Leikstjórn: Doug Liman
Handrit: Tony Gilroy og William Blake Herron, byggt á skáldsögu eftir Robert Ludlum
Leikarar: Matt Damon, Franka Potente, Chris Cooper, Clive Owen, Brian Cox, Adewale Akinnuoye-Agbaje, Gabriel Mann, Walt Goggins, Josh Hamilton, Julia Stiles og Orso Maria Guerrini
Upprunaland: Bandaríkin og Tékkland
Ár: 2002
Lengd: 118mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0258463
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Ungur minnislaus karlmaður veit það eitt að lítill fiskibátur hafði komið honum til bjargar þar sem hann var á reki í Miðjarðarhafinu, særður lífshættulegum skotsárum. Þar sem bútur af míkrófilmu með bankareikningsnúmeri í Zürich í Sviss hafði verið falinn undir húðinni ofan við mjöðmina, heldur hann þangað í von um að komast að því hver hann sé. Í bankahólfinu finnur hann hins vegar skammbyssu, nokkrar milljónir dollara og fjölda skilríkja alls staðar að úr heiminum með andlitsmynd hans og nafninu Jason Bourne. Áður en hann veit af er hann á æðisgengnum flótta undan bæði lögreglunni og leigumorðingjum, sem láta einskis freistað að ráða hann af dögum.
Almennt um myndina:
Mjög góð spennumynd sem lauslega er byggð á samnefndri metsölubók Roberts Ludlum, en hún kom út í íslenskri þýðingu fyrir allmörgum árum undir titlinum Milli lífs og dauða. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bókin hefur verið kvikmynduð, en nokkuð vel heppnuð sjónvarpsþáttaröð eftir Roger Young var gerð eftir henni árið 1988 með Richard Chamberlain í aðalhlutverki. Enda þótt sjónvarpsþáttaröðin hafi fylgt skáldsögunni mun betur, er kvikmyndin engu að síður nokkuð vel heppnuð, jafnvel þótt skáldsagan verði að teljast betri.
Það sem kvikmyndin á helst sameiginlegt með skáldsögunni er minnisleysi aðalsöguhetjunnar, björgun hennar í Miðjarðarhafinu, bankahólfið í Zürich, tengslin við bandarísku leyniþjónustuna og sögusviðið í Frakklandi. Hlutur hryðjuverkamannanna er hins vegar enginn og Bourne neyðist ekki til að taka stúlkuna Marie Kreutz sem gísl á flóttanum heldur ákveður hún að fylgja honum sjálfviljug í myndinni. Ekki er laust við að maður sakni alls ofbeldisins úr bókinni, sem hefur verið mildað verulega í kvikmyndinni, auk þess sem gíslatakan virkaði einhvern veginn betur en einskær hrifning Kreutz á Bourne. Vissulega er skiljanlegt að launin, sem Bourne býður Kreutz fyrir að keyra sig til Frakklands, virki freistandi í fjárhagsvandræðum hennar, en hvers vegna hún leitar ekki til lögreglunnar þegar hún áttar sig á stöðu mála gæti hins vegar þótt langsótt. Matt Damon er engu að síður fínn í hlutverki Jasons Bourne og Franke Potente gæti ekki verið betri sem Marie Kreutz.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ekki er um nein bein trúarstef að ræða í þessari kvikmynd. Þó hafa kvikmyndagagnrýnendurnir hjá www.hollywoodjesus.com bent á að hún hafi að geyma ýmsar tilvistarlegar spurningar, sem varði kjarna kristindómsins. Má þar nefna spurningarnar: Hver er ég? Af hverju er ég hér? Hvaðan er ég kominn? Hvað verður um mig? Þessum spurningum er þó ekki svarað með trúarlegum hætti heldur eru þær aðeins nýttar í þágu spennusögunnar.
Þeir hjá www.hollywoodjesus.com segja einnig að myndin sýni hvernig synd mannsins leiði hann út í ógöngur en aðeins óverðskuldaður kærleikur geti bjargað honum á ný, enda sé það sannleikurinn sem gjöri hann frjálsan. Jason Bourne átti sig samt að lokum á því hvaða mann hann hafi að geyma og byrji nýtt líf með konunni sem hann elskar. Loks benda þeir á að kirkja með krossi sé sýnd um leið og að lokaratriðinu kemur þar sem Jason Bourne og Marie Kreutz eru í eins konar paradís.
Það er sjálfsagt mál að lesa svona trúarlegar hliðstæður inn í myndina, en samt er ljóst að tilgangurinn með henni er fyrst og fremst sá að gera góða spennumynd í afþreyingarskyni.
Guðfræðistef: manneðlið, synd
Siðfræðistef: manndráp, samsæri, ást
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross