1. árgangur 2001, Vefrit

Það er eitthvað rotið í Eden. Edenstef í kvikmyndinni Blade Runner

Mig langaði að byrja þessa grein á tilvitnun í myndina Blade Runner sem breski leikstjórann Ridley Scott gerði árið 1982. Ég gat hins vegar ekki valið á milli þeirra fjölmörgu tilvitnana sem komu til greina því að myndin er full af fleygum setningum sem allar skipta máli. Í raun má segja að ekkert í Blade Runner sé óþarfi, ekkert er endurtekið, ítrekað eða útskýrt, engu er ofaukið og allar upplýsingar eru skornar við nögl. Eins og Scott Bukatman segir í bók sinni um myndina: „Ólíkt mörgum samtíma kvikmyndum er ekkert um skýringar í Blade Runner.“ Þessi „mínímalístiska“ framsetning er líklega ein helsta ástæðan fyrir því að þetta meistaraverk kolféll þegar það var frumsýnt. Fólk hélt að það væri að fara á Star Wars en sá í þess stað mynd sem minnti meira á 2001: A Space Oddyssey (1968). Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar að almenningur tók myndina í sátt.

Í dag er svo komið að um fáar kvikmyndir er eins mikið ritað og Blade Runner og þá jafnt innan guðfræðinnar sem annarra fræðigreina. Hér verður myndin skoðuð í ljósi sögunnar af Adam og Evu. Fyrst er þó nauðsynlegt að skoða efni myndarinnar. Í þessari umfjöllun minni er stuðst við leikstjóraútgáfu myndarinnar frá 1991. Þar sem kvikmyndin er mjög ólík sögu Philips K. Dick mun ég ekki taka mið af skáldsögunni. Fyrst er söguþráður myndarinnar rakinn og nokkrum orðum farið um megineinkenni hennar. Kvikmyndin er síðan skoðuð í ljósi sögunnar af Adam og Evu, en ég held að sú nálgun geti gefið nýja sýn á myndina.

Sagan

Myndin hefst á eftirfarandi orðum:

Við upphaf 21. aldar hafði Tyrell-fyrirtækið náð Nexus stiginu í vélmennaþróun sinni – vélmenni þess voru nánast fullkomin eftirlíking manna og gengu undir heitinu eftirmyndir. Eftirmyndir af gerðinni Nexus 6 voru sterkari og fimari en mennirnir og að minnsta kosti jafngáfaðar og þeir erfðafræðingar sem sköpuðu þær. Eftirmyndirnar voru notaðar sem þrælar úti í geimnum, við hættulegar landkannanir og landnám á öðrum plánetum. Eftir að bardagasveit af gerðinni Nexus 6 gerðu blóðuga uppreisn á nýlendu úti í geimnum voru eftirmyndir bannaðar á jörðinni – að viðlögðum dauðarefsingum. Sérstök lögreglusveit – Eyðingarsveitin – fékk þau fyrirmæli að skjóta til bana hverja þá eftirmynd sem kæmi í leyfisleysi. Þetta var ekki kallað að aflífa heldur að leysa frá störfum.

Síðar í myndinni kemur í ljós að mannkynið stundar landvinninga úti í geimnum vegna þess að jörðin er orðin svo menguð. Flest dýr eru útdauð og þau fáu sem enn lifa eru ekki frjáls eða villt heldur eign manna og kosta morð fjár. Þeir sem ekki hafa flúið jörðina eru annað hvort lögreglumenn eða andlega og líkamlega fatlað fólk. Í anda nasismans hafa „úrhrök“ mannkynsins verið útilokuð frá hinum nýja heimi.

Eftirmyndirnar eru munaðar- og verslunarvara nýlenduherranna, eða eins og segir í auglýsingu við upphaf myndarinnar: „Notaðu nýjan vin þinn til að uppfylla þarfir þínar eða sem harðduglegan vinnukraft. Erfðahannaða manneftirmyndin er sérsniðin að þörfum þínum.“ Eitt af einkennum kvikmyndarinnar Blade Runner er einmitt auglýsingar. Risastór auglýsingaskilti blasa hvarvetna við og eru eftirmyndirnar aðeins enn ein framleiðsla úrkynjaðs neyslusamfélags.

