Kvikmyndir

The Birds

Leikstjórn: Alfred Hitchcock
Handrit: Evan Hunter, byggt á samnefndri smásögu eftir Daphne Du Maurier
Leikarar: Tippi Hedren, Rod Taylor, Jessica Tandy, Suzanne Pleshette, Veronica Cartwright og Ethel Griffies.
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1963
Lengd: 120mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0056869
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Fuglar himinsins hafa fengið nóg af framkomu mannkynsins gagnvart sér og ákveða að svara fyrir sig.

Almennt um myndina:
The Birds er með óhugnanlegri kvikmyndum sem meistari Hitchcock gerði á ferli sínum. Á sínum tíma voru tæknibrellurnar með því flottasta sem gert hafði verið, en sumt hefur hins vegar ekki elst vel. Gerð myndarinnar var svo flókin að undirbúningsvinnan tók næstum því þrjú ár. Síðasta atriðið er gott dæmi um hversu flókin tæknivinnslan var, en myndflöturinn er settur saman úr 32 mismunandi skotum. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að það þarf hreinræktaðan snilling til að leikstýra slíku.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni er aldrei útskýrt hvers vegna fuglarnir gera árás á mennina. Það er ljóst frá upphafi myndarinnar að eitthvað dularfullt er þegar farið að gerast í San Francisco. Hitchcock kemur þó með ýmsar vísbendingar í auglýsingunni fyrir myndina (trailernum). Þar bendir meistarinn á hversu illa við höfum í raun farið með fuglana. Við notuð þá til skrauts, klæðumst þeim, borðum þá, skjótum þá okkur til gamans og svo mætti lengi telja. Ástæðan virðist því vera sú, að fuglarnir hafa fengið nóg.

The Birds er heimsendamynd, enda endar hún ekki í mikilli von. Þær fáu mannverur, sem eftir eru í Bodega Bay, hrökklast í burtu og margt gefur til kynna að svipuð örlög bíði mannkynsins annars staðar á jörðunni. Fyllibytta bæjarins tengir árásina einnig við heimsslit þegar hann þrumar vers úr Esekíel yfir lýðnum og hamrar síðan stöðugt á því að þetta sé heimsendir: ,,Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.“ (Esk 6:3.)

Og hann lætur ekki þar við sitja heldur vitnar hann einnig í fjallræðu Krists á frekar kaldhæðinn hátt: ,,Lítið á fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Mt 6:26.) Þetta eru huggunnarorð í guðspjöllunum en þau snúast algjörlega í andhverfu sína hér, enda er maðurinn orðinn matur fuglanna (faðir yðar himneskur fæðir þá) og maðurinn er þeim enginn jafningi (eruð þér ekki miklu fremri þeim?). Eru fuglarnir kannski sverð Guðs eins og fyllibyttan gefur til kynna þegar hún vitnar í Esekíel: ,,Sjá ég læt sverðið koma yfir yður“?

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Esk 5, 6:3 Mt 6:26
Guðfræðistef: heimsslit
Siðfræðistef: dýravernd, lygi, morð