Leikstjórn: Marc Daniels
Handrit: Stephen Kandel
Leikarar: William Shatner, Leonard Nimoy, DeForest Kelley, James Doohan, Nichelle Nichols, George Takei, Walter Koenig og Roger C. Carmel
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 3
Lengd: 49mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0060028
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Vélmennið Norman nær allri stjórn á geimskipinu Enterprise og siglir því til ónefndrar plánetu, en íbúar hennar eru allir vélmenni að klækjarefnum Harry Mudd frátöldum. Vélmennin tóku Mudd sem himnasendingu þegar hann brotlenti á plánetu þeirra eftir að hafa flúið lagana verði. Þar sem skaparar vélmennanna voru allir dauðir, þráðu þau að finna mannverur sem þær gætu lært af og þjónað. Mudd var því gerður að nokkurs konar konungi plánetunnar og uppfylltu vélmennin allar þarfir hans, að því einu undanskildu að hann gat aldrei yfirgefið plánetuna. Þar sem Harry var orðinn leiður á paradísarprísund sinni, stakk hann upp á því að vélmennin næðu í skipsflota Enterprise og slepptu sér lausum í staðinn. Kirk og menn hans eru hins vegar ekki á þeim buxunum að sleppa geimskipinu svo auðveldlega.
Almennt um myndinaMarc Daniels leikstýrði alls fjórtán Star Trek þáttum í upprunalegu seríunni, en hinir þættirnir eru: The Man Trap, The Naked Time, The Menagerie, The: Part 1, Court Martial, Space Seed, Who Mourns for Adonais?, The Changeling, Mirror, Mirror, The Doomsday Machine, A Private Little War, By Any Other Name, Assignment: Earth og Spock’s Brain. Hann hefur einnig komið nálægt sjónvarspmyndum eins og Fame og Private Benjamin. Þá skrifaði hann líka handrit Star Trek teiknimyndarinnar ,,One of Our Planets Is Missing.“
Þetta er eina handritið sem Stephen Kandel skrifaði fyrir upprunalegu seríuna en hann kom einnig að teiknimyndaseríunni. Þá hefur hann skrifað handrit fyrir fjöldan allan af sjónvarspþáttum, eins og The Wild, Wild West, Batman, Charlie’s Angels og Mission: Impossible.
Roger C. Carmel sló svo rækilega í gegn sem Harry Mudd að honum var boðið að koma reglulega fram í upprunalegu seríunni. Hann hafnaði því hins vegar. Þá var því stungið að honum að hann hæfi sína eigin sjónvarpsseríu en því ver og miður lét hann aldrei verða úr því. Í raun vann Roger C. Carmel mjög illa úr þeim tækifærum sem honum bauðst og fyrir vikið er hann flestum gleymdur, að Star Trek aðdáendum frátöldum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
I, Mudd er einn af hinum fjölmörgu Star Trek þáttum þar sem áhöfninni á Enterprise hafnar tilboði um að búa í Paradís. Vélmennin bjóðast til að uppfylla alla drauma þeirra að því frátöldu að þeir megi aldrei yfirgefa plánetuna. McCoy fær rannsóknarstofu þar sem hann getur gert allar þær rannsóknir sem hann hefur dreymt um, Uhuru er boðin óauðleiki og eilíf æska, Chekov er umvafinn kvenfólki (kvenvélmennum sem hannaðar eru til að uppfylla þarfir karlmanna) o.s.frv. Það er því engin furða að Chekov skuli lýsa því yfir í algleymi að plánetan sé betri en Leníngrad (en í huga Chekov er Rússland paradís á jörðu).
Það sem vélmennin átta sig hins vegar ekki á er að líf án frelsis er fangelsi, sama hversu þægileg sú prísund kann að vera, eða með orðum Mudds: ,,Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman, þið aumu sálarlausu skepnur, heldur nærist hann á frelsinu. Því hvað er maður án frelsis annað en gangverk…“ Og eins og í öllum þeim þáttum þegar áhöfn geimskipsins Enterprise er boðið að búa í paradís er boðinu hafnað, ef ekki með góðu þá illu. Allt frá Adam og Evu hefur sjálfstæðisþörf mannsins einfaldlega verið of sterk til að hann sé tilbúinn til að fórna frelsi sínu, jafnvel þótt honum sé boðið paradís til skiptanna.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 5M 8:3, Mt 4:4, Lk 4:4
Guðfræðistef: mannseðlið
Siðfræðistef: frelsi
Trúarbrögð: húmanismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden, paradís