Kvikmyndir

The Boondock Saints

Leikstjórn: Troy Duffy
Handrit: Troy Duffy
Leikarar: Sean Patrick Flanery,Norman Reedus, David della Rocco, Billy Connolly, Willem Dafoe og Ron Jeremy
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 108mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Við kynnumst tveimur bræðrum sem birtast okkur sem mjög trúaðir írsk/kaþólskir lágstéttarstrákar. Eftir því sem það líður á myndina fer áhorfandann að gruna að það sé meira í þá spunnið, jafnvel að þeir hafi einhverja yfirnáttúrulega köllun. Þeir taka sér það hlutverk að vera hálfgerður refsivöndur Guðs, eða í það minnsta réttlætisins. Þannig hefja þeir sókn gegn hinu illa og leitast til við að eyða því með ofbeldisfullum aðferðum.

Almennt um myndina:
Stíll kvikmyndarinnar líkist í sumu leyti kvikmyndum eins og Pulp Fiction og Reservoir Dogs hvað varðar töku og klippingu, og jafnvel kvikmyndatöku sem er að vissu leyti hrá. Auk þess sem tímaröð er stundum örlítið rugluð í kringum ofbeldisatriðin. Boondock Saints er jafnframt frumraun leikstjórans Troy Duffy. Tónlistin í myndinni er frekar hart rokk/popp og er samin og leikin af leikstjóranum og hljómsveit hans. Í bland við þetta er síðan einhverskonar techno-pop. Þetta eykur á þann hráa blæ sem ofbeldisatriðin hafa sem og spennuna.

Leikararnir valda allir hlutverkum sínum vel. Sérstaklega eru Sean Patrick Flanery og Norman Reedus sannfærandi sem bræðurnir Connor og Murphy MacManus. Mér fannst persóna Willem Dafoe, Paul Smecker vera of yfirdrifin. Einnig eru mafíuforinginn Yakvetta og undirmaður hans, leikinn af Ron Jeremey. heldur dæmigerðir.

Myndin fannst mér fljótlega mjög merkileg af ýmsum ástæðum, sérstaklega vegna þess hve blendin áhrif hún hefur með því að upphefja „hið réttláta ofbeldi“. En þrátt fyrir ofbeldi í myndinni og hráslagalegt umhverfi undirheima Boston-borgar þá er jafnframt einhver óræður dularfullur tónn í henni sem gerir hana kynngimagnaða.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Atriði sem gefur tóninnVið kynnumst bræðrunum Connor og Murphy MacManus í kirkju á degi heilags Patreks í Boston. Atriðið hefst á bæn Drottins. Í messunni upplifir áhorfandinn strax að það er eitthvað sérstakt við þessa ungu menn. Háttalag þeirra er markvisst og lítil stelpa horfir á þá eins og hún sjái eitthvað sem aðrir sjái ekki. Um leið og þeir rísa upp heyrist rödd sögumanns hvísla þessa bæn sem ég tel að eigi rætur sinnar í hjá handritshöfundinum; „Þegar ég tek mitt blikandi sverð og hönd mín dæmir. Mun ég hefna mín á óvinum mínum og þeir sem hata mig munu gjalda þess. Drottinn set mig þér til hægri handa og teldu mig til þinna heilögu.“

Þeir ganga upp að altarinu og kyssa fæturna á líkneski Krists. Einhver ætlar að stoppa þá en presturinn í kirkjunni virðist þekkja þá. Hann leyfir þeim að ganga svona fram í miðri messu. Um leið og þeir ganga út fyrir messulok heyrum við orð úr predikuninni. Presturinn rifjar upp atvik þar sem kona hvar stunginn til bana að fólki aðsjáandi og þrátt fyrir ítrekaða hjálparbeiðni hennar gerði enginn neitt. Það seinasta sem við heyrum úr predikuninni er: „Við verðum öll að óttast illmenni, en það er önnur gerð illsku sem ber að óttast umfram aðrar og það er skeytingarleysi góðra manna.“

Þegar bræðurnir koma út segir annar þeirra: „Ég held að prelátinn hafi loksins fattað þetta.“ Þetta atriði gefur tóninn fyrir alla myndina.

