Kvikmyndir

Superman

Leikstjórn: Richard Donner
Handrit: Mario Puzo, David Newman, Leslie Newman, Robert Benton og Tom Mankiewicz, byggt á teiknimyndasögum eftir Jerry Siegel og Joe Shuster
Leikarar: Marlon Brando, Gene Hackman, Christopher Reeve, Ned Beatty, Jackie Cooper, Glenn Ford, Trevor Howard, Margot Kidder, Jack O’Halloran, Valerie Perrine, Maria Schell, Terence Stamp, Phyllis Thaxter, Susannah York, Jeff East, Marc McClure og Sarah Douglas
Upprunaland: Bretland
Ár: 1978
Lengd: 154mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Foreldrar frá plánetunni Krypton senda son sinn til jarðar til að bjarga lífi hans og hjálpa jarðarbúum. Drengurinn hefur ofurkrafta og getur til dæmis flogið. Hann verður þó að gæta þess að enginn komist að því hver hann raunverulega er eða hvers hann er megnugur. Því neyðist hann til að lifa tvöföldu lífi, annars vegar sem venjulegur maður og hins vegar sem goðumlík ofurhetja.

Almennt um myndina:
Superman er ein frægasta ofurhetjumynd sem gerð hefur verið, ef ekki sú frægasta. Hún byggir á gífurlega vinsælum teiknimyndasögum eftir Jerry Siegel og Joe Shuster, en þessar teiknimyndasögur hrundu af stað flóði af teiknimyndasögum um ofurhetjur hvers konar.

Þótt myndin sé byggð á teiknimyndasögum og margir hafi komið að handritinu er saga myndarinnar eftir Mario Puzo sem er hvað þekktastur sem höfundur þríleiksins um Guðföðurinn. Það var síðan Tom Mankiewicz sem fékk það hlutverk að ganga frá handriti myndarinnar en hann ber nokkra ábyrgð á kristsvísunum í myndinni. Tom þessi er Bond-áhugamönnum velkunnur en hann kom að handriti myndanna Diamonds Are Forever (1971), Live and Let Die (1973) og The Man with the Golden Gun (1974). Þá er hann jafnframt einn höfunda hinnar vinsælu ævintýramyndar Ladyhawke (1985). Upp á síðkastið hefur hann snúið sér meira að leikstjórn en án teljandi árangurs. Faðir Toms, Joseph L. Mankiewicz, var þó enginn aukvisi í kvikmyndagerð en hann leikstýrði t.d. myndum á borð við All About Eve (1950), Julius Caesar (1953) og Cleopatra (1963).

Steven Spielberg var boðið að leikstýra myndinni en hætt var við það vegna hárra launakrafna hans. Að lokum var Richard Donner ráðinn til að leikstýra henni en hann hóf feril sinn sem sjónvarpsleikstjóri og leikstýrði t.d þáttum í sjónvarpsþáttunum The Twilight Zone og The Fugitive. Hann sló þó ekki verulega í gegn fyrr en með The Omen (1976), en það var einmitt sú mynd sem vakti athygli framleiðenda Supermans á honum. Richard Donner hefur gætt þess að fara vel troðnar slóðir á ferli sínum. Hann hefur ekki sterkan persónulegan stíl og hefur að mestu haldið sig við ævintýra- og spennugeirann en meðal annarra mynda hans eru t.d. The Goonies (1985), Ladyhawke (1985), Assassins (1995), Conspiracy Theory (1997) og Lethal Weapon myndirnar fjórar.

Upphaflega átti að taka upp seinni Superman myndina á sama tíma og þá fyrstu og átti Richard Donner að leikstýra þeim báðum. Það var gert að hluta (t.d. voru flestar senurnar með Gene Hackman í síðari myndinni teknar upp með fyrstu myndinni) en vegna fjárhagslegra örðuleika var ákveðið að leggja áherslu á að klára fyrstu myndina. Richard Donner var síðan rekinn vegna listræns ágreinings og Richard Lester ráðinn til að klára síðari myndina.

Myndin komst í heimsfréttirnar áður en tökur hófust fyrir það að Marlon Brando fékk greitt litlar 3.7 milljónir dollara fyrir aðeins tveggja vikna vinnu og tíu mínútna atriði í myndinni. Mörgum þótti þessi launaseðill sýna að laun leikara væru komin út fyrir öll velsæmismörk, en leikur Brandos ber þess reyndar merki að græðgi fremur er listrænn metnaður hafi ráðið ferðinni.

Það fór mikil vinna í að finna rétta leikarann í hlutverk Supermans. Á tímabili voru uppi hugmyndir um að ráða Paul Newman, Robert Redford, Arnold Schwarzenegger, Charles Bronson eða Kris Kristofferson í hlutverkið. Að endingu var ákveðið að ráða óþekktan leikara og var Christopher Reeve að endingu ráðinn sem Superman en hann hafði aðeins leikið í einni mynd fram að því. Leikur Christophers Reeve sem Superman er nokkuð vanmetinn. Honum tekst stórkostlega að tjá hinar ólíku persónur Supermans og Clarks Kent. Þá verður ekki horft fram hjá því að það eru persónutöfrar hans sem halda myndunum uppi. Til gamans má geta að Christopher Reeve lagði sig svo stíft fram við að byggja sig upp líkamlega að taka þurfti upp fyrstu atriðin aftur, þar sem vöxtur hans hafði breyst svo mikið frá fyrstu tökum til þeirra síðustu.