Myndin segir frá Deckard sem er fyrrverandi meðlimur eyðingarsveitarinnar. Hann heldur að hann sé mennskur en kemst að því við lok myndarinnar að hann er eftirmynd sem hafði verið notaður til að drepa aðrar eftirmyndir. Deckard er neyddur af Lögregluforingjanum Bryant til að hefja starf sitt á ný eftir að fjórar eftirmyndir höfðu gert uppreisn gegn kúgurum sínum og strokið til jarðar. Markmið eftirmyndanna er að hitta skapara sinn, Tyrell, og biðja hann um að lengja líftíma þeirra, en þær voru aðeins skapaðar til að lifa í fjögur ár. Lögreglumaður að nafni Gaff er síðan sendur af Bryant til að sjá til þess að Deckard vinni starf sitt sómasamlega. Síðar bætist fimmta eftirmyndin, Rakel, á aftökulista Deckards en vandinn er sá að hann hefur fellt hug til hennar.

Allt á hvolfi

Erfitt er að ræða um Edenstefið í myndinni án þess að gera fyrst grein fyrir einu megin einkenni frásagnarmáta myndarinnar, þ.e. hvernig öllu er snúið á hvolf. Því mun ég greina frá þessu einkenni áður en lengra er haldið.

Aðalhetja myndarinnar heitir Deckard en nafnið hljómar eins og Descartes sem margir telja upphafsmann nútímans. Í myndinni er meira að segja vísað í cogito Descartes: „Ég hugsa, þess vegna er ég“. Deckard þarf einmitt að kljást við þessa staðhæfingu og spyrja sjálfan sig: „Þótt ég hugsi, veit ég þá nokkuð hver „ég“ er?“ Þetta er ítrekað í myndinni með því að leggja áherslu á augað. Myndin byrjar á nærmynd af auga sem horfir yfir borgina og eina leiðin til að þekkja eftirmyndirnar er að rannsaka augu þeirra. Alls er u.þ.b. tuttugu og fimm sinnum lögð áhersla á augað í myndinni en kaldhæðnin er að ef það er eitthvað sem ekki er hægt að treysta þá er það augað. Ljósmyndir og minningar eru falsaðar og dýr og menn hönnuð. Meira að segja áhorfandinn getur ekki treyst því sem hann sér, eins og vikið verður að síðar. Það má vel vera að heimurinn hafi verið einfaldur á tíma Descartes en í Blade Runner er ekkert öruggt. Það kemur því ekki á óvart að Blade Runner hefur oft verið kennd við póst-módernisma og sumir halda því meira að segja fram að Blade Runner sé fyrsta póst-móderniska kvikmyndin.

Eitt besta dæmið um póst-móderniska þætti myndarinnar er þegar Deckard skoðar falsaða mynd af Rakel og „móður“ hennar. Í smástund breytist ljósmyndin í hreyfimynd og börn að leik heyrast í bakgrunninum. Hjá áhorfanda kvikmyndarinnar mást út, um stundarsakir, mörk raunveruleika og óraunveruleika.

Myndin er tekin í film noir stíl en samt endar hún ekki eins og film noir myndir. Skaðræðiskvendið reynist ljúft og svíkur ekki karlhetjuna heldur bjargar henni í nauð. Karlhetjan er ekki leidd til syndar heldur af vegi syndarinnar. Áhorfandinn heldur í upphafi myndar að Deckard sé eyðir en kemst að því í lokin að Gaff er hinn sanni eyðir og að Deckard var aðeins strengjabrúða. Sá sem eltir verður eltur. Tvisvar er lífi Deckards bjargað af eftirmyndunum sem hann átti að drepa. Eftirmyndir, sem eiga ekki að hafa tilfinningar, eru mennskari og tilfinninganæmari en mennirnir sjálfir. Í borg sólarinnar, Los Angeles, er í stöðugu myrkri og tákn frelsisins, fuglar, eru lokaðir inni, tjóðraðir niður eða steypir í málm. Deckard sem taldi sig vera mennskan er sjálfur eftirmynd. Meira að segja það eitt að segja söguna frá sjónarhóli þrælahaldaranna og „sporhunda“ þeirra er í sjálfu sér viðsnúningur og hvílík kaldhæðni að leiðtogi þrælanna skuli vera hreinræktaður Aríi, holdgervingur hinnar fullkomnu fyrirmyndar nasismans.

