þér um koll. Skynsemin segir…
McCoy: Skynsemi?! Guð minn góður, maðurinn er að tala um skynsemi; við erum að tala um endalok alheimsins!

Eitt af meginþemum myndarinnar er ellin og dauðinn. Í því samhengi er mikilvægt að skoða hið svokallaða koby maru próf. Fer það fram í flughermi sambandsins þar sem þjálfun nýliða fyrir stjórn geimskipanna á sér stað. Skapar forrit þá aðstæður sem ekki er hægt að koma sér út úr og leiðir því til dauða áhafnarinnar. Með þessu er verið að kanna hvernig nemarnir bregðast við dauðanum. Kirk er eini maðurinn sem tekist hefur að sigra forritið og komast lífs af úr prófinu. Þetta tókst honum með því að svindla.

Í myndinni er hann einmitt að ganga í gegnum miðaldrakreppu og því samsömunarferli sem samkvæmt djúpsálarfræðingnum Jung, hendir alla menn í kringum fimmtugt. Eitt af því sem Jung segir að sé nauðsynlegt í þessu ferli er að gera sér grein fyrir, takast á við og á einhvern hátt sætta sig dauðann. Kirk mætti aldrei dauða sínum í þjálfuninni og á þar af leiðandi erfiðara með að samsamast sjálfum sér á þessu æviskeiði. Fórnardauði Spocks og þær aðstæður sem þar eru fyrir hendi neyða Kirk til þess að takast á við þá staðreynd að hann er ekki ósigrandi. Eftir það sjáum við hvernig hann smámsaman verður sáttari við sjálfan sig og umhverfi sitt.

David Marcus: Saavik undirforingi hafði rétt fyrir sér: Þú hefur aldrei mætt dauðanum.
Kirk: Nei. Ekki svona. Ég hef aldrei mætt dauðanum. Ég hef svindlað á dauðanum. Ég hef blekkt dauðann og komist þannig hjá honum og svo klappað sjálfum mér á bakið fyrir kænsku mína. Ég veit ekkert.
David Marcus: Þú vissir nóg til þess að segja Saavik að hvernig maður tekst á við dauðann er alveg jafn mikilvægt og hvernig maður tekst á við lífið.
Kirk: Innantóm orð.

Samtal hans og David Marcus sýnir að markmið myndarinnar er einnig að fá okkur til þess að sættast við ódauðleika okkar og þar með auðvelda okkur að ganga í gegnum það einsömunarferli sem er okkur svo nauðsynlegt. Hafi maður sætt sig við að maður eldist og mun að lokum deyja er nefnilega svo miklu auðveldara að takast á við lífið. Að öðrum kosti bíða okkar erfið ár þar sem kvíði og áhyggjur munu þjaka okkur.

Myndin er framleidd í skugga kalda stríðsins og er líka hægt að túlka hana sem pólitíska ádeilu á kjarnorkuvopnaeign ríkja heims. Hægt er að sjá bardaga Kirks og Khans um Genesis-flugskeytið sem myndlíkingu fyrir vígbúnaðarkapphlaup Sovétríkjanna og Bandaríkjamanna. Barátta sem stjórnast í annan endann af hefndarþorsta og valdgræðgi. Í þriðju myndinni reyna svo Klingonar að komast yfir upplýsingar til þess að geta hafið framleiðslu á Genesistækinu. Þá mætti túlka sem önnur ríki heims sem fylgdu í kjölfarið og reyndu að komast yfir kjarnorkuvopn.

Það er merkilegt að í síðustu myndinni leggur David, einn af vísindamönnunum, mikla áherslu á að Genesis-verkefnið hafi í raun mistekist. Þetta mætti túlka sem rödd almennings sem sér að þessi mikli vígbúnaður var mistök og skilaði engu.

Lokabardaginn er líka dæmi um ádeilu á kjarnorkuvopnaeign þjóða heims. Bardaginn er í upphafi háður með venjulegum vopnum, en svo þegar ósigur blasir við Khan grípur hann til þess örþrifaráðs að ræsa Genesis-sprengjuna, og ná þannig að tortíma The Enterprise. Þarna blasir við að allir bæði Khan og áhöfn The Enterprise muni farast en svo fer að Spock fórnar sér og þau bjargast. Sé þetta heimfært upp á leiksvið kalda stríðsins er ekki erfitt að sjá hvað er verið að gefa í skyn. Í örvæntingu og blindri heift munu allir tortíma öllum ef til átaka kæmi.

Það er skemmtilegt að skoða hvernig and-húmaníska viðhorfið í garð Genesis-verkefnisins birtist í þriðju myndinni. Genesis plánetan er þar í óða önn að eyðast af sjálfu sér vegna „synda“ Davids. Gefur þetta mjög neikvæða mynd af mönnunum sem skaparar, þeim mistekst hræðilega. Undirstrikar þetta skoðun and-húmanista að maðurinn á ekki að setja sig í hlutverk hins almáttuga, það er honum ofviða og dæmt til þess að hafa hræðilegar afleiðingar í för með sér.

En hverjir væru kostir og gallar þess að geta skapað nýja plánetu á svo einfaldan hátt? Einn af augljósu kostunum er sá að fólksfjölgun yrði ekki lengur vandamál. Sömuleiðis mætti útrýma hungursneyð í heiminum. Hægt væri að skapa fangaplánetur og losna þannig við kostnaðinn af því að reka fangelsi. Ekki þyrfti lengur að hafa áhyggjur af auðlindum jarðarinnar o.s.frv.

En hvað ef tækið lenti í röngum höndum? Hvað ef það yrði notað í hernaðarlegum tilgangi, líkt og svo oft gerist með uppfinningar mannsins? Eru til réttar hendur fyrir tækni sem þessa? Skilaboðin sem myndin sendir eru nei, við einfaldlega ráðum ekki við þetta. Best væri ef við létum hlutina þróast á sinn eðlilega hátt.

KhanÍ lok 20. aldarinnar var Khan einræðisherra á jörðinni og réði yfir einum þriðja Jarðarbúa. Eftir miklar styrjaldir var hann og hópur fylgismanna hans sendur í útlegð út í geim. Voru þau öll í djúpsvefni og var hugmyndin sú að þau myndi reka um óravíddir geimsins að eilífu. Eitthvað um borð bilaði og The Enterprise, með James T. Kirk sem skipstjóra, kom þeim til bjargar. Khan launaði þeim svo greiðann með því að reyna að drepa Kirk og ræna skipinu. Þeim mistókst og voru send í útlegð á nærliggjandi plánetu. Fimmtán árum seinna tekst þeim að sleppa og það eina sem kemst að í huga á Khan er að hefna sín á Kirk. Hefst því mikill eltingarleikur og um leið barátta um Genesis-tækið. Khan svífst einskis og beittir meðal annars pyntingum og heilaþvætti til þess að fá sínu framgengt.

Það er athyglisvert að stuðningsmenn hans virðast fylgja honum í algjörri blindni, með einni undantekningu. Hann hefur einskonar guðlega stöðu innan hópsins. Minnir oft á tíðum á sértrúarsöfnuð sem hlýðir leiðtoga sínum í einu og öllu.

Khan er auðvitað fulltrúi hins illa í myndinni, líkt og titill hennar gefur til kynna. Eru honum gefnir nánast allir eiginleikar þess sem við flokkum undir slæma hluti. Hann er drifinn áfram af valdagræðgi og hefndarþorsta, hann hikar ekki við að eyða hverjum þeim sem stendur í vegi hans, beitir pyntingum og jafnvel hugstjórnun. Þannig að ekki nóg með að hann sé vondi maðurinn í myndinni heldur er hann nánast illskan holdi klædd.

Ef til vill var hann látinn líta svona rosalega illa út til þess að maður ætti auðveldara með að sætta sig við að góðu gæjarnir byggju yfir slíkum eyðingarmætti sem í Genesis tækinu fólst, í stað þess að það væri í hans höndum.