Tökur myndarinnar tóku heila 19 mánuði en hún var dýrasta myndin sem gerð hafði verið á þeim tíma. Að henni unnu 11 hópar samtímis í þrem heimsálfum en alls voru starfsmennirnir yfir þúsund talsins.

Tæknibrellurnar þóttu byltingakenndar en sumar þeirra voru fundnar upp sérstaklega fyrir þessa mynd. Lögð var áhersla á að gera það trúverðugt að Superman gæti flogið, en út á það átti að selja myndina, enda hafði engum tekist það fram að þeim tíma. Slagorð myndarinnar sýnir þetta glögglega: „Þú munt trúa því að maðurinn geti flogið!“ Það tók langan tíma að þróa tæknibrelluna. Reynt var að notast við dúkku, fjarstýrða flugvél og teikningar. Að endingu var stuðst við víra og sérstakar aðdráttarlinsur, en með þeim fékk maður það á tilfinninguna að Superman hreyfðist.

Það kom fáum á óvart að Superman fengi óskarsverðlaun fyrir tæknibrellur, en myndin var einnig tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir klippingu, tónlist og hljóð. Þá var hún tilnefnd til BAFTA verðlaunanna fyrir kvikmyndatöku, listræna stjórn, hljóð og besta leikara í aukahlutverki (Gene Hackman). Christopher Reeve hlaut einnig sömu verðlaun sem besti nýliðinn.

Upphaflega átti Jerry Goldsmith að semja tónlistina fyrir myndina, en þegar á reyndi hafði hann ekki tíma til þess og var John Williams því fenginn í hans stað. Tónlist Williams er að sjálfsögðu orðin klassísk og á stóran þátt í því að skapa stemmningu myndarinnar.

Upphaflega átti myndin að vera sumarmynd en þegar ljóst var að það tækist ekki var stefnt að því að frumsýna hana fyrir jólin. Það rétt svo hafðist að klára myndina fyrir þann tíma en það stóð svo tæpt að hún var aldrei forsýnd. Strax frá upphafi fékk Superman frábærar móttökur, jafnt hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Superman var mesta gróðamynd Warner Brothers fram að þessu og kom það því mörgum á óvart að Richard Donner fengi ekki að klára framhaldsmyndina, en eins og áður sagði hafði hann þá þegar tekið upp fjölmargar senur þeirrar myndar.

Eitt alversta atriði myndarinnar er þó flugsenan þar sem Lois Lane veltir því fyrir sér hvort Superman geti lesið hugsanir hennar o.s.frv. Vandinn við þessa senu er að allt í einu fer Lois Lane að hugsa í rímuðu ljóði og ekki hjálpar það til að þetta skuli vera einn mesti leirburður allra tíma. Reyndar er þetta ljóð hvergi að finna í handriti myndarinnar og virðist því hafa verið sett inn eftir að tökur hófust. Mér er hins vegar ókunnugt um hver ber ábyrgð á þessum óskapnaði.

Til eru fjölmargar útgáfur af fyrstu Superman myndinni, en lengd þeirra er allt frá 127 mínútum til 154 mínútna. Lengsta útgáfan kallast Expanded Edition en í þessari umfjöllun er stuðst við hana. Þar hefur t.d. verið bætt við kveðjuræðu föður Supermans og ráðleggingum til hans síðar meir. Þessar senur skipta miklu máli hvað guðfræði myndarinnar varðar og er því mælt með því að horft sé á lengstu útgáfuna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Höfundar teiknimyndasögunnar um Superman voru gyðingar en hugmynd þeirra var að skapa persónu sem væri svar við ofríki Hitlers. Hann átti að vera ofurgyðingur, Messías sjálfur, kominn til jarðar til að gera heiminn að réttlátum og kærleiksríkum stað.

Gyðinglegur uppruniÞótt búið sé að gera kirstsgerving úr Superman í kvikmyndinni má engu að síður enn greina gyðinglegan uppruna hans. Þetta sést hvað best í því að hjálpræðisverk Supermans svipar mjög til messíasarvæntingar gyðinga. Hann er sterkur og útsjónasamur og leysir vandann með því að yfirbuga kúgarana og illþýðið. Hvað þetta varðar minnir hann lítið á Krist guðspjallanna, sem beitti aðeins einu sinni ofbeldi (þegar hann valt um borðum kaupsýslumannanna í musterinu) og var að lokum krossfestur af illþýðinu sjálfu.