Umskiptin ná hámarki þegar Roy (leiðtogi eftirmyndanna) hittir Tyrell, skapara sinn. Tyrell kallar Roy glataða soninn og vísar þar í Lúkasarguðspjall 15:11-32. Munurinn er þó mikill því að Roy fór ekki viljugur að heiman eins og glataði sonurinn heldur var hann seldur í þrældóm af „föður“ sínum og honum var svo meinuð heimkoma. Og loks þegar sonurinn hefur snúið heim er endurkoman ekki fagnaðarstund og faðirinn hefur ekkert að gefa. Sonurinn kyssir föður sinn ekki fagnaðarkossi heldur kveðjukossi, n.k. Júdasarkoss með öfugum formerkjum, því að sá svikni kyssir svikarann. Heimkoma glataða sonarins endar því ekki með gleði og veislu heldur dauða.

Ef við lítum á Roy sem kristsgerving, eins og gefið er í skyn í lok myndarinnar, þá er kristnu hefðinni einnig umsnúið því að það er sonurinn sem drepur föðurinn og hjálpræðið kemur ekki frá skaparanum (þ.e. mannkyninu) heldur sköpuninni (þ.e. eftirmyndinni Roy). Það er í ljósi þessarar þverstæðu sem ber að skoða Edenstefið í Blade Runner.

Sagan af Adam og Evu í Blade Runner

Margt er áþekkt með Blade Runner og sögunni af Adam og Evu Í 1. Mósebók. Eins og í 1. Mósebók skapar Tyrell mann í sinni mynd og meinar sköpun sinni um tvo eiginleika, þ.e. visku og eilíft líf, sbr. skilningstré góðs og ills og lífsins tré (1M 2:17, 22). Viðurlög við því að öðlast þekkingu er dauðadómur (1M 2:17) og útskúfun frá sköpunarstaðnum, þ.e. Jörðinni/Eden (1M 3:23). Atburðarrásin er reyndar ekki sú sama, því í Blade Runner er líftími eftirmyndanna styttur áður en þær geta öðlast þekkingu en samkvæmt kristinni túlkunarhefð styttist líftími Adams og Evu eftir að þau öðlast þekkingu. Þrátt fyrir þennan mun eiga þessi tvö verk það þó sameiginlegt að sköpunin öðlast þekkingu en hefur verið synjað af skapara sínum um eilíft líf.

Við þetta bætist að beint er vísað í söguna af Adam og Evu á vafasömum skemmtistað sem nefnist Snákapytturinn. Einnig hefur verið bent á tengsl Blade Runner við Paradísarmissi Miltons og Frankenstein en bæði skáldverkin sækja efnivið sinn að miklu leyti í söguna af Adam og Evu. Í ljósi þessa er áhugavert að bera þessi tvö verk saman og skoða kvikmyndina í ljósi sögunnar af Adam og Evu og þá sérstaklega helstu þátta sögunnar, þ.e. Drottins, Eden, skilningstrés góðs og ills, lífsins trés, ávaxtarins, snáksins, Satans og Adams og Evu.

Áhugavert er að bera Los Angeles saman við Eden en báðir staðirnir eru upprunastaðir. Sköpunin hófst í Eden og þar er jafnframt að finna skilningstré góðs og ills og lífsins tré, en í ávöxtum þeirra fólust eiginleikar sem greindu himneskar verur frá dýrunum, þ.e. skynsemi/þekking og eilíft líf. Los Angeles er jafnframt sköpunarstaður og þar er einnig þekkingu og lengra líf að finna, þ.e. framleiðendur eftirmyndanna geta ákveðið líftíma þeirra. Eden er jafnframt hinn lokaði staður sem sköpuninni er meinað að snúa aftur til. Til að loka hliðunum að Eden setti Guð engla til að varna inngöngu. Í Blade Runner er sköpuninni einnig meinað að snúa aftur til sköpunarstaðarins og eyðar eru settir til að meina þeim inngöngu.

Þessar hliðstæður ganga hins vegar ekki fyllilega upp því í Biblíunni er Eden uppspretta grósku og lífs. Þar rennur fljót sem kvíslast í fjórar lífgefandi stórár (1M 2:10-14). Los Angeles gæti hins vegar ekki verið ólíkari þessari lýsingu, því þótt þar fari fram sköpun er borgin ekki lífgefandi paradís heldur deyjandi víti. Þar sést aldrei nokkur gróður og flest dýr eru útdauð. Hér er því að finna fyrsta dæmið um áðurnefndan viðsnúning.

