Leikstjórn: Abbas Kiarostami
Handrit: Abbas Kiarostami
Leikarar: Homayoun Ershadi, Abdohossein Bagheri, Afshin Bakhtiari, Ali Moradi, Hossein Noori, Ahmad Ansari, Hamid Massomi og Elham Imani
Upprunaland: Íran
Ár: 1997
Lengd: 95mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Herra Badii keyrir um í leit að einhverjum til að grafa sig eftir að hann hefur framið sjálfsvíg. Hann biður þrjá menn um hjálp og neita tveir þeirra en sá þriðji samþykkir að verða við bón hans.
Almennt um myndina:
Íranski kvikmyndagerðarmaðurinn Abbas Kiarostami vann gullpálman árið 1997 fyrir þessa kvikmynd, Ta’m e guilass. Hann skrifar handritið, leikstýrir, er klippari og framleiðandi myndarinnar. Hún hlaut þegar einróma lof gagnrýnenda og jók hróður íranskra kvikmynda um heiminn. Í Íran er í gildi ritskoðun á kvikmyndum og er bannað að fjalla um eða sýna alls kyns hluti. Það er t.d bannað að sýna konu án þess að hún sé með klút um hárið. Einnig er bannað að fjalla um eldfim pólitísk deilumál. Með klókindum fer Kiarostami hins vegar framhjá þessari ritskoðun og nær að segja magnaða sögu, án þess að segja hana beinum orðum. Dæmi ofangreint er að hann fjallar um dauða hermannna á allagórískan hátt. Lýsir þeim sem manneksjum en ekki hermönnum.
Myndin er margræð og segir nokkrar sögur. Sögu af manni á barmi örvæntingar sem leitar aðstoðar við framkvæmd á sjálfsvígi sínu. Kiarostami er einnig að segja sögu af dauða og eftirsjá. Sögu af fólki og viðbrögðum þeirra við lífinu og dauðanum. Leikurinn í þessari mynd er sérdeilis góður þótt augljóslega má sjá að Kiarostami hefur notað vegfarendur í veigalítil hlutverk. Aðalhlutverk myndarinnar eru snilldarlega leikin af Homayoun Ershadi, Abdohossein Bagheri og Afshin Bakhtiari. Myndina má nálgast á Amazon.com en sú útgáfa sem boðið er uppá þar er sérlega vel heppnuð bæði hvað gæði varðar og aukaefni.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin er margræð og segir nokkrar sögur í sama vetvangi. Siðferðisstef og trúarstef eru nokkur og áhersla þeirra fer eftir því með hvaða augum horft er á myndina. En stefin eru þessi helst:
SjálfsmorðKvikmyndin Ta’m e guilass fjallar á yfirborðinu um sjálfsvíg. Myndin tekur á efninu á þann hátt að áhorfandinn er látinn átta sig á sjálfsvígi út frá þremur ólíkum sjónarhornum. Hvert sjónarmið endurspeglast í skoðunum og viðbrögðum þeirra sem Badii ræðir við. Fyrst tekur hann upp í kúrdískan hermann sem þarf að komast í herbúðir sínar. Síðan hittir Badii fyrir afganskan guðfræðinema sem hann keyrir með um hrjóstrugt landslagið. Loks hittir Badii fyrir tyrkneskan mann sem starfar sem uppstoppari á náttúrugripasafni.
Kúrdískur hermaðurHerra Badii býður ungum hermanni far i bíl sínum. Þeir taka tal saman og kemur þá í ljós að hermaðurinn er frá Kúrdistan. Hann er bóndi en þarf að sinna herskyldu fyrir utan Teheran. Badii spyr hann hvort hann vilji aðstoða sig við ákveðinn verknað. Kúdinn krefst þess að fá að vita um hvað verknaðurinn snýst. Badii dregur hann hins vegar á svari og Kúrdinn sannfærist um að maðurinn sé brjálæðingur. Loks stöðva þeir bílinn og Badii sýnir honum gröf sem hann hefur tekið. Hann greinir hermanninum unga frá því að gröfin sé fyrir sig og hann vilji fá einhvern til að grafa yfir sig þegar hann er dáinn. Hann ætli að gleypa svefntöflur og leggjast í gröfina til að deyja og það eina sem þurfi að gera er að moka mold yfir hann.
Afganskur guðfræðilærlingurNæst hittir Badii fyrir afganskan guðfræðilærling og ber upp bón sína um aðstoð við sjálfsvígið. Hann býður honum mikla peninga fyrir greiðann. Afganinn bregst við með samúð og reynir að fá Badii af hugmynd sinni. Hann segir að trú múslima sé alveg skýr hvað sjálfsvígið varðar. Sjálfsvíg jafngildir öðrum morðum. Líkaminn er gjöf frá Guði og ber að koma fram við hann sem slíkan. Badii segir honum þá að hann þurfi ekki á heilræði hans að halda heldur einungis krafta hans við að fylla upp í gröf sína. Hann segir honum jafnframt að hann trúi því sjálfur að Guð sé svo mikill og góður að hann vilji ekki sjá skepnurnar sínar þjást. Þannig andmælir hann lærlingsins. Afganinn afþakkar hins vegar tilboðið og hverfur á braut.