Það var einmitt vegna þessara ofurmannavæntinga sem gyðingar áttu svo erfitt með að skilja krossfestinguna. Hvernig gat það gerst að Messías, sjálfur herkonungurinn sem átti að frelsa alla gyðinga, myndi enda daga sína á krossi kúgaranna án þess að lyfta nokkru sinni upp sverði! Það er reyndar nokkuð algengt í kvikmyndum að kristsgervingar, og þá sérstaklega karl-kristsgervingar, svipi meira til messíasarvæntinga gyðinga en Krists sjálfs. Matrix er þar t.d. mjög gott dæmi.

Kristsgervingurinn SupermanÞað fer hins vegar ekki á milli mála að markmið kvikmyndagerðamannanna var að líkja Superman við Jesú Krist. Tom Mankiewicz (sem ber hvað mestu ábyrgð á þessum vísunum) segir t.d. í heimildarmynd á hátíðarútgáfu myndarinnar á DVD disknum: „Krypton átti að vera biblíulegur staður. Fólkið talar allt fágaða ensku. Líkingin er augljós þegar Jor-El sendir Superman til jarðar, rétt eins og Guð sendi Krist til að bjarga mannkyninu.“ Það er áhugavert að þessar vísanir komu svo illa við suma að Richard Donner bárust morðhótanir vegna þeirra.

Superman er gott dæmi um hvernig kvikmyndagerðamenn nota guðspjallaformið sem beinagrind fyrir myndir sínar, en í myndinni er að finna fjöldann allan af hliðstæðum og beinum tilvísunum.

Fall LúsifersUpphafsatriðið vísar reyndar út fyrir guðspjöllin og minnir um margt á dóm Guðs yfir Satan og uppreisnarlýð hans. Myndin hefst á því að þrír glæpamenn, Non, Ursu og Zod eru fundnir sekir um uppreisn, eyðileggingu og ofbeldi. Leiðtogi þeirra, Zod, vill koma á nýrri stjórn þar sem hann einn er leiðtogi. Zod reynir síðan að freista Jor-El, föður Supermans, með því að bjóða honum að vera næstur sér að völdum ef hann gangi til liðs við sig. Þegar Zod gerir sér loks grein fyrir því að Jor-El muni ekki bíta á agnið, öskrar hann af heift á eftir honum: „Þú munt krjúpa frammi fyrir mér! Þú og einhvern daginn einnig erfingi þinn!“

Þremenningarnir eru síðan „einangraðir inn í draugaheimi“ þar sem þeir verða eilíflega „lifandi dauðir“. Refsistaður þeirra er einnig sagður vera „eilíft tóm“ eða einhvers konar altóm. Í þessu sambandi er sérstaklega áhugavert að líta á Annað Pétursbréf 2:4 en þar segir: „Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann streypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella þar sem þeir eru geymdir til dómsins.“ Slíkar hugmyndir eru algengar í kristinni túlkunarhefð og þá sérstaklega í Paradísarmissi Miltons. Þar er helvíti lýst á svipaðan hátt og þar er meira að segja að finna vanhelga þrenningu, þ.e. Lúsifer (faðirinn), syndina (móðurina) og dauðann (soninn). Það er áhugavert að uppreisnarmennirnir eru einmitt tveir karlar og ein kona. Þessi þrenning kemur síðan við sögu í Superman 2, en þá losna þau úr prísund sinni og komast til jarðar þar sem þau reyna að ná alheimsyfirráðum og krefjast þess að allir jarðabúar tilbiðji sig, þ.m.t. Superman.

Faðirinn og sonurinnÞar næst birtist hin heilaga þrenning, þ.e. faðirinn Jor-El, sonurinn Kal-El og móðirin Lara (heilagur andi?). El nöfnin eru reyndar engin tilviljun en El merkir Guð á hebresku (sem og öðrum sementískum málum). Kal á hebresku er líklega dregið af „kol“ sem þýðir „allt“ eða „allt saman“. Kal-El gæti því þýtt „allur Guð“, „fullkominn Guð“ eða „allt það sem Guð er“. Ekki er hins vegar eins ljóst hvað Jor á að standa fyrir. Það vekur nokkra athygli að móðir Superman ber ekki „El“ nafn eins og feðgarnir og er það hvergi útskýrt. Þá er áhugavert að Krypton þýðir hulinn eða falinn á grísku, en himnaríki er einmitt hulið augum manna.

Kveðjuræða föðurins Jor-El er nánast eins og hún hafi verið klippt út úr Jóhannesarguðspjalli: „Hann mun ekki vera einn. Hann mun aldrei verða einn. Allt sem ég hef, allt sem ég hef lært, allt sem ég finn, allt þetta og meira mun ég ánafna syni mínum. Þú munt bera mig innra með þér alla daga lífs þíns. Þú munt gera styrk þinn að mínum. Sjá líf mitt með augum þínum, eins og ég mun sjá líf þitt með mínum. Sonurinn verður faðirinn og faðirinn sonurinn. Þetta er allt sem ég get sent þér Kal-El.“ Í Jóhannesarguðspjalli segir t.d. „Ég og faðirinn erum eitt.“ (10:30). Og: „Segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heimnn, að ég guðlasti, af því ég sagði: „Ég er sonur Guðs“? Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki, en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.“ (Jh 10:36-38) Og enn aftur: „Jesús svaraði: ,,Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. “ (Jh 14:9) Það er áhugavert að í upphaflegu handriti Marios Puzo átti sami leikari að leika Jor-El og Superman. Líkindi þeirra eru þó áréttuð með hárlok sem fellur niður á enni þeirra beggja og S merkinu framan á brjóstkassanum.