MacManus-bræðurnirMacManus bræðurnir birtast okkur sem mjög þverstæðukenndir í myndinni. Þeir eru samtímis svaka svalir gaurar og heittrúaðir. Þeir eru vel gefnir tala fjölda tungumála og maður hefur það á tilfinningunni að þeir hafi magnað hlutskipti í lífinu. Samt vinna þeir í sláturhúsi, drekka sig fulla, reykja og ganga meira að segja í skrokk á einhverri kraftakellingu sem þeir lenda í átökum við (atriði sem áhorfandinn getur ekki skilið). Í flestu sem þeir gera eru þeir eins og hvort tveggja atvinnumenn og amatörar í senn.

Köllun og skírnBræðurnir lenda í barslagsmálum við rússneska mafíósa. Það dregur dilk á eftir sér því að mafíósarnir mæta lemstraðir heim til þeirra (þeir búa í hreysi) til að drepa þá. Þeir handjárna Connor við klósett og fara með Murphy út til að taka hann af lífi. Um leið og þeir ganga út horfir Murphy á bróður sinn en í augnaráði hans er enginn ótti. Í þeim má lesa skilaboðin: „Þú veist hvað þú átt að gera.“

Þegar þeir eru farnir út rífur bróðirinn klósettið upp úr gólffjölunum og á ótrúlega klunnalegan hátt gengur hann frá mafíósunum þrátt fyrir að vera á náttslopp og handjárnaður við klósett. Þeir gefa sig fram við lögregluna en vegna þess að þeir drápu óþokka bera lögreglumennirnir mikla virðingu fyrir þeim. Þeir dúsa í fangaklefanum um nóttina.

Um miðja nótt þar sem þeir liggja tekur vatn að drjúpa úr loftinu og þeir rísa báðir upp í rekkju sinni og leyfa því að drjúpa á sig um leið heyrist ómur af predikun prestsins og síðan rödd sögumannsins sem segir: „Sá sem úthellir blóði, hans blóði mun úthellt verða því Guð skapaði manninn í sinni mynd.“ Um leið og þetta gerist líta bræðurnir hvor á annan. Connor segir; „Eyða öllu illu.“ Og Murphy svarar: „Svo hið góða megi dafna.“ Þarna er greinilegt að við blasir hugmyndin um að koma á guðsríki á jörð með valdi. Stefnan hefur verið mörkuð.

Annars er atburðurinn í sjálfum sér skírn þeirra bræðra til hlutverks síns. Vatnið sem drýpur á þá táknar skírnarvatnið og þarna er eins og staðfesting verði á því sem að áhorfandann hefur grunað; það er eitthvað meira spunnið í bræðurna en virðist við fyrstu sýn.

Þrenningin, 1. hlutiVinur þeirra bræðra, hinn hvatvísi og taugaveiklaði Rocco bætist í hópinn síðar meir. Hann þekkir vel til undirheima borgarinnar (Boston) og vísar þeim á illa menn sem hentugt væri að ganga frá. Saman minna þeir á þrenninguna.

Það er margt til stuðnings því að allar persónur þrenningarinnar birtist í þessum félögum. MacManus-bræðurnir hafa hvor um sig húðflúr frá þumalfingri út eftir vísifingri. Hjá öðrum er ritað „Veritas” sem er latína og þýðir sannleikur og hinum „Aquitas” sem þýðir réttlæti.

