Leikstjórn: Ferdinando Baldi
Handrit: Ferdinando Baldi og Franco Rossetti
Leikarar: Franco Nero, José Suárez, Hugo Blanco, Luigi Pistilli, Livio Lorenzon, Alberto Dell’Acqua [undir nafninu Cole Kitosch], Antonella Murgia, Elisa Montés, José Guardiola, Ivan Scratuglia og Remo De Angelis
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1966
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0060143
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Burt Sullivan er lögreglustjóri í Texas, sem ákveður að halda til Mexíkó til að hafa uppi á gömlum morðingja föður síns og draga hann fyrir dómstóla. Yngri bróðir hans heimtar að fá að fara með og eltir hann alla leiðina, en þegar þeir loks finna manninn, reynist hann ríkur landeigandi, sem drottnar yfir kotbændunum með harðri hendi. Málið vandast hins vegar þegar í ljós kemur að morðinginn er faðir yngri bróðurins.
Almennt um myndina:
Miðlungs spaghettí-vestri með verulega slæmri enskri talsetningu. Kvikmyndataka Enzos Barboni er samt nokkuð fín en hann átti síðar eftir að slá í gegn með Trinity myndunum sínum. Franco Nero er auk þess nokkuð flottur í aðalhlutverkinu og raunar Luigi Pistilli líka sem mexíkanskur lögfræðingur, sem reynir að fá hann í lið með sér gegn harðstjóranum. Aðrir leikarar eru hins vegar margir slæmir, sérstaklega sá sem leikur yngri bróðurinn.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hefndin er aðalstef kvikmyndarinnar, en aðalsöguhetjan vill þó frekar draga þann seka fyrir dómstóla en að skjóta hann. Byssunni er þó hiklaust beitt ef því er að skipta.
Eitthvað er minnst á bænir í myndinni og óskar einn af þrjótunum meira að segja eftir fyrirbæn þegar uppreisn er gerð gegn yfirboðara hans.
Guðfræðistef: iðrun
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, hefnd, dauðarefsing, félagslegt óréttlæti, mútur, nauðgun, hugrekki, heiður
Trúarleg tákn: róðukross, kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, fyrirbæn