Himneskur uppruni Supermans er einnig áréttaður með klæðnaði hans. Þótt búningurinn sé þrílita, þ.e. blár, rauður og gulur, er það samt blái liturinn sem er mest áberandi. Það er líklega ein af ástæðunum fyrir því að Lex Luthor kallar Superman „bláa strákinn“ í Superman tvö og að í blaðafyrirsögn er hann kallaður „bláa sprengjan“. Clark Kent klæðist einnig bláum jakkafötum, með dökk bláan hatt, ljós bláa skyrtu og blátt bindi. Blár táknar t.d. guðdóminn, sannleika og hreinleika. Allt eru þetta eiginleikar sem Superman og Kristur eiga sameiginlegan.

Heilagur andiHér er líklega rétt að stoppa og ræða um hina heilögu þrenningu eins og hún birtist í myndinni. Samkvæmt kristinni trúfræði er sonurinn, faðirinn og heilagur andi eitt og það sama, þrír hlutar eins Guðdóms. En ef Jor-El (hinn hvíti, virti og vitri) er faðirinn og Kal-El sonurinn í þrenningunni hver er þá heilagur andi? Hér koma tveir „aðilar“ til greina.

Fyrst ber að nefna móðurina Löru. Í Superman 2 er Lara sögð vera skjalavörður Krypton, þ.e. þekkingarinnar. Það er löng hefð fyrir því að líta svo á að andi sannleikans sem talað er um í Jóhannesarguðspjalli 13:16 sé heilagur andi, en þar segir: „En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ Tengsl þekkingar við heilagan anda eru því hér til staðar. Þá uppfræðir Lara einnig Superman í Virki einverunnar í mynd númer tvö, rétt eins og faðir hans.

En það má einnig líta á græna kristalinn sem heilagan anda. Þegar Jor-El heldur kveðjuræðu sína er hann einmitt að leggja kristala í stjörnu sonar síns og endar með því að leggja þar græna kristalinn. Rétt eins og á við um heilagan anda er uppruni kristalsins himneskur og hann er gjöf föðurins/Guðs. Það er síðan græni kristallinn sem kallar Superman út í auðnina og byggir Virki einverunnar (sem líkist Krypton/himnaríki) eða eins og Superman orðar það sjálfur í mynd númer tvö þegar hann talar við Lois Lane inn í Virki einverunnar: „Þegar faðir minn lést, faðir minn hér á jörðinni, fann ég þennan kristal. Þetta er frekar erfitt að útskýra en sjáðu til. Hann kallaði á mig og fór með mig hingað. Hann hjálpaði að byggja þennan stað. Reyndar byggði hann staðinn. Þá skildi ég loksins hver ég var og hvað ég þurfti að gera.“

Í Superman 2 fórnar Superman kröftum sínum til að geta fengið að eiga Lois Lane. Hann iðrast síðar þessarar ákvörðunar og snýr aftur til virkis einverunnar. Þar hrópar hann í angist sinni á föðurinn en við það lýsist græni Kristalinn allt í einu fyrir aftan hann og færir honum aftur mátt hans. Kristalinn virðist því vera nátengdur föður Súpermans og byggja yfir einstæðum krafti. Rétt eins og heilagur andi er hann skapandi og framkvæmir vilja föðurins/Guðs. Það er því bæði hægt að líta á Löru og græna kristalinn sem heilagan anda.

María og Jósef og BetlehemstjarnanEftir kveðjuræðu Jor-El setur hann son sinn í stjörnu sem ber hann til jarðar. Þetta minnir óneitanlega á Betlehemstjörnuna sem sagt er fyrir um í Matteusarguðspjalli 2:1-2, 9-10. Kal-El skríður síðan úr stjörnunni, eins og úr kviði, með útréttar hendur í krossfestingarstellingu. Hann fæðist því á táknrænan hátt inn í þennan heim, eingetinn og án jarðnesks föður, rétt eins og Kristur. Barnlausu hjónin sem finna Kal-El bera meira að segja sömu upphafstafi og María og Jósef, en þau heita Marta og Jónatan. Það er áhugavert að Marta skuli segja það vera guðlega forsjón að þau hafi fundið Kal-El, sem þau nefna Clark, en það var einnig af Guðs vilja, samkvæmt guðspjöllunum, að María varð þunguð.

Himneskur og jarðneskur í sennSuperman er síðan alinn upp sem maður og þarf að lifa í senn mennsk og himnesk vera, sbr. nöfnin hans Clark Kent og Kal-El. Eins og á við um Jesú er uppruni hans himneskur og jarðneskur í senn. Þetta tvöfalda eðli Supermans er áréttað í Superman 2 þegar Lois Lane spyr hvort það sé ekki erfitt að vera Clark og segir svo: „En hann er þú. Þetta er svolítið ruglandi.“ Superman svarar því til að þetta sé alls ekki ruglandi fyrir hann.