Rocco vinur þeirra líkist Jesú Kristi hvað hár varðar og skeggvöxt. Einnig gæti það verið táknrænt að hann þekki til og hafi verið að störfum í undirheimum borgarinnar. Svipað og sú staðreynd að Jesú gekk um á þessari „saurugu“ jörð. Varðandi það hvort hjálpræði sé til staðar þá verður að athuga að þessir menn eru að frelsa með valdi. Þannig má sjá hjálpræðið hjá Rocco í því að vegna hans er þeim gert kleyft að finna glæpamennina til þess að uppræta þá. Annars má segja að það sé langsótt ef við myndum ætla að styðjast við það til þess að sjá fullkominn kristsgerving í Rocco.

Einnig er aðra kristsvísun að finna og býsna sterka. Sú staðreynd að hann er myrtur í myndinni og skömmu áður en það gerist er skotið í gegnum lófa hægri handar hans. En hann færir ekki neitt sem kalla má hjálpræði og nær því ekki að vera kristsgervingur þótt vissulega sé um tilvísanir að ræða. Vikið verður betur að þrenningunni hér á eftir.

Paul Smecker sem Páll postuliÁ hælum bræðranna tveggja er rannsóknarlögreglumaðurinn Paul Smecker (William Dafoe). Hann er fær í sínu starfi og hundeltir mennina sem eru ábyrgir fyrir morðunum á öllum skúrkum Bostonborgar. En þegar hann leitar þá uppi er eins og hann verði fyrir einhverskonar afturhvarfi og gengur málstað bræðranna á hönd. Það er, hann tekur að aðstoða þá í „baráttunni gegn hinu illa“. Hlutverk hans er nánast hið sama og Páls postula sem ofsótti Krist en varð síðan postuli hans. Enda ber hann nafnið Paul eins og nafn postulans er upp á enska tungu.

Merkilegt er að skoða samtal sem hann á við prest í kirkju sem hann ranglar inn í þegar hann er drukkinn. Fer hann þá inn í skriftarklefann og biður um ráð prestsins því að það tekst á í honum hvort að hann eigi að halda áfram að elta uppi MacManus bræðurna og Rocco eða snúast á sveif með þeim. Hins vegar hefur Rocco elt Paul inn í kirkjuna og fer inn í skriftarklefann prests megin. Hann heldur því byssu að höfði prestsins á meðan hann ræðir við Paul Smecker og hefur þannig áhrif á svör hans.

Paul byrjar á því að segjast aldrei hafa skriftað og að hann sé í rauninni ekki trúaður. Hann segir erindi sitt ennfremur snúast um siðferði. Hann segist hafa fundið náunga sem losa samfélagið við illmenni með járnhnefa, líkt og það væri með leyfi Guðs. Presturinn byrjar á að svara að Guð gefi engum leyfi til slíks en Rocco stoppar hann af.

Paul Smecker grípur þá aftur inn í og segir að sér „finnist“ gjörðir þeirra vera þjóðþrifaverk. Þá tekur presturinn nýja afstöðu. Hann segir slíkar tilfinningar eiga rót sína í sálinni og sálin sé líkt og gluggi sem Guð talar til okkar í gegnum. Hann heldur áfram og segir að Guð sé búinn að tala við hann tvisvar þann daginn. Að Paul hefði „fundist“ sem hann fengi svar í kirkjunni og að honum „finnist“ verk þessara manna þjóðþrifaverk. Afleiðing samtals þeirra er að Paul Smecker ákveður að fylgja þremenningunum að málum. Presturinn biður þess þó að Guð megi fyrirgefa sér þegar Paul er farinn.

Manni finnst að vissu leyti eins og áhorfandinn sé í svipuðum sporum og Paul þegar hér er komið við sögu. Þannig má líta svo á að verið sé að fá áhorfendann til að mynda sér afstöðu einmitt þarna. Meira hefur farið fyrir þeirra hlið málsins og það er ekki ólíklegt að áhorfandi sé kominn í sömu spor og lögreglufulltrúinn. Spurningin er hvort að þetta merki að það sé ætlun höfundar að áhorfandinn taki afstöðu með þeim. Og þó, jafnvel þótt að presturinn tali þeirra máli þá gerir hann það ekki af fúsum og frjálsum vilja. Þetta er mjög ósennilega skoðun prestsins.

Morðin, sérkennilegt ritúalÞegar bræðurnir lífláta einhvern fara þeir með eftirfarandi bæn:

Sem hinir óréttlátu bannsettir eru, Kallaðu mig.Umkringdir þínum heilögu, skulum við vera þínir hirðar, fyrir þig, Drottinn, fyrir þig. Vald vort kemur frá þér að fætur okkar hlýða skipun þinni. Og við munum láta fljót af sálum renna til þín alla tíð.“

Ég veit ekki til þess að þessi bæn sé að finna annars staðar en í þessari mynd. Þegar Rocco vinur þeirra spyr hvort þeir geti kennt honum bænina þá neita þeir og svara því til að þetta sé gömul fjölskyldubæn. Þeir krossleggja hendur þeirra sem þeir myrða, gera krossmark yfir þeim, loka augum þeirra og leggja smápeninga á þau. Það athæfi er útskýrt með því að þetta sé hefð í grikklandi, Ítalíu og Sikiley sem megi rekja aftur til grískrar og rómverskrar goðafræði. Þar var sú trú að þegar menn létu lífið urðu þeir að greiða ferjumanninum Karoni toll, en hann ferjaði menn að hliðum dómsins. Peningarnir (tollurinn) átti að sjá til þess að hinir látnu fengju réttlátan dóm. Þessi útskýring tengist því meira hugmyndinni um réttlæti (og gefur í skyn að bræðurnir hafa ekki í hyggju að dæma heldur aðeins að vera verkfæri, færa tiltekinn aðila fyrir dóm).

Dauðinn og upprisan/Maður í manns staðÞar sem þremenningarnir beina spjótum sínum mikið gegn mafíunni þá sjá höfuðpaurar hennar sér vænna að bregðast við þessari ógn en þeir telja þetta vera aðeins Rocco og að hann sé einn að verki Þeir láta sækja stórhættulegan leigumorðingja sem er algjör goðsögn í bransanum. Hann hefur ekkert nafn en er kallaður il Duce. Tekið er fram að hann skaði aldrei konur og börn en sé eins manns stríðsvél og hætti aldrei fyrr en hann hefur lokið verki sínu. Hann er sendur gegn þremenningunum þeir lenda í miklum skotbardaga sem líkur með því að þeir særast allir.

Seinna eru þeir plataðir inn í hús þar sem þeir telja mafíósa vera. En mafíósarnir eru viðbúnir þeim og taka þá höndum og binda niður. Það er þá sem Rocco er skotinn í gegnum höndina og loks drepinn. MacManus bræðrunum tekst að losa sig og krjúpa við hlið Rocco. Þeir taka að biðja yfir honum fjölskyldubænina sína.

En hinn ógnvænlegi leigumorðingi er skyndilega kominn aftan að þeim vopnaður. Þegar hann heyrir þá hinsvegar biðja bænarinnar leggur hann frá sér vopn sín og tekur undir með þeim. Hann kann fjölskyldubænina! Því næst labbar hann að þeim og leggur hendur á vanga þeirra án þess að þeir líti á hann sem ógn. Tengsl þeirra eru einhvers eðlis. Fjölskyldubönd eða eitthvað annað yfirnáttúrulegra allt eftir því hvernig maður vill líta á málið. Þarna er freistandi að sjá dauðann og upprisuna. Fyrst er Rocco skotinn í gegnum höndina og drepinn en um leið birtist il Duce líkt og var með fyrirheitið um Heilagan anda (Jh 16:7). En þá komum við að öðru vandamáli varðandi Þrenninguna.