Tyrkneskur uppstoppariÞegar kemur að þriðja manninum sem Badii biður um greiðann, er ljóst að sá hefur samþykkt bón hans. Á leiðinni frá gröfinni byrja þeir að tala saman. Sá sem hefur tekið bón Badiis er miðaldra tyrkneskur maður sem starfar sem uppstoppari og kennari við náttúrugripasafnið í Teheran. Athyglisvert er að hann starfar við að leiðbeina nemendum við krufningu kornhæna. Þetta er margrætt atriði sem minnir á 3 Mósebók. Tyrkneski uppstopparinn reynir að fá Badii af ákvörðun sinni en lofar um leið að standa við orð sín. Sjálfur segist hann hafa ákveðið að svifta sig lífi eftir rifrildi við eiginkonu sína og farið af stað og ætlað að hengja sig í mórberjatréi. Þegar hann var komin upp í tréð og búinn að binda hnút á hengingarólina, hafi hann þá tekið eftir girnilegu móberi sem hann bragðaði á. Berið var svo gott að hann fékk sér annað og svo enn annað. Skyndilega komu börn að honum upp í trénu og báðu hann um að hrista tréð svo að berin féllu niður á jörðina. Hann gerði það og áður en hann vissi, þá langaði hann ekkert til að svipta sig lífi lengur. Þess í stað fór hann heim með poka af móberjum sem hann borðaði með konu sinni. Móberin hafi þannig bjargað lífi hans.
Það er athyglisvert að bera saman söguna af Sakkeusi í Nýja Testamentinu og sögu Tyrkjans í mynd Kiarostamis. Báðir fara upp í móberjatré og líf þeirra breytist í kjölfarið á því. Sakkeus er reyndar ekki í sjálfsvígshugleiðingum eins og Tyrkinn en klifur upp í móberjatré breytir lífi þeirra beggja. Báðir öðlast þeir nýtt líf upp í móberjatrénu.
Þegar Tyrkinn hefur lokið sögu sinni heldur hann áfram að reyna að fá Badii til þess að hætta við fyrirætlun sína. Hann segir að náttúran sé svo gjöful að engin móðir hugsi eins vel um „börnin“ sín og hún. Árstíðirnar fjórar séu endalaus uppskerutími, hverri árstíð fylgi ný og ólík uppspretta. Hann spyr hann hvort hann vilji aldrei aftur sjá sólsetrið, tunglið. Vilji aldrei aftur drekka svalandi vatn. Vilji aldrei aftur finna bragðið af kirsuberjum.
Badii keyrir manninn því næst í vinnuna. Þegar þeir halda síðan í hvor sína áttina þá mætir Badii ungu pari sem biður hann um að um að taka mynd af sér. Hann gerir það og er svo að sjá að það snerti við honum. Hann snýr við og hefur upp á uppstopparanum við vinnu sína. Uppstopparinn er önnum kafinn og er ekkert hrifinn af því að sjá Badii aftur. Badii spyr hann hvort það sé ekki alveg öruggt að hann standi við samkomulagið og játar Tyrkinn því og sver við líf sitt að hann muni standa við samninginn. Badii biður hann þá um, þegar þar að kemur, að athuga hvort hann sé ekki alveg örugglega dauður og biður hann um að hrista sig nokkrum sinnum til að ganga úr skugga um að allt hafi farið eftir áætlun. Tyrkinn lofar þessu.
Endirinn nálgastNú þegar allt virðist frágengið hætta áhorfendur að sjá Badii í nærmynd. Fram að því hafa flest atriðin með honum átt sér stað inn í bílnum og hann því yfirleitt verið í mikilli nærmynd. Nú sjá áhorfendur aðeins í Badii í gegnum gluggann á íbúð sem hann er inni í. Áhorfandinn sér hann drekka eitthvað en óvíst er hvort hann sé að fá sér svefntöflur eða ekki. Það verður hins vegar að teljast líklegt, enda samkvæmt áætlun hans.
Næst sjáum við Badii þar sem hann liggur í gröf sinni og bíður dauðans. Ekki er þó loku fyrir það skotið að hann hafi ekki tekið svefntöflurnar og hafi hætt við. Það er niðamyrkur og sést Badii aðeins þegar eldingarnar lýsa upp umhverfið. Svo verður allt svart og í fyrsta skiptið heyrist tónlist í myndinni. Myndatakan breytist og áhorfandinn fær á tilfinninguna að Badii sé að upplifa gamla tíma. Í stað hefðbundinnar filmuvélar er notuð gamaldags vídeótökuvél, stílbragð sem hefur þau áhrif að áhorfandinn telur sig vera að horfa á gamla upptöku. Þar er umhverfið hið sama en í stað gróðurlausrar auðnar er komin grasi vaxnar brekkur. Fjöldi hermanna eru að hvíla sig og andrúmsloftið virkar afslappað. Þeir skiptast m.a á blómum og er augljóst að þeir njóta stundarinnar. Ljóst er að kvikmyndataka er í gangi.