Stjúpfaðir Supermans segir að hann sé viss um að hann hafi verið sendur til jarðar í ákveðnum tilgangi. Þegar Superman er átján ára gamall fær hann allt í einu köllun, nær í græna kristalinn og heldur út í auðnina, rétt eins og Kristur gerði (sjá Mt 4:1-11; Mk 1:12-13 og Lk 4:1-13) til að undirbúa köllun sína. Þegar Superman er kominn út á ísinn kastar hann þar græna kristalnum sem byggir fyrir hann „kryptoniska“ höll, þ.e. „Virki einverunnar“.

Þar kennir faðir hans honum allt það sem hann þarf að læra, þ.m.t. um ódauðleikann og hvernig hann getur verið raunveruleiki. Faðir hans segir einnig um mannkynið: „Það getur verið mikilfenglegt, Kal-El, það vill það. Því skortir aðeins ljósið til að vísa því veginn. Það er fyrst og fremst vegna hæfileika þeirra til að gera gott sem ég sendi þeim þig, minn eingetni sonur.“

Því svo elskaði Guð heiminnÞað er áhugavert að Jor-El skuli orða það þannig að Superman sé eins konar gjöf hans til mannkynsins; hann sendir mannkyninu hann, ekki hann til mannkynsins! Þá er einnig afar áhugavert að Jor-El skuli taka fram að Superman sé eingetinn, en allt minnir mjög á Jóhannesarguðspjall 3:1: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn“. Í sama guðspjalli er einnig lögð áhersla á að Jesús sé „ljós“ heimsins (8:12).

Biblíulegu vísanirnar sjást einnig í því að Jor-El talar um Kal-El sem „sonur minn“ og sjálfan sig sem „faðir þinn“. Þessi áhersla sést vel í Superman 2 þar sem Lex Luthor (Gene Hackman) segir að Superman sé „sonur Jor-El“, orðalag sem minnir um margt á titil Jesú „sonur Guðs“ (Mk 1:1; Heb. 10:29; 1Jh 4:15).

Superman dvelur í tólf ár í Virki einverunnar og lærir rétt eins og Jesús allt af föður sínum sem hann þarf að vita (Jh 8:28) en heldur svo til stórborgarinnar Metropolis til að framkvæma vilja föðurins. Hann er því þrítugur (18+12) þegar hann hefur starf sitt. Jesús var einnig „um þrítugt, er hann hóf sitt starf.“ (Lk 3:23). Eins og Jesús kemur Superman frá himnum og elst upp í heldur ómerkilegum stað Nasaret/Smallville hjá jarðneskum foreldrum sínum. Báðir halda síðan út í eyðimörkina áður en þeir hefja það starf sem faðir þeirra hefur falið þeim í hinum stóra heimi. Báðir hafa þeir yfirnáttúrulega krafta og framkvæma kraftaverk. Rétt eins og Jesús sem hefur vald yfir hinum efnislega heimi, getur gengið á vatninu og reist upp hina dauðu við (Mt 9:23-35; Lk 7:11-15; Jh 11:41-44) getur Superman flogið og reist Lois Lane upp frá dauðum.

Munurinn á Jesú og SupermanMegin munurinn á Jesú og Superman er þó sá að starf Jesú gekk fyrst og fremst út á það að prédika, nokkuð sem Superman gerir lítið af. En þar eru þó nokkur dæmi. Sem Clark Kent reynir hann t.d. að tala um fyrir þjófinum sem ætlar að ræna Lois Lane og eftir að hann hefur handsamað þjófinn sem var að klifra upp gluggana segir hann við lögregluþjóninn: „Þeir segja að það sé gott fyrir sálina að játa syndir sínar. Ég myndi hlusta á þennan mann.“ En þótt ekki sé mikið um prédikanir hjá Superman þá má ekki horfa fram hjá því að hann reynir fyrst og fremst að vera góð fyrirmynd. Hann lýgur aldrei og reykir ekki. Hann lætur sér annt um móður sína og berst fyrir réttlæti og gegn ranglæti. Rétt eins og Jesús er hann hógvær (sbr. Mt 11:29), en Perry White leggur einmitt áherslu á þennan þátt í myndinni og segir að ef eitthvað sé þá hafi hann of mikið af henni. Þá er hann einnig blíður, vingjarnlegur, góðhjartaður og umhyggjusamur, eiginleikar sem oft eru eignaðir Jesú.

María MagdalenaLois Lane á margt sameiginlegt með þeirri mynd sem oft hefur verið dregin upp af Maríu Magdalenu. Þótt það komi hvergi fram að María Magdalena hafi verið vændiskona er hún það engu að síður í nær öllum Jesúmyndum sem gerðar hafa verið um hana. Þá er einnig oft ýjað að því að hún hafi fellt hug til Jesú. Að lokum er María Magdalena að sjálfsögðu einn tryggasti fylgjandi Jesú.

