Leikstjórn: Lucio Fulci
Handrit: Dardano Sacchetti, Giorgio Mariuzzo og Lucio Fulci, byggt á sögu eftir Dardano Sacchetti
Leikarar: Catriona MacColl, David Warbeck, Cinzia Monreale, Antoine Saint-John, Veronica Lazar, Anthony Flees, Giovanni De Nava, Al Cliver og Lucio Fulci
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1981
Lengd: 89mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0082307
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Ung kona erfir hótel sem byggt er á einum af sjö hliðum helvítis. Pípulagningarmaður opnar óvart hliðið (sem var reyndar sára einfalt) og streyma þá út uppvakningar, sem ráfa um bæinn og drepa hvern þann, sem þeir komast í færi við. Jörðin og helvíti renna saman í eitt og dauðinn ræður ríkjum, eða eins og segir í slagorði myndarinnar: ,,Og þú munt lifa í eilífu myrkri.“
Almennt um myndina:
Hrollvekjan The Beyond er ein frægasta sombíumynd allra tíma og á sér stóran aðdáendahóp, en það er virðingarvottur sem hún á alls ekki skilið. Myndin er svo heimskuleg að það tæki heila bók að greina frá allri vitleysunni í henni. Aðdáendurnir hafa reynt að afsaka þetta með því að segja, að ítalskir kvikmyndagerðamenn hafi ekki mikinn áhuga á fléttu eða framvindu sögunnar heldur einblíni þeir meira á sviðsetningu, stemmningu og kvikmyndatöku. Þá er því jafnvel haldið fram að mótsagnakennd framvindan í söguþræðinum eða heimskulegu uppákomurnar eigi að auka á hrylling myndarinnar því að áhorfandinn finni með því frekar til óöryggis þegar hann getur ekki reytt sig á eigin rökhugsun.
Það má vel vera að ætlunin hafi verið þessi en í mínu tilfelli voru áhrifin allt önnur. Mér hundleiddist. Hvert subbuatriðið rekur annað og virðist eina markmiðið vera að slá síðasta atriðið út í ógeðslegheitum. Vandinn er sá að tæknibrellurnar eru ekki einu sinni flottar. Skinnið á fólkinu er eins og lím, blóðið lekur hvorki né spýtist út, heldur fossar það úr sárum fórnarlambanna, burt séð frá því hvort slagæð hafi farið í sundur eða ekki, og fólk ælir ekki hæfilegum magaskammti heldur vellur upp úr því heilu lítrarnir. Allt er þetta svo ýkt að maður getur engan veginn tekið hryllinginn alvarlega. Gott dæmi er t.d. þegar eitt fórnarlambið dettur með hnakkann á nagla með þeim afleiðingum að augað hrekkur út úr honum. Mun líklegra væri að naglin færi í gegnum augað en að hann ýtti því nær ósködduðu út úr augntóftunum.
En ekki er hægt að skrifa um þessa mynd án þess að minnast á nokkur fáranleg atriði.
Það heimskulegasta er án efa þegar læknarnir finna margra ára rotnað lík og tengja heilulínurit við það og það jafnvel áður en þeir átta sig á tilvist uppvakninganna.
Annað heimskulegt atriði er þegar húsamálari slasast alvarlega með því að falla niður tvær eða þrjár hæðir. Í stað þess að ná strax í sjúkrabíl frá sjúkrahúsi sem staðsett er í næsta nágreni, er maðurinn borinn stórslasaður í fanginu upp á aðra hæð í húsinu. Þegar heimilislæknir mætir svo í rólegheitum á staðinn, sér hann heldur ekki ástæðu til að ná í sjúkrabörur, heldur er tekið í hendur og fætur þess slasaða og hann borinn þannig út í bíl.
Enn annað fáranlegt atriði er þegar læknirinn á staðnum reynir að drepa uppvakningana en það er sama hversu mörgum kúlum hann skýtur í brjóstkassa þeirra, þeir drepast aldrei. Þá prufar hann að skjóta áfram í höfuð þeirra og detta þeir þá samstundis dauðir niður. Flestir hefðu þá líklega álitið að best væri að skjóta í höfuð óvættanna en læknirinn er annarrar skoðunar og hefst aftur handa við að skjóta í búk þeirra og tæmir þannig úr skammbyssu sinni (sem hafði þó nánast endalaus skot).
Og af nægu er að taka. Eitt fórnarlambið verður fyrir því að krús með sýru fellur um koll og brennir upp andlit þess. Reyndar kemur aldrei fram hvers vegna sýrukrús er inni í líkhúsinu en öllu verra er að sýrubyrgðirnar virðast vera óþrjótandi. Úr 1-2 lítra krús lekur áreiðanlega um 30 lítrar af sýru.
Og að lokum verður er ekki hjá því komist að minnast á kóngulærnar. Eitt fórnarlambið dettur óvart niður úr stiga á bóksafni bæjarins og lamast en í því stökkva allt í einu risakóngulær fram úr fylgsnum sínum og éta af honum andlitið. Og þetta eru engar venjulegar kóngulær því þær vilja ekki hvaða líkamshluta sem er. Ein þeirra er t.d. mjög hrifin af tungum og leggur sig fram við að kafa ofan í gin ólánsmannsins, jafnvel þótt nóg sé af safaríku kjöti annars staðar. Hvað kóngulærnar hafa með uppvakningana að gera veit ég ekki, enda virðast þær aðallega vera settar með í myndina til að koma enn einu splatter-atriðinu að.
Lokaatriðið er hins vegar hin mesta snilld en þar enda aðalsögupersónurnar sjálfar í helvíti. Það eitt gerir myndina þess virði að sjá hana.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hrollvekjan The Beyond tilheyrir þeim geira heimsslitamynda, sem ég kalla uppvakningarsgeirinn, en myndirnar ganga út á það eitt að hinir látnu rísa upp úr gröfum sínum og ógna þannig tilvist mannkynsins.
Í myndinni koma fyrir seiðskratti (warlock), norn og að sjálfsögðu uppvakningar. Seiðskrattinn virðist reyndar hafa verið vörður helvítis og því hefðu bæjarbúar betur látið það ógert að krossfesta hann í upphafi myndarinnar. Þessi krossfesting leiðir nefnilega ekki til frelsunar mannkynsins, eins og tvöþúsund árum áður, heldur endaloka þess. En það er alltaf hægt að vera að vitur eftir á.
Í myndinni kemur fyrir (skáldaða) spádómsbókin EIBON en hún hefur að geyma 4000 ára gamla spádóma, sem allir virðast vera að rætast þegar erfinginn tekur loks við hótelinu. Þá má geta þess að bölvun hvílir á blettinum, sem hótelið er byggt á, enda er það byggt yfir eitt af sjö hliðum helvítis. Ef ég hefði verið hóteleigandinn hefði ég reynt að færa mér það í nyt og boðið uppvakningunum upp á fimm stjörnu þjónustu í stað þess að hlaupa í burtu og reyna að ráða niðurlögum þeirra. Það eru ekki allir hóteleigendur sem geta státað af því að vera staðsettir á þjóðvegi helvítis!
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13, Lk 11:2-4, EIBON (skálduð spádómsbók)
Guðfræðistef: krossfesting, glötun, handanveruleikinn
Siðfræðistef: morð, pyntingar
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, hlið helvítis, sjö hlið helvítis
Trúarleg tákn: talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: bölvun, jarðarför