Ef maður lítur á þetta út frá kaldastríðstúlkuninni, þá er þarna á ferðinni mikill undirliggjandi and-kommúnískur boðskapur. Sé litið á áhöfn The Enterprise sem fulltrúa Vesturveldanna og Khan sem fulltrúa kommúnistaríkjanna má lesa úr þessu að það sé í lagi að Vestrið búi yfir gereyðingarvopnum því þau verða aðeins notuð í góðum tilgangi, því Vesturveldin eru góð. Kommúnistarnir stjórnast hinsvegar af valdgræðgi, hefndarþorsta o.s.frv. og munu einskis svífast í baráttu sinni fyrir völdum í heiminum.

Fyrir mynd sem vinnur út frá edenstefi Gamla testamentisins er vel við hæfi að annað stef hennar skuli vera hefnd. Þetta segi ég því sá Guð, Yahweh, er birtist í Gamla testamentinu er í við frábrugðinn Guði nýja testamentisins. Yahweh er ekki jafn miskunnsamur og Guð er í dag. Hann er að hluta til stríðsguð sem berst með mönnum sínum á vígvellinum og þar að auki er hann hefnigjarn og refsiglaður sbr. Plágurnar og syndaflóðið.

Kahn er drifinn áfram af hefndarþorsta og má jafnvel segja að hann sé blindaður af hefnigirni. Allt annað verður að víkja fyrir áætlun hans um að ná sér niður á Kirk. Ástæða þess er m.a. sú að hann kennir honum um dauða konunnar sinnar. Hjá honum er ríkjandi hugsunarháttur í anda Gamla testamentisins sbr. auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Skeytir hann engu um viðvaranir félaga sinna sem einnig benda á að þeir geta nú með nýfengnu frelsi farið hvert sem er.

And-húmaniska boðskap myndarinnar er einnig að finna í persónu Kahns. Oftar en einu sinni er minnst á afburðargáfur hans, en allt kemur fyrir ekki. Tilfinningahiti hans leiðir hann og alla fylgismenn hans til glötunar. Er þarna verið að benda á að maðurinn er ekki kominn lengra en það í þróuninni að þrátt fyrir alla gáfulega tilburði hans, stjórnumst við enn af frumhvötum líkt og reiði og hefnigirni. Hvað höfum við að gera með það að vera að skapa líf í okkar mynd þegar við erum varla fær um að sjá um okkur sjálf.

Það er vel við hæfi að lokaorð Kahns skuli vera fengin að láni hjá Ahab skipstjóra úr sögunni af Moby Dick.

Khan: Allt til enda berst ég við þig; frá hjarta Heljar sting ég þig; fyrir haturs sakir hræki ég síðasta andardrætti mínum á þig.

Tilefni þessa orða hans er að hann hefur gripið til þess örþrifaráðs að setja af stað Genesis tækið og þar með dæmt sjálfan sig, áhöfn sína og að því er hann heldur, Kirk og áhöfn hans til dauða. Ahab skipstjóri fórnaði einmitt öllu sínu til þess að ná fram hefndum á Moby Dick og lét lífið fyrir vikið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1-3
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1-3
Persónur úr trúarritum: Adam
Guðfræðistef: eilífð, eilíft líf, hjálpræði, kraftaverk, kærleikssamband, miskunn, náð, næsta líf, réttlæti, syndarjátning, bæn, synd, réttlæti, sköpun, mannlegt eðli, sálin, heimsslit
Siðfræðistef: ást, fjandskapur, hégómi, kærleikur, rán, skammsýni, svik, neyð, ábyrgð, lögbrot, skyldur, skammsýni, veikleiki, útlegð, stríð, dauði, grimmd, forvitni, morð, metnaður, miðaldrakreppa, vinátta, vantraust, hræðsla, vald, pyntingar, hugstjórnun, þjáning, útlegð, erfðabreytingar, greind, þjófnaður, eftirsjá, kvíði, borgaraleg réttindi, fólksfjölgun, græðgi, uppreisn, fyrirgefning, ofbeldi, feðrasambönd, hatur, kaldhæðni, uppgjöf
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Gröf, Paradís, helvíti
Trúarleg tákn: altari, líkkista
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, uppvakning, sálarflutningur
Trúarleg reynsla: tilbeiðsla, andsetning, íhugun, leiðsla