Lois Lane er vissulega hrifin af Superman og hún er einn hans dyggasti fylgjandi. Lois er reyndar ekki vændiskona en áhugi hennar á kynlífi er mikill. Við kynnumst henni þar sem hún er að skila inn grein um kynlíf og ofbeldi. Síðar skrifar hún grein um kynlífsfíkil en ritstjóri blaðsins leiðréttir stafsetningu hennar á orðinu brjóstahaldari.

Kynferðislegur áhugi Lois á Superman er einnig mikill þegar hún tekur viðtal við hann (viðtal sem ritstjóri blaðsins sagði vera „mikilvægasta viðtal síðan Guð talaði við Móse“). Flestar spurningar hennar snúast um kynlíf. Hún spyr hvort Superman sé kvæntur, hvort hann eigi kærustu, hversu „big“ hann sé og vísar þar til getnaðarlimsins en leiðréttir sig strax aftur og spyr hversu „tall“ hann sé. Þá spyr hún hvort aðrir líkamspartar séu í góðu standi. Til að ganga úr skugga um að Superman geti raunverulega séð í gegnum hluti spyr hún hann hvernig nærbuxurnar hennar séu á litinn. Superman svarar því til að þær séu bleikar en síðar spyr hún hvort honum finnist bleikur litur fallegur. Til að kóróna þetta allt er fyrirsögnin á viðtalinu við Superman: „Ég eyddi nóttinni með Superman.“ Dæmin eru fleiri en ég læt þetta duga.

AdamÞað má einnig líta á Lois Lane sem fulltrúa mannkynsins og þar með á ást Supermans á henni sem ást Supermans/Jesú á mannkyninu. Í þessu sambandi er áhugavert að skoða flugsenuna þegar þau snertast á fingurgómunum einum. Þessi sena minnir á mynd Michelangelo þar sem fingurgómar Adams og Guðs snertast. Það er einmitt í þessari flugsenu sem Lois Lane hugsar með sjálfri sér: „… ég leiði Guð!“

LúsiferFjandmaður Supermans er Lex Luthor, en nafnið minnir á Lúsifer (og Lúther ef út í það er farið!). Rétt eins og Lúsifer býr Luthor neðanjarðar. Hann reynir meira að segja að freista Supermans með veraldlegu konungsríki, sem Superman, rétt eins og Kristur, hafnar (Matt. 4:10).

Dauði, niðurstigning, upprisa og uppstigningSuperman „deyr“ á táknrænan hátt þegar Krypton steinninn er lagður um háls hans og honum er kastað í laug en vatnsskírn er nátengd dauða og greftrun Krists (Rm 6:4). Eins og Kristur reis upp frá dauðum rís Superman upp úr lauginni (gröf sinni) og flýgur úr neðanjarðarbústað Luthors upp til jarðar, en það samræmist einnig kristinni trú um að Kristur hafi dvalið í helvíti og risið þaðan upp. Það má einnig sjá hliðstæðu við það að Kristur steig niður til heljar þegar Superman flýgur niður í jarðsprunguna og í gegnum heitt hraunið.

Og e.t.v. má einnig sjá hliðstæðu í því að rétt eins og jarðskjálfti fylgdi í kjölfar dauða Krists (Mt 27:54) veldur önnur kjarnorkuflaug Lex Luthor ógurlegum jarðskjálfta í Kaliforníu og New Jersey. Hvort sem það er oftúlkun eða ekki þá er ljóst að afleiðing „upprisu“ Supermans er á margan hátt áþekk upprisu Krists. Hann færir heiminn aftur til betri vegar og lífgar hina dauðu við (sbr. Lois Lane). Og rétt eins og Jesús steig upp til himna eftir upprisu sína (Lk 24:50-53), endar myndin á því að Superman flýgur upp til himins eftir að hafa bjargað heiminum.

Ekki vandkvæðalaus kristsgervinguSuperman er þó ekki vandkvæðalaus kristsgervingur. Til dæmis deyr faðir Supermans, nokkuð sem samræmist ekki kristinni trú. Þetta er þó léttvægt, enda engin skylda að hliðstæðurnar þurfi að ganga fullkomlega upp svo einhver geti talist gervingur. Ef faðir Supermans hefði ekki dáið hefði hann ekki haft ástæðu til að senda hann til jarðar. Þetta atvik er því nauðsynlegt fyrir framvindu sögunnar. Og ekki má horfa fram hjá því að þótt Jor-El sé dáinn þá talar hann enn til sonar síns í virki einverunnar. Í raun má segja að hann sé eilífur eða ódauðlegur þar.

Annað atriði er það að Jor-El bannar honum að breyta sögu mannkynsins, en hann óhlýðnast einmitt þeim fyrirmælum í lok myndarinnar. Erfiðara er að horfa fram hjá þessu atriði, enda er það á engan hátt nauðsynlegt fyrir framvindu sögunnar.

