Kvikmyndir

Star Trek (TOS): Requiem for Methuselah

Leikstjórn: Murray Golden
Handrit: Jerome Bixby
Leikarar: William Shatner, Leonard Nimoy, DeForest Kelley, James Doohan, Nichelle Nichols, James Daly og Rayna Kapec
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2
Lengd: 49mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0060028
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Kirk, Spock og McCoy fara niður á plánetuna Holberg 917-G í leit að eina mótefninu sem til er gegn hinni banvænu rígelplágu sem herjar á skipshöfn Enterprise. Á plánetunni finna þeir einu íbúa hennar, Flint og fósturdóttur hans Rayna. Flint býðst til að láta vélmenni sitt búa til mótefnið, sem þeir þurfa, með þeim skilyrðum að Kirk, Spock og McCoy komi heim til hans á meðan.

Spock er heillaður af þeim fjölmörgu dýrgripum sem eru að finna á heimili Flints en hann á t.d. gott safn af óþekktum málverkum eftir Leonard da Vinci og óþekkt tónverk eftir Brahms. Brátt kemur í ljós að Flint er ekki allur þar sem hann er séður. Hann fæddist árið 3834 fyrir Krist í Mesópótamíu en hann er gæddur þeim einstæðu eiginleikum að eldast ekki. Rayna er ekki heldur dóttir hans heldur vélmenni sem hann skóp til að eignast ódauðlegan förunaut í gegnum lífið. Vandinn er bara sá að Kirk og Rayna eru yfir sig ástfangin og Kirk ætlar ekki að láta Raynu átakalaust frá sér.

Almennt um myndinaÞetta er eini Star Trek þátturinn sem Murray Golden leikstýrði en eins og margir aðrir Star Trek leikstjórar vann hann fyrst og fremst fyrir sjónvarpið. Hann kom nálægt tuttugu og tveimur sjónvarpsþáttum, þar með talið The Fugitive, Batman og Mission: Impossible.

Jerome Bixby skrifaði einnig handritin að þáttunum By Any Other Name, Mirror, Mirror og Day of the Dove. Hann vann aðalega innan vísindaskáldsagnargeirans og er einnig höfundur skáldsögunnar Fantastic Voyage sem samnefnd kvikmynd er byggð á (1966) sem og sögunnar It’s a Good Life, en bæði Twilight Zone sjónvarpsþáttur (1959) og kvikmyndin Twilight Zone: The Movie (1983) voru gerð eftir þeirri sögu.

James Daly, sem leikur Flint, lék einnig í mörgum sjónvarpsþáttum, eins og t.d. Twilight Zone og The Fugitive. Hann er faðir leikaranna Tynes og Timothys Daly.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hinn næstum 6000 ára gamli Flint hefur skipt um nafn með reglulegu millibili til að fela slóð sína. Mannkynssagan þekkir hann sem ýmist sem Salómon (konung í Biblíunni), Alexander mikli, Lasarus (sem Jesús reisti upp frá dauðum), Brahms, Leonard da Vinci og svo mætti lengi telja. Flint hefur einnig þekkt helstu stórmenni sögunnar, eins og Móse og Sókrates.

Nafn þáttarins gefur okkur hins vegar hið rétta nafn Flints, þ.e. ,,Sálumessa Metúsala“. Metúsala (1M 5:21-27) var afi Nóa, en samkvæmt Biblíunni varð hann 969 ára gamall, elstur allra manna. Sá sem skráði ættartöluna í Biblíunni hefur, samkvæmt Star Trek, hins vegar verið illa upplýstur, því að Metúsala fyllti töluvert meira en árin 969. Reyndar urðu nær allir forfeður hans rúmlega 900 ára gamlir, en það á líklega að skýra hinn dularfulla ódauðleika Metúsala.

Það er áhugavert að Flint skuli hafa verið hinn vitri Salómon, en nú vitum við sem höfum horft á Star Trek að þekking hans var ekki fengin frá Guði heldur byggð á langri lífsreynslu. Batseba virðist einnig hafa verið kænni en Biblían lýsir henni. Henni tókst ekki aðeins að tryggja syni sínum konungsvöldin heldur tókst henni einnig að fá Davíð til að trúa því að hinn 2000 ára gamli Salómon væri sonur hans.

Með þessum þætti hefur Star Trek einnig tekist að útskýra upprisu Lasarusar. Þetta var eftir allt saman lítið kraftaverk því það var lítið mál fyrir Jesú að reisa ódauðlegan mann upp frá ,,dauðum“. Og nú vitum við hvers vegna da Vinci tókst að mála svona raunverulegar myndir af sögunum í Biblíunni, hann þekkti flest þetta fólk sem og sögusviðið og aðstæðurnar. Það er því ekkert yfirnáttúrulegt í Biblíunni. Vandinn við þessa útskýringu er hins vegar sá að það er vandséð hvort sé ótrúverðugra, óauðleikinn eða upprisan.

Að þessu frátöldu er myndin Requiem for Methuselah áhugaverð fyrir þær sakir að hún lýsir vel því húmaníska viðhorfi sem birtist í Star Trek þáttunum. Stöðugt er vísið til þess hvernig maðurinn hefur þroskast frá því að vera villimaður í það að vera yfirvegað og friðelskandi göfugmenni. Mannkyninu hefur ekki þroskast fyrir tilstilli Guðs eða bænarinnar heldur hefur það upp á eigin spýtur lært að stjórna frumstæðum hvötum sínum. Það eina sem þarf er nægur tími og húmanískar leiðbeiningar.

Að lokum kemur Kirk með áhugaverða skilgreiningu á manninum. Þegar vélmennið Rayna segist ekki taka við skipunum framar, því að hún ráði sér sjálf, lýsir Kirk því yfir að hún sé orðin fullkomlega mennsk. Í framhaldi af því segir hann: ,,Rayna á sig sjálf. Hún krefst þeirra mannréttinda að fá að velja. Að vera það sem hún vill, gera það sem hún vill, hugsa það sem hún vill.“ Samkvæmt Kirk (og heimspeki Star Trek) er það því fyrst og fremst frelsi og sjálfstæður vilji sem gerir manninn að manni. Þó ber að geta þess að í ljósi annarra þátta er ljóst að maðurinn hefur ekki ótakmarkað frelsi til velja eða gera það sem hann vill. Frelsi mannsins má aldrei verða til þess að það skaði aðra lífveru.

Hliðstæður við texta trúarrits: Biblían
Persónur úr trúarritum: Móse, Lasarus, Salómon
Sögulegar persónur: Alexander mikli, Leonard da Vinci, Sókrates
Guðfræðistef: ást, ódauðleiki, sköpun
Siðfræðistef: mennska, frelsi, frumstæðar hvatir
Trúarbrögð: húmanismi