Guð þessa staðar er heldur ekki eins og Guð í sögunni af Adam og Evu sem skapar af kærleika og fær sér skemmtigöngu til að njóta sköpunar sinnar eða ræða við skepnurnar. Tyrell sést aldrei fyrir utan pýramídann sinn og hann gerir allt til að koma í veg fyrir að þurfa að sinna sköpun sinni. Um leið og Rakel kemst að því að hún er ekki mennsk heldur eftirmynd, hafnar hann henni og neitar að ræða við hana. Tyrell skapar ekki af kærleika heldur græðgi og sköpun hans er seld í þrældóm án þess að hafa nokkuð af sér brotið. Það er engin tilviljun að hann skuli búa í pýramída og geti stjórnað sólinni á stórum myndskjá. Tyrell er falsguð, sólarguð eins og Ra og engu minni harðstjóri en Faraó sem murkaði lífið úr Hebreum forðum (2M 1-15). Rétt eins og Faraó leikur hann sér að lífi „þegna“ sína og selur þá í þrældóm. Honum fylgja tvær fuglategundir, þ.e. ugla, sem á vesturlöndum er tákn viskunnar og ernir sem eru tákn valds, en Faraó var einmitt tákn bæði valds og visku.

Hægt er að sjá hliðstæðu milli áts Adams og Evu af skilningstré góðs og ills og þroska eftirmyndanna. Eftirmyndir mega ekki þroskast og öðlast tilfinningar því að þeim fylgir frjáls vilji. Líftími þeirra er því styttur niður í fjögur ár til að koma í veg fyrir að þær geti bragðað á ávexti trésins, þ.e. öðlast reynslu og þekkingu. Þetta kemur t.d. fram í myndinni þegar Bryant segir Deckard að Nexus 6 eftirmyndirnar hafi verið hannaðar sem fullkomnar eftirmyndir mannanna að öllu leyti nema því að þær áttu ekki að geta sýnt tilfinningar. Þar sem Eldon Tyrell taldi samt líkur á því að með árunum myndu þau þróa með sér tilfinningar reyndi hann að koma hann í veg fyrir að það myndi gerast með því að stytta líftíma þeirra í fjögur ár.

Deckard og Rakel eru ólík öðrum eftirmyndum því búið að græða í þau falskar minningar eða eins og Tyrell segir sjálfur: „Við fórum að taka eftir einkennilegri ástríðu. Eftirmyndirnar skortir tilfinningalega reynslu og hafa aðeins nokkur ár til að öðlast þá reynslu sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. En ef við gefum þeim fortíð búum við til púða eða kodda fyrir tilfinningar þeirra og þar af leiðandi getum við stjórnað þeim betur.“ Deckard og Rakel bíta því í ávöxtinn þegar þau átta sig á því hver þau eru. Hjá þeim tengist skilningstréð ekki þroska heldur sjálfsþekkingu enda lokar Tyrell dyrunum á Rakel um leið og hún hefur komist að því hver hún er. Hér er því enn einn viðsnúningurinn. Edenástandið fyrir fallið er engin paradís, heldur kúgun og þrældómur og eplið er ekki forboðinn ávöxtur heldur það eina sem getur brotið þrælahlekkina.

Lífsins tré skiptir engu minna máli í myndinni en það er einmitt ástæða þess að eftirmyndirnar koma til jarðar. Í 1. Mósebók rak Guð Adam og Evu úr aldingarðinum til þess að koma í veg fyrir að þau ætu af lífsins tré og yrðu þar með guðleg og eilíf, eða eins og segir í sögunni af Adam og Evu eftir að þau höfðu etið af skilningstré góðs og ills: „Sjá maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!“ (1M 3:22). Þegar eftirmyndirnar höfðu þróað með sér tilfinningar eða öðlast sjálfsþekkingu skorti þær aðeins eitt til að verða eins og skapari þeirra en það var lengra líf. Þetta kemur t.d. vel fram þegar Roy hittir Tyrell:

Tyrell: Ég er hissa á því að þú komst ekki fyrr.
Roy: Það er ekki auðvelt að hitta höfund sinn.
Tyrell: Hvað getur hann gert fyrir þig?
Roy: Getur skaparinn lagað sköpun sína?
Tyrell: Viltu láta lagfæra þig?
Roy: Ég hafði eitthvað róttækara í huga.
Tyrell: Hvert er vandamálið?
Roy: Dauðinn.
Tyrell: Ég er hræddur um að það sé ekki á mínu valdssviði.
Roy: Ég vil lengra líf helvítið þitt. […]
Tyrell: Við skópum þig eins fullkominn og hugsast getur.
Roy: En ekki til að endast.

Í myndinni kemur skýrt fram að Tyrell hefði vel getað gefið eftirmyndunum lengra líf en það hefði gefið þeim tækifæri til að þroskast sem hefði leitt til uppreisnar þeirra gegn „guðum“ sínum.

Rétt eins og Guð setti vopnaða engla til að verja Eden í sögunni af Adam og Evu eru Deckard og eyðarnir fengnir til að verja jörðina. Ef jörðin er Eden þá stendur Tyrell-fyrirtækið fyrir verksvið skaparans sem hefur á sínu valdi bæði lífsins tré og skilningstré góðs og ills. Pýramídinn er að sjálfsögðu tákn ódauðleikans, (þar sem Faraóarnir ódauðlegu hvíldu) en á sama tíma er hann miðstöð hátækni jarðarinnar, nokkurs konar musteri þekkingar. Inni á skrifstofu Tyrells er meira að segja að finna tvö dvergtré á háborði! Það er einnig áhugavert að taflleikur sem Sebastian og Tyrell leika kallast „leikur ódauðleikans“.

Við fyrstu sýn virðist Zhora (ein eftirmyndanna) svipa til snáksins úr 1. Mósebók því hún er með snákahúðflúr og kynnirinn á Snákapyttinum segir hana njóta ástar með snáknum sem eitt sinn spillti mannkyninu. Zhora minnir hins vegar aðeins á snákinn að því leyti að hún er klók eins og hann og drepur eins og kyrkislanga. En hún er ekki í hlutverki snáksins því að hún hvorki leiðir aðalpersónurnar í freistni né ljóstrar upp um leyndarmál.

Margir fræðimenn hafa séð Roy sem djöfulinn í þessari sögu, þ.e. Satan sem gerir uppreisn gegn Guði sínum og fellur til jarðar. Helstu rökin fyrir þessari túlkun eru tilvitnun í Blake og morð Roys á skapara sínum. Það fyrsta sem Roy segir þegar hann hittir Chew (verktaka Tyrell fyrirtækisins) er eftirfarandi ljóðlína úr America: A Prophesy eftir William Blake: „Fiery the angels fell. Deep thunder rolled around their shores, burning with the fires of Orc.“ Hér fer Roy ekki rétt með ljóðlínuna því í ljóði Blake segir: „Fiery the Angles rose, and as they rose deep thunder roll’d, Around their shores; indignant burning with the fires of Orc.“ Helsta breytingin er sú að í stað þess að segja englana hafa risið upp segir Roy þá hafa fallið. En hvað býr að baki þessari breytingu? Margir hafa túlkað hana sem tilvísun í Paradísarmissi Miltons og að Roy sé að lýsa því yfir að hann sé Lúsifer. En ef þetta er merkingin hefði þá ekki verið eðlilegra að vitna beint í Milton í stað þess að koma við hjá Blake?

Roy passar heldur ekki fyllilega inn í hlutverk Satans. Þrátt fyrir þá staðreynd að Roy klæðist svörtum leðurfrakka, sé ljós yfirlitum og minni þannig á Lúsifer samkvæmt kristinni hefð (en Lúsifer merkir ljósberi), drepur „guð“ sinn og fellur eftir morðið þá er markmið hans ekki að ná völdum eða verða jafn Guði. Hann snýr aftur til þess eins að losna úr þrældómi og tryggja eftirmyndunum lengra líf. Eitt af því sem Kristur færði mannkyninu, samkvæmt kristinni hefð, var eilíft líf. Hann opnaði á ný leiðina að lífsins tré með því að sigra Satan og því deyr enginn sem á hann trúir heldur lifir eilíflega. Þetta virðist vera það sem vakir fyrir Roy. Hann er ekki kominn til að bjarga eigin skinni, sem sést t.d. á því að hann biður Sebastian að hjálpa sér, ekki vegna þess að hann sé sjálfur dauðvona heldur vegna þess að eftirmyndin Pris muni brátt deyja.

Til þess að skilja breytingu Roy á texta Blake er best að skoða hana í ljósi ljóðsins en þar notar Blake amerísku byltinguna sem tákn fyrir persónulegt sjálfstæði og frjálsræði. Í ljóðinu er engillinn Orc tákn eðlislægrar hneigðar allra manna til að gera uppreisn gegn harðstjórn og kúgun. Roy minnir um margt á Orc en hann er kominn til jarðar til að gera upp sakir við harðstjóra sinn og kúgara. Breytingin gæti einfaldlega verið vísun í þá staðreynd að eftirmyndirnar „féllu“ frá geimnum til jarðar.