Þrenningin – framhaldÞað virðist nefnilega vera að það sé mikið á reiki hver er hver innan þrenningarinnar. Fyrst eru þeir þrír saman Murphy, Connor og Rocco og þá gæti maður ímyndað sér að Murpy sé fulltrúi föðurins þar sem á hönd hans er tattóverað Aquitas eða réttlæti sem hefur þótt vera einkenni föðurins, Connor sé fulltrúi Heilags anda þar sem hann ber tattóverið Veritas eða sannleikur en Heilagur andi er oft kenndu við sannleikann. Loks væri Rocco fulltrúi Krists vegna áðurnefndra ástæðna.

Þetta breytist hinsvegar allt við komu Il Duce sem er föðurímynd. Í einni senu eru þeir sýndir saman þar sem þeir aflífa mafíósa en þá fer Il Duce með orðin „í nafni Föðurins“ Connor; „Sonarins“ og Murpy: og „Heilags anda“. Þannig að handritshöfundur myndarinnar virðist ekki festa þetta mikið niður eða gera of mikið úr aðgreiningunni. Hins vegar þykir mér augljóst að Il Duce hefur sökum aldurs og framkomu við bræðurna stöðu föðurins.

Þjóð í ánauð/gyðingleg frelsunarhugmyndÞegar ég horfi á myndina finnst mér ég finna ýmsar hliðstæður í grundvallaratriðum á milli myndarinnar og þeirrar frelsishugmyndar sem er að finna í exodus-frásögn Biblíunnar. Í Exodus búa gyðingar við kúgun og lifa í ótta undir stjórn Egypta. Það er ekki langsótt að álykta svipað um nútímann og þá sérstaklega þegar litið er til Bandaríkjanna í dag. Nema að það ofríki og sá ótti sem þeir búa við er ekki af hendi viðurkenndra valdhafa heldur glæpamanna. Gífurlega margir tapa lífinu þar vegna ofbeldisglæpa og hefur það orðið algengt að tala um Bandaríkin sem samfélag þjakað af ótta vegna slíks.

Ástandið er svipað. Í stað Egypta eru í dag skipulögð glæpasamtök, mafían. Engin þorir að hreyfa fingri við mafíunni frekar en gyðingar dirfðust gegn Egyptum. Við þekkjum söguna í Exodus. Drottinn beitti hörkulegum aðferðum við að frelsa lýð sinn, í raun ofbeldisfullum. Guð lætur ýmsar skelfingar ganga yfir Egypta og drekkir loks hermönnum þeirra í Rauðahafinu. MacManus bræðurnir gera svipaða hluti, þ.e þeir reka illt út með illu en beita öðrum aðferðum . Þeir taka, líkt og Drottinn afstöðu með hinum kúguðu. Þeir útlista meira að segja hverja þeir telja vera hinu kúguðu. Eftirfarandi samtal eiga þeir við Rocco eftir fyrstu skipulögðu mafíuaftökur sínar:

Connor: „Veistu hvað mér finnst brjálæðislegt? Heiðarlegir menn sem eiga elskulegar fjölskyldur snúa heim daglega eftir vinnu og kveikja á fréttunum. Veistu hvað þeir sjá? Þeir sjá nauðgara, morðingja og barnaníðinga sleppa út úr fangelsum.“
Murphy: „Mafíósar teknir með 20 kíló og látnir lausir gegn tryggingu sama helv. daginn.“
Connor: „Og allstaðar kemur fólki það sama til hugar. Að einhver ætti að drepa þessa níðinga.“
Murphy: Drepa þá alla. Viðurkenndu að það hefur hvarflað að þér.“
Rocco: „Þið ættuð að vera til staðar í hverri stórborg.“Siðferði/morð:

Dýrlingarnir (eins og þeir eru kallaðir af fjölmiðlum í myndinni) eiga í litlum vandræðum með að réttlæta morð sín sbr. samtalið hér að ofan. Út alla myndina sjáum við ofbeldi þeirra upphafið og refsingar þeirra eru sýndar sem réttlátar. Áhorfandinn á að taka stöðu með „dýrlingunum“. Tónlistin er til skiptis töff rokk útí það að vera útfærsla á klassískum verkum eða kórsöng. Gefur ofbeldi þeirra tvær víddir töff og göfuga í senn.

