Leikstjórn: Enzo G. Castellari
Handrit: Massimo De Rita og Dino Maiuri
Leikarar: Franco Nero, Barbara Bach, Giancarlo Prete, Renzo Palmer, Nazzareno Zamperla, Massimo Vanni, Romano Puppo, Renata Zamengo og Franco Borelli
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1974
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.85:1)
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Verkfræðingurinn Carlo Antonelli verður fyrir því óláni að bankinn hans er rændur um leið og hann ætlar að leggja þar inn háa fjárhæð á reikning sinn. Í ofan á lag taka ræningjarnir hann síðan sem gísl á æðisgengnum flótta undan lögreglunni og berja hann loks til óbóta þar sem þeir skilja við hann. Framan af treystir Carlo lögreglunni fyrir rannsókn málsins en fær þó smám saman nóg af aðgerðarleysi hennar og áhugaleysi og tekur málið í staðinn í eigin hendur og beitir þar engum vettlingatökum.
Almennt um myndina:
Þessi hrottafengna ítalska sakamálamynd er með þeim bestu sem Enzo G. Castellari hefur sent frá sér. Átakaatriðin eru mörg flott og kvikmyndatakan vel út færð, t.d. í atriðinu þar sem einn af bankaræningjunum reynir ítrekað að keyra Ford Mustang ‘67 á Franco Nero í hlutverki verkfræðingsins Carlos Antonellis þar sem hann reynir að forða sér burt á hlaupum. Tónlist De Angelis bræðranna er auk þess svakalega flott að þessu sinni og situr titllagið lengi í kolli áhorfandans að myndinni lokinni. Það sama á því miður ekki við um kvikmyndatónlist bræðanna í ýmsum öðrum kvikmyndum frá þessum tíma því að sumt af því sem þeir hafa samið er með því versta sem heyrst hefur í kvikmyndum, t.d. ofurvæmnu ballöðurnar í spaghettí-vestrunum Keoma … The Violent Breed (Enzo G. Castellari: 1976) og Mannaja (Sergio Martino: 1977).
Myndin er þó alls ekki gallalaus enda er hér um að ræða eina af fjölmörgum hraðsoðnum b-myndum sem framleiddar voru svo að segja á færibandi á Ítalíu um langt skeið. Leikararnir eru t.d. ekki óaðfinnanlegir í hlutverkum sínum og á Franco Nero þar sérstaklega til að ofleika þegar hann þarf að sýna einhver svipbrigði. Barbara Bach, sem nokkrum árum síðar átti eftir að leika í James Bond myndinni The Spy Who Loved Me (Lewis Gilbert: 1977) og giftast bítlanum Ringo Starr, er hins vegar fín í hlutverki eiginkonu verkfræðingsins. Sums staðar virka klippingarnar hreinlega slæmar en það gæti stafað af því að eintakið á bandarísku myndbandsspólunni, sem er hér til umfjöllunar, er stytt um 20 mín.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Áhersla er lögð á það hversu heiðarlegur þjóðfélagsþegn verkfræðingurinn er þegar hann verður fyrir barðinu á bankaræningjunum en eins og jafnan í bölsýnum ítölskum harðhausamyndum dugar það skammt. Lögreglan reynist mikið til vanhæf til að hafa uppi á ræningjunum og þegar henni er loks vísað á þá er eins og þeir fái að vita það um leið, enda þjóðfélagið gegnsýrt af spillingu.
Svo fer að verkfræðingurinn segir eiginkonu sinni biturlega að hann sé búinn að fá nóg af því að treysta fólki sem sé skítsama um hann, hann sé búinn að fá nóg af því að vera heiðvirður borgari. Ríkið eigi að vera almáttugt en þegnarnir fái ekkert í staðinn. Eiginkonan maldar í móinn og bendir á að það sé fólkinu sjálfu um að kenna hvað það kjósi yfir sig. Þegar verkfræðingurinn dregur svo fram skotvopn úr fórum sínum spyr hún hann hvaða vanda hann haldi að hann geti leyst með byssu. „Hvaða vanda heldur þú að hægt sé að leysa með aðgerðarleysi“, spyr hann þungur á brún á móti og telst málið þá útrætt.
Verkfræðingurinn hefur loks uppi á bankaræningjunum með því að knýja smáglæpamann til sagna og neyða hann til að kynna fyrir sér undirheima Rómarborgar. Það gerir hann með því að hóta að birta ljósmyndir sem hann hafði tekið af smáglæpamanninum þar sem hann framdi rán í skargripaverslun. Smáglæpamaðurinn, sem er einn um að bera kross um hálsinn af öllum leikurum myndarinnar, iðrast þó gjörða sinna og ákveður að hjálpa verkfræðingnum af sjálfsdáðum um leið og hann tekur að sýna honum vinsemd og traust. Að öðru leyti er persónusköpunin ósköp hefðbundin fyrir svona myndir, skúrkarnir eru flestir alvondir og verður vandinn ekki leystur fyrr en þeir eru komnir allir ofan í gröfina með tölu.
Að vissu marki má finna samsvaranir milli þessarar myndar og bandarísku sakamálamyndarinnar Death Wish (Michael Winner: 1974) með Charles Bronson í aðalhlutverki, sem frumsýnd var um svipað leyti og varð strax afar umdeild. Báðar fjalla myndirnar um heiðvirða borgara sem fá nóg af ofbeldismönnum, sem hvarvetna virðast vaða uppi, og taka því lögin í sínar eigin hendur. Helsti munurinn á þessum myndum er þó sá að í Death Wish drepur góðborgarinn alla ofbeldismenn sem verða á vegi hans, jafnvel þótt þeir hafi ekkert gert á hlut hans, en í Street Law ræðst góðborgarinn fyrst og fremst gegn þeim sem rændu hann og misþyrmdu og lætur þar við sitja.
Sem spennumynd er Street Law að mörgu leyti betri en Death Wish en engu að síður er siðferðilegur boðskapur beggja myndanna í raun harla vafasamur og í litlu samræmi við raunveruleikann. En það er annað mál.
Siðfræðistef: ofbeldi, bankarán, mannrán, ofbeldi gegn konum, vantraust á lögreglunni, miskunnarleysi, hæðni, kúgun, fjárhættuspil, skipulagðir glæpir, njósnir, mútur, heiðarleiki, ögrun, hefnd, innbrot, skemmdarverk, íkveikja, blekking, réttlæti, ríkisvaldið
Trúarleg tákn: kross í hálsmeni
Trúarlegt atferli og siðir: sverja