En það verður samt sem áður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að „fall engla“ kallar ósjálfrátt fram tengsl við uppreisn Lúsifers. Við þetta bætast fyrrgreindir þættir, þ.e. svartur klæðnaður, ljóst yfirbragð, uppreisn gegn skapara sínum og n.k. „fall“. Roy minnir um margt á Satan en eins og áður snýst allt við og að lokum minnir hann meira á Krist. Eins og Jesús fær hann nagla í gegnum höndina, bjargar lífi Deckards með særðri hendi, hann heldur á dúfu, tákn heilags anda (Mt 3:16; Mk 1:10 og Lk 3:22), og markmið hans er að gefa von um eilíft líf og opna leið að lífsins tré (sjá t.d. Jh 3:15-16; Rm 5:17-18; 1Kor 15:20-22 og Opb 2:7; 22:2, 14, 19). Ef Roy er kristsgervingur sem kom til að vinna sigur á Satan þá er besti kandídatinn höfuðóvinur Roys, þ.e. Tyrell sjálfur. Tyrell er í senn

hinn vanhelgi guð og hinn helgi Satan. Það er Tyrell sem hefur sett sig í guðasæti með því að reisa sér 700 hæða pýramída sem gnæfir yfir borgina, n.k. „pandemonium“ að hætti Satans í Paradísarmissi Miltons. Á meðan jarðarbúarnir berjast fyrir tilvist sinni lifir hann í vellystingum og allan auðinn fær hann með því að setjast í hásæti Guðs, drottna sem harðstjóri og skapa í sinni mynd, ekki til góðs heldur til bölvunar. Það er í þessu ljósi sem ber að líta á morðið á Tyrell. Og hér öðlast breytingin á ljóði Blakes nýja merkingu því að Roy stígur niður til heljar og vinnur sigur á Satan, rétt eins og Kristur forðum. Hann veltir hinum falska guði úr hásæti sínu og bjargar lífi Deckards, ekki aðeins líkamlega heldur einnig andlega, því að með dauða sínum opnar Roy augu Deckards og leysir hann úr viðjum fáfræði og lyga.

En málið er mun flóknara því að í tilfelli eftirmyndanna fjögurra sem brutust inn í Eden eru Satan og snákurinn sami aðilinn, en hjá Deckard og Rakel eru þeir það ekki. Hlutverk snáksins er að afhjúpa sannleikann, eða samkvæmt kristinni túlkunarhefð að tæla til falls. Hvað flestar eftirmyndir varðar er það Tyrell sjálfum um að kenna að þær „falla“ því að með árunum þróa þær með sér reynslu og tilfinningar. Fallið eða uppljóstrunin kemur því af sjálfu sér og er óviðráðanlegt. Ef við gefum okkur að Deckard sé eftirmynd þá er fall hans og uppgötvun ekki tengd „framleiðslugalla“. Ef ekki hefði verið fyrir pappírseinhyrning Gaffs hefði Deckard vel getað eytt allri sinni ævi í fáfræði um sitt eigið sjálf. Hér er það sem sagt Gaff sem snýst gegn „guði“ sínum eins og snákurinn forðum og hvíslar að manninum hinum forboðna leyndardómi. Og þótt Deckard segi Rakel á endanum frá hennar rétta uppruna er það Gaff sem fer með Deckard til Tyrells til að prófa Rakel og þyrmir síðan lífi hennar í lok myndarinnar, þvert gegn vilja yfirboðara hans.

Eftirmyndirnar minna allar á Adam og Evu. Þær öðlast þroska, visku og vitnesku, gera uppreisn gegn yfirboðurum sínum og krefjast að lokum lengra lífs. Um leið eru þær gerðar útlægar frá sköpunarstað sínum. Þetta er sama ferlið og í Edensögunni. En þótt allar eftirmyndirnar minni á Adam og Evu þá á það sérstaklega við um Deckard og Rakel því aðeins þau lifa af og flýja Eden. Og hér er enn einn viðsnúningurinn því að þegar Deckard og Rakel flýja sína Eden er það ekki sorgar- heldur frelsisstund. Í raun er það eina lífsvon þeirra að yfirgefa hina deyjandi Eden. Hlutverk einhyrningsins í lok myndarinnar er ekki aðeins að ljóstra því upp að Deckard sé líklega eftirmynd. Í kristinni táknfræði er einhyrningurinn tákn Jesú Krists og þá sérstaklega tákn sakleysis og lækningarmáttar hans. Í lok myndarinnar er Deckard ekki aðeins að flýja Eden heldur er hann einnig á leið til einhyrningsins í skóginum, þ.e. hann fer til móts við hjálpræði sitt.