Kvikmyndatökumanni bregur fyrir og tæknimenn sjást öðru hvoru blanda geði við hermennina. Í þessu einkennilega atriði þar sem blandast saman kvikmyndatökulið og hermenn í grasi vöxnum hlíðum, sést Kiarostami sjálfur, leikstjóri myndarinnar, vera að leikstýra. Með atriðinu heyrist djassslagarinn „St. James Infirmary“ eftir Louis Amstrong og líkur myndinni með því. Túlkunarmöguleikar eru nokkrir. Hugsast getur að Badii sé dáinn og þetta séu síðustu hugrenningar hans, hugrenningar um hamingju. Einnig má gefa sér að Badii sé að leita að síðustu hamingjugeislunum mitt í allri örvæntingunni þar sem hann situr í gröfinni og bíður þess sem koma skal. Kiarostami er greinilega að fjalla um liðna tíma í þessu atriði. Tíma sem koma aldrei aftur. Lúfsára minningu um hið liðna og þá ógnaratburðið sem skóku Íran og löndin í kring, þ.e. einkum átta ára löng stórstyrjöld landsins við Írak í kjölfar byltingarinnar og ýmsar aðrar styrjaldir í helstu nágranalöndunum.
Lokaatriðið – afleiðingar stríðsÞað sem er einkennandi fyrir myndina ef vel er að gáð er návist hermanna. Áhorfandinn heyrir oft æfingaköll hermanna í bakgrunni enda kemur fram að æfingabúðir hersins eru í nágreninu. Fram kemur að Badii telur að bestu stundir sínar hafi verið í hernum. Jafnframt er athyglisvert að í þeim knöppu samræðum sem eiga sér stað í myndinni er minnst á tvær styrjaldir sem hafi haft afdrifaríkar afleiðingar í Íran á liðnum tveim áratugum: Innrás Sovíetríkjanna í Afganistan árið 1979 þar sem 2 milljónir afganskra flóttamanna skapaði mikið vandamál í landinu og svo stríðið langa milli Írans og Íraks.
Kiarostami er í raun að segja er ljóðræna sögu samhliða sögunni um Badii og mennina þrjá. Ég tel að hann sé umfram allt að minnast hermannana sem dóu fyrir tilganglítið stríð sem háð var við Írak frá 22. september 1980 til 20 ágúst 1988. Ekki er hægt að horfa framhjá túlkunarmöguleikanum að hermennirnir séu þegar dánir og myndskeiðið í lokin sé til þess að minnast þeirra. Þessi minning Kiarostamis er ekki uppblásin heiðursminning heldur eins látlaus og hugsast getur. Hann er að segja áhorfandanum að þeir hafi verið til, þeir hafi verið menn eins og við, þeir hafi ekki verið óþekktir. Þeir voru elskaðir af einhverjum, fæddir af móður sem fylgdi þeim fyrsta þrepið. Atriðið er því ádeila á stríð sem flestir ættu að geta tekið undir, einnig íranska kvikmyndaeftirlitið. Styrjöldin var í raun varnarstríð af hálfu Írana þar sem Írakar réðust inn í land þeirra en Kiarostami horfir alveg framhjá þeirri staðreind. Hann tekur ekki afstöðu með neinum nema manneskjunum sem féllu í þessu blóðuga stríði. Þetta tel ég hafa farið framhjá íranska kvikmyndaeftirlitinu. Kiarostami er samkvæmt viðtali í aukaefni myndarinnar, ekki beinlínist að skauta framhjá kvikmyndaeftilitinu heldur eru myndirnar hans bara svona. Hann segist aldrei hafa ritskoðað sjálfan sig og ritrskoðun því ekki haft áhrif á myndir hans.
Með smávegis ímyndunarafli má hugsa sér að öll myndin beinist að þessu lokaatriði og þessari túlkun. Hremmingar Badiis eru hremmingar þjóðarinnar. Enginn þjóðrembingur er í þessu atriðið, heldur skýrskotar það til allra manna á öllum tímum, sem er einmitt einkenni á góðum listaverkum. Það er kannski ekki síst þess vegna sem myndin hefur hlotið svo mikið lof um allan heim eins og raun ber vitni um.
Hliðstæður við texta trúarrits: Lk 19:1-10
Persónur úr trúarritum: Muhamed, Imam Ali
Guðfræðistef: Sjálfvíg, tilgangur lífsins, dauðinn
Siðfræðistef: Sjálfsvíg, hjálpsemi, stríð, friður
Trúarbrögð: Islam
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Najaf, Mazar-e Sharif
Trúarleg tákn: Grænn litur, kornhænur
Trúarleg embætti: Guðfræðinemi
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: dagurinn sem myndin gerist.(today is hollyday 43:21)