EvaHvað aðrar trúarvísanir varða þá er það áhugavert að sú ólánssama kona sem fylgir Lex Luthor/Lusifer ber nafnið Eve Teschmacher. Hér má e.t.v. greina vísun í hina föllnu konu Evu sem samkvæmt kristinni túlkunarhefð lét Lúsifer blekkja sig í aldingarðinum í Eden. Að lokum segir Lex Luthor á einum stað: „Guð. Þú gafst þeim augu en þau sjá ekki.“ Slíkar fullyrðingar koma fyrir á fjölmörgum stöðum í Biblíunni (sjá t.d. Sl 115:5, Sl 135:16, Jer 5:21, Mk 8:18).

SannleikurÍ Superman er einnig að finna fjöldann allan af siðfræðistefjum, þótt guðfræðin sé fyrirferðameiri. Myndin byrjar á því að þulur lýsir hnignun Metrapolisborgar en getur þess samt að þar sé ljós í myrkrinu, dagblaðið Daily Planet sem hafi getið sér góðan orðstír „fyrir skýrleika og sannleika“ og sé „tákn vonar fyrir Metrapolisborg.“ Lygar og svik geta fært fólki skjótan gróða en enginn verður frægur eða ríkur á slíku til frambúðar. Þetta á jafnt við um daglegt líf sem og fjölmiðlarekstur. Hins vegar er sannleikurinn traust bjarg til að byggja á og skilar manni virðingu og trausti þegar fram í sækir. Það er því kannski engin furða að Superman skuli sækja um vinnu hjá þessu virta og trausta dagblaði, sjálfu tákni vonar Metrapolisbúa.

EineltiEinelti er nokkuð fyrirferðamikið í myndinni. Superman verður fyrir því þegar hann er 18 ára gamall, en hann er látinn í öll leiðindaverkin og fær ekki að vera með í hópnum vegna þess að hann þykir skrítinn. Ljóst er að Superman sárnar þessi framkoma mikið. Lex Luthor leggur einnig Otis í stöðugt einelti, bæði líkamlegt og andlegt. Otis er svívirtur í öðru hverju orði og smátt og smátt rændur sjálfstrausti sínu og sjálfsvirðingu rétt eins og eftirfarandi ummæli um Otis bera vott um: „Það er ótrúlegt að heilinn geti framleitt næga orku til að halda þessum fótum á hreyfingu.“ „Veistu hvers vegna talan tvöhundruð er svo lýsandi fyrir mig og þig? Hún er þyngd þín en greindarvísitala mín.“

Eve Teschmacher er reyndar ekki eins mikið fórnarlamb eineltisins en þarf þó einnig að þola háðsglósur og fyrirlitningu af hendi Lex Luthor. Í ljósi þessa er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna Otis og Eve Teschmacher halda tryggð við Lex Luthor þrátt fyrir að þau þjáist vegna framkomu hans. Svarið er líklega þríþætt. Í fyrsta lagi hafa þau það fjárhagslega gott. Í öðru lagi hefur Lex Luthor tekist að brjóta niður sjálfstraust þeirra. Og í þriðja lagi gæti verið að þau hafi verið þjökuð af einmannaleika áður en þau kynntust Lex Luthor en þeir sem hafa kynnst slíku vita að allt er betri en að vera einn, jafnvel einelti.

SjálfiðLex Luthor er mjög áhugaverð persóna og þá sérstaklega í samanburði við Superman. Báðir eru þeir vel gefnir og útsjónasamir. Munurinn á þeim er hins vegar mikill. Á meðan Lex Luthor notar hæfileika sína til að þjóna sjálfum sér, lifir Superman fyrir það eitt að þjóna öðrum. Eins og Lois Lane bendir á í lok myndarinnar þá elskar Superman alla. Lex Luthor elskar hins vegar bara sjálfan sig og umber aðeins aðra svo lengi sem hann getur hagnast á þeim.

SjálfumgleðiSjálfumgleði er annað sem aðgreinir þessa höfuðandstæðinga. Lex Luthor er með sjálfumglöðustu mönnum kvikmyndasögunnar. Hann gætir þess að hans eigið ágæti (ef ágæti skyldi kalla) fari ekki fram hjá neinum og bendir félögum sínum reglulega á snilld sína og gáfur. Gott dæmi er þegar Lex Luthor spyr Evu og Otis: „Fáið þið ekki gæsahúð við það eitt að vera í sama herbergi og ég?“

HégómiSuperman er hins vegar með eindæmum hógvær maður og forðast hégóma sem heitan eldinn. Í því sambandi er eftirfarandi samtal Supermans og föður hans mikilvægt, en það á sér stað eftir að Superman kemur fram í fyrsta skiptið opinberlega og hefur handsamað nokkra bófa og bjargar þyrlunni sem Lois Lane var í sem og sjálfri þotu forseta Bandaríkjanna.