Í lok myndarinnar fáum við þó umræðu um athafnir þeirra. Þar fer fréttamaður á stúfana og spyr fólk hvað því finnist um dýrlingana. Margir eru hæst ánægðir með þá. Má að vissulega sjá dýrlingana sem fulltrúa æsi-réttlætis almennings. Hinsvegar vilja sumir ekki svara af ótta og enn aðrir vilja meina að það sé óeðlilegt hjá þremenningunum að taka sér þetta vald.

Köllun eða geðþótti?Mín skoðun er sú að dýrlingarnir séu meira en bara firrtir menn með ofvirka réttlætiskennd. Það er eitthvað mystískt við þá. Öll tungumálin sem þeir kunna en samt hafa þeir valið sér það hlutskipti að vinna í sláturhúsi og búa í hreysi. Upphafsatriðið þar sem bræðurnir sammælast um það að presturinn hafi rétt mælt í predikun sinni „að hann hafi loksins skilið þetta“ sýnir líka að þeir þekkja ætlunarverk sitt áður en allt annað gerist. Augnaráð Murphy, þegar hann er leiddur burt af mafíósunum, lýsir engum ótta heldur aðeins hugsunin „þú veist hvað skal gera“. Og síðast en ekki síst sýnir mystíska atriðið í fangaklefanum að um köllun er að ræða. Það er eins og þeir hafi aðeins beðið skírnarinnar.

Það er kannski helst það hve klunnalegir þeir eru í tilburðum sínum sem fær mann til að setja spurningarmerki við köllun þeirra. En maður hugsar aftur á móti einnig hversu lítilfjörleg myndin væri ef hún væri alveg borðliggjandi að þessu leyti.

Dómsalurinn og dómsdagurinnÍ lok myndarinn er réttað yfir mafíósanum Yakavetta. Allt lítur út fyrir að hann muni sleppa. Þá brjótast dýrlingarnir með aðstoð lögreglumannsins Paul Smecker inn í dómsalinn þar sem þeir kunngera stöðu sína og tilgang fyrir öllum þeim sem þar eru staddir. Eftir það myrða þeir Yakavetta. Á leiðinni inn hljómar rödd sem segir: Aldrei skal saklausu blóði vera úthellt en blóð illmenna mun fljóta í stríðum straumi. Þeir þrír munu breiða út dökka vængi sína og vera refsivöndur Guðs. Þegar þeir eru komnir inn í dómssalinn mæla þeir eftirfarandi orð sem að verður að segja að líkist um margt fjallræðu Jesú Krists. Nema að hér er augunum beint fyrst og fremst að illgjörðarmönnum en ekki þeim sem munu verða huggaðir og/eða erfa ríki Guðs.

Connor: Núna takið þið við okkur!
Murphy: Við biðjum ekki um fátæka eða svanga!
Connor: Við viljum ekki þreytta og sjúka!
Murphy: Við krefjumst hinna spilltu!
Connor: Við munum leita hinna illu.
Murphy: Með hverjum andardrætti munum við leita þá uppi.
Connor: Dag hvern munum við úthella blóði þeirra uns því rignir úr skýjunum.
Murphy: Drepið ekki! Nauðgið ekki! Stelið ekki! Þetta geta allir menn af öllum trúarbrögðum tileinkað sér.
Connor: Þetta eru ekki kurteisislegar tillögur heldur hegðunarboð og þau ykkar sem vanviða þau munu gjalda þess.
Murphy: Það eru til mismunandi þrep illsku. Við biðjum ykkur sem eruð svolítið syndugir að ganga ekki hreinni spillingu á hönd, yfir á okkar yfirráðasvæði.
Connor: Því ef svo fer… munið þið einn daginn líta aftur fyrir ykkur og sjá okkur þrjá. Og á þeim degi munið þið iðrast.
Murphy: Og við munum senda ykkur til þess Guðs sem þið óskið.

