Leikstjórn: Mark L. Lester
Handrit: Mark L. Lester
Leikarar: Dusty Russell, Laura Brooks, Buddy Love, Gene Drew, Dutch Schnitzer, Speed Stearns, Ed Ryan, Big Tim Welch, Dan Carter, Bruce Mackey og Bill McKnight
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1973
Lengd: 99mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0070730
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Ökuþórinn Dusty Russell gerist aksturshetja í klessukeyrslum eftir að hafa verið svikinn um launagreiðslu fyrir að forða bruggi undan lögreglunni í æðisgengnum bílaeltingaleik.
Almennt um myndina:
Sannkölluð vasaklútamynd fyrir alla einlæga áhugamenn um bandarískar bifreiðar enda hver eðalvagninn á fætur öðrum eyðilagður í fáránlegum klessukeyrslum, einkum þó bílar frá sjötta og sjöunda áratugnum. Enda þótt söguþráður myndarinnar sé hreinn skáldskapur, leika ökuþórarnir flestir sjálfa sig undir sínum réttu nöfnum.
Ef marka má efnistök myndarinnar, er samkeppnin hörð milli ökuþóranna og grunnt á öfundinni hjá þeim, sem láta í minni pokann, en einn þeirra grýpur til þess örþrifaráðs að skemma öryggisbelti eins keppinautsins til að endurheimta fyrri virðingu. Áhersla er lögð á það hversu hættulegar klessukeyrslurnar eru með því að senda flesta ökuþórana stórslasaða af vettvangi áður en myndin er á enda.
Ekki er myndin góð en hún er samt verulega betri en klessukeyrslumyndirnar Eat My Dust! (Charles B. Griffith: 1976), Grand Theft Auto (Ron Howard: 1977), Smokey Bites My Dust (Charles B. Griffith: 1981) og The Junkman (H.B. Halicki: 1982), sem allar verða að teljast verulega slæmar. Það er einna helst að hún jafnist á við Gone in 60 Seconds (H.B. Halicki: 1974), sem eru þó alls engin meðmæli.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem útvarpspredikarar halda þrumuræður um siðleysi nútímans og trúaðir festa stóra krossa ofan á bílþök sín. Ökuþórarnir í myndinni sýna trúmálum þó lítinn áhuga að öðru leyti en því að einn þeirra tekur stjörnuspár sínar alvarlega. Félagar hans eiga erfitt með að skilja þennan áhuga hans á stjörnuspekinni en aðvaranir hennar ganga engu að síður eftir hvað þá varðar.
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur
Siðfræðistef: morðtilraun, öfund, smygl, bruggun, siðleysi, samkynhneigð, glæfraakstur
Trúarbrögð: stjörnuspeki
Trúarleg tákn: kross á bílþaki
Trúarlegt atferli og siðir: útvarpspredikun, bæn