Faðirinn: Þú naust þess?
Superman: Ég veit ekki hvað skal segja faðir. Ég er hræddur um að ég hafi gleymt mér í hrifningarvímu.
Faðirinn: Ég bjóst við þessu.
Superman: Þú hefðir ekki getað það. Þú hefðir ekki getað ímyndað þér…
Faðirinn: Hversu gott það var? Þú hefur opinberað þig heiminum. Gott og vel. En þú verður samt sem áður að halda því leyndu hver þú ert.
Superman: Hvers vegna?
Faðirinn: Ástæðurnar eru tvær. Í fyrsta lagi getur þú ekki þjónað mannkyninu 28 tíma sólarhrings.
Superman: 24 tíma.
Faðirinn: 24! Hjálpar þinnar yrði endalaust óskað, jafnvel til að leysa mál sem mannkynið getur leyst sjálft. Það er gjarnt á að ofnota uppsprettur jarðar.
Superman: Og í öðru lagi?
Faðirinn: Í öðru lagi myndu óvinir þínir komast að því að eina leiðin til að særa þig er að særa fólkið sem þú elskar.
Superman: Takk fyrir faðir.
Faðirinn: Að lokum: Ekki refsa sjálfum þér fyrir að verða hégómagjarn. Reyndu frekar að stjórna honum. Hégóminn er bölvun sem flestir þjást af, jafnvel íbúar Krypton. Það hefði verið hægt að komast hjá eyðingu okkar ef ekki hefði verið fyrir hégóma sumra sem töldu okkur óhult um aldur og ævi. Ef ekki væri fyrir hégómann gæti ég tekið þig í fang mér á þessari stundu, sonur minn.

Hér varar Jor-El Superman við hégómanum og hræðilegum afleiðingum hans, en segir jafnframt að hann eigi ekki að refsa sér fyrir þær kenndir, enda séu þær mannlegar. Þess í stað eigi hann að einbeita sér að því að ná stjórn á honum. Þessi spurning um hégómann kom einnig fram í upphafi myndarinnar þegar stjúpfaðir Supermans spyr hann að því hvort hann hafi verið að monta sig. Superman játar því en spyr síðan hvort maður sé að monta sig þegar maður sýnir hæfileika sína. Stjúpfaðir hans svarar því til að maður verði að vita til hvers maður sé kallaður. Maður getur nefnilega notað hæfileika sína í ólíkum tilgangi, þ.e. annars vegar til sjálfsupphafningar og hins vegar til þess að þjóna öðrum. Það er einmitt í þessu tvennu sem munurinn á milli Lex Luthor og Superman er hvað skýrastur.

AndstreymiÍ samtali Supermans og föður hans er komið inn á áhugaverðan siðferðilegan þátt, þ.e. hvað það myndi hafa í för með sér ef einhver tæki alltaf af manni ómakið og leysti öll manns vandamál, jafnvel þau sem við getum leyst sjálf. Myndi maður þroskast við slíkar aðstæður? Er andstreymi í raun ekki nauðsynlegt? Margir hafa einmitt þær væntingar til Guðs að hann leysi úr öllum þeim erfiðleikum sem kunni að koma upp eða afstýri þeim slysum sem þeir eða aðstandendur þeirra kunni að lenda í. En eru slíkar væntingar raunhæfar og (það sem meiru máli skiptir) væri slíkt æskilegt?

UmhverfisverndAð lokum bendir Jor-El einnig í þessu samtali á að mannkynið er gjarnt á að ofnota uppsprettur sínar en þessum orðum er líklega beint gegn ofnotkun náttúruauðlinda jarðar. Þessi varnarorð eiga að sjálfsögðu enn meiri erindi við okkur í dag en fyrir þrjátíu árum þegar myndin kom fyrst út.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían; Mt 2:1-2; Mt 29-10
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 115:5; 135:16; Jer 5:21; Mt 4:1-11; Mt 9:23-35; Mt 11:29; Mt 27:45-28:10; Mk 1:1; Mk 1:12-13; Mk 8:18; Mk 15:33-16:20; Lk 3:23; Lk 4:1-13; Lk 7:11-15; Lk 10:18; Lk 23:44-24:49; Lk 24:50-53; Jh 3:1; Jh 8:12; Jh 8:28; Jh 10:30; Jh 10:36-38; Jh 11:41-44; Jh 14:9; Jh 19:28-20:23; Rm 6:4; Heb. 10:29; 2Pt 2:4; 1Jh 4:15
Persónur úr trúarritum: Guð, Heilagur andi, Jesús Kristur, Messías, Lúsifer, Eva, Adam, María mey, Jósef, María Magdalena, Móse, þrenningin, Lock Ness skrímslið
Guðfræðistef: kristsgervingur, örlög, endurlífgun, upprisa, uppstigning, forákvörðun, ódauðleiki, kærleikur, játning, sálin, tvíeðli Krists, kynlíf, skírn
Siðfræðistef: græðgi, heiðarleiki, lygi, sjálfselska, sjálfumgleði, eyðilegging, ofbeldi, freisting, dómur, refsing, uppreisn, sjálfsvíg, þjóðarmorð, hégómi, þjófnaður, hugrekki, morð, glæpur, réttlæti, fyrirgefning, hroki, einelti, reiði, spilling, umhverfisvernd, hégómi, kærleikur, umhyggjusemi, sannsögli, einelti, háð, ábyrgð, náttúruvernd
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, kirkja, kirkjugarður
Trúarleg tákn: Betlehemstjarnan, kristall, kross, blár litur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, jarðarför
Trúarleg reynsla: bænasvar, vitrun