Að svo búnu ganga þeir að Yakavett og taka sér allir þrír stöðu að baki honum með byssurnar við hnakka hans og fara saman bænina: „Og hirðar þínar verðum við, fyrir þig Drottinn fyrir þig. Vald vort kemur frá þér að fætur okkar hlýða skipun þinni. Og við munum láta fljót af sálum renna til þín alla tíð.“

Il Duce: „Í nafni Föður.“
Connor: „Sonar.“
Murphy: „og Heilags Anda.“

Það er spurning hvernig beri að skilja þetta atriði. Hvort það sé á einhvern hátt dómsdagur sem er verið að tákna þarna? Eru jafnvel Il, Duce, Connor og Murpy ásamt Paul Smecker á einhvern hátt fulltrúar reiðmannanna fjögurra í Opinberunarbókinni sem gefið er vald yfir fjórða hluta jarðarinnar til að deyða með sverði, hungri og drepsótt.

Það má skoða það þannig. Sjálfum finnst mér það ólíklegt. Í það minnsta ef við eigum við dómsdag í einhverju heimsendasamhengi. Hinsvegar er dómsalurinn augljóslega byrjunin á endanum fyrir hina illu. Því að dýrlingarnir ætla sér ekki að eira illskunni. Hver illgjörðarmaður þarf þannig að mæta dómara sínum í þeim þremur. Það mætti kannski skilja þennan dóm á persónulegri hátt þannig að hver maður mæti dómi í sínu eigin lífi en ekki við enda tímanna. Þannig er hefnd þeirra upphafin og réttlætt. Í raun gerð guðleg. Það verður að stofna Guðs ríki á Jörð með valdi af því tagi sem þremenningarnir beita. Hverju sem því líður þá er Guðsríkið ekki stofnað í myndinni en kannski má segja að vísir að því sé gróðursettur. Þarna hefjist verkið. Eða eins og þeir orðuðu það:

Connor: „Eyða öllu illu.“
Murphy: „Svo hið góða megi dafna.“

HeimildirSlóð síðu myndarinnar á IMDB: http://www.imdb.com/title/tt0144117/
Slóð opinberrar síðu myndarinnar: http://www.theboondocksaints.com/

Aðrar síður sem stuðst var við:
http://www.theboondocksaints.com/sequel.htm
http://thebrothers.envy.nu/index.html

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:27; 1M 5:1-3; 1M 9:6; 2M 20; 3M 5:6-21; Mt 6:9-13; Lk 11:2-4
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 20; 2M 21:24; 3M 5:6-21; 3M 19:21; 3M 24:20; Jh 16:7; Mt 5:3-12; Opb 6:1-8
Persónur úr trúarritum: Heilagur Patrekur
Sögulegar persónur: Guð, Jesús Kristur, Heilagur andi, Páll postuli, Karon, María mey, engill
Guðfræðistef: kristsgervingur, þrenningargervingar, réttlæti, trú, píslarvætti, fyrirgefning, upprisa, dauði, sorgarferli, fórn, forákvörðun, Guðsríki, útvalning, heimsslit, hrein samviska, sál, guðsótti, hjálpræði, lög Guðs, dýrlingar
Siðfræðistef: refsingar, morð, réttlæti, hefnd, illska, glæpir, vinátta, ofbeldi, afskiptaleysi, heimilisofbeldi, kvennakúgun, bræðralag, kynþáttahatur, samkynhneigð, nauðgun, barnaníðsla, eiturlyfjasala, vændi, klám
Trúarbrögð: rómversk-kaþólsk kirkja, grísk/rómversk goðafræði
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, róðukross, kristslíkneski, kaleikur, bænabönd, örn
Trúarleg embætti: prestar, nunnur, biskup, altarisdrengir
Trúarlegt atferli og siðir: predikun, bæn, skriftir, messa
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: dagur heilags Patreks
Trúarleg reynsla: trú, skírn,köllun, afturhvarf