Skuggi kaldastríðsins

En hvers vegna þessi viðsnúningur í myndinni og hvers vegna er dregin upp svona svört mynd af manninum sem skapara? Skáldsaga Philips K. Dick og myndin bera þess merki að eiga uppruna sinn í kalda stríðs árunum. Skáldsagan var samin árið 1968 en myndin var frumsýnd árið 1982. Drungi þessa tímabils svífur yfir vötnunum í Blade Runner. Þar má greina söknuð eftir einfaldari tímum, áður en vísindin spilltust, fyrir tíma nasismans, Víetnamstríðsins, mengun jarðar og kjarnorkunnar.

Í umfjöllun sinni um tengsl kjarnorkuváinnar við Blade Runner vitnar Kerman (1991: 1) í ræðu J. Roberts Oppenheimer sem sagði meðal annars: „[E]ðlisfræðingar hafa kynnst synd og þeirri þekkingu geta þeir ekki gleymt.“ Kerman bætir við nokkru síðar (bls. 3): „Eðlisfræðingarnir kynntust synd er þeir átu af skilningstré góðs og ills“. Þessa hugsun er einnig að finna í hollensku myndinni De Aanslag frá árinu 1986 en þar eru kjarnorkuvopn sögð vera „kjarnorkuepli“ á skilningstré góðs og ills. Því er hægt að sjá Blade Runner sem n.k. útleggingu á hörmulegum afleiðingum þess að eta af skilningstré góðs og ills, þ.e. úrkynjaðrar þekkingarleitar. Um leið og maðurinn gengur í hlutverk Guðs og skapar í sinni mynd hefur hann enn einu sinni bitið í ávöxtinn af skilningstré góðs og ills. Og um leið snýst allt í andhverfu sína. Eden verður að rúst einni, kærleikurinn breytist í kúgun og eina hjálpræðið er flótti frá skapara sínum.

Tónlistin í myndinni leggur áherslu á þetta en hún er oft á tímum mjög „nostalgisk“ og virðist sýta glatað sakleysi. Besta dæmið um það er líklega íbúð Deckards, en þar er stöðugt raul sem hljómar eins og niðurbældur grátur. Fortíðarþráin endurspeglast jafnvel í klæðnaðinum en hann er í anda tímans áður en kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki.

Þessi mynd skipar sér því í flokk kvikmynda eins og The Matrix, The Island of Dr. Moreau, The Terminator 1 og 2 og Frankenstein myndanna. Allar verja þessar myndir þá ákvörðun Guðs að neita mönnunum um guðlegan mátt því að þeim farnast ekki hlutverk skaparans. Í öllum þessum myndum hefur hroki og úrkynjuð þekkingarleit mannsins leitt til hörmunga fyrir mannkynið.

Niðurlag

Hugmyndin um sköpun sem snýst gegn skapara sínum er ævaforn en hana er t.d. að finna í sögunni af Adam og Evu í 1. Mósebók. Munurinn á þessum sögum er þó mikill. Ólíkt lífgefandi aldingarðinum í Eden er framtíðarsýnin í Blade Runner myrk. Lög og reglur jarðarbúa eru í anda nasismans og þrælahald hefur verið tekið upp á ný og orðið einn af megin þáttum efnahagsins. Með því að skoða Edenstefið í Blade Runner í ljósi þverstæðna myndarinnar kemur í ljós sterk ádeila á óeðlilega og úrkynjaða þekkingarleit mannkynsins. Glæpurinn færist frá sköpuninni (þ.e. Adam og Evu / eftirmyndunum) yfir á skaparann (þ.e. Guð / Tyrell) og í stað þess að enda sem dramatík verður flótti Adam og Evu frá skapara sínum fagnaðarefni. Boðskapur myndarinnar er sá að maðurinn á að láta Guð um að skapa því honum fer hlutverkið illa. Í stað þess að geta af sér líf og fegurð ógnar það sem maðurinn skapar tilvist hans. Ef við drögum þetta saman má segja að kaldastríðstúlkunin á sögunni af Adam og Evu sé ótti við það sem frjáls vilji og þekkingarleit mannsins geti leitt af sér. Uppgötvun kjarnorkunnar er lifandi sönnun þessa, fyrsta skrefið til paradísarmissis.

Heimildaskrá

Bailey, M. Reid. 2000. „Blade Runner“ Hollywood Jesus. 27. 3. 2000. Netfang: http://www.hollywoodjesus.com/bladerunner..htm. BBC News. 2000. „Blade Runner riddle solved“ BBC News Entertainment. 9. júli 2000. Netfang: http://news,bbc.co.uk/hi.english/entertainment/newsid_825000/825641.stm.
Boozer Jr., Jack. 1991. „Crashing the Gates of Insight“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 212-228. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Bukatman, Scott. 1997. Blade Runner. BFI Modern Classic. BFI Publishing, London.
Chapman, Murray. 2000. „What is the Significance of the Unicorn?“ Blade Runner Insight: The Unofficial In-Depth Analysis. Sótt 13. 11. 2000. Netfang: http://stud.ntnu.no/%7Etoringe/bladerunner/article03_print:php3.
Dahlby, Frithiof. 1979. Symboler og tegn í den kristne kunst. Clausen Bøger, København.
Deen, Edith. 1955. All the Women in the Bible. Castle Books, Edison,
Desser, David. 1991. „The New Eve: The Influence of Paradise Lost and Frankenstein on Blade Runner“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 53-65. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Doll, Susan og Faller, Greg. 1986. „Blade Runner and Genre: Film Noir and Science Fiction.“ Literature/Film Quarterly 14. árg. 2. tbl, bls. 89-100.
Francher, Hampton og Peoples, David. 1981. Blade Runner: Screenplay February 23, 1981. Netfangi: http://scribble.com/uwi/br/script_19810223.txt.
Grillo, Laura. 1993. „Primal Religions and Religions of Antiquity.“ Religions of the World. Third Edition bls. 21-79. Ritstj. Don Reisman. St. Martin’s Press, New York.
Hanibull. 2000. á Blade Runner Insight: The Unofficial In-Depth Analysis. Sótt 13. 11. 2000. Netfang: http://stud.ntnu.no/%7Etoringe/bladerunner/he_is_article02_print:php3.
Heldreth, Leonard G. 1991. „The Cutting Edges of Blade Runner“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 40-52. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Hussain, Amir. 2000. „Apocaliptic Visions.“ The Journal of Religion and Film 4. árg. 1. tbl. Netfang: http://www.unomaha.edu/~wwwjrf/Hussain.htm;
Ingels, Nicklas. 2000. „A look at „On the Edge of Blade Runner“ – The Blade Runner documentary.“ Los Angeles 2019: Your Blade Runner Information Source. Sótt 23. 12. 2000. Netfang: http://www.tyrell-corporation.pp.se/documentary.html
Internet Movie Database, The. 2000. „Trivia for Blade Runner.“ Sótt 16. 11. 2000. Netfang: http://us.imdb.com./Trivia?0083658.
Kerman, Judith B. 1991: „Introduction“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 1-3. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Kerman, Judith B. „Technology and Politics in Blade Runner Dystopia Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 16-24. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Kolb, William M. 1991. „Blade Runner Film Notes“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 154-177. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Kreitzer, Larry J. 1994. The Old Testament in Fiction and Film. On Reversing The Hermeneutical Flow. Sheffield Academic Press, Sheffield.
Matties, Gordon. 1998. „Religion and Film: Capturing the Imagination.“ The Journal of Religion and Film 2. árg. 3. tbl. Netfang: http://www.unomaha.edu/~wwwjrf/imagine.htm;
Ng, Fiona. 2000. „Extra: Interview With a Replicant“ Hollywood.com. 11. júlí 2000. Netfang: http://hollywood.com/news/topstories/07-12-2000/html/1-1.html.
Pearson, Ann. 1998. „Apocalyptic Visions – Beyond Corporeality.“ The Journal of Religion and Film 2. árg. 3. tbl. Netfang: http://www.unomaha.edu/~wwwjrf/apocalyp.htm;
Pierce, John J. 1991. „Creative Synergy and the Art of World Creation“ Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep? bls. 201-211. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Sara Anson Vaux. 1999. Finding Meaning in the Movies. Abingdon Press, Nashville.
Stiller, Andrew. 1991. „The Music in Blade Runner“, Retrofitting Blade Runner: Issues in Ridley Scott’s Blade Runner and Philip K. Dick’s Do Androids Dream of Electric Sheep?, bls 196-200. Ritstj. Judith B. Kerman. Bowling Green State University Pobular Press, Ohio.
Tor Inge Skaar. 2000. „Is Deckard a replicant?“ Blade Runner Insight: The Unofficial In-Depth Analysis. Sótt 13. 11. 2000. Netfang: http://stud.ntnu.no/%7Etoringe/blade runner/